18.11.2009

Thad er svo merkilegt hversu fljott er haegt ad venjast thvi ad maeta beljum uti a gotu. Og hversu litill soknudur er af malbiki en mikill af manns eigins klosetti. Hversu godur matur getur verid en hversu vondur hann verdur eftir magaveiki.

Eg er buin ad profa indverska heilbrigdiskerfid. Eg get ekki sagt eg hafi verid med ollum fimm thegar eg var send i blodprufu en thott allt gerdist hratt horfdi eg grannt a sprautunalina. Sa hun var hrein og tha andadi eg lettar. Setti mig i hendur heilbrigdisstarfsfolksins.

Heilsan er betri og tha verdur allt lettara.

Eg var buin ad bua mig svo rosalegt areiti a Indlandi ad mer hefur thott stemmningin hin vingjarnlegasta. Alls konar folk, alls konar lykt, alls konar litir.

Og alveg rosalegur lettir yfir ad komast adeins burt.

Fyrir Atlasnordana tha forum vid fra Delhi til Agra (ad skoda Taj Mahal), thadan i Ranthambore thjodgardinn (ad skoda tigrisdyr sem foldu sig) og thadan til Pushkar. Thad er draumastadur fyrir bakpokaferdalanga. Allt til alls, endalaust haegt ad kaupa af litrikum fotum og alls konar glingri sem er bara smart a ferdalogum.

Meira sidar.

06.11.2009

Birtist í Fréttablaðinu 6. nóvember 2009

Það hlýtur að teljast sérstakt að á sama tíma og Íslendingar ganga í gegnum djúpa kreppu skuli forystumenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands tala einum rómi í mörgum mikilvægustu málum í þjóðfélagsumræðunni. Svo er komið að í fréttum þarf oft ekki nema eina samhljóða fyrirsögn og síðan er hægt að skrifa fréttina með endurtekningunni: „Vilhjálmur Egilsson og Gylfi Arnbjörnsson segja …”. Hnífurinn gengur ekki milli þeirra.

Þannig verður smám saman aðeins eitt sjónarmið ráðandi um hvernig skuli haga málum í þeirri uppbyggingu sem framundan er á Íslandi og þessi háværa rödd kallar stöðugt á endurreisn atvinnulífsins. Í hugtakinu endurreisn felst auðvitað að byggja aftur upp það sem hrundi – í sömu mynd og það var. Og þannig komast menn upp með að tönnlast á orðinu atvinnulíf en vísa aðeins til örfárra starfsgreina sem snerta allar meira eða minna verklegar framkvæmdir. Halda mætti að til að atvinnulíf geti kallast atvinnulíf þurfi það að skilja eitthvað áþreifanlegt eftir sig eins og virkjun, hús, álver, brú eða jarðgöng.  Atvinnulíf er ekki  að hugsa vel um sjúka eða aldraða eða að kenna börnum að teikna eða hugsa á gagnrýninn hátt. Nei, einhvern veginn hefur því verið komið inn að eina raunverulega verðmætasköpunin sé í formi steypu og það þrátt fyrir að á landinu sé allt fullt af steypu fyrir.

Tónlistarnám eða flísar?

Skoðum smærra dæmi og snúum þessu upp á venjulega fjölskyldu. Einstæð móðir hefur náð að skrapa saman í lítinn sjóð og þarf á krepputímum að ákveða í hvað hún nýtir peninginn. Hún getur valið um að flísaleggja baðherbergið eða að senda sjö ára gamla tvíbura sína í tónlistarnám. Móðirin gerir ráð fyrir að ná að safna í sambærilegan sjóð á fimm árum. Þá kemur að forgangsröðuninni: Hvort má bíða, flísarnar eða tónlistartímarnir? Gagnsemi tónlistarnáms fyrir 12 ára gamalt barn er vissulega ekki sú sama og fyrir sjö ára gamalt barn. Flísar á baðherbergjum í nokkur ár til eða frá breyta hins vegar kannski ekki öllu máli og sennilega myndu flestar fjölskyldur láta tónlistartímana ganga fyrir og fresta baðherbergisframkvæmdunum.

En þegar kemur að fjármálum ríkis og sveitarfélaga horfir málið allt öðruvísi við. Þá stendur krafan á að skorið sé niður allt það sem máli skiptir en á sama tíma á að halda í horfinu fjárframlögum til framkvæmda, ef ekki auka þau. Senda á sjúkraliða, skólaliða, kennara og fólk í almennum umönnunarstörfum heim en byggingaverktakana og iðnaðarmennina aftur út á vinnumarkaðinn. Tilgangurinn helgar meðalið og hann er sá að byggingargeirinn og uppgangur stóriðjunnar séu eins og fyrir hrun.

Með þessum rökum þykir réttlætanlegt að byggja nýtt hús fyrir Landspítalann en alls ekki réttlætanlegt að nota peninga í rekstur starfseminnar. Vissulega er úrbóta þörf varðandi húsnæðiskost Landspítalans. Það breytir þó ekki því að þjónustan skiptir fólk sem á henni þarf að halda margfalt meira máli en umbúðirnar. Til að reisa nýja spítalabyggingu á að taka lán hjá lífeyrissjóðunum en þar sem ríkið má ekki skuldsetja sig meira á að fela skuldirnar með því að notast við svonefnda einkaframkvæmd. En hvað þýðir það? Jú, ríkið skuldbindur sig til að borga áratugi fram í tímann. Eitthvert fyrirtæki tekur hins vegar lánið og sér um framkvæmdina. Enn á ný: Einkaaðilar græða, almenningur á að borga.

Tvöföld skuldabyrði

Með þessu er jafnframt verið að skuldsetja komandi kynslóðir og láta þær þannig bjarga okkur út úr efnahagskreppunni. En ekki nóg um það heldur vörpum við líka byrðum yfir á komandi kynslóðir með niðurskurði í velferðarkerfinu. Þær þurfa að bera kostnaðinn af þeim skaða sem hlýst af því að börnum sé fjölgað í kennslustofum, sjúkum hent fyrr út en áður, verr búið að öryrkjum og svo framvegis. Skuldabyrði komandi kynslóða verður því tvöföld.

Er ekki komin tími til að hugsa hlutina upp á nýtt?

Hvernig væri að lánsfé frá lífeyrissjóðunum færi inn í það mikilvægasta og dýrmætasta sem við Íslendingar eigum: Velferðarkerfið? Reikningsdæmið þarf ekki að vera flókið. Til eru ótal útreikningar á þeim sparnaði sem hlýst hjá hinu opinbera ef vel er haldið utan um málefni þeirra sem á velferðarþjónustu þurfa að halda. Að sama skapi er vel hægt að reikna út hagnað af ýmis konar forvarnarverkefnum, sem nú er ekki til fé í. Þannig má á einfaldan og gagnsæan hátt útbúa nokkurs konar leigusamning við lífeyrissjóðina þar sem ríkið skuldbindur sig til að greiða til baka það sem annars hefði orðið að kostnaði, t.d. við að skerða geðheilbrigðisþjónustu eða að sinna ekki vel ungum börnum í námi.

Með þessu móti má á einfaldan hátt komast hjá því að varpa tvöfaldri skuldabyrði yfir á komandi kynslóðir. Stjórnmál snúast öðru fremur um forgangsröðun og nú reynir verulega á hana. Hugsum hlutina til enda. Þannig mótum við Ísland upp á nýtt.

05.11.2009

Staðan á íslenskum fjölmiðlum fer versnandi dag frá degi. Fyrir margt Morgunblaðsfólk, núverandi og fyrrverandi, hefur verið sárt að fylgjast með þeim breytingum sem þar hafa átt sér stað. Að sama skapi er furðulegt það starfsmannaflæði sem hefur átt sér stað milli Morgunblaðsins og Viðskiptablaðsins. Að þeim drengjum sem af Mogganum fóru og yfir á Viðskiptablaðið ólöstuðum þá hlýtur að teljast ótrúleg ákvörðun af hálfu stjórnenda blaðsins að láta Örnu Schram, fyrrum formann blaðamannafélagsins og einn reynslumesta stjórnmálablaðamann landsins, fara til að rýma fyrir nýju piltunum. Á Morgunblaðið er síðan allt í einu ráðið fólk, þrátt fyrir að þar hafi reynslumiklum og góðum blaðamönnum nýlega verið sagt upp. Það þarf ekki mikinn sérfræðing til að átta sig á hvar úr pólitíska litrófinu nýliðarnir koma.

Staða kvenna á íslenskum fjölmiðlum er síðan áhyggjuefni út af fyrir sig. Nýliðarnir á Mogganum eru karlar og karlkyns yfirmönnum þar hefur verið fjölgað um tvo eftir að konur hurfu úr starfi. Ekki eru mörg ár síðan ég byrjaði í blaðamennsku en stór hluti þeirra öflugu blaðakvenna sem voru mínar fyrirmyndir og annarra hafa annað hvort verið reknar eða þær gefist upp á starfsumhverfinu þar sem ungum strákum er stöðugt hampað með stöðu- og launahækkunum eða þeir keyptir milli miðla á meðan konurnar sitja eftir. Þetta er ekki bara alvarlegt, þetta er óþolandi.

Staðan á íslenskum fjölmiðlum er ógn við tjáningarfrelsið og hún hlýtur að vekja alla blaðamenn til umhugsunar, sama á hvaða miðli þeir starfa. Eigendur og stjórnendur fjölmiðla verða að taka sig saman. Hlutverk þeirra er þýðingarmeira en svo að þeir geti látið stjórnast af pólitískum stundarhagsmunum.

04.11.2009

Stundum þarf ekki að taka stór skref til að gera veigamiklar breytingar. Ný reglugerð heilbrigðisráðherra er dæmi um það en með henni er fórnarlömbum mansals tryggður ótvíræður réttur til heilbrigðisþjónustu  á Íslandi. Mansalsmálið sem hefur hlotið mikla athygli hér á landi og er til rannsóknar hjá lögreglu er ekki fyrsta mál sinnar tegundar á Íslandi. Þvert á móti þá er þetta aðeins í fyrsta sinn sem slíkt mál er tekið alvarlega og til rannsóknar.  Í því sambandi á lögreglan á Suðurnesjum hrós skilið og þetta er vonandi vísbending um að vinnubrögð þau að láta rannsókn svona alvarlegra mála alltaf falla niður að óreyndu, vegna þess að séu erfið viðfangs, heyri sögunni til.

Samkvæmt skýrslu sem Fríða Rós Valdimarsdóttir, mannfræðingur, vann fyrir Rauða krossinn eru fórnarlömb mansals á Íslandi síðustu þrjú árin að minnsta kosti 59 og allt að 128. Þetta eru háar tölur. Ísland er því ekki aðeins gegnumstreymisland heldur líka móttökuland en það hafa samtök á borð við Stígamót bent á árum saman. Það er löngu kominn tími til að Íslendingar átti sig á þessum kalda veruleika og geri allt sem í þeirra valdi stendur til að uppræta mansal og bjarga því fólk sem er selt nauðugt viljugt milli landa, hvort sem það er selt til Íslands eða fer í gengum Ísland.

Það þarf að finna konurnar sem eru nú þegar á Íslandi í kynlífsþrælkun og koma lögum á þá sem mynda eftirspurnina og eru milliliðir. Í þessu sambandi eiga stjórnvöld að komi allri mansalsáætlun sinni tafarlaust til framkvæmda. Þetta má ekki bíða.

02.11.2009

Reykjavík, 29. október 2009.
Hr. Dominique Strauss Khan
framkvæmdastjóri
Alþjóðagjaldeyrisjóðurinn
Washington, D.C., 20431
U.S.A.

Ágæti Strauss Kahn:

Íslenska þjóðin stendur nú frammi fyrir miklum erfiðleikum. Þeir erfiðleikar orsakast að hluta til vegna alheimskreppunnar. Ástæðan fyrir stærð vandamálsins á Íslandi er sú að íslenskir bankar, sem voru einkavæddir m.a. í samrými við stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins snemma á þessari öld, tefldu allt of djarft. Mjög ámælisvert er að þessi þróun hafi átt sér stað án þess að íslensk stjórnvöld hafi gripið í taumana. Í kjölfar bankahrunsins leituðu íslensk stjórnvöld til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um aðstoð í október 2008.

Við, undirrituð, teljum vafa undirorpið að sú samvinna sem Ísland hefur tekið upp við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé íslenskri þjóð til hagsbóta og viljum fá úr því skorið. Það er að renna upp fyrir okkur að stefna sjóðsins er öðru fremur að skuldsetja íslensku þjóðina til að gæta hagsmuna fjármagnseigenda. Ábyrgð Íslendinga er mikil og það er okkar að koma í veg fyrir að komandi kynslóðir verði skuldsettar með þeim hætti að þær geti ekki staðið í skilum. Sem almennir borgarar á Íslandi förum við fram á skýr svör.

Skoðanakannanir sýna að meirihluti íslensku þjóðarinnar er andvígur frekara samstarfi við AGS. Þarna vegur þyngst sú staðreynd að AGS stillti íslenskum stjórnvöldum upp við vegg í Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga. Það er óásættanlegt að alþjóðastofnun hagi sér á slíkan hátt, enda hefur þetta rúið sjóðinn því trausti sem hann hafði á Íslandi.

Þar sem hagsmunir heillar þjóðar og afkomenda okkar eru í húfi, förum við hér með fram á fund með þér, framkvæmdastjóra sjóðsins. Við viljum ræða við þig efnahagsáætlun AGS og fá skýringar á einstökum þáttum hennar. Við munum leggja fram rökstudda gagnrýni byggða á opinberum gögnum. Fundurinn getur farið fram í Reykjavík eða Washington eða annars staðar ef það hentar. Afar brýnt er að fundurinn fari fram sem allra fyrst og eigi síðar en 15. desember 2009.

Við, sem undir þetta bréf ritum, erum almennir borgarar á Íslandi. Við erum á öllum aldri, af báðum kynjum og styðjum mismunandi stjórnmálaflokka. Eftir efnahagshrunið sem varð sl. haust stóðum við fyrir opnum borgarafundum þar sem ráðherrar og þingmenn hafa mætt og svarað spurningum almennings milliliðalaust. Við teljum það heiður fyrir þig, framkvæmdastjóra AGS, að feta í fótspor fulltrúa elsta þjóðþings veraldar, Alþingis, og eiga með okkur opinn og heiðarlegan fund.

Agnar Kr. Þorsteinsson, sérfræðingur í tölvuþjónustu atvinnulaus
Ásta Hafberg, verkefnastjóri Markaðsstofu Austurlands
Elías Pétursson, framkvæmdastjóri
Einar Már Guðmundsson, rithöfundur
Guðmundur Andri Skúlason, vélstjóri
Gunnar Skúli Ármannsson, læknir
Gunnar Sigurðsson, leikstjóri
Halla Gunnarsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur
Haraldur L. Haraldsson, hagfræðingur
Heiða B. Heiðarsdóttir
Helga Þórðardóttir, kennari
Herbert Sveinbjörnsson, kvikmyndargerðarmaður
Lára Hanna Einarsdóttir, þýðandi og leiðsögumaður
Lilja Mósesdóttir, alþingismaður
Ólafur Arnarson, rithöfundur og Pressupenni