Viðhorf: Barn til sölu

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 27. apríl 2007

Barn til sölu og leg til leigu

Sagan endurtekur sig, er stundum sagt, og það er ekki laust við að það eigi við þegar kemur að umræðunni um staðgöngumæður. Ekki vegna þess að sú umræða hafi farið hátt hér á landi, heldur vegna þess að enn á ný setjast karlar á rökstóla til að velta því fyrir sér hvort aðgerðir sem fela í sér svakalegt inngrip í líkama konu eigi rétt á sér, út frá læknisfræðilegu jafnt sem siðferðislegu sjónarmiði. 

Karlkyns læknarnir sem tjáðu sig í Kastljósi voru mishrifnir af því að leyfa staðgöngumæðrun hér á landi en kölluðu eftir því að tal um „hið hugsanlega hugsanlega“ kæmi ekki í veg fyrir umræðu um málið. Ég ætla svo sannarlega að reyna að virða þessa ósk þeirra og tek þess vegna þátt í umræðunni, en það breytir þó ekki því að „hið hugsanlega hugsanlega“ skiptir töluverðu máli í þessu samhengi enda er ekki aðeins um heilsu konunnar sem gengur með barnið að ræða heldur einnig líf barns. Dæmi frá öðrum löndum sýna líka að ótal vandamál geta komið upp þegar líkami manneskju er fenginn að láni eða leigu með þessum hætti. 

Eins og breska fræðikonan Germaine Greer bendir á í bók sinni The Whole Woman þá virðist oft sem gengið sé út frá því að það séu sjálfsögð réttindi, jafnvel mannréttindi, að eignast börn. Litið er svo á að öll gagnkynhneigð pör séu fær um að geta barn og gangi það ekki upp sé eitthvað að. Staðreyndin er hins vegar sú að það er ekkert óeðlilegt við það að sumt fólk geti af einhverjum sökum ekki átt börn. Ófrjósemi getur hrjáð bæði karla og konur og stundum eru konur ekki með leg, annaðhvort vegna þess að þær hafa misst það af einhverjum ástæðum eða hreinlega fæðst án þess. Annars er umhugsunarefni út af fyrir sig af hverju þetta merkilega líffæri, leg, er yfirleitt fjarverandi í umræðu um barneignir. T.a.m. er talað um að konur séu með barn í maganum en hið rétta er auðvitað að barnið er í leginu (sbr. Germaine Greer). 

Ég var í fermingu um daginn þar sem presturinn minnti á að við eigum ekki börnin okkar heldur er okkur trúað fyrir þeim á þessu viðkvæma æviskeiði sem barnsárin eru, og hitti þar að mínu mati naglann á höfuðið. Ef litið er á það sem mannréttindi að eiga börn er um leið verið að ýta undir þá hugmynd að við getum átt börn eins og við eigum bíla, hús eða föt. 

Nú vil ég alls ekki gera lítið úr þrá fólks til að ala upp barn eða því áfalli sem sumir verða fyrir við að geta ekki getið börn. Hluta af áfallinu má þó rekja til þess að við göngum alltaf ranglega út frá því að allir geti eignast börn. 

Á Íslandi er fólki heimilt að ættleiða börn sem annars hafa ekki foreldra til að alast upp hjá. Full ástæða er til að hvetja til þess að ættleiðingarferlið sé bæði einfaldað og niðurgreitt og undarlegum reglum sem þar gilda breytt. 

En þá heyrast þær raddir að það sé bara allt annað að eignast sitt eigið barn og jafnvel heyrast skrítin eðlishyggjurök um að fólk vilji viðhalda genunum sínum. Þótt fólk vilji eignast krúttlegan erfingja, sem hugsanlega ber svip foreldra sinna, hljóta að vakna spurningar um hversu langt megi ganga til að láta þann draum rætast. 

Þegar fóstri eða fósturvísi er komið fyrir inni í líkama konu og ætlast til að hún láti barnið af hendi við fæðingu er verið að gera mjög lítið úr því ferli sem meðganga er, eins og leg konu sé einhvers konar tómarúm – rými sem hún er hvort eð er ekki að nota. Meðgangan er skyndilega orðin að verki sem maður tekur að sér, legið er verkfærið. 

Í umræðum um staðgöngumæðrun er gerður greinarmunur á því að t.d. náin vinkona eða systir sé fengin til þess að ganga með barnið og að konu sé borgað fyrir að „sjá um starfið“. Ef við viljum heimila það síðarnefnda er um barnasölu að ræða enda aðeins stigsmunur á því að selja barn með öðrum genum og hreinlega að sjá viðskiptatækifæri í því að fæða börn og selja þau. 

Með því að borga konu fyrir að ganga með barn er því verið að búa til undarlega samsuðu af vændi og barnasölu. Vændi í þeim skilningi að verið er að kaupa afnot af líkama annarrar manneskju og barnasölu því barnið er jú selt. Ójafnvægið milli þeirra sem borga fyrir að fá eigið barn og konunnar sem fær greitt er augljóst. Og hvað ef varan er ekki eins góð og ætlast var til? Hafa genagjafarnir rétt á að hlutast til um hegðun móðurinnar meðan á meðgöngu stendur? 

Sjónarmiðin að baki því að vinkona eða systir gangi með barn annarra eru einnig of veik til að það sé réttlætanlegt. Ekki er aðeins um ógn við andlega og líkamlega heilsu konunnar sem gengur með barnið að ræða heldur einnig líf barns. Spyrja má hvort barnið eigi þá ekki í raun þrjú líffræðileg foreldri. Hefur það þá umgengnisrétt við þau öll? 

Barnið fær að öllum líkindum ekki að vera á brjósti enda myndu þá skapast „óeðlileg tengsl“ milli barnsins og líffræðilegu móðurinnar sem er genetískt ekki líffræðileg móðir. 

Börn hafa rétt til að alast upp hjá foreldrum sínum ef það er mögulegt og til að eiga öruggt heimili. Það hafa ekki nærri öll börn í heiminum í dag. Fullorðið fólk hefur hins vegar ekki óskoraðan rétt til að eiga börn, þótt það langi.

Prev PostViðhorf: Úlfur úlfur! Kommúnisti
Next PostÁvarp: Borgaraleg ferming 2007