Einu sinni vann ég umfjöllun um vændi á Íslandi fyrir Morgunblaðið. Þá talaði ég meðal annars við konu sem hafði verið á götunni í árafjölda en var komin á réttan kjöl þegar viðtalið var tekið. Hún sagði mér frá því hvernig ónefndur karlmaður hér á landi hefði pikkað hana upp á bar þegar hún var 14 ára gömul og gert hana að “kærustunni“ sinni.  Hann gaf henni gjafir, áfengi og dóp, var hlýr og góður til að byrja með en fór síðan smám saman að brjóta hana niður með líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi. Þá fór hann að gera hana út.

Viðmælandinn sagði frá tvenns konar vændi á Íslandi. Annars vegar voru „fínni“ vændiskonur, til dæmis konur frá útlöndum, sem unnu oft líka á nektardansstöðunum. Ef menn sem keyptu þær konur gengu lengra en þeim var heimilt, beittu t.d. líkamlegu ofbeldi, þá mættu þeir hörðu af hálfu „eigandans“ og hans handrukkara. Hins vegar voru það vændiskonur í sömu stöðu og viðmælandi minn. Þær voru undantekningalaust háðar eiturlyfjum − niðurbrotnar og illa haldnar á líkama og sál. Þessar konur voru keyptar af körlum, sem gerðu hvað sem þeir vildu við þær. Stundum var borgað með peningum, stundum með dópi. Viðmælandi minn sagði meðal annars:

„Ég lenti stundum á mönnum sem vildu bara konu til að berja sundur og saman. Og þeir gerðu það. Ég var svo brotin að virðingin var engin. Það eru til myndir frá þessum tíma og þá er ég alltaf með glóðarauga.”

“Það er mjög merkilegt hvað mönnum dettur í hug að gera við þessar konur. Þeir berja þær, skera þær og troða alls konar hlutum inn í leggöngin á þeim. Ég held að þeir hafi þessar skrítnu hvatir en virði konurnar sínar of mikið til að gera þetta við þær. Þá er það auðvitað ágætur díll að borga 30 þúsund kall og fá að gera það sem þér sýnist.”

Mér var hugsað til þessa þegar ég las enn eina vændismiðlara-fréttina í Fréttablaðinu, þar sem því er haldið fram að íslenskir vændiskaupendur séu svo góðir „elskhugar“. Höfundum bókarinnar sem um er fjallað virðist mikið í mun að láta sem vændi sé kynlíf og annar þeirra lætur ekkert tækifæri ónotað til að býsnast yfir því að vændiskaup séu bönnuð með lögum. Fréttablaðið breiðir boðskapinn út en ítrekaður og ógagnrýninn fréttaflutningur blaðsins er umhugsunarverður.