Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 22. maí 2004

Menningarkennsla

Ég ber hag þessa vinar míns fyrir brjósti og þar sem ég tilheyri hinum þróaða hvíta kynstofni ákvað ég að veita honum ráðleggingar.

Vinur minn er mjög undarlegur maður. Hann er nefnilega ekki hvítur, sem þýðir að hann breytir ekki um lit reglulega eins og við sem köllum okkur hvít. Hann býr í fjarlægu landi þar sem fólk kann enga mannasiði. Hann situr á gólfinu þegar hann borðar og notar jafnvel ekki hnífapör. Hann er leiðsögumaður í frumskógi. Hann vinnur ekki 14 tíma á dag þótt hann sé fullhraustur og hann telur ekki einu sinni tímana sem hann vinnur. Hann gengur í þau störf sem þarf að ganga í. Óvæntir hlutir raska aldrei ró hans. Hann pirrar sig t.d. ekki á því að þurfa að labba heim og ná í eitthvað sem hann gleymdi.

Hann stundar ekki auðsöfnun, já og gefur eða lánar jafnvel peningana sína. Ef hann á eitthvað matarkyns býður hann með sér. Ef hann er veikur rýkur hann ekki til læknis og heimtar pillur heldur fer til móður sinnar sem er sérfræðingur í náttúrulækningum. Hann er trúaður og heldur því jafnvel fram að það sé gott að biðja fimm sinnum á dag.

Ég ber hag þessa vinar míns fyrir brjósti og þar sem ég tilheyri hinum þróaða hvíta kynstofni ákvað ég að veita honum ráðleggingar. Svo að ég skrifaði honum bréf.

Elsku vinur minn,

Þar sem ég veit að þú þráir eðlilegt líf hef ég ákveðið að aðstoða þig eftir fremsta megni. Ég er nú einu sinni með kennarapróf og finnst gaman að miðla þekkingu minni. Það fyrsta sem þú ættir að læra eru almennir borðsiðir. Í fyrsta lagi þarftu að borða við borð. Svo ættirðu að læra að borða með hnífi og gaffli. Það er ekki sérlega flókið og án efa miklu snyrtilegra. Mér þykir einnig vert að benda þér á að hætta að smjatta og sötra því það er jú alvitað að það er hin mesta ókurteisi. Kláraðu alltaf af disknum þínum og ef þú getur ekki klárað hugsaðu þá um öll fátæku börnin í Afríku sem fá ekki neitt að borða. Þeim líður án efa betur ef þú borðar þig pakksaddan.

Af því að ég er góður vinur þá tala ég við þig af hreinskilni og ég geri ráð fyrir að þú kunnir að meta það. Til þess að halda heilsu er mikilvægt að þú skiljir að þessar grasalækningar eru hreinasta bull. Ég get sent þér pillur hvenær sem er. Þær eru þróaðar af miklum sérfræðingum og apótekarar þurfa háskólanám til þess að skilja þetta allt saman. Ekki rekur mig minni til að móðir þín sé með slíkt próf. Ég sendi með bréfinu pillur við eftirfarandi kvillum: Hausverk, beinverk, svefnleysi, depurð, risvanda og ógleði.

Varðandi fjármálin þín þá verður þú að hætta að lána hverjum sem er peninga. Þetta fólk er að misnota þig. Þú ættir heldur að safna og fjárfesta. Þegar þú ert búinn að eignast nóg af peningum geturðu farið að slappa af og njóta lífsins.

Elsku vinur, Allah er ekki til. Það er vísindalega sannað að heimurinn varð til með Miklahvelli og allt hitt er tilviljun. Eina sem múslimar gera er að skipuleggja hryðjuverk í nafni Allah. Þetta er snarruglað lið upp til hópa og allar rannsóknir sýna fram á að fólk treystir múslimum síður. Hugaðu ávallt um hvað er best fyrir viðskiptin og mundu að það skiptir öllu máli að hafa rétt fyrir sér. Ef þú ætlar að ná langt verðurðu að hætta að eyða öllum þessum tíma í bænir og læra að skipuleggja þig betur. Teldu tímana sem þú vinnur og farðu fram á launahækkun vegna ábyrgðar og aukinnar viðveru. Í hvert skipti sem þú talar við viðskiptavin skaltu skrifa það hjá þér. Tími er peningar og þú þarft peninga til að verða einn af þeim stóru.

Hugsaðu alltaf fram í tímann. Um morgundaginn, hinn daginn og daginn þar á eftir. Gerðu kostnaðaráætlun og rekstraráætlun og helst eins margar áætlanir og þú getur. Þú verður líka að hætta að bjóða fólki í mat. Það er ekki fjárhagslega hagkvæmt. Sérstaklega þar sem þetta fólk býður þér aldrei.

Þegar þú ferð með hópa fólks í gegnum frumskóginn verðurðu að passa þig. Ef eitthvað kemur upp á gæti fólkið kært þig. Um daginn fórum við í kvöldsiglingu að skoða dýrin í skóginum. Það er sérlega góð viðskiptahugmynd en þú verður að útfæra hana betur. Þið siglduð bara í myrkrinu með eitthvert vasaljós. Það er hreint út sagt vítavert gáleysi. Þú ættir að nota dýptarmæli, GPS-staðsetningartæki og últra-ljóskastara. Aðeins þannig geturðu komist öruggur á leiðarenda. Það þýðir ekkert að stóla alltaf á skynfærin enda eru þau ekki þróuð af sérfræðingum. Þótt þú haldir að trén og fjöllin segi þér hvar þú ert þá geta þau haft rangt fyrir sér.

Ég held, kæri vinur, að það sé nokkurra breytinga þörf í fjölskyldulífinu hjá þér. Það er undarlegt að fjölskyldan skuli alltaf sofa í flatsæng á gólfinu. Börnin þurfa að fá sérherbergi. Það er svo mikilvægt að virða rými einstaklingsins. Nú og ef þér fer að ganga illa með samskipti við börnin og makann og fleira er um að gera að fara til sálfræðings eða í einhver mannbætandi samtök. Þar geturðu lært að lifa einn dag í einu og bætt samskipti þín við fjölskylduna. Þá geturðu lagt áherslu á fjölskyldufundi og sameiginlegar samverustundir. Reyndu samt að hafa þetta allt saman eins skilvirkt og mögulegt er.

Ég gæti haldið lengi áfram en ég ætla að láta staðar numið hér. Ég hlakka til að heyra hvernig þetta gengur hjá þér.

Bestu kveðjur, Halla.

Vinur minn hefur enn ekki svarað mér. Ætli hann geri sér enga grein fyrir hvað hann gæti átt miklu betra líf?