Að kafa dýpra

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, blaðamaður, dustaði í dag rykið af viðhorfspistli, sem ég skrifaði um staðgöngumæðrun í Morgunblaðið þann 27. apríl árið 2007, og birti tilvísanir í hann á fréttamiðlinum dv.is. Pistillinn vakti takmarkaða athygli þegar hann birtist á sínum tíma, enda var umræðan um staðgöngumæðrun takmarkaðri þá en nú. Það er því vel þess virði að draga hann aftur fram í dagsljósið þegar ræða á þau álitaefni sem taka þarf mið af í umfjöllun um staðgöngumæðrun. Hins vegar er útlegging blaðamannsins á efni pistilsins með ólíkindum.

Sólrún Lilja lætur að því liggja að viðhorf þau sem ég viðraði árið 2007 séu ástæða þess að íslensk hjón sem nú dvelja á Indlandi séu ekki komin til Íslands með barn sem staðgöngumóðir ól. Sú langsótta samsæriskenning lýsir ekki aðeins vanþekkingu á stjórnsýslunni heldur einnig á efni málsins sjálfs. Hefði Sólrún haft samband við ráðuneytið hefði hún getað komist að því að afgreiðsla þessa máls, eins og annarra sem inn á borð ráðuneytisins rata, tekur mið af lögum og reglum og í þessu tilfelli alþjóðalögum, ekki viðhorfspistlum mínum frá fyrri tíð.

Í frétt sinni slær blaðamaðurinn því fram sem fullyrðingu, og án alls rökstuðnings, að „mikil tregða“ hafi verið hjá innanríkisráðuneytinu í umræddu máli. Ekki er þetta vönduð fréttamennska. En sé verið að vísa til umfjöllunar annarra fjölmiðla og einstaklinga þá er rétt að upplýsa að umrædda „tregðu“ má rekja til vilja innanríkisráðuneytisins að fara að lögum og alþjóðlegum samningum um réttindi barna, þótt samúð okkar kunni að vera með einstaklingunum sem um ræðir. Samningarnir miða að því að koma í veg fyrir barnasölu og ef ráðuneytið vandar ekki til verka getur opnast gátt fyrir fólk sem vill flytja börn milli landa í allt öðrum tilgangi en góðum.

Samhljómur í þingsályktunartillögu

Umræðan um staðgöngumæðrun, sem ég opnaði á í fyrrnefndum viðhorfspistli, snýst hins vegar ekki um einstaka mál. Hún er alþjóðleg og ég er langt í frá fyrsta manneskja til að benda á þau álitaefni sem upp koma þegar rætt er um staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Til marks um það má benda á umfjöllun í skýrslu heilbrigðisráðuneytisins um staðgöngumæðrun og á þingsályktunartillögu sem 18 þingmenn hafa lagt fram á Alþingi. Í greinargerð með tillögunni segir:

Nokkur siðferðileg álitaefni vakna þegar rætt er um möguleikann á lögleiðingu staðgöngumæðrunar. Almennt eru menn neikvæðir gagnvart staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni út frá því sjónarmiði að verið sé að nota líkama konu í annarlegum tilgangi og einnig væri hægt að líta á slíka gjörð sem einhvers konar form af viðskiptum með börn. Staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni hefur verið líkt við vændi og hugsanlegt er að konur sem búa við fátækt og þröngar félagslegar aðstæður gerist staðgöngumæður vegna slæmra aðstæðna. Þessi álitamál eiga þó betur við um samfélög þar sem mikil fátækt er ríkjandi og heilbrigðisþjónusta og samfélagsform er með öðru sniði en í vestrænum löndum, t.d. á Indlandi.

Fjölmiðlar ættu kannski að kafa eilítið dýpra í umfjöllun um staðgöngumæðrun en í gamla viðhorfspistla mína.

Prev PostAf hinum góðu "elskhugum"
Next PostLögfræði: Í hlutverki "hinna"