Þetta er veganestið!

Það gætir stundum misskilnings um tilgang ályktana á fundum stjórnmálaflokka. Þannig lágu 47 ályktanir fyrir flokksráðsfundi Vinstri grænna um helgina en um var  að ræða tveggja daga fund, sem hefði  aldrei nokkurn tímann geta rætt allar þessar ályktanir. Sumar ályktananna voru í raun skilaboð til kjörinna fulltrúa flokksins og áttu miklu fremur heima í ræðum flutningsmanna. Það er líka vandséð að hægt sé að leggja fram stefnumarkandi ályktanir á flokksráðsfundi, enda er hann ekki æðsta stofnun flokksins og aðeins lítill hluti félagsmanna er með atkvæðarétt. Vandinn sem þessar 47 ályktanir hefðu skapað var leystur farsællega með málefnahópum þar sem sumar ályktanir voru sameinaðar og aðrar sendar til stjórnar.

Leiðarahöfundur Fréttablaðsins í dag fjallar um ályktanir Vinstri grænna frá því um helgina. Að hans mati átti VG að álykta um Icesave og veita þingmönnum og ráðherrum leiðarljós um hvernig eigi að vinna úr því flókna og erfiða máli. Nú er það ekkert launungamál að Vinstri græn eru klofin í Icesave málinu og á það ekki aðeins við um þingflokkinn. Málið er hins vegar í farvegi sem gæti mögulega leitt til sáttar. Þjóðaratkvæðagreiðsla er fyrir dyrum en verði önnur leið farin, sem ég persónulega hef efasemdir um að sé ráðlagt, þá er ljóst að hún verður byggð á þverpólitískri samstöðu.

Um þetta var satt að segja mikið rætt á flokksráðsfundinum, eins og leiðarahöfundur Fréttablaðsins hefði vitað hefði hann, eða einhver kollega hans af Fréttablaðinu, setið fundinn. Icesave var raunar mest rædda mál fundarins og þær ólíku skoðanir sem þar komu fram, og reyndar líka á flokksráðsfundinum á Hvolsvelli í lok ágúst sl., geta ekki verið annað en leiðarljós fyrir þingmenn og ráðhera VG, bæði í þessu máli og í stórum viðfangsefnum sem framundan eru.

En hvað sem leiðarahöfundi Fréttablaðsins kann að finnast um þá staðreynd að VG hafi ekki ályktað sérstaklega um Icesave um helgina þá er skrítið að hann skuli um leið velja að gera lítið úr öðrum ályktunum fundarins. Það hefði nefnilega verið í hæsta máta óeðlilegt ef VG hefði ákveðið að álykta ekki um neitt af því að Icesave málið sé svo stórt. Eða á að setja allt annað á ís á meðan fundin er lausn í einu máli?

Grasrót flokksins ber að standa sína vakt, minna á fyrir hvað Vinstri græn standa og hvers vegna hreyfingin fékk þá kosningu sem hún fékk. Það er ekki hlutverk ályktana á flokksráðsfundi að koma með fullbúnar lausnir á öllum viðfangsefnum sem fyrir liggja. Þarna er hins vegar tækifæri flokksfélaga að koma sínum hugðarefnum á framfæri. Og þegar skerðing á fæðingaþjónustu er í umræðunni þá hlýtur að vera eðlilegt að minna á mikilvægi þjónustu við fæðandi konur. Og þegar atvinnusköpun er í fullum gangi þá er hlutverk hins femíníska flokks að minna á hversu kynjaður íslenskur vinnumarkaður er og þá um leið allar aðgerðir í atvinnuuppbyggingu. Og þegar fjölmiðlar eru í mikilli kreppu og blaðamenn missa vinnuna í hrönnum þá er eðlilegt að vinstri sinnaður flokkur taki afstöðu með launafólki og frjálsri blaðamennsku. Þetta er veganestið.

Prev PostMogginn á áframhaldandi niðurleið
Next PostAðstoð óskast við að skrifa söguna