Erlendir glæpahringir eru nú tíðræddir eftir að lögreglan hóf rannsókn á ljótu mansalsmáli og í framhaldinu umfangsmikilli glæpastarfsemi sem teygir anga sína víða. Lögreglan hefur með höndum viðamikið og erfitt verkefni við að koma þeim sem að glæpastarfseminni standa bak við lás og slá. Staðreyndin er hins vegar sú að erlendir glæpahringir starfa ekki í tómarúmi. Þeirra starfsemi gengur öðru fremur út á að komast yfir fé með hvaða hætti sem er og til þess þarf að vera eftirspurn eftir „þjónustu” glæpahringja.
Og þá vaknar spurningin: Hvaðan kemur eftirspurnin?
Íslendingar þurfa að horfast í augu við að hér á landi er eftirspurn stúlkum sem seldar hafa verið milli landa og beittar hræðilegu ofbeldi. Sú eftirspurn kemur líka frá íslenskum körlum. Hér á landi er einnig eftirspurn eftir handrukkurum sem svífast einskis og eftir glæpamönnum sem taka að sér íkveikjur.
Baráttan gegn erlendum glæpahringjum snýst þess vegna bæði um að koma glæpamönnum bak við lás og slá og við að uppræta eftirspurnina eftir verkum þessara manna. Það er nefnilega ólöglegt að ráða sér handrukkara, fá aðstoð við tryggingasvik og að kaupa vændi. Hið síðasta er blessunarlega orðið ólöglegt en það gerðist ekki fyrr en eftir tíu ára baráttu og eftir að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar tók við völdum.
23.10.2009Að gefnu tilefni er rétt að benda á að ræða félagsmálaráðherra frá þingi ASÍ í gær er aðgengileg í heild sinni á heimasíðu ráðuneytisins. Sú miklar gagnrýni sem orð hans hafa fengið minna okkur á muninn á hægri og vinstri en hann snýst öðru fremur um forgangsröðun. Á meðan öryrkjar og aldraðir taka á sig skerðingar, sjúklingar aukna greiðslubyrði, börn fá minni kennslu, fólk missir vinnuna og lækkar í launum og svo framvegis þá þverneitar stóriðjan að taka á sig nokkrar byrðar og sama má segja um sjávarútveginn, sem þó hagnast á lágu gengi krónunnar. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn taka undir kröfur um að byrðarnar leggist á alla aðra en þá sem raunverulega eru aflögufærir og fyrrnefndi flokkurinn heldur því ennþá fram að hægt sé að sleppa öllum skattahækkunum og skera bara meira niður, væntanlega hjá börnunum, öryrkjunum og sjúklingunum.
Hvernig væri að hugsa hlutina upp á nýtt? Hvernig væri að endurreisa ekki gærdaginn, eins og félagsmálaráðherra komst að orði? Hvernig væri það?
21.10.2009Birtist á Smugunni 21. október 2009
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, bar sig illa í viðtali við Fréttablaðið í gær sem slegið er upp á forsíðu. Þar kvartar hann yfir því að ríkið ætli ekki umhugsunarlaust að borga framkvæmdir við höfn fyrir álverið í Helguvík. Nú má minna á að enn hefur ekki verið tryggt fjármagn til að byggja álverið og ekki er til orka til að knýja það áfram. En það skiptir ekki máli þar syðra. Álver skal rísa og fyrir það þarf stærðarinnar höfn. Reykjanesbær, segir Árni, getur ekki borgað höfnina einn, af því að þar eru svo lágir skattar. Framkvæmdin kostar ekki nema litla tvo milljarða og Árni segist hafa haft „vilyrði” frá forsvarsmönnum nokkurra ríkisstjórna fyrir að ríkið léti allt að milljarð af hendi. Fréttablaðið hefði kannski getað spurt Árna hvernig vilyrði lá fyrir. Eru til undirrituð plögg eða sagði Árni við Árna í kokteilboði að auðvitað myndi ríkið borga? Ríkið var svo ríkt og allt fyrir álið.
En hvert er samhengið þegar fjallað er um tvo milljarða sem Árni vill að hið opinbera noti í álvershafnarbyggingu? Jú, það er eftirfarandi:
- Rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja kostar innan við tvo milljarða á ári (tæplega 1,7 milljarðar skv. fjárlagafrumvarpi fyrir 2010).
- Reka má Menntaskólann í Hamrahlíð í þrjú ár fyrir tvo milljarða og það sama má segja um SÁÁ.
- Tveir milljarðar eru talsvert meira en Íslendingar nota til þróunarsamvinnu (1380 milljónir á næsta ári miðað við fjárlagafrumvarp).
- Á næsta ári er gert ráð fyrir að verja 375 milljónum í að rannsaka bankahrunið, það er til sérstaks saksóknara, Evu Joly og rannsóknarnefndar Alþingis.
- Niðurskurður innan Landspítalans af svipaðri stærðargráðu og álvershöfnin myndi kosta þýðir að hundruð manna gætu misst vinnuna.
Þetta er nefnilega samhengið og eftir allt snýst pólitík um grundvallarspurningar. Á að byggja höfn fyrir álver eða halda úti heilbrigðisþjónustu? Á að byggja höfn eða reka skóla? Á að byggja höfn eða rannsaka bankahrunið? Og þar erum Árni og ég ekki sammála.
20.10.2009Dæmalaus pistill Hermanns Guðmundssonar, forstjóra N1, hefur vakið mikla athygli en þar ber hann blak af þeim brotum sem Baldur Guðlaugsson, núverandi ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu og fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, er sakaður um. Hermann telur það sjálfsagðan rétt hvers manns að verja sig og fjölskyldu sína fyrir stóráföllum. Þurfi hann að fremja lögbrot eins og það að misnota innherjaupplýsingar þá sé það allt í lagi. Hermann lítur á Baldur sem fórnarlamb ófullkomins kerfis.
Þetta mætti hæglega færa upp á aðra glæpastarfsemi. Kona sem getur ekki borgað af íbúðinni sinni af því að mánaðargreiðslur hafa rokið upp úr öllu valdi hlýtur þá að mega ræna búð allt að því mánaðarlega til að bjarga sér fyrir horn. Karl sem ekki getur gefð börnunum sínum að borða vegna þess að örorkubæturnar hans hafa lækkað hlýtur að mega selja fíkniefni, nú já eða útlenskar konur í kynlífsþrælkun. Þau eru bara að reyna að bjarga fjölskyldunni sinni. Eða hvað? Eiga kannski önnur lögmál við um hvítflibbana? Mega þeir brjóta lög til að halda stöðu sinni í samfélaginu, fjárhagslegri og samfélagslegri?
En Hermann er líka með lausnina: “Málið sýnir að afar óheppilegt er að háttsettir starfsmenn ríkisins séu almennir fjárfestar í íslensku atvinnulífi. Hugsanlega væri skynsamlegt sé að bjóða slíkum aðilum að leggja frekar sitt sparifé inná vaxtareikning hjá Seðlabanka Íslands sem tryggði ávöxtun markaðarins án þess að kaupa verðbréf.”
Bíddu nú við, á að gefa út ríkisábyrgð á sparifé háttsettra ríkisstarfsmanna þar sem þeir fá betri og öruggari kjör en gengur og gerist? Betri af því að kjörin vill Hermann miða við markaðinn en ekki venjulega innlánsvexti sem flestir landsmenn þekkja og öruggari því að þeir geta þá ekki tapað peningunum.
Þessi sjónarmið lýsa því enn á ný hvað viðskiptalífið (og stjórnsýslan að hluta til) var orðið veruleikafirrt. Þar trúa menn því að um þá eigi að gilda sérstakar reglur af því að þeir séu svo frábærir og æðislegir og góðir fyrir land og þjóð. Þeir eiga að fá svimandi laun, og þá ekki bara tvöföld eða þreföld laun manneskjunnar á gólfinu, nei 10föld, 20föld, helst hundraðföld. Ábyrgðin er svo mikil. En ábyrgðina mega samt aðrir axla. Og það gerum við hin núna
19.10.2009Þegar ég vann sem þingfréttaritari hlustaði ég alltaf með athygli á nýja þingmenn flytja jómfrúarræður sínar. Það var eitthvað hátíðlegt við það að fylgjast með fólki stíga sín fyrstu skref í ræðustóli, oft dálítið stressað, og mjög oft með miklu betur undirbúnar ræður heldur en almennt heyrðust á þingi. En það er önnur saga.
Þeir þingmenn sem í salnum sátu fylgdust líka vel með þessum fyrstu ræðum og ákveðin virðing var borin fyrir því að þarna væri nýr þingmaður sem þyrfti dálítið andrými til að koma sér áfallalaust frá sinni fyrstu tilraun, jafnvel þótt hann væri að mati sumra þingmanna í salnum að fara með hið heimskulegasta mál. Þannig man ég ekki til þess að kallað hafi verið fram í fyrir þingmanni sem var að flytja sína fyrstu ræðu.
Síðustu mánuði hef ég ekki getað fylgst jafn vel með jómfrúarræðum og ég gerði sem þingfréttaritari og vel má vera að þarna hafi orðið einhver kúltúrbreyting. Jómfrúarræðu dagsins fylgdist ég hins vegar vel með (enda stendur flutningsmaður mér nærri). Það kom mér satt að segja talsvert á óvart hversu mikið var um frammíköll undir ræðu nýliðans. Einhvern veginn hélt ég að það væri sjálfsögð kurteisi að leyfa fólki að flytja sínar fyrstu ræður óáreitt, þótt sjónarmiðum geti verið svarað skýrt í andsvörum eða næstu ræðum. Kannski heyrir sú tillitsemi sögunni til?
19.10.2009Árið 2006 lagði ég land undir fót og flutti mitt hafurtask til Sydney til að vera í nokkra mánuði við nám. Ég þóttist sjóuð í langferðum en mig hefði aldrei grunað hversu erfitt getur verið að fljúga yfir á hinn helming hnattarins og lenda þar tveimur dögum eftir að lagt var af stað. Ég var því ansi ringluð þegar ég vaknaði fyrsta morguninn á gistiheimili sem kirkjan í hverfinu rak og nýmenum frá útlöndum var plantað á meðan þeir leituðu sér að varanlegu húsnæði. Fyrsta manneskjan sem ég hitti var vingjarnlegur skoskur strákur sem sagðist heita Andy. Hann var nokkrum árum yngri og í ljós kom að hann hafði aldrei smakkað mat sem ekki var annað hvort skoskur eða dæmigerður skyndibiti. Strax á fyrsta degi gat ég kynnt hann fyrir undrum asískrar matargerðar og á meðan talaði hann um djúpsteikt marssúkkulaði.
Þennan sama dag slóst í för með okkur mexíkósk stelpa að nafni Íris. Hún hafði takmarkaðan orðaforða í ensku en talaði engu að síður mjög mikið og oft varð útkoman fyndin. Einhvern tímann sagði hún “fokkjú” ítrekað við Andy, sem varð orðinn ansi móðgaður þegar kom í ljós að Íris var að reyna að segja “focus”.
Ég kunni vel við Írisi strax frá upphafi. Hún var lífsglöð, fyndin og klár. Hún skammaði mig þegar ég talaði um “american people” með vísan til Bandaríkjamanna. “Ég er frá Ameríku,” sagði hún ákveðin og allar götur síðan þá hef ég vandað mig mjög við að kenna Bandaríkjamenn bara við Bandaríkin, þótt það geti hljómað ankannanlega á ensku.
Á öðrum degi í Ástralíu kynntist ég Nityu. Hún var í sameiginlega eldhúsinu á gistiheimlinu að borða indverskan mat. 24 ára gömul með svo skemmtilega kaldhæðinn glampa í augunum. Í ljós kom að hún kunni ekkert að elda og mamma hennar hafði sent hana með tilbúinn mat að heimann sem hún geymdi í frystinum og kom henni að gagni fyrstu dagana. Með tímanum lærði Nitya þó að elda og varð hinn besti kokkur. Ég bauð henni líka einu sinni í indverskan kvöldverð og montaði mig af að hafa farið á matreiðslunámskeið. Hún borðaði matinn með bestu lyst og sagði: “Þetta er mjög gott en ég hef aldrei bragðað neitt þessu líkt.”
Þegar ég kynntist Nityu skildi ég tal um að hægt sé að eiga sálufélaga úr allt öðrum menningarheimi. Við náðum vel saman og margar ógöngur sem við höfðum ratað í voru svipaðar. Það var gaman að fylgjast með Nityu fóta sig í nýjum heimi. Hún hafði raunar aldrei staðið á eigin fótum og alls ekki vön sama frjálsræði og ég. Ég hvatti hana áfram til að gera það sem hún vildi en hún hikaði oft og talaði um að hún gæti ekki logið að foreldrum sínum. Pabbi hennar hringdi reglulega og spurði hvað hún hefði gert þann og þann daginn.
Nitya var hrædd við að labba ein heim á kvöldin og ég fylgdi henni oft heim. Með í för var oftast Otur, hundurinn sem ég bjó með, risastór og mjög skemmtilegur. Hann hlýddi mér alltaf, nema ef hann sá kanínu, þá lyftust eyrun og hann hljóp af stað. Nitya bjó í hálftíma göngufjarlægð frá mér og þegar ég hugsa til Ástralíu þá get ég gengið þessa leið í huganum. Man hverja tröppu, hvern runna, lélega ljósastaura.
Nitya kynnti mig fyrir indverskum vinum sínum, við fórum saman í bíó og í bíltúr út á land. Ég kenndi henni að fara á barinn en um leið og við komum inn og ég rétti henni bjór sagði hún: “So, what do we do now?” Ég sagði henni að slappa af og njóta lífsins en hún náði einhvern veginn aldrei tökum á þessari afþreyingu. Fannst hálffurðulegt að drekka dýra drykki og horfa á annað fólk í billiard.
Nitya var að læra skapandi skrif og reglulega fékk hún þá flugu í hausinn að í raun og veru ætti hún að vera að í MBA námi. Ég spurði alltaf hvers vegna og svarið var yfirleitt byggt á þeim mikla þrýstingi sem Indverjar af milli og efri stéttum búa við: Þeir eiga að “verða eitthvað”. Og vandi Nityu var sá að hún var enn ógift og leiðin sem hún sá út gagnvart fjölskyldu sinni var að “verða eitthvað” rosalega merkilegt. Ég reyndi alltaf að tala Nityu ofan af því að elta hugmyndir annarra um hvað hún ætti að vera og gera. En ég skildi líka að veruleiki hennar var allt annar en minn.
Nitya er af ágætlega stæðu fólki, annars hefði hún aldrei getað verið í Ástralíu. Það er Íris líka og ef ég man rétt þá varð pabbi hennar efnaður af því að selja Nike skó. Þær þekkja stéttskiptingu en þær þekkja líka tilfinninguna að koma í annan heim þar sem uppruni þeirra er allt í einu talinn þeim til minnkunar. Í gegnum þær fékk ég smjörþefinn af því.
Ég og Íris vörðum minni tíma saman en við Nitya og að stóru leyti má klaga það upp á mig. Ég var langþreytt og löt og nennti ekki út á lífið með Írisi og hinum skiptinemunum. Frekar vildi ég drekka te með Nityu og slappa af heima. En við Íris spiluðum fótbolta saman og borðuðum stundum kvöldmat og þegar ég flutti heim frá Ástralíu hélt hún mexíkóskt kveðjupartí mér til heiðurs. Þegar ég kvaddi hana var ég einhvern veginn viss um að ég sæi hana aftur. Það sama mátti segja um Nityu sem hjálpaði mér að bera ferðatöskurnar út í leigubílinn. Hún átti eftir að vera í Ástralíu eitt misseri til og mánuðina eftir að ég kom heim vorum við í reglulegu sambandi. Smám saman minnkaði sambandið en stundum átti hún það til í að hringja og spyrja hvernig ég hefði það. Þá talaði ég við hana í fimm mínútur en um hana í klukkutíma á eftir ef einhver var til að hlusta.
Þau sem hafa nennt að lesa blaðrið í mér alla leið hingað eru kannski farin að halda að þetta sé minningargrein um Indverja og Mexíkóa. Sem betur fer er tilefnið gleðilegra. Ég er nefnilega að skoða möguleika á að leggja land undir fót og heimsækja Nepal og Indland nú fljótlega og mér voru að berast þær skemmtilegu fréttir að Íris verður í Delhi í lok nóvembermánaðar. Þar gætum við hist allar þrjár, sem kynntumst á miðjum áströlskum vetri í júlí 2006. Og satt að segja þá get ég varla beðið.
17.10.2009Efnahagstillögur Sjálfstæðisflokks eru áhugaverð lesning. Á tímum sem þessum er vissulega gott að fá sem flestar hugmyndir fram til að ræða stefnuna sem taka skal. Þannig hafa skapast fínar umræður um tillögur sjálfstæðismanna um skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna og auðvelt er að taka undir þá áherslu í efnahagstillögunum að ekki eigi að skera flatt niður (eins og Sjálfstæðismenn reyndar gerðu) heldur forgangsraða þannig að mikilvæg þjónusta skerðist sem minnst. Þetta er umræða sem þarf að fara fram í samfélaginu því að verði stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fylgt eftir er ljóst að ekki verður hægt að halda úti öllum þeim verkefnum sem ríkið sinnir. Þá þarf að velta upp ýmsum viðkvæmum spurningum um hvaða verkefni á að leggja niður og hverju á að halda áfram. Á ríkið t.d. að styrkja einkaháskóla og opinbera háskóla jafnt? Á að beina fjármagni inn í opinberar heilbrigðisstofnanir eða einkareknar? Á að halda úti skógræktarverkefnum? Hversu miklu fé er réttlætanlegt að verja til stjórnmálaflokka? Svona má spyrja áfram. Umræðan verður sársaukafull, en nauðsynleg.
En í efnahagstillögum sjálfstæðismanna kemur fram áhugaverð forgangsröðun. Samkvæmt þeim á að skera meira niður í ríkisrekstrinum en þegar er áætlað en alls ekki má skera niður útgjöld til framkvæmda. Áherslur sjálfstæðismanna á að minnka eigi umsvif ríkisreksturs ná nefnilega til stjórnsýslunnar og velferðarkerfisins en mega alls ekki ná til allra vafasömu samninganna þar sem ríkinu er gert að borga eða láta af hendi aðgang að auðlindum almennings en einkaaðilar eiga að græða. Hins vegar á auðvitað að halda áfram sveltistefnunni sem rekin var í velferðarkerfinu í áratugi. Þetta er þeirra forgangsröðun. Dælum peningum í störf fyrir karla en rekum konurnar heim til að sinna nauðsynlegum störfum velferðarkerfisins, ekki fyrir lág laun eins og nú, heldur ókeypis, eins og áður, áður þegar allt var svo gott.
Við þetta má auðvitað bæta að þeim mun minni geta sem er til staðar í stjórnsýslunni þeim auðveldara er að halda áfram að endurreisa Ísland í sömu mynd og það var fyrir hrun. Í því samfélagi þarf nefnilega veikt fjármálaeftirlit, veikt umhverfisráðuneyti, veika löggjöf og svo framvegis.
Sjálfstæðismenn kostnaðargreina þá þætti sem þeir telja að geti aukið tekjur ríkisins en láta hins vegar ógert að tilgreina þá peninga sem þarf til að uppfylla efnahagstillögurnar. Hvað kosta t.d. allar framkvæmdirnar sem alls ekki má minnka framlög til? Ef við sendum fleiri ríkisstarfsmenn á atvinnuleysisbætur, hvað kostar það samanborið við sparnaðinn af því að reka þá? Hver verður kostnaðurinn fyrir komandi kynslóðir? Já og hvernig á að vera hægt að afnema gjaldeyrishöft og lækka um leið stýrivexti? Er ekki nær að gera hið síðarnefnda og bíða með hið fyrrnefnda?
Að lokum, eftirfarandi setning úr plaggi Sjálfstæðisflokksins skýrir sig sjálf:
“Skynsamleg nýting auðlinda og verndun þeirra er kappsmál Sjálfstæðisflokksins. En sú vernd má þó ekki ganga svo langt að skynsamleg tækifæri séu slegin út af borðinu undir merkjum umhverfisverndar.”
Einmitt!
14.10.2009Hún var furðuleg fréttin í Fréttablaðinu í gær þar sem Norðurál lýsir því yfir að fyrirtækið þurfi aðeins helming orku frá fyrirhuguðum virkjunum á Suðurlandi til að byggja álver í Helguvík. Við hliðina á fréttinni er birtur mjög svo upplýsandi listi yfir virkjanakostina sem Norðurál segir að þegar séu fyrirhugaðir á svæðinu. Vissulega eru til teikningar þar sem Ísland er sundurskorið með virkjunum en það mætti kannski minna Norðurálsmenn á að Landsvirkjun hefur ekki úrslitavald um virkjanir sem ráðist er í á landinu.
Á listanum má sjá Hellisheiðarvirkjun, Hverahlíð, Bitru, Búðarháls og Reykjanesvirkjun en þær virkjanir gefa samtals 495 MW. Þetta dugar auðvitað ekki Norðuráli og bætt er við virkjunum í neðrihluta Þjórsá en þær gefa samtals 265 MW. Síðan kemur annar listi yfir virkjanir sem ekki hafa farið í umhverfismat (Eldvörp, Gáruhnjúkar, Krýsuvík, Norðlingaalda) og út úr því fæst hin háa tala sem Norðurál miðar við eða 1415 MW. Síðan eigum við væntanlega öll að anda léttar því að Norðurál ætla bara að nota helminginn af allri þessari orku?
Á listanum sem Norðurál vísar til eru virkjanir sem vægast sagt eru mjög umdeilanlegar. Nærtækasta dæmið eru virkjanir í neðrihluta Þjórsá sem hafa mætt mikilli andstöðu, og ekki að ástæðulausu. Í stjórnarsáttmála VG og Samfylkingar segir: “Engar frekari ákvarðandir tengdar virkjun Neðri-hluta Þjórsár verði teknar þar til rammaáætlun liggur fyrir.”
Norðurálsmönnum til upplýsingar má benda á að rammaáætlun liggur ekki fyrir og kannski ætti fyrirtækið að beina lobbýisma sínum að því að hraða þeirri vinnu. Þar fyrir utan þá næst seint sátt um það hér á landi að nota alla þessa orku til eins álvers. Þá er nefnilega mjög lítið eftir til skiptana fyrir annars konar atvinnustarfsemi.
Orkan sem Norðurál vísar til og vill fá til að knýja álver í Helguvík er því ekki fyrir hendi, eins og umhverfisráðherra hefur ítrekað bent á. Það er því ekki hið sjálfsagða umhverfismat vegna Suðvesturlínu sem stendur í vegi fyrir að álverið geti tekið til starfa. Ég segi tekið til starfa því að í Helguvík er unnið hörðum höndum að því að byggja álver án þess að búið sé að fjármagna það og án þess að orka sé í boði. Góður bissness það.
12.10.2009Ég er ekki á móti framkvæmdum. Ég skal að vísu játa að árið sem fjölbýlishús var reist við hliðina á mínu og glerháhýsi rétt hjá átti ég það til að verða geðvond. Glerháhýsið stendur nú að mestu autt en ég veit ekki með íbúðirnar í fjölbýlishúsinu. En ef mér er gert að greiða fyrir framkvæmdir, hvort sem er með skattfé, lífeyrissjóðspeningum eða aðgangi að auðlindum sem ég á ásamt öðrum Íslendingum, þá vil ég hafa eitthvað með þær að segja. Þá vil ég að fylgt sé þeim reglum og lögum sem um slíkar framkvæmdir gilda. Ég set líka spurningarmerki við að framkvæmdir sem eru fjármagnaðar með opinberu fé séu þannig að komandi kynslóðum sé gert að borga og milliliðum að græða. Þá vil ég að málin séu rædd og að mjög góður rökstuðningur búi að baki.
Framkvæmdagleðin er nefnilega yfirleitt mest hjá þeim sem ætlast til að aðrir greiði fyrir þær. Þá má spyrja: Ertu á móti ábyrgri meðferð opinbers fjár?
08.10.2009Í Morgunblaðinu í dag segir í undirfyrirsögn með frétt um sjálfstætt starfandi lækna segir í undirfyrirsögn: „Ögmundur Jónasson sakaður um pólitíska stefnumörkun í niðurskurðinum”. Öðruvísi mér áður brá. Einhvern veginn hefði ég haldið að pólitísk stefnumörkun í niðurskurði væri til góðs, eða hvað?