Þingbréf: Mótmæli þingmanna, lýðræði og leynistjórnklefi

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 8. nóvember 2008

 

Mótmæli þingmanna, lýðræði og leynistjórnklefi

Síðustu laugardaga hefur fjöldi fólks komið saman á Austurvelli til að mótmæla, hver með sínu nefi. Sumir láta sér nægja að rölta á staðinn og hlýða á eins og eitt ávarp á meðan aðrir hrópa og kalla á hvað sem þeir telja gera samfélagið betra.

Fyrir tæpum tveimur vikum var fullt út úr dyrum á borgarafundi í Iðnó. Færri fengu tækifæri til að tjá sig en vildu og mörgum var heitt í hamsi. Í dag munu eflaust margir mæta á borgarafund kl. 13 og færa sig að honum loknum á Austurvöll til að mótmæla.

Lýðræðið aldrei mikilvægara

En mótmælabylgjan teygir anga sína víðar og þar með talið inn í sal Alþingis. Þar risu þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu upp í vikunni og mótmæltu kröftuglega hversu veikt þingið er andspænis sterku framkvæmdavaldi. „Við þingmenn eigum ekki að láta það yfir okkur ganga að við ræðum ekki málefnin sem skipta þjóð okkar öllu máli,“ sagði Guðfinna S. Bjarnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sagði ríkisstjórnina hvorki treysta þingi né þjóð fyrir „því sem hún er að pukrast með“. Álfheiður kom þarna orðum að því sem margir hafa á tilfinningunni þessa dagana. Almenningi er ekki treystandi fyrir „viðkvæmum upplýsingum“ og fólk á að bíða rólegt meðan kerfið er skipulagt á nýjan leik.

Og þarna gera stjórnvöld grundvallarmistök. Hér á landi eru nú fyrir hendi mörg af þeim skilyrðum sem leitt hafa til borgarastyrjalda í öðrum löndum. Besta leiðin til að koma í veg fyrir að upp úr sjóði er að virkja allar rásir lýðræðisins. Upplýsingar eiga að vera uppi á borðum og fólk á að geta tekið þátt í uppbyggingarstarfinu. Það þýðir ekki að tala stanslaust um að við séum öll á sama bátnum en vera síðan með leynistjórnklefa um borð þar sem ákveðið er hvert á að sigla og hver á að stýra. Fólk á að tala og finna að á það sé hlustað.

Valdið kemur frá þjóðinni sem kýs sína fulltrúa á þing. Meirihluti þeirra velur síðan í ráðherraembættin. Þingmenn geta kvartað sáran yfir freku framkvæmdavaldi en það er í þeirra höndum að gera þingið öflugra. Að sama skapi er það í höndum þjóðarinnar hverjir sitja á þingi.

Á Íslandi er mikil hefð fyrir átakastjórnmálum. Þeirra tími hlýtur að vera liðinn og tími samstöðustjórnmála að renna upp. Ekki í þeim skilningi að héðan af eigi allir að vera sammála um allar ákvarðanir heldur þannig að samstöðu sé náð um ákveðnar grunnstoðir, sem ekki verður breytt á fjögurra ára fresti. Þjóðin á ekki að horfa upp á nokkra ráðherra taka þær ákvarðanir.

Bananalýðveldi?

Þessa dagana hrópa margir að Ísland sé bananalýðveldi þar sem lýðræðið sé að engu virt. Það er ekki satt. Kosningakerfið er gagnsætt. Allir geta boðið fram. Allir mega stofna samtök og fólk getur tjáð sig án þess að eiga fangelsun eða dauðadóm yfir höfði sér.

Það breytir því ekki að við eigum sífellt að bæta lýðræðið. Af hverju er t.d. engin hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum á Íslandi? Og hvernig ætlum við að búa að fjölmiðlum í niðursveiflunni þannig að þeir geti sinnt sínu eftirlitshlutverki?

Þingmenn eiga að spyrna við fótum og minna á hvar valdið liggur. Ekki þeirra vegna, heldur fyrir fólkið sem þeir sitja í umboði fyrir.

 

Prev PostStjórnmál: Kæri Björgólfur
Next PostÞingbréf: Afsagnir, hrísgrjónaát og léttir