Aðgerðaáætlun til framkvæmdar tafarlaust

Stundum þarf ekki að taka stór skref til að gera veigamiklar breytingar. Ný reglugerð heilbrigðisráðherra er dæmi um það en með henni er fórnarlömbum mansals tryggður ótvíræður réttur til heilbrigðisþjónustu  á Íslandi. Mansalsmálið sem hefur hlotið mikla athygli hér á landi og er til rannsóknar hjá lögreglu er ekki fyrsta mál sinnar tegundar á Íslandi. Þvert á móti þá er þetta aðeins í fyrsta sinn sem slíkt mál er tekið alvarlega og til rannsóknar.  Í því sambandi á lögreglan á Suðurnesjum hrós skilið og þetta er vonandi vísbending um að vinnubrögð þau að láta rannsókn svona alvarlegra mála alltaf falla niður að óreyndu, vegna þess að séu erfið viðfangs, heyri sögunni til.

Samkvæmt skýrslu sem Fríða Rós Valdimarsdóttir, mannfræðingur, vann fyrir Rauða krossinn eru fórnarlömb mansals á Íslandi síðustu þrjú árin að minnsta kosti 59 og allt að 128. Þetta eru háar tölur. Ísland er því ekki aðeins gegnumstreymisland heldur líka móttökuland en það hafa samtök á borð við Stígamót bent á árum saman. Það er löngu kominn tími til að Íslendingar átti sig á þessum kalda veruleika og geri allt sem í þeirra valdi stendur til að uppræta mansal og bjarga því fólk sem er selt nauðugt viljugt milli landa, hvort sem það er selt til Íslands eða fer í gengum Ísland.

Það þarf að finna konurnar sem eru nú þegar á Íslandi í kynlífsþrælkun og koma lögum á þá sem mynda eftirspurnina og eru milliliðir. Í þessu sambandi eiga stjórnvöld að komi allri mansalsáætlun sinni tafarlaust til framkvæmda. Þetta má ekki bíða.

Prev PostKæri Strauss Khan
Next PostFjölmiðlar í vanda