29.11.2008

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 29. nóvember 2008

 

Dramtískri þingviku lauk með fundi fram á morgun

ÞAÐ má með sanni segja að dramatísk þingvika sé nú að baki. Hún hófst með umræðum um vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar sem var felld af meirihlutanum auk eins þingmanns Frjálslynda flokksins, Kristins H. Gunnarssonar. Nú má að vísu velta því upp hversu mikið lengur Kristinn verður þingmaður þess flokks en þingflokksformaðurinn notar hvert tækifæri til að hnýta í hann opinberlega og Kristinn sjálfur virðist ekkert sérstaklega samvinnuþýður.

Krafan nær til allra

Stjórnarandstaðan renndi kannski óþarflega blint í sjóinn með sína tillögu sem gerði ráð fyrir kosningum strax upp úr áramótum. Eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir benti á í umræðunum myndi lítið rúm skapast fyrir ný framboð færu kosningar fram með svo skömmum fyrirvara. Að sama skapi gæfist lítið ráðrúm til prófkjara eða lýðræðislegrar umræðu um uppstillingu á framboðslistum flokkanna. Líklega yrðu þá boðnir fram nánast sömu listarnir og í síðustu kosningum, sem kemur varla til móts við þær kröfur sem nú eru uppi í samfélaginu um endurnýjun. Sú krafa nær nefnilega bæði til meirihlutaflokkanna og til stjórnarandstöðunnar.

En rök ráðherranna í umræðunum voru líka misgóð. Þeir töluðu eins og allt færi á hliðina ef boðað yrði til kosninga og að samningar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gætu verið í hættu. Ekkert myndi gerast enda væru allir á fullu í kosningabaráttu. Af þeim orðum má því skilja að ríkisstjórnin sé eiginlega óstarfhæf þegar kosningar eru á næsta leiti. En ráðherrar hafa nú sjaldnast setið aðgerðalausir í aðdraganda kosninga, og myndu varla gera það í þetta sinnið.

Beðið eftir næturfundi

Eftir vantraustsmánudaginn kom stuttur og viðburðalítill þriðjudagur en á miðvikudag fór aftur að draga til tíðinda. Að hefðbundnum fyrirspurnum loknum var fundi frestað meðan þingflokkar funduðu. Ekki voru fleiri mál á dagskrá og þess vegna mátti búast við einhverju stóru frumvarpi eða tillögu sem þyrfti að dreifa. Stjórnarandstaðan stóð í þeirri meiningu að funda ætti fram á kvöld, jafnvel nótt, til að afgreiða lög sem óljóst var um hvað fjölluðu. En málið stoppaði í þingflokki Samfylkingarinnar og þingmenn voru sendir heim með nýja hvítbókarnefndarfrumvarpið í höndunum.

Á fimmtudag var það frumvarp rætt í samstöðu allra flokka og svo tók við löng umræða um hvort ríkisstjórninni skyldi falið að leiða Icesave-deiluna til lykta. Stjórnarandstaðan og Pétur H. Blöndal höfðu sínar efasemdir um það og m.a. voru uppi áhyggjur af því að þetta væri opin heimild fyrir ríkisstjórnina. Í athugasemdum með tillögunni kemur þó skýrt fram að samningurinn verði lagður aftur fyrir Alþingi og þá aflað viðeigandi fjárheimilda. Annað væri enda óeðlilegt því að Alþingi fer jú með fjárveitingarvaldið.

Fimmtudeginum var ekki lokið. Klukkan 18 var boðað til þingflokksfunda og í framhaldinu lagt fram frumvarp um gjaldeyrishöft. Og þá var komið að næturfundinum. Frumvarpið skyldi verða að lögum áður en bankar og fjármálastofnanir yrðu opnaðar svo að markaðurinn myndi ekki bregðast við meðan málið væri í vinnslu. Vandinn er hins vegar auðvitað sá að þingmenn höfðu fyrir vikið lítinn tíma til að skoða málið almennilega og þá sérstaklega stjórnarandstöðuþingmenn.

Frumvarpið var samþykkt með 32 atkvæðum, sem hlýtur að teljast mjög tæpt. Þeir níu stjórnarandstöðuþingmenn sem voru viðstaddir sátu hjá. Annað sem vekur athygli er að um málið ræddu eingöngu karlar. Engin kona tók til máls í öllum umræðunum.

Hvað svo?

Ein vika liðin. Ríkisstjórninni er ekki vantreyst. Hún mun að líkindum fá umboð til að leiða Icesave-deiluna til lykta og nú hafa víðtæk gjaldeyrishöft verið innleidd. Sjáum hvað næsta vika ber í skauti sér.

 

22.11.2008

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 22. nóvember 2008

 

Stjórnmálin við eldhúsborðið

Þessa dagana er talað um stofnun nýrra stjórnmálaflokka í hverju horni. Vitanlega eru orðin oft stærri en gerðirnar en engu að síður virðist ákveðin lýðræðisvakning eiga sér stað í samfélaginu. Fólk sem áður lét sig engu skipta hverjir fóru með völd í landinu fylgist nú gaumgæfilega með stjórnmálum.

Eitt af framboðunum sem rætt er um er stofnun Kvennalista. Ætla má að orðrómurinn einn verði til þess að allir slái sig til jafnréttisriddara.

Það hlýtur því að vera óþægilegt fyrir femíníska flokkinn VG og jafnréttissinna Samfylkingarinnar að Framsóknarflokkurinn sé smám saman að breytast í kvennalista!

Karlar í efstu sætum fóru út af þingi og þá komu inn konurnar sem voru neðar á listum og nú er Framsókn eini flokkurinn með konur í meirihluta þingmanna.

Flokkar í endurmótun

Á meðan nýjar stjórnmálahreyfingar eru ræddar við hin ólíklegustu eldhúsborð eru uppi deilur innan allra þingflokka um menn og málefni.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað landsfund í janúar og mögulega stefnubreytingu í Evrópumálum. Litlar líkur eru þó á því að þar verði breytingar á forystunni, enda fyrirvarinn lítill og slík átök væru flokknum of erfið.

Í Framsóknarflokknum hafa þegar orðið formannsskipti en ætla má að barist verði um formannssætið á landsfundi flokksins í janúar.

Frjálslyndi flokkurinn er ótrúlega klofinn miðað við stærð og það er nánast hægt að fullyrða að á honum verði breytingar áður en langt um líður. Innan Samfylkingarinnar er nokkur kergja og efasemdir um stjórnarsamstarfið.

Vinstri græn skoða afstöðu sína til Evrópusambandsins og því er jafnvel velt upp hvort ný forysta eigi að leiða flokkinn í næstu kosningum, hvenær sem þær nú verða.

Einhvern veginn virðast margir komnir í kosningagírinn þó að kosningar séu ekki á dagskrá fyrr en árið 2011. Harla ólíklegt er að vantrauststillaga stjórnarandstöðuflokkanna verði samþykkt. Til þess þyrfti of marga liðhlaupa. Forsætisráðherra getur rofið þing, þó að deilt hafi verið um þá heimild, en að öðru leyti kæmi ekki til þingrofs nema stjórnarsamstarfinu væri slitið, án þess að ný ríkisstjórn væri til taks.

Það hentar Sjálfstæðisflokknum illa að gengið verði fljótlega til kosninga en innan Samfylkingar eru raddir sem vilja kosningar. Verði niðurstaða Sjálfstæðisflokksins gagnvart Evrópusambandinu jákvæð má hins vegar ætla að Samfylkingin vilji halda í samstarfið þar til ákvörðun um aðildarumsókn hefur verið tekin.

Ekki benda á mig

Nú er annars hafinn skemmtilegur leikur í samfélaginu sem heitir „Ekki benda á mig“. Davíð Oddsson kennir Fjármálaeftirlitinu og ríkisstjórninni um bankahrunið, Geir H. Haarde bendir á bankana, gömlu bankastjórarnir benda á eftirlitsstofnanir og svo grunlausan almenning sem tók þátt í fjörinu og Björgvin G. Sigurðsson sagði á þingi í gær að ástæðurnar væru m.a. þær að Ísland hefði ekki tekið fullan þátt í Evrópusambandinu.

Samt á ekki að leita að sökudólgum. Með öðrum orðum: Ekki leita að sökudólgum, a.m.k ekki heima hjá mér!

 

15.11.2008

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 15. nóvember 2008

 

Afsagnir, hrísgrjónaát og léttir þegar helgin kemur

SAMSTARFSKONA mín á Morgunblaðinu sagði við mig á leið úr strætó í gærmorgun að hún væri svo fegin að komin væri helgi. Ég jánkaði en föstudagar eru reyndar sjaldnast eftirlætisdagar mínir. Þá eru nefnilega ekki þingfundir og það þýðir að ég þarf að taka strætó upp í Hádegismóa, sem miðbæjarrottum finnst vera í órafjarlægð frá mannabyggðum. Ég áttaði mig hins vegar líka á því í gær að þeir dagar eru liðnir að ég bíði helganna með óþreyju. Almennt finnst mér nefnilega gaman að vera til, jafnt á virkum dögum sem um helgar. En síðustu vikur hafa verið öðruvísi hvað þetta varðar. Því að þótt ég sé ekki með ríkisreksturinn á herðum mér þá kemst ég ekki hjá því að sveiflast aðeins með andrúmsloftinu í Alþingishúsinu. Og þar er eins og ákveðins léttis verði vart þegar loks kemur helgi.

Grjónaát í langri viku

Föstudaginn 3. október sagði Gylfi Magnússon hagfræðingur í útvarpsfréttum að bankarnir væru í reynd gjaldþrota. Þann föstudag titraði þinghúsið nánast meira en við jarðskjálftann sl. vor. Þegar sá dagur kom að kveldi önduðu margir léttar. Bankarnir voru a.m.k. ennþá til.

Næsta vika sem á eftir kom var hins vegar sú lengsta sem ég hef lifað. Á mánudeginum flutti forsætisráðherra ávarp í beinni útsendingu, neyðarlögin voru samþykkt og flestir þekkja eftirleikinn. Einmitt þessa sömu viku hafði ég tekið þá undarlegu ákvörðun að fasta á kínverska vísu sem felur í sér að borða aðeins ósalt kornmeti á borð við hrísgrjón og bygg í fimm daga. Þessi vika var því ekki aðeins löng vegna mikilla tíðinda og óvissu, heldur líka vegna þess að ég borðaði ekkert nema grjón! Og þá gladdist ég mjög þegar helgin loks kom. Þessa löngu viku var Alþingi nokkurs konar samkomumiðstöð. Formlegir og óformlegir fundir voru haldnir í hverju horni og innlent og erlent fjölmiðlafólk var á vappi um húsið. En síðan var eins og kraftarnir færu annað. Á þingfundum var nánast eingöngu talað um þingmannamál sem komu fæst málefnum líðandi stundar nokkuð við. Stjórnarandstöðuþingmönnum fannst þeir afskiptir og illa upplýstir og fáar fyrirspurnir voru bornar upp til ráðherra.

Tvær afsagnir eftir bankahrun

Nú er hins vegar smám saman að lifna yfir Alþingi aftur. Það má bæði rekja til þess að þingmenn hafa tekið við sér og þess að nú eru farin að koma inn frumvörp sem er ætlað að taka á núverandi ástandi. Og fundunum í húsinu fjölgaði um leið. Þá stöndum við blaðamennirnir fyrir framan lokaðar dyr og giskum á hvað fari fram innandyra. Stundum fáum við fréttir en stundum er biðin árangurslaus og þá nagar maður sig í handarbökin yfir að komast seint heim úr vinnu.

Annars bar það til tíðinda í vikunni að einn þingmaður hvarf á braut og annar kom í staðinn. Mér heyrðist á flestum sem ég talaði við að Bjarni Harðarson þætti maður að meiri að hafa axlað ábyrgð á gjörðum sínum með því að víkja úr þingsæti.

Satt að segja sætir furðu hversu sjaldan fólk segir af sér á Íslandi. Í mörgum löndum þykir sjálfsagt að ráðamenn og embættismenn víki úr embætti, ekki aðeins vegna eigin mistaka, heldur líka vegna mistaka undirmanna sinna. Yfirmenn einkafyrirtækja axla einnig gjarnan ábyrgð sína með sambærilegum hætti.

Afsögn er hins vegar enginn dauðadómur, enda mörg dæmi um að stjórnmálamenn sem axla ábyrgð með þessum hætti komi aftur inn í stjórnmál síðar. Þess vegna er ekkert sem segir að Bjarni Harðarson eigi ekki afturkvæmt í pólitík.

En nú hafa a.m.k. komið tvær afsagnir, af gjörólíkum ástæðum þó. Bjarni er hættur á þingi og Sigríður Inga Ingadóttir fór út úr stjórn Seðlabankans.

Og það er komin helgi. Njótum þess!

 

08.11.2008

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 8. nóvember 2008

 

Mótmæli þingmanna, lýðræði og leynistjórnklefi

Síðustu laugardaga hefur fjöldi fólks komið saman á Austurvelli til að mótmæla, hver með sínu nefi. Sumir láta sér nægja að rölta á staðinn og hlýða á eins og eitt ávarp á meðan aðrir hrópa og kalla á hvað sem þeir telja gera samfélagið betra.

Fyrir tæpum tveimur vikum var fullt út úr dyrum á borgarafundi í Iðnó. Færri fengu tækifæri til að tjá sig en vildu og mörgum var heitt í hamsi. Í dag munu eflaust margir mæta á borgarafund kl. 13 og færa sig að honum loknum á Austurvöll til að mótmæla.

Lýðræðið aldrei mikilvægara

En mótmælabylgjan teygir anga sína víðar og þar með talið inn í sal Alþingis. Þar risu þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu upp í vikunni og mótmæltu kröftuglega hversu veikt þingið er andspænis sterku framkvæmdavaldi. „Við þingmenn eigum ekki að láta það yfir okkur ganga að við ræðum ekki málefnin sem skipta þjóð okkar öllu máli,“ sagði Guðfinna S. Bjarnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sagði ríkisstjórnina hvorki treysta þingi né þjóð fyrir „því sem hún er að pukrast með“. Álfheiður kom þarna orðum að því sem margir hafa á tilfinningunni þessa dagana. Almenningi er ekki treystandi fyrir „viðkvæmum upplýsingum“ og fólk á að bíða rólegt meðan kerfið er skipulagt á nýjan leik.

Og þarna gera stjórnvöld grundvallarmistök. Hér á landi eru nú fyrir hendi mörg af þeim skilyrðum sem leitt hafa til borgarastyrjalda í öðrum löndum. Besta leiðin til að koma í veg fyrir að upp úr sjóði er að virkja allar rásir lýðræðisins. Upplýsingar eiga að vera uppi á borðum og fólk á að geta tekið þátt í uppbyggingarstarfinu. Það þýðir ekki að tala stanslaust um að við séum öll á sama bátnum en vera síðan með leynistjórnklefa um borð þar sem ákveðið er hvert á að sigla og hver á að stýra. Fólk á að tala og finna að á það sé hlustað.

Valdið kemur frá þjóðinni sem kýs sína fulltrúa á þing. Meirihluti þeirra velur síðan í ráðherraembættin. Þingmenn geta kvartað sáran yfir freku framkvæmdavaldi en það er í þeirra höndum að gera þingið öflugra. Að sama skapi er það í höndum þjóðarinnar hverjir sitja á þingi.

Á Íslandi er mikil hefð fyrir átakastjórnmálum. Þeirra tími hlýtur að vera liðinn og tími samstöðustjórnmála að renna upp. Ekki í þeim skilningi að héðan af eigi allir að vera sammála um allar ákvarðanir heldur þannig að samstöðu sé náð um ákveðnar grunnstoðir, sem ekki verður breytt á fjögurra ára fresti. Þjóðin á ekki að horfa upp á nokkra ráðherra taka þær ákvarðanir.

Bananalýðveldi?

Þessa dagana hrópa margir að Ísland sé bananalýðveldi þar sem lýðræðið sé að engu virt. Það er ekki satt. Kosningakerfið er gagnsætt. Allir geta boðið fram. Allir mega stofna samtök og fólk getur tjáð sig án þess að eiga fangelsun eða dauðadóm yfir höfði sér.

Það breytir því ekki að við eigum sífellt að bæta lýðræðið. Af hverju er t.d. engin hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum á Íslandi? Og hvernig ætlum við að búa að fjölmiðlum í niðursveiflunni þannig að þeir geti sinnt sínu eftirlitshlutverki?

Þingmenn eiga að spyrna við fótum og minna á hvar valdið liggur. Ekki þeirra vegna, heldur fyrir fólkið sem þeir sitja í umboði fyrir.

 

08.11.2008

Ávarp flutt á opnum borgarafundi í Iðnó
8. nóvember 2008

Kæri Björgólfur

Björgólfur!
mig langar svo að tala við þig
útskýra mína hlið
og hvernig ég sé þetta
ég vona ég sé ekki að trufla
ertu upptekinn þessa dagana?

Björgólfur,
ég er blaðamaður
á mogganum
sem þú átt
eða áttir
eða hvað?

geturðu sagt mér, Björgólfur
hvað verður um moggann?
mér finnst svo óþægilegt að vita það ekki

***

Björgólfur,
þetta kaupæði
sem þú sagðir í mogganum
að hefði runnið á alla íslendinga
ég kannast ekki við það
ég á ekki sumarhús
eða hjólhýsi
eða jeppa

Björgólfur,
ég keypti mér aldrei flatskjá
ég á ekki einu sinni sjónvarp

það er ópíum fólksins
held ég

og fyrir framan sjónvarpið
slokknar á öllu
það er gott, Björgólfur

mjög gott

og hættulegt
stórhættulegt

ég á reyndar örbylgjuofn
þú nefndir hann samt ekki

***

Björgólfur,
ég hef alltaf verið dugleg að vinna
ég vann í sjoppu
ég þjálfaði fótbolta
ég vann á lager
ég kenndi börnum
ég raðaði trópí í hillur

ég reyndi einu sinni að selja pressuna
en þá hrópaði á mig gamall maður
að pressan væri rusl
ég hætti að selja pressuna

þá hélt ég að gamlir menn hefðu alltaf rétt fyrir sér
hafa þeir það?

Björgólfur,
ég las við þig viðtalið
og mig langar að segja
að ég skil þig
ég veit hvernig tilfinning það er
að hrópað sé á þig
eins og þú sért höfuð alls ills

ég er blaðamaður, Björgólfur
seðlabankinn, fyrirtæki, stjórnmálamenn, eftirlitsstofnanir
og ekki síst fjölmiðlar
það sagði þorgerður katrín

og ég hélt allt í einu að ég hefði skemmt allt

***

mér fannst alltaf skrítið að fólk keypti allt á lánum
og mér fannst alltaf skrítið að menn væru í stanslausu spili
matadori, Björgólfur

mér þykja einkaþotur asnalegar
en mér var alveg sama þótt þú værir í keppni
við hina strákana

ég hef spilað matador
ég veit hvernig tilfinning það er
að vinna
ég vann næstum því alltaf

en ef ég tapaði
þá var það allt í lagi
ég fékk mér bara ristað brauð
og kakó

tvö glös af kakói
það var eftirlætið mitt
þegar ég var lítil

þegar ég var lítil
og spilaði matador
og fékk kakó
stundum

***

sjónvarpsleysið, Björgólfur
það bjargaði mér ekki
það slokknaði líka á mér
ég áttaði mig ekki á því
að ég þyrfti að borga fyrir matadorið
sem ég tók ekki þátt í

það á ekki að fara illa með almannafé
og ég er sammála, Björgólfur
ég er sammála því að það eigi ekki að bruðla með peninga
hvorki almanna né eigin

en samt sagði ég ekki neitt

þegar þú keyptir austurstræti og bankastræti og aðalstræti og hafnarstræti og pósthústræti og laufásveg og laugaveg og sólvallagötu og hávallagötu
fyrir peningana mína

peninga sem voru faldir bak við orð sem ég skildi ekki

***

áramótaheitið mitt, Björgólfur
var að reyna að skilja peninga

ég fór á námskeið og lærði um stýrivexti og eigið fé og spákaupmennsku og lánshæfiseinkunn og skortstöðu og skortsölu og vísitölu og verðtryggingu
og ég reyndi að spyrja eins mikið og ég gat

og alltaf létu menn eins og þeir væru með allt á hreinu
en gátu samt ekkert útskýrt

Björgólfur, maður talar ekki skýrar
en maður hugsar
matadorið ykkar var alltof flókið
svo flókið að það kunni enginn reglurnar
og svo asnalegt að allir töpuðu
og nú þarf ég að borga
aftur

***

ég veit alveg, Björgólfur
að það verður í lagi með mig
ég veðsetti engar götur
en Björgólfur,
það verður ekki allt í lagi með alla
og það finnst mér sárt

ég veit alveg
að við tókum öll þátt í rétttrúnaðinum
við sungum með

trallalalalalala
lalalalala

ég söng falskt
til að ögra kórnum
og fannst ég vera að mótmæla
en ég söng samt

TRALLALALALA
LALALALA
LALALA
LALLALALALA

***

og ritstjórinn minn gamli
hann sagði að það væru hræðilegir hlutir að gerast
í fjármálaheiminum
ég hlustaði
en ég skildi hann ekki
og ég viðurkenni
að stundum hélt ég hann væri orðinn smá klikk

hann var stríðsmaður, Björgólfur
harðsnúinn kaldastríðsmaður
alla tíð
og ég hélt hann vildi vera það áfram

ég er ekki stríðsmaður, Björgólfur
mér finnst best ef allir hjálpast að

***

Björgólfur,
pabbi segir að þú sért fínn kall
og bubbi segir það líka
ég trúi þeim, Björgólfur

ég hitti þig einu sinni
og ég man að það kom mér svo á óvart hvað þú varst hress
ég hélt að maður
sem ætti svona mikla peninga
gæti ekki verið hress
ekki frjáls

Björgólfur, er ekki vont að eiga heimavörn?

***

Björgólfur,
ég veit að þú varst duglegur að vinna
eins og ég
og líklega vannstu lengri vinnudag
mín vegna hefðirðu alveg mátt, Björgólfur
fá tvöfalt hærra kaup
og kannski aðeins meira en það
vegna ábyrgðar

Björgólfur,
ég var eins árs þegar davíð oddsson varð borgarstjóri
síðan forsætisráðherra
seðlabankastjóri
og hann er líka skáld
ég treysti honum ekki, Björgólfur
en samt hlusta ég
þegar hann talar
því ég þekki röddina hans svo vel

Björgólfur, hann var alltaf í skaupinu
afmælisbarn með stóra köku
og eina sneið fyrir gestina

Björgólfur,
mig langaði ekkert í köku
ég hafði það bara fínt
í mínu flatskjásleysi
og þannig vil ég hafa það áfram

***

Björgólfur,
ég vona að forseti gefi þér upp sakir
og öllum hinum
égerreiðútíykkurþvímiglangaðiaðnotaspariféðmittíferðtilindlandsenekkitilaðborganiðurskuldirsemégskilekkiafhverjuerutilen

ég losna við reiðina
og ég skal borga, Björgólfur
ég skal borga með einu skilyrði
að þetta gerist ekki aftur
að við hjálpumst að
við að byggja upp samfélag

saman í þessu

og við getum spilað matador
um helgar
með pappírspeninga
og drukkið kakó

saman í þessu

ertu til í það, Björgólfur?

ertu til í það?

01.11.2008

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 1. nóvember 2008

 

Vættir, guð og galdrar til hjálpar

Þegar þetta þingbréf er skrifað, eftir hádegi á föstudegi, er bjart yfir í Reykjavík. Tjörnin er spegilslétt og byrjuð að þiðna að nýju. Trén í Alþingisgarðinum hafa fellt lauf sitt og jólaseríur munu innan skamms leysa þau af hólmi. Í þingsal er verið að ræða þingsályktunartillögu um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum og í smástund get ég leyft mér að halda að það sé bara venjulegur föstudagur. En meðan ég sit hérna í fjölmiðlabakherbergi þinghússins og horfi yfir Tjörnina eru hundruð Íslendinga að taka við uppsagnarbréfum.

Áætlun eða samningsgerð?

Efnahagsmál voru rædd á Alþingi á fimmtudag. Mikið var þrætt um hvernig ákvörðun um stýrivaxtahækkun var tekin en ráðamenn hafa gefið misvísandi yfirlýsingar. Seðlabankinn ákvað svo að taka af öll tvímæli og greina um leið frá 19. tölulið samningsgerðar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF), sem er víst enn trúnaðarmál. Þar kemur fram að stýrivextir þurfi að hækka í 18%. Ráðherrar segja ríkisstjórnina hafa lagt þessa tillögu fram en ljóst þykir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi sett hækkunina sem skilyrði, enda í takt við kröfur sem hann hefur gert annars staðar í heiminum.

Ég er að hugsa um að gera það að minni tilgátu að ríkisstjórnin sé að segja satt. Hún hafi giskað á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi stýrivaxtahækkun og þess vegna sett hana inn, í von um að sjarmera stjórn sjóðsins!

Einnig er deilt um hvað eigi að kalla þetta umrædda plagg, sem er a.m.k. í nítján töluliðum. Seðlabankinn talar um samningsgerð en stjórnarliðar um efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar. Enn aðrir tala um samning en Lúðvík Bergvinsson þvertekur fyrir að áætlunin geti kallast samningur fyrr en stjórn IMF hefur samþykkt hana. Hvað sem plaggið kallast þá bíða stjórnarandstöðuþingmenn spenntir eftir því að berja það augum.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í umræðunum á fimmtudag að annað tveggja markmiða efnahagsáætlunarinnar væri að „undirbúa markvissar aðgerðir til að styrkja stöðu ríkissjóðs“. Nú hefur orðið „undirbúa“ vonandi slæðst óvart með, enda hlýtur í áætluninni að vera kveðið á um aðgerðir, ekki bara lagt til að þær verði undirbúnar. Annað vakti athygli í ræðu Geirs og það var þegar hann sagði ríkið ekki ætla sér að eiga bankana til langframa. Hlutaféð væri vonandi hægt að selja síðar meir, jafnvel með ávinningi. „Þannig að hér er vonandi um að ræða fjárfestingu sem á eftir að skila sér þó að hún birtist með þessum hætti í skuldatölum ríkisins,“ sagði Geir.

Það hljómar ankannalega að tala um fjárfestingu í bönkum sem eru að hruni komnir þegar ríkið tekur þá yfir. En vonandi er Geir með jákvæðar upplýsingar um stöðu bankanna, sem hann byggir þessi orð á.

Á trúarlegum bláþræði

Íslendingar verða seint taldir meðal trúaðri þjóða þessa heims, að minnsta kosti ekki þegar vel gengur. En einhvern veginn leita svo margir í trú og trúarbrögð þegar erfiðleikar steðja að. Stjórnmálamenn eru þar engin undantekning og þannig rötuðu æðri máttarvöld inn í ræður allra stjórnmálaleiðtoga nema eins í síðasta mánuði.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, reið á vaðið í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra þegar hann í lok ræðu sinnar sagði: „Vaki nú allar góðar vættir yfir Íslandi.“ Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokks, hallaði sér hins vegar að öllu hefðbundnari trú þegar hann bað guð að blessa Ísland að loknu ávarpi sínu til þjóðarinnar á mánudeginum í byrjun svörtu vikunnar.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknar, blandaði síðan trúnni inn í sjómannalíkingamálið, sem hann hefur verið ólatur við að nota, og sagði: „Ýtum úr vör í Drottins nafni.“ Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, leitaði ekki til guðs eða landvætta í sinni fyrstu þingræðu um efnahagsmálin í vikunni en sagði hins vegar að með „íslenskan galdur í farteskinu og í náinni samvinnu við alþjóðasamfélagið“ kæmist Ísland í gegnum kreppuna.

Nú er hægt að fara út í bollaleggingar um mögulega stjórnarmyndun á trúarlegum grunni. Þá er ljóst að Guðni og Geir ná ágætlega saman og líklega er ekki svo langt milli Steingríms og Ingibjargar. Þá má ætla að stjórnarsamstarfið hangi á trúarlegum bláþræði, a.m.k. hefur hinum guðhræddu almennt verið lítt um galdra gefið.

Skýin hafa fært sig

Þegar niðurlag þessa þingbréfs er ritað hefur veðrið breyst og staðsetning mín líka. Skýin hafa fært sig neðar og ég sit í Hádegismóum. Þar er tómlegt, enda hurfu á þriðja tug starfsmanna úr húsi í dag, með uppsagnarbréf í höndunum. Nú þurfum við guð og vættir og galdra. Eða hvað annað sem getur hjálpað til.