Engin skemmtilesning

Hún er engin skemmtilesning greinargerðin með frumvarpi fjármálaráðherra um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingasjóðs innistæðueigenda til að standa undir skuldbindingum vegna Icesave. Þar kemur skýrt fram hversu illa var haldið á þessum málum í öllu óðagotinu sl. haust. Vissulega má segja að þeim sem ákvarðanir tóku og yfirlýsingar gáfu hafi verið nokkur vorkunn, enda stóðu þeir frammi fyrir stærri verkefnum en nokkurn þeirra hafði órað fyrir. Sé hins vegar tekið tillit til ábyrgðar þessara sömu manna á því hvernig komið var þá verður samúðin minni.

Hvers vegna er samið?

Málflutningur Sjálfstæðismanna í Icesave málinu vekur furðu. Bjarni Benediktsson er allt í einu farinn að daðra við þá grundvallarspurningu hvort Ísland eigi yfirleitt að borga. Það er ekki bara áhugavert vegna þess að hans menn hafi ítrekað lýst því yfir munnlega og skriflega að Ísland yrði að borga heldur líka vegna þess að Bjarni samþykkti sjálfur þingsályktunartillögu þess efnis að Ísland ætti að ganga til samninga við Breta og Hollendinga. Bjarni var þá formaður utanríkismálanefndar Alþingis og mælti fyrir meirihlutaáliti nefndarinnar þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að óhjákvæmilegt væri að ganga til samninga. Aðeins einn þingmaður Sjálfstæðisflokks, Pétur H. Blöndal, greiddi atkvæði gegn tillögunni. Ekki nóg um það heldur hafnaði þáverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þeirri sjálfsögðu breytingartillögu Péturs að bera ætti samningana í heild undir Alþingi. Bjarni Ben taldi það óþarft og sagði við það tækifæri:

„Fyrir liggur að þær viðræður sem í hönd fara og eru reyndar þegar komnar af stað byggja á ákveðnum sameiginlegum viðmiðum um það að hverju skuli stefnt. Málið hefur verið fellt í farveg pólitískrar lausnar. Þegar stjórnvöld leggja fyrir þingið tillögu með þessum hætti og óska pólitísks stuðnings er það auðvitað afar einkennilegt ef málið á þá að enda með því að umboðið sé þynnt út og í raun settur fyrirvari á þá samninga sem af stað eru farnir, en augljóst er að stjórnvöld hafa á grundvelli almennra reglna heimild til þess að ganga til samninga af því tagi sem hér er um rætt.“

Þetta varð til þess að nú hefur Alþingi ekki allan Icesave samninginn til umfjöllunar heldur aðeins ríkisábyrgðina.

Hvað  vilja sjálfstæðismenn?

Sama dag og þingsályktunartillagan var samþykkt, eða 5. desember 2009, samþykkti þingið gegn atkvæðum þingmanna Vinstri grænna að ríkisstjórnin skyldi taka lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Því til grundvallar lá sérstök viljayfirlýsing, sem ætti með réttu að kallast samkomulag eða samningur. Auk þess að setja Íslendingum ströng skilyrði um alla þá uppbyggingu sem hér fer í hönd, m.a. um að ríkið einkavæði bankanna að nýju og að gjaldeyrishöft verði afnumin innan tveggja ára, þá þarf engan sérfræðing í samningalestri til að sjá að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt hart að Íslendingum að ganga til samninga vegna Icesave-reikninganna.

Vegna forsögunnar vakna spurningar um hvers vegna sjálfstæðismenn fara fram eins og þeir gera í Icesave málinu. Getur verið að vilji þeirra einn sé að koma höggi á ríkisstjórnarsamstarfið við erfiðar aðstæður? Á ríkisstjórn sem er mynduð utan um það hörmulega verkefni að taka til eftir partíið sem sjálfstæðismenn buðu til. Og gefum okkur að sjálfstæðismenn fengju þetta sama verkefni, hvernig ætla þeir þá að standa að verki? Ætla þeir þá ekki að semja um Icesave og ganga þannig gegn öllum sínum fyrir yfirlýsingum? Það verður að teljast harla ólíklegt.

Það væri sannarlega ekki til góðs ef sjálfstæðismenn kæmust aftur í námunda við stjórnartaumana núna. Það er ekki bara vegna þess að þeir trúa enn á hugmyndafræðina sem hrundi til grunna í haust með tilheyrandi skuldasúpu heldur líka vegna þess að rannsókn og uppgjör á því sem átti sér stað á Íslandi í aðdraganda hrunsins verður að fara fram án aðkomu þeirra sem mesta ábyrgð á því bera.

Nú reynir á

Það er ljóst að miklar efasemdir eru meðal þingmanna um Icesave-samkomulagið. Kannski verður þeim efasemdum eytt í meðförum þingsins á málinu. Kannski ekki. Hvernig sem það fer verður að finna pólitíska lausn sem þingmenn sem flestra flokka geta unað við. Málið er einfaldlega það stórt að hefðbundin skotgrafahernaður og valdboðspólitík á ekki við (slík stjórnmál hafa satt að segja valdið nægum skaða í íslensku samfélagi nú þegar). Alþingi þarf tíma til að vinna málið vel og tryggt þarf að vera að allir þingmenn geti kosið eftir sannfæringu sinni. Nú reynir bæði á stjórn og stjórnarandstöðu að finna lausn, sem hefur hag almennings á Íslandi að leiðarljósi.

Prev PostHimbrimar frekar en Icesave
Next PostHefst einkavæðingasöngur AGS að nýju?