Ljóð og vísur
Ég var ekki há í loftinu þegar ég sat við eldhúsborðið heima hjá ömmu og afa og þóttist vera að yrkja ljóð. Ég skrifaði um geit sem var á beit í sveit og eignaðist lítið kið sem átti að fæðast heima við, horfði hróðug á ömmu og hún kunni ekki við annað en að segja mér að þetta væri sannarlega snilldarverk.
Á unglingsárunum orti ég dramatísk ljóð um allar þær furðulegu tilfinningar sem því aldursskeiði fylgja en þá fékk rímið að víkja fyrir atómljóðum með hástemmdum lýsingarorðum. Það var sennilega ekki fyrr en ég byrjaði í Kennaraháskólanum árið 2000 sem ég fór að yrkja almennilega, enda kom þá til sögunnar mentor minn Þórður Helgason. Hann hélt úti ljóðahópum og var óspar á kærleiksríka gagnrýni. Að sama skapi leiddi hann okkur um dularfulla heima bragfræðinnar og smám saman varð valdið á hefðbundna taktinum meira og ég fór aftur að ríma.
Með dyggri hvatningu Þórðar gaf ég út mína fyrstu ljóðabók árið 2007. Leitin að Fjalla-Eyvindi er aðeins fáanleg í einni bókabúð á landinu, á bókakaffi Bjarna Harðarsonar á Selfossi, en einnig er hægt að kaupa hana í gegnum mig.

Leitin af Fjalla-Eyvindi
Hefðbundna formið hef ég satt að segja notað meira undir grín og glens og þykist geta kallað mig hagyrðing. Ekki nóg um að ég sé á frægum póstlista hagyrðinga heldur hef ég tekið þátt í hagyrðingakvöldum.
Hér á eftir fara nokkur sýnishorn og að sjálfsögðu bæði í gamni og alvöru.
Hugsað yfir hafið
Áður birt í Leitinni að Fjalla-Eyvindi
Þegar ég ligg í hengirúmi við ströndina
horfi dreymin út á hafið
og hugsa til þín,
hugsar þú líka til mín?
Og þegar ég vakna á morgnana
ringluð undir moskítóneti
og fálma eftir þér,
fálmar þú líka eftir mér?
Og þegar ég hjóla út í náttúruna
á fallegum degi
og gleymi mér,
gleymir þú líka mér?
Laugavegur (vh)
Áður birt í Leitinni að Fjalla-Eyvindi
Þegar við sátum í sófanum og ég strauk í gegnum hárið þitt og reyndi eina ferðina enn að segja þér að þetta yrði allt í lagi um leið og ég velti fyrir mér hvað yrði um þig ef ég færi og kæmi jafnvel aldrei aftur þá fékk ég allt í einu leið á þessum helvítis viðtengingarhætti og fór.
Byrði
Óbirt
Nei!
Ég ætla ekki að hjálpa þér
við að bera heiminn
á herðum þér.
En ég skal lyfta undir
rétt á meðan
þú leggur hann frá þér.
Stríð
Birtist í Dagfara
þú
breyttir heimili mínu
í vígvöll
á örskotsstundu
ópið þagnaði
þögnin æpti
þegar þú notaðir
lífsorkuna
sem
drápstól
litlir marblettir
hurfu fljótt
krampakenndur ótti
varð óttakenndur krampi
nú sef ég alltaf með ljósin kveikt
Og svo nokkrar vísur
Af hagyrðingakvöldi á Borgarfirði Eystra
Á Borgarfirði fegurð mest
fjöllin hafa vakað
Ef að hefði í þau sést
ekki hefði sakað.
Ljóð og bolti, drykkja og dans,
draumaveröld, fjöll og kirkja
Hvað er betra en að yrkja
ein í þessum karlafans.
Fyrst var ég frábær, síhjalandi
friðurinn var snöggt um dalandi
því tveggj’ ára varð ég svo talandi
í tuttuguogfimm ár óalandi!
Með fríska spræka frakka karla
í fjórtölu.
Dugar okkur ofvirk Halla
í eintölu.