Fótbolti

Ferillinn

Ég man ennþá eftir því þegar ég gekk í fyrsta sinn út á fótboltavöll og spurði hvort ég mætti vera með. Þetta var í sex ára bekk og það voru engar stelpur á vellinum. Þá þegar var kominn leiðtogi í strákahópinn og þegar spurningin var borin upp við hann var svarið umsvifalaust nei. Nokkru síðar reyndi ég aftur og þá fékk ég að vera með. Eftir það var ekki aftur snúið og frímínúturnar fóru allar í fótbolta. Það gera þær satt að segja enn, enda spila ég venjulega fótbolta í hádeginu 2-3 sinnum í viku.

Ég fór að æfa fótbolta en á þeim tíma var bara ein æfing í viku fyrir allar stelpur í Mosfellsbæ. Á nokkrum árum gerbreyttist umhverfi fótboltastelpna og var satt að segja orðið talsvert gott þegar ég tók að mér að þjálfa fótbolta í mínu gamla bæjarfélagi árið 2000.

Ég spilaði alltaf með Aftureldingu og seinna með Fjölni eftir að liðin tvö sameinuðust. Í Danmörku æfði ég með hræðilega slöku liði sem kallaðist FC Haslev og þegar heim kom reyndi ég fyrir mér með Þrótti/Haukum, sem voru með lið í bæði úrvalsdeild og 1. deild. Mig hefur hins vegar alltaf skort tíma til að æfa fótbolta af fullri alvöru og það segir sína sögu að stærsti titillinn sem ég hef landað er sigur á Pæjumótinu í Eyjum árið 1993!

Fótboltinn hefur þó alltaf verið með mér og ástríðan mikil. Ég spila hádegisbolta með Knattspyrnufélagi Magnúsar Finnssonar, sem er frækinn og furðulegur hópur af Morgunblaðinu, og að sjálfsögðu með hinu stórgóða Fótboltafélagi Íslands.

Fótboltaþjálfun

Ég hef þjálfað börn og unglinga hjá Aftureldingu, Leikni Fáskrúðsfirði og Þrótti Neskaupstað og þjálfaði auk þess meistaraflokk kvenna í Fjarðabyggð sumarið 2007. Í nokkrar vikur árið 2002 fékk ég tækifæri til að þjálfa 14 ára afrekspilta í Tælandi. Við íþróttaskólann þeirra voru stelpuhópar sem vildu gjarnan fá að prófa fótbolta og ég varð við ósk þeirra um að hitta þær í nokkur skipti og kenna þeim grunninn. Þetta voru miklar íþróttastelpur og voru satt að segja ótrúlega góðar, ekki síst miðað við að þær höfðu aldrei áður sparkað í fótbolta. Þær kunnu hins vegar sérstaka asíska íþrótt sem gengur líka út á að sparka í bolta og voru enga stund að tileinka sér fótboltatæknina. Í framhaldinu fór ég til skólastjórans og sagði honum frá þessum óuppgötvuðu hæfileikum sem gætu fleytt stelpunum ansi langt. Þegar ég kom í heimsókn þremur árum síðar tjáði skólastjórinn mér að búið væri að koma á fót stelpuliði við skólann. „Your idea,” sagði hann broshýr og fylgdi mér út á völl.

Fótboltafélag Íslands

fotboltafelag-islands-3.jpg fotboltafelag-island-1.jpg fotboltafelag-islands-2.jpg

Eftir mjög hressandi tilraun til að nota fótbolta til að koma á bættari samskiptum milli sígauna og annarra íbúa í litlu þorpi í Rúmeníu ákváðum ég og félagi minn Töddi að stofna okkar eigið lið hér á Íslandi. Fótboltafélag Íslands varð til árið 2005 og er það ætlað bæði byrjendum og lengra komnum. Æfingar eru einu sinni í viku og þær eru að sjálfsögðu mjög metnaðarfullar þar sem við æfum skot og tækni áður en við spilum. Við æfum á sparkvellinum við Austurbæjarskóla á laugardögum kl. 12. Allir velkomnir!

KSÍ

Síðla árs 2006 var ljóst að kosið yrði um formann KSÍ í fyrsta skipti í átján ár. KSÍ hafði þá sætt talsverðri gagnrýni fyrir að mismuna konum innan hreyfingarinnar og voru þar m.a. sláandi fréttir af muninum á dagpeningagreiðslum til íslenska karlalandsliðsins og íslenska kvennalandsliðsins. Geir Þorsteinsson, þáverandi framkvæmdastjóri, bauð sig fram til formanns. Það var þó óánægja með fleira en kynjajafnrétti innan hreyfingarinnar og Jafet Ólafsson bauð sig líka fram með ýmsar aðrar hugmyndir en þáverandi forysta hafði.

Mér fóru að berast áskoranir um að bjóða mig fram, enda var ég þá orðin þekkt fyrir mikla fótboltaástríðu. Ég lét slag standa og tilkynnti um framboðið í janúar 2007. Kosningabaráttan var snörp og kannski á köflum hörð. Þetta var í fyrsta sinn sem kona bauð sig fram til formennsku í KSÍ og vakti framboðið því talsverða athygli.

Ég tók saman metnaðarfulla stefnuskrá og þykist geta sagt sjálf frá því að meðbyrinn var mikill í samfélaginu. Það skilaði sér hins vegar ekki inn á KSÍ-þingið þar sem Geir hlaut meirihluta atkvæða, Jafet talsvert minna og ég aðeins þrjú atkvæði. Engu að síður leyfi ég mér að líta svo á að með framboðinu einu saman hafi okkur sem að því stóðum tekist að koma af stað jákvæðum breytingum.

Ræðuna sem ég flutti á KSÍ-þinginu má nálgast hér og hugleiðingar að lokinni kosningu má finna hér.