Skuldinni skellt á pólitík

Grein um stjórnmál

Birtist á Smugunni 20. apríl 2010

Pólitísk umræða er sérstök á Íslandi þessa dagana. Hrunflokkarnir þrír bregðast hver með sínum hætti við upplýsingum úr Rannsóknarskýrslu Alþingis. „Ekki benda á mig“ er algengasta viðkvæðið  og stjórnmálamenn sem taka sér tímabundið leyfi frá störfum geta ekki beðið eftir að snúa aftur. Öll hafa þau hreina samvisku að eigin dómi, það féll bara dálítið ryk á  hana út af öllum hinum sem bjuggu til ruglað kerfi.  Síðan skulu allir flokkar og allir stjórnmálamenn dregnir með í fallinu. Þannig talaði Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í Silfri Egils á dögunum þegar hún svaraði hverri pólitískri spurningunni á fætur annarri með því að kalla eftir minni flokkslínuhugsun og meira samstarfi. Það er eitthvað ljóðrænt við pólitíkus sem forðast að tala um pólitík í aðdraganda kosninga. Eftir hverju á þá að kjósa?

Pólitík er dagvistun og snjómokstur

Pólitík er viðfangsefni daglegs lífs. Pólítík er göngustígar, dagvistun barna, frístundaheimili, svifryk og snjómokstur. Þegar gengið er til kosninga er kosið um ólíka hugmyndafræði. Hún snýst til dæmis um hvort hækka eigi skatta eða auka gjaldtöku á leikskólum þegar hart er í ári. Hún snýst líka um hvort eigi að setja í forgang, fólk eða mannvirki. Hvort tryggja eigi börnum leikskólapláss eða fjölga golfholum. Hvort orkuauðlindir séu sameign okkar allra eða vænleg gjafavara til misgáfulegra viðskiptamanna. Svona mætti lengi telja. Um þetta er kosið í vor og reyndar alltaf þegar gengið er til kosninga. Hitt er síðan annað mál að eftir kosningar eiga stjórnmálaflokkarnir að vinna saman að sem flestum viðfangsefnum og það er ekkert sem segir að sami meirihluti og minnihluti eigi að gilda í öllum málum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alið á brjálæðislegu meirihlutaræði í gegnum tíðina. Flokkurinn hefur viljað halda einn um stjórnartaumana og honum gekk vel að kúga litla samstarfsflokkinn, Framsókn til hlýðni. Í samstarfi við stærri flokk, þ.e. Samfylkinguna, gekk það verr og margir sjálfstæðismenn þoldu það ekki. (Reyndar er líka ljóðrænt hvernig hinir kúguðu lærðu af kúgaranum að fara með völd og reyndu að hegða sér eins þegar þeir komust í sömu stöðu, en það er önnur saga).

Nú á að lappa upp á laskaða ímynd Sjálfstæðisflokksins með því að draga pólitíkina sjálfa til ábyrgðar fyrir þeirra eigin vafasömu vinnubrögð. Stöldrum aðeins við. Staðreyndin er sú að þótt Sjálfstæðisflokkurinn – og meðreiðarsveinar hans eftir atvikum – hafi notað pólitísk völd sín til spillingar og einkavinavæðingar þá er ekki þar með sagt að stjórnmál séu í sjálfu sér spilling og einkavinavæðing. Og þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi í gegnum tíðina fært hagsmunaöflum auðlindir Íslendinga á silfurfati án þess að fá nokkuð í staðinn annað en fyrirgreiðslu til flokksins og einstaka pólitíkusa þá þýðir það ekki að stjórnmál snúist um slík vinnubrögð. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi keyrt Ísland í þrot þá er ekki þar með sagt að allir stjórnmálaflokkar eða allir stjórnmálamenn myndu gera það. Vond verk eins stjórnmálaflokks eru ekki það sama og stjórnmál almennt.

Hvernig var hægt að vera ekki á móti?

Til eru stjórnmálamenn sem ekki tóku þátt í ruglinu. Til er heil stjórnmálahreyfing sem engan þátt tók í því og reyndi aðeins að vara við. Það er hreyfingin sem sagði nei við Kárahnjúkavirkjun og þenslunni sem hún olli, nei við vafasamri einkavæðingu bankanna og annarra ríkisfyrirtækja, nei við skattalækkunum á kolvitlausum tíma og nei við hlutafélagavæðingu opinberra stofnana. Þessi hreyfingin lagði líka til aðskilnað starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka og guð má vita hversu háum fjárhæðum íslenskur almenningur tapaði vegna samkrullsins sem gerði einstaka körlum kleift að fara með peninga sparifjáreigenda eins og sína eigin. Þetta stjórnmálaafl heitir Vinstrihreyfingin grænt framboð og var á tímum gleðskaparins sögð vera alltaf á móti. En þegar betur er að gáð og um öxl litið: Hvernig var annað hægt en að vera á móti?

Að gera pólitík eins og hún leggur sig ábyrga fyrir vondum verkum hægri manna þjónar engum tilgangi öðrum en að slá ryki í augu almennings sem sýpur seyðið af aðgerðum og aðgerðaleysi þessara sömu manna, hvort sem þeir fóru með ábyrgð í stjórnmálum, atvinnulífi, viðskiptalífi eða innan verkalýðshreyfinga og hagsmunasamtaka. Ætlunin er síðan að koma sama fólkinu aftur til valda og lækna íslenskt hagkerfi með meðulunum sem drápu það. Þá vegferð þarf að stöðva. Það verður ekki gert með því að færa Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda, hvort sem er á sveitarstjórnarstigi eða landsvísu.

Íslenskur almenningur olli ekki hruninu. En ábyrgð hans er skýr í einu afmörkuðu atriði – hér fengu flokkar hrunhugmyndafræðinnar góða kosningu aftur og aftur og aftur. Nú hlýtur sá tími að vera liðinn.

Prev PostTímafrekt að leggja niður stofnun
Next PostFormannskjör í BÍ