Stóllinn fyrir dyrnar – loksins!

„Getur hugsast að ráðherrann sé einfaldlega á móti því að farið verði í þessar framkvæmdir[virkjanir í neðrihluta Þjórsá]? Er ráðherrann þá e.t.v. vanhæfur þegar kemur að endurteknum úrskurðum um formsatriði í þessu máli?“

Þessari spurningu er varpað fram í grein á vef Samorku. Fréttablaðið vitnar í greinina í dag og segir hana vera eftir aðstoðarframkvæmdastjóra hagmunasamtakanna en það kemur hvergi fram á síðunni (sem þýðir væntanlega að aðstoðarframkvæmdastjórinn hefur skrifað greinina og þótt hún svo frábær að hann hefur sent út fréttatilkynningu).

En spurningin hlýtur að vera með þeim lélegri sem virkjanasinnar hafa teflt fram sem rökum fyrir óheftum virkjunum. Hvað þá með alla umhverfisráðherrana sem Ísland hefur átt og hafa verið hlynntir virkjunum úti um allar trissur? Voru þeir ekki vanhæfir? Eða er það að vera virkjanasinni hið eina sanna hlutleysi? (Alveg eins og hægri sinnaðir blaðamenn eru hlutlausir en ekki vinstri sinnaðir.)

Sá misskilur lýðræðið sem heldur að sú staðreynd að ráðherrar hafi skoðanir á því sem undir þá heyrir geri þá vanhæfa. Ráðherrar eru nefnilega valdir af Alþingi sem aftur er valið af þjóðinni. Og þeir eru valdir vegna skoðana sinna.

Sveitarstjórnum er ekki heimilt, frekar en öðrum, að fara á svig við lög bara af því að þeim kann að finnast lögin ósanngjörn. Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun á ekki að bera fé á sveitarstjórnir. Þess vegna hefur skipulagi vegna virkjana í neðrihluta Þjórsá verið synjað staðfestingar af umhverfisráðherra. Slíkt gera hæfir umhverfisráðherrar. Vanhæfir umhverfisráðherrar láta sér nægja að vera stimpilpúði fyrir Landsvirkjun og virkjanaglatt iðnaðarráðuneyti. Og kominn var tími til að einhver setti Landsvirkjun stólinn fyrir dyrnar.

Prev PostHversu flókið er að skila jeppa?
Next PostKonurnar aftur á fjölmiðlana