Danskir stjórnburkamálamenn hafa nú fetað í fótspor margra kollega sinna í öðrum löndum og hafið umræðu um klæðaburð kvenna. Klæðaburður kvenna er nokkuð sem almenningur víða um heim hefur eytt ómældum tíma í að velta fyrir sér. Stjórnvöld sumra landa líta svo á að með klæðaburði kvenna sé mörkuð ákveðin stefna fyrir viðkomandi ríki og að ásýndin (les: útlit kvenna) eigi að vera í samræmi við það sem hentar stjórnvöldum. Í því skyni eru sett lög og reglur um hverju konur megi klæðast og hverju ekki. Stundum ná reglurnar aðeins til hins opinbera, s.s. skóla og opinberra stofnanna, en sums staðar eru reglurnar algildar. Þetta á t.d. við í sumum ríkjum Miðausturlanda á borð við Íran og Sádí-Arabíu en ýmis vestræn ríki hafa einnig daðrað við hugmyndina og jafnvel hrint henni í framkvæmd, s.s. Frakkland. Þar eru reglurnar þó klæddar í þann búning að bannað sé að bera trúartákn utan á sér og því var höttum og hálsmenum úthýst af hinu opinbera sviði til þess að geta bannað slæðuna, sem sumar múslimakonur bera.

Magabolir í tísku = stórmálplommer-klipptur2

Í öðrum löndum fer umræða um klæðaburð kvenna ekki fram í efstu lögum valdsins heldur á lægri stigum. Hér á Íslandi má nefna þá miklu samfélagsumræðu sem varð þegar magabolir komust í tísku meðal unglingsstelpna. Þá var jafnvel rætt í sumum skólum að banna ákveðna tegund klæðaburðar og klæðnaður stúlkubarna var settur í kynferðislegt samhengi, sem var aftur ekki gert með misvelheppnaða drengjatísku, t.d. að láta sjást vel í nærbuxurnar sínar og hvað þá með þá lensku iðnaðarmanna að sýna alltaf á sér hálfan rassinn þegar þeir eru við sína iðju.

Það verður áhugavert að fylgjast með hvernig umræðunni vindur fram í Danmörku og hvort sambærileg umræða sprettur nokkurn tímann upp hér á landi. Áhuginn á klæðaburði kvenna er nefnilega greinilega ekki bundin við ein landamæri eða eina heimsálfu. Það er líka áhugavert að fylgjast með því hvernig stjórnmálamenn setja fram rök fyrir því að banna einn klæðnað umfram annan. Einhvern veginn virðist alveg ljóst hvaða klæðnaður verður fyrir valinu. En hvað ef til stæði að banna konum að ganga í pilsum? Eða kannski bara að banna gallabuxur?