Þingbréf: Afsagnir, hrísgrjónaát og léttir

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 15. nóvember 2008

 

Afsagnir, hrísgrjónaát og léttir þegar helgin kemur

SAMSTARFSKONA mín á Morgunblaðinu sagði við mig á leið úr strætó í gærmorgun að hún væri svo fegin að komin væri helgi. Ég jánkaði en föstudagar eru reyndar sjaldnast eftirlætisdagar mínir. Þá eru nefnilega ekki þingfundir og það þýðir að ég þarf að taka strætó upp í Hádegismóa, sem miðbæjarrottum finnst vera í órafjarlægð frá mannabyggðum. Ég áttaði mig hins vegar líka á því í gær að þeir dagar eru liðnir að ég bíði helganna með óþreyju. Almennt finnst mér nefnilega gaman að vera til, jafnt á virkum dögum sem um helgar. En síðustu vikur hafa verið öðruvísi hvað þetta varðar. Því að þótt ég sé ekki með ríkisreksturinn á herðum mér þá kemst ég ekki hjá því að sveiflast aðeins með andrúmsloftinu í Alþingishúsinu. Og þar er eins og ákveðins léttis verði vart þegar loks kemur helgi.

Grjónaát í langri viku

Föstudaginn 3. október sagði Gylfi Magnússon hagfræðingur í útvarpsfréttum að bankarnir væru í reynd gjaldþrota. Þann föstudag titraði þinghúsið nánast meira en við jarðskjálftann sl. vor. Þegar sá dagur kom að kveldi önduðu margir léttar. Bankarnir voru a.m.k. ennþá til.

Næsta vika sem á eftir kom var hins vegar sú lengsta sem ég hef lifað. Á mánudeginum flutti forsætisráðherra ávarp í beinni útsendingu, neyðarlögin voru samþykkt og flestir þekkja eftirleikinn. Einmitt þessa sömu viku hafði ég tekið þá undarlegu ákvörðun að fasta á kínverska vísu sem felur í sér að borða aðeins ósalt kornmeti á borð við hrísgrjón og bygg í fimm daga. Þessi vika var því ekki aðeins löng vegna mikilla tíðinda og óvissu, heldur líka vegna þess að ég borðaði ekkert nema grjón! Og þá gladdist ég mjög þegar helgin loks kom. Þessa löngu viku var Alþingi nokkurs konar samkomumiðstöð. Formlegir og óformlegir fundir voru haldnir í hverju horni og innlent og erlent fjölmiðlafólk var á vappi um húsið. En síðan var eins og kraftarnir færu annað. Á þingfundum var nánast eingöngu talað um þingmannamál sem komu fæst málefnum líðandi stundar nokkuð við. Stjórnarandstöðuþingmönnum fannst þeir afskiptir og illa upplýstir og fáar fyrirspurnir voru bornar upp til ráðherra.

Tvær afsagnir eftir bankahrun

Nú er hins vegar smám saman að lifna yfir Alþingi aftur. Það má bæði rekja til þess að þingmenn hafa tekið við sér og þess að nú eru farin að koma inn frumvörp sem er ætlað að taka á núverandi ástandi. Og fundunum í húsinu fjölgaði um leið. Þá stöndum við blaðamennirnir fyrir framan lokaðar dyr og giskum á hvað fari fram innandyra. Stundum fáum við fréttir en stundum er biðin árangurslaus og þá nagar maður sig í handarbökin yfir að komast seint heim úr vinnu.

Annars bar það til tíðinda í vikunni að einn þingmaður hvarf á braut og annar kom í staðinn. Mér heyrðist á flestum sem ég talaði við að Bjarni Harðarson þætti maður að meiri að hafa axlað ábyrgð á gjörðum sínum með því að víkja úr þingsæti.

Satt að segja sætir furðu hversu sjaldan fólk segir af sér á Íslandi. Í mörgum löndum þykir sjálfsagt að ráðamenn og embættismenn víki úr embætti, ekki aðeins vegna eigin mistaka, heldur líka vegna mistaka undirmanna sinna. Yfirmenn einkafyrirtækja axla einnig gjarnan ábyrgð sína með sambærilegum hætti.

Afsögn er hins vegar enginn dauðadómur, enda mörg dæmi um að stjórnmálamenn sem axla ábyrgð með þessum hætti komi aftur inn í stjórnmál síðar. Þess vegna er ekkert sem segir að Bjarni Harðarson eigi ekki afturkvæmt í pólitík.

En nú hafa a.m.k. komið tvær afsagnir, af gjörólíkum ástæðum þó. Bjarni er hættur á þingi og Sigríður Inga Ingadóttir fór út úr stjórn Seðlabankans.

Og það er komin helgi. Njótum þess!

 

Prev PostÞingbréf: Mótmæli þingmanna, lýðræði og leynistjórnklefi
Next PostÞingbréf: Stjórnmálin við eldhúsborðið