Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 1. desember 2007

 

Stóra bláa og bleika barnafatamálið

 

Ég hef kannski aðeins of oft minnst á það í þessum dálki að þingstörf hafi verið daufleg það sem af er þingvetri. Blessunarlega þarf ég ekki að gera það í dag því vikan sem nú er að líða var langt frá því að vera viðburðalaus. Satt best að segja var þetta vika stórtíðinda.

Nú gætu lesendur haldið að ég væri að vísa til nefndarálits fjárlaganefndar um fjárlagafrumvarpið fyrir 2008. Eða jafnvel látanna vegna þingskapafrumvarpsins.

Nei, það var miklu stærra mál sem skók þingheim í þessari viku, og ekki bara þingheim heldur samfélagið allt!

Stundum er það þannig að minnst fer fyrir stærstu málunum. Hún var hvorki löng né íburðamikil fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur til heilbrigðisráðherra:

1. Hvernig hefur sú hefð mótast á fæðingardeildum opinberra sjúkrastofnana að nýfædd stúlkubörn eru klædd í bleikt en drengir í blátt og þeir auðkenndir með bláum armböndum og stúlkur með bleikum?

2. Telur ráðherra koma til greina að þeirri hefð verði breytt á þann veg að nýfædd börn verði ekki aðgreind eftir kyni með bleikum og bláum armböndum og að þau verði framvegis klædd í hvítt eða aðra kynhlutlausari liti?

Baksíða og í beinni

Og hvað gerðist?

Fjölmiðlar tóku þessa litlu fyrirspurn upp. Fréttin rataði á baksíðu Morgunblaðsins og Ríkissjónvarpið var í beinni frá fæðingardeildinni. Allt varð vitlaust í bloggheimum og ég leyfi mér að giska á að málið hafi verið rætt á allmörgum kaffistofum vinnustaða, a.m.k. lenti ég oftar en einu sinni í umræðum í matsal Alþingis og fékk vinsamleg skilaboð um að gert væri ráð fyrir að bleiki og blái liturinn yrðu efni næsta þingbréfs, sem þeir auðvitað eru.

„Hefur Alþingi ekkert betra að gera?“ spurði fólk yfir sig hneykslað. Þingmenn urðu súrir út í fjölmiðla fyrir að blása einmitt þetta mál upp og við fjölmiðlafólkið bentum aftur á almenning sem sýnir einmitt svona málum mestan áhuga. M.ö.o. fór málið í hring og allir voru hneykslaðir á einhverjum öðrum fyrir að sýna bláa og bleika litnum áhuga.

30 mínútna stórmál

Kolbrún Halldórsdóttir fékk sinn skerf af reiðilestrum fyrir að vera að eyða tíma sínum og annarra í þessa vitleysu og ætla mætti að þetta væri eina þingmálið sem hún hefur lagt fram á þeim átta árum sem hún hefur setið á þingi.

En látum okkur sjá.

Það er erfitt að ímynda sér að það hafi tekið Kolbrúnu sérstaklega langan tíma að koma fyrirspurninni niður á blað, 10 mínútur í mesta lagi. Þegar munnlegar fyrirspurnir eru teknar á dagskrá Alþingis má fyrirspyrjandi tala tvisvar sinnum, samtals í fimm mínútur, og ráðherra tvisvar, samtals í sjö mínútur. Öðrum þingmönnum er heimilt að gera stutta athugasemd í eina mínútu. Stundum gera 3-4 þingmenn athugasemd en þar sem þetta er stórmál er vissara að gera ráð fyrir fleirum. Myndu allir nýta ræðutíma sinn til fulls og átta þingmenn gera athugasemd þá tæki þetta mál samtals tuttugu mínútur í meðförum þingsins og þ.a.l. samtals 30 mínútur af þingmannsferli Kolbrúnar Halldórsdóttur.

Allir með skoðun

En hvers vegna allt þetta fjaðrafok út af svona „ómerkilegu máli“? Í hverri viku koma fram margar fyrirspurnir og þingmál sem margir myndu flokka sem lítilvæg.

Mögulega vakti þessi frétt svona mikla athygli því hún snertir svo marga. Sumir fögnuðu fyrirspurninni í von um að hún gæti breytt bláu og bleiku hefðinni, öðrum þótti alveg út í hött að breyta einmitt þessu og enn öðrum finnst bara yfirleitt leiðinlegt að heyra tillögur um breytingar. (Þó skal tekið fram að í fyrirspurninni kemur hvergi fram skoðun á hvort eigi að breyta þessu eða ekki.)

Ég á heima í fyrsta hópnum enda hefur mér alltaf þótt skrítin venja að skipta börnum á afgerandi hátt í hópa, hvort sem það er vegna kyns, litarháttar, þroska eða hvers annars sem okkur hefur í gegnum tíðina tekist að nota til að takmarka möguleika fólks. Bleiki og blái liturinn er nefnilega hluti af miklu stærri aðgreiningu. Litaskiptingin hjálpar okkur við að koma ómeðvitað fram við börn á ólíkan hátt og ýta undir ákveðna eiginleika hjá þeim sem síðar eru notaðir til að marka þeim hefðbundinn bás í samfélaginu, og einmitt þessum hefðbundnu básum er ég mótfallin.

En burtséð frá því hvað fólki finnst um bleiku og bláu fötin held ég að það sé óþarfi að hafa af því stórar áhyggjur að Alþingi sé algjörlega lamað vegna vinnu við svona „tilgangslaus“ mál.

Og fyrir þá sem finnst tímasóun að lesa um svona fyrirspurnir þá bendi ég á ágætan fréttaflutning margra miðla í vikunni af annarri umræðu um fjárlög, nýju frumvarpi um þingsköp og vangaveltum um kristilegt siðgæði í skólum.