Tæknin, lögin og kynferðisleg friðhelgi

Birtist á Knúz – knuz.is 11. febrúar 2020

Þegar YouTube-stjarnan Chrissy Chambers uppgötvaði að fyrrverandi kærastinn hennar hafði tekið upp á myndband kynferðislegt ofbeldi gegn henni – sem hann áleit kynlíf þeirra í milli – og dreift því á internetinu áttaði hún sig tæplega á því að hennar biði margra ára barátta, ekki einungis við lögin heldur líka við tæknina. Efnið dreifðist hratt um internetið og nettröll litu á það sem sérstakt keppikefli að tryggja að leitarniðurstöður Google og annarra leitarvéla röðuðu ofbeldinu efst. Þegar börn og ungmenni sem fylgdust með Chambers á samfélagsmiðlum slógu upp nafninu hennar gátu þau allt eins átt von á því meðal efstu niðurstaðna yrði ofbeldismyndbandið. Það þarf varla að fjölyrða um áhrifin sem þetta hafði á líf Chambers og fjölmargra annarra.

Rétt er að taka fram að ég vann fyrir lögmannsstofu sem tók að sér að sækja rétt Chambers í einkamáli og kom ég því að þessu máli um tíma. Það eru ekki nema fimm ár síðan en Google þvertók fyrir að eiga samtal um að ef til vill væri hægt að finna leiðir til að fjarlægja stafrænt kynferðisofbeldi úr leitarniðurstöðum. Slíkt var talið opna einhvers konar pandórubox; hvað ef konur sem bara hefðu veitt samþykki fyrir slíkum myndbirtingum hættu allt í einu við og heimtuðu að fá efnið tekið niður á þeim forsendum að það væri þeim á móti skapi? Réttur almennings til að vita hlyti að vega þyngra (!), í samræmi við viðteknar hugmyndir um „verðuga“ og „óverðuga fórnarlambið“ (e. worthy and unworthy victims). Á þessum tíma var rétturinn til að gleymast samt orðinn að virku úrræði fyrir menn (karla) sem vildu fá óþægilegar upplýsingar, til að mynda um fyrri fjárglæfrabrot, fjarlægðar úr leitarniðustöðum.

Í dag er hægt að gúggla nafn Chambers án þess að eiga á hættu að sjá myndband þar sem hún er beitt ofbeldi og með því var unninn stór áfangasigur. Google, eins og mörg önnur stór tæknifyrirtæki, hefur breytt skilmálum sínum til þess að bregðast við dreifingu stafræns kynferðisofbeldis. Þó sæta mörg tæknifyrirtæki enn gagnrýni fyrir að bregðast seint og illa við og almennt séð er réttur þolenda stafræns kynferðisofbeldis víða fyrir borð borinn, ekki síst þar sem vefsíður, sem hýsa slíkt efni af ásetningi og neita að fjarlægja það, geta gert slíkt óáreittar.

Löggjöf og stefnumótun bæði alþjóðlega og á innlendum vettvangi hefur ekki alltaf náð að halda í við nýjar birtingarmyndir kynferðislegs og kynbundins ofbeldis sem verða til fyrir tilstilli nýrrar tækni. Hér á landi nær löggjöfin misvel utan slík brot og þolendur hafa mátt búa við óvissu um hvort ofbeldið gegn þeim telst til brota á lögum eða ekki. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er sérstaklega fjallað um stefnumótun á þessu sviði og var stýrihópi forsætiráðherra, sem ég leiði, falið að gera tillögur til úrbóta. Þær tillögur liggja nú fyrir og byggja á viðamikilli skýrslu sem María Rún Bjarnadóttir lögfræðingur vann fyrir hópinn. Um margt kunna tillögurnar um lagabreytingar að virka tæknilegar, en verði þær að veruleika mun Ísland skipa sér í fremstu röð í vernd kynferðislegrar friðhelgi á heimsvísu. Samhliða er gert ráð fyrir að efla forvarnir og fræðslu og efla rannsóknargetu lögreglu á brotum þar sem stafræn tækni kemur við sögu.

Ein af tillögunum sem nú eru til skoðunar er að brotaþolar geti fengið aðgang að lagalegri og tæknilegri aðstoð, óháð því hvort þeir ákveða að kæra brot eða ekki. Í þessu sambandi þarf að líta til þess að hagsmunir brotaþola stafræns kynferðisofbeldis liggja öðru fremur í því að stafræna efnið hljóti ekki frekari dreifingu. Slíkt kallar á þekkingu á verkferlum tæknirisa á borð við Google og Facebook og það getur verið yfirþyrmandi fyrir brotaþola að standa frammi fyrir því að fylla út flókin eyðublöð á meðan ofbeldisefnið er enn í dreifingu. Ekki er fyllilega skýrt hvar slík þjónusta gæti verið hýst og væri áhugavert að fá fram umræðu um það og aðra þætti í þessari stefnumótun hér á síðum Knúzzins.

Á meðan kynferðislegt og kynbundið ofbeldi þrífst enn á Íslandi er erfitt að státa sig af góðum árangri í jafnréttismálum á heimsvísu. Þær tillögur sem nú liggja fyrir um vernd kynferðislegrar friðhelgi eru því löngu tímabærar og mikilvægt púsl í heildstæða stefnumótun stjórnvalda. Við stöldrum ekki við fyrr en kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni hefur verið upprætt með öllu.

Prev PostHúsmóðirin og leikskólinn
Next PostKomum sterkari út úr kreppunni