Sannfæring ráði – líka í Icesave

Ein af ástæðum fyrir hruninu var sú að Alþingi var alltof veikt andspænis framkvæmdavaldinu. Að sama skapi héldu ráðherrar sig algerlega hver á sínu sviði og settu sig takmarkað inn í mál annarra ráðuneyta. Þannig gátu komið fram frumvörp sem enginn vissi raunverulega út á hvað gengu en þau voru samt samþykkt, af því að ráðherrann átti að hafa allt á hreinu og stjórnarþingmenn máttu alls ekki ganga gegn vilja hans. Að sama skapi urðu frumvörp að lögum sem stjórnarþingmenn höfðu verulegar efasemdir um. Reglan var sú að ekki mátti ganga gegn vilja formannsins eða vilja ráðherranna. Þannig varð t.d. Varnarmálastofnun til, sem nú á blessunarlega að leggja niður. Skattborgarar hafa þó nú þegar borið umtalsverðan kostnað af vitleysunni. Þessi vinnubrögð verða að heyra sögunni til.

Þess vegna er ómögulega hægt að taka undir orð Gunnars Helga Kristinssonar, stjórnmálafræðings, í Morgunblaðinu í dag þar sem hann segir að samþykki Alþingi ekki ríkisábyrgð vegna Icesave þýði það einfaldlega endalok fyrir ríkisstjórnarsamstarfið. Ríkisstjórnin stendur ekki og fellur með einstaka málum og meirihluti hennar fellur ekki þó að meirihluti styðji ekki ákveðið mál. Þingmenn eiga að greiða atkvæði eftir sannfæringu sinni og enginn á að reyna að kúga þá til annars. Þess vegna eiga þingmenn líka heimtingu á upplýsingum um öll grundvallaratriði hvers máls sem og tíma til að átta sig almennilega á hvað þau þýða.

Drottnunarstjórnmál Gamla Íslands verða að líða undir lok. Annars getum við ekki byggt upp á sanngjarnan hátt að nýju.

Prev PostÍ tilefni dagsins
Next PostNext Post: No Title