Á morgun verður gengið til sveitarstjórnarkosninga. Þessar kosningar, eins og þær síðustu og þær næstu og næstu, snúast um uppgjör við hugmyndafræði efnahagshrunsins. Íslenskur almenningur gerði afdrifarík mistök með því að kjósa ítrekað yfir sig hugmyndafræði fjármagnsins og einstaklingsins, jafnt á sveitarstjórnarstigi sem á landsvísu. Það var hið stóra “fokkjúmerki” sem nú er iðulega talað um í samhengi við kosningarnar í Reykjavík. Það var “fokkjúmerki” til komandi kynslóða. Það var “fokkjúmerki” til eldri kynslóða sem byggðu upp samfélag með velferðarkerfi og almennri menntun. Það var “fokkjúmerki” til okkar allra sem búum á Íslandi og erum allt í einu stórskuldugt eftir fáránlega pólitík, fáránlega hugmyndafræði.
Þá er spurningin hvort svarið við vondri hugmyndafræði síðustu ára sé engin hugmyndafræði. Er lausnin kannski Sjálfstæðisflokkurinn án fálkans? Eða er lausnin kannski brandari og sprell?
Ég held ekki.
Nú hlýtur að koma sá tími að við öxlum ábyrgð á því að velja hvernig samfélag við viljum byggja eftir að hið meinta velmegunarsamfélag hrundi til grunna. Nú höfum við tækifæri til að kjósa samfélag félagshyggju, jöfnuðar og sjálfbærrar þróunar. Stjórnmálaaflið sem getur leitt slíka uppbyggingu er Vinstri hreyfingin grænt framboð. Það er hreyfingin sem tók ekki þátt í spillingunni og peningaæðinu. Það er hreyfing sem hefur mótað sér skýra hugmyndafræði sem breytist ekki fyrir kosningar og var sú sama bæði fyrir og eftir hrun.
Ábyrgð kjósenda er rík. Munum eftir “fokkjúmerkinu” sem við höfum þegar sent komandi kynslóðum. Hugsum okkur tvisvar um áður en við sendum annað slíkt.
26.05.2010Ein af röksemdunum sem andmælendur vændislaganna notuðu á sínum tíma var að vændi myndi færast neðanjarðar væru kaup á því gerð ólögleg. Með mansalsmálunum tveimur sem komið hafa fram á Íslandi undanfarið og nú þegar reynir á lögin má hins vegar tala um að vændi sé loks að færast ofanjarðar. En kannski vildi aldrei neinn að vændi færðist ofanjarðar, a.m.k. vilja vændiskaupendur það alls ekki og heldur ekki héraðsdómur, sem seilist langt í rökstuðningi sínum fyrir því að hafa þinghaldið yfir fyrstu vændiskaupendunum sem dregnur eru fyrir dóm lokað.
Það verður sífellt augljósara að margir þeirra sem börðust gegn vændislögunum og báru fyrir sig ástúðlegri mannúð gagnvart vændiskonum (eða -körlum) höfðu sennilega hagsmuni einhverra annarra í fyrirrúmi, nefnilega þeirra sem vilja geta keypt sér aðgang að líkama fólks, án þess að nokkur viti. Þannig átti að halda vændiskaupendum neðanjarðar. Og hérðasdómur hjálpar til við það.
26.05.2010Á síðasta kjörtímabili hefur VG meðal annars:
Fengið samþykkt að orkuverð OR verði gert opinbert
Fengið samþykkta hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavíkurborg
Fengið samþykkt rannsókn á stjórnsýslu og stjórnkerfi borgarinnar
Komið í veg fyrir að Orkuveitan lenti í klóm Hannesar og Bjarna
Fengið samþykkt að afnema forréttindi borgarfulltrúa og valinna embættismanna varðandi sumarbústaði
Fengið samþykkt að atvinnulaust fólk fái frítt í sund og á bókasöfn
Spornað gegn því að Björgólfur Thor Björgólfsson eignaðist Hallargarðinn
Fengið samþykkt að barnafólk á fjárhagsaðstoð fái desemberuppbót
Stöðvað einkavæðingu á Droplaugarstöðum
Fengið samþykkta tillögu um árlega borgarafundi með borgarbúum og borgarfulltrúum.
Fengið samþykkt að styrkja Barnverndarnefnd um 3 stöðugildi
Fengið samþykkt að árið 2010 er tileinkað velferð barna
Fengið samþykkt að stofnaður var aðgerðarhópur um velferð barna
Ítrekað fengið samþykkt aukið fjármagn til aðgengismála
Fengið samþykkt að fjölga atvinnutækifærum fyrir ungt fólk með auknu fjármagni
Fengið samþykkt að stofna námskeið í notkun Strætó fyrir börn í 3.-4. bekk
Fengið samþykkt að bæta stöðu utangarðsfólks
Fengið samþykkt að auka táknmálstúlkun á viðburði borgarinnar.
Fengið samþykkta hlutlausa úttekt á kynbundnum launamun í borginni.
Fengið samþykkt að skólamáltíðir séu á sama verði í öllum skólum og að aðeins er greitt fyrir tvö börn.
Endurmetið skipulag á Hólmsheiði í þágu grænna svæða.
Topp 10 atriði sem fara í taugarnar á hræðslukarlrembustéttinni
- Þremur milljónum varið í að kyngreina rannsóknarskýrsluna (með þeim rökum að svarið sé augljóst)
- Bann við nektardansi
- Kona segir frá því að henni hafi þótt áskorun að eignast son
- Bann við kaupum á vændi
- Kynjuð hagstjórn
- Kynjakvótar
- Konur sem taka pláss
- Sóley Tómasdóttir
- Þegar talað er um að karlar nauðgi
- Konur í ábyrgðarstöðum
Topp 10 atriði sem fara ekki í taugaranar á hræðslukarlrembustéttinni
- 200 milljónum varið í að skrifa rannsóknarskýrslu (og svarið var augljóst)
- Allsberar konur til sýnis
- Karl sem vill miklu frekar eignast strák en stelpu
- Konur til sölu
- Að ríkisfé renni til karla
- Að karlar sitji einir að völdum
- Karlar sem taka pláss
- Gilzenegger
- Að konum sé nauðgað nánast daglega á Íslandi
- Karlar í ábyrgðarstöðum
Birtist á Smugunni, 20. maí 2010
Þegar nefnd um erlenda fjárfestingu fjallaði um Magma samningana greiddi fulltrúi VG, sem jafnframt er varaformaður nefndarinnar, atkvæði gegn kaupum skúffufyrirtækisins í HS Orku. Það gerði líka fulltrúi Hreyfingarinnar. Rökin voru einfaldlega þau að gjörningurinn væri ekki hafinn yfir lagalegan vafa og því ætti hagur almennings að ganga fyrir. Skera þyrfti úr um vafaatriðin fyrir dómstólum. Fulltrúar hrunflokkanna – Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Samfylkingar –greiddu hins vegar atkvæði með samningunum. Í þessu samhengi heyrðu Vinstri græn enn einu sinni hótunina um stjórnarslit ef ekki færi allt eftir höfði Samfylkingarinnar.
Forstjóri Magma sagðist í Kastljósviðtali í vikunni hafa fengið misvísandi skilaboð frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Sumir segðu þeim bara að drífa í þessu en aðrir væru á bremsunni. Hann vildi ekki gefa upp hver gaf hvaða skilaboð, enda liggur það svo sem ljóst fyrir. Áberandi hluti Samfylkingarinnar hefur viljað „erlenda fjárfesta“ inn til landsins, sama í hverju þeir hyggjast fjárfesta og með hvaða hætti. 65 ára nýtingarréttur með möguleika á framlengingu, sem kveðið er á um í Magma samningunum, á miklu meira skylt við eignarrétt en nokkuð annað. Það segir sína sögu að þegar lögin sem samningurinn byggir á voru samþykkt, í tíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, þá vildu sum orkufyrirtækin og miklu fremur miða við 100 ára nýtingarrétt, en auðvitað helst engan nýtingarrétt heldur eilífðar framsal auðlindanna. Með Magma samningnum er búið að skuldbinda framtíðarkynslóðir á þann hátt að ekki verður við unað.
Að hvísla stuðningsorðum
Það sem klagar upp á ráðherra og þingmenn Vinstri grænna er að hafa ekki gripið til róttækra aðgerða og komið með tillögur að lagabreytingum sem tækju af allan vafa um að auðlindir Íslendinga á að nýta í þágu almennings, ekki hluthafa í erlendum fyrirtækjum (og heldur ekki innlendum ef út í það er farið). Þarna hefði átt að láta reyna á meirihlutann á þingi og leyfa Samfylkingunni að hafna slíkum lögum opinberlega, væntanlega í samstarfi við Sjálfstæðisflokk og Framsókn. Þess í stað hvísla ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar stuðningsorðum í eyra forstjórans þannig að enginn sér til eða heyrir og kjörnir fulltrúar VG sitja eftir með óbragð í munni. Það er einfaldlega lýðræðislegra að taka mikilvæg mál til atkvæðagreiðslu og aðeins þannig geta kjósendur raunverulega vitað hvað þeir kjósa. Ríkisstjórnarflokkar þurfa ekki að vera sammála um öll mál og ósamstaða á ekki að leiða sjálfkrafa til stjórnarslita. Slíkt tal byggir á orðræðu leiðtogadýrkendanna sem héldu alltof lengi um stjórnartaumana á Íslandi.
Sjálfstæðisflokkurinn: Potturinn og pannan
Að þessu sögðu þá má ekki gleyma því hvaðan þessir samningar eru upprunnir. Sjálfstæðisflokkurinn hóf vegferðina þegar hann stýrði landsmálunum. Sjálfstæðisflokkurinn kom sölusamningi í gegnum borgarstjórn Reykjavíkur og Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ stóð að sölu hlutar bæjarins í HS Orku. Borgarfulltrúar VG, Sóley Tómasdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson, stóðu einörð gegn sölu (eða öllu heldur gjöf) á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku til Magma. Það gerði líka Samfylkingin en þó ekki á sömu forsendum því Vinstri græn áréttuðu ítrekað þá grundvallarafstöðu að orkufyrirtæki og orkuauðlindir eigi undantekningalaust að vera í almannaeigu. En Sjálfstæðisflokkur, með liðsinni Framsóknar, keyrði málið í gegn, alveg eins og flokkurinn ætluði svo eftirminnilega að keyra REI málið í gegn og alveg eins og flokkurinn hefur viljað einkavæða allt sem almenning skiptir máli. Eftir stendur íslenska þjóðin, fátækari í dag en í gær.
Hrunhugmyndafræðin lifir enn góðu lífi, þrátt fyrir hræðilegar afleiðingar. Eftir 9 daga verður gengið til sveitarstjórnarkosninga. Þá er mikilvægt að muna fyrir hvað hinir ólíku stjórnmálaflokkar standa. Leiðum ekki fylgjendur hrunhugmyndafræðinnar enn á ný til valda. Það er of dýrkeypt.
13.05.2010
Já er það Halla?
Já.
Sæl, ég er að hringja frá Mastercard og er að kynna nýtt kreditkort sem við erum með.
Sæl.
Kortinu fylgja alls konar fríðindi og afsláttur hjá fjölda fyrirtækja. Þetta gæti sparað þér tug- og jafnvel hundruð þúsund á ári. Í fyrsta lagi mætti nefna færslugjöldin sem þú borgar þegar þú notar debetkortið þitt.
Ég nota hraðbanka, það kostar ekkert.
Já ókei, flott hjá þér, ég nenni því aldrei, en við erum með fyrirframgreitt kort sem er rosa sniðugt ef þú vilt ekki vera með kreditkort en vilt samt t.d. geta keypt flug á Netinu og svona.
Já, ég er með fyrirframgreitt kort.
Nú, ókei, en með þessu korti færðu afslátt, t.d. 2 fyrir 1 út að borða og 2 fyrir 1 í sund.
Ég fæ fínan afslátt í sund með kortinu sem ég er með og alls konar tilboð í hverjum mánuði. Og ég veit ekki betur en að ég sé með þetta kort hjá ykkur, hver er munurinn á því og þessu sem þú ert að kynna?
Já, sko, bíddu aðeins, jú, það er ekkert kort sem veitir svona svakalega fínan afslátt eins og þetta nýja kort. Eitt t.d. áttu bíl?
Nei.
Nú, þú ert bara alveg fyrirmyndarmanneskja.
Ekki fyrir fólk sem vill selja mér eitthvað.
Bleeeessssss
04.05.2010Birtist á Smugunni
4. maí 2010
Orkumálastjóri sagði á kynningarfundi um Rammaáætlun nýverið að klofning í litlum sveitarfélögum vegna virkjanaframkvæmda mætti rekja til þess að það væri alltaf „einhver minnihluti“ sem vildi ekki sætta sig við meirihlutalýðræðið. Því miður gafst ekki tóm til að ræða þetta nánar.
Frétt sem birtist á blaðsíðu 8 í Fréttablaðinu í dag segir allt sem segja þarf. Þar kemur fram að sveitarstjórn Flóahrepps hafi, korteri fyrir kosningar, skuldbundið bæjarfélagið til að greiða allt að 300 milljónum króna fyrir vatnsveitu verði Urriðafossvirkjun ekki sett á aðalskipulag hreppsins. Þetta er í kringum hálfmilljón króna á hvern íbúa sveitarfélagsins.
Þessi samþykkt kemur í beinu framhaldi af því að hópur fólks kom saman framboði sem hefur það að meginstefnumáli sínu að vinna gegn virkjunaráformum í neðrihluta Þjórsár. Við slíkt framboð verður auðvitað ekki unað og þá er fátt annað í stöðunni en að kaupa kosningarnar.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Landsvirkjun sendir „asna klyfjaða gulli að þeim borgarmúrum sem ekki falla við fyrsta högg“, eins og Mörður Árnason hefur orðað það. Orkumálastjóri getur ekki kallað slík vinnubrögð lýðræðisleg. Hann þarf að útskýra mál sitt betur.