Í framhaldi af ákvörðun innanríkisráðuneytisins að hafna umsókn hlutafélagsins Beijing Zhongkun Investment Group (sem Huang Nubo á stærstan hlut í) um kaup á 300 ferkílómetra landi á Grímsstöðum á Fjöllum hefur skapast áhugaverð umræða um útlendinga inna og utan EES-svæðisins. Stíga þar margir ansi fast til jarðar og skamma innanríkisráðherra fyrir að vera svona kreddufullur að hann vilji ekki leyfa kaup útlendinga utan EES á landsvæði, þegar útlendingar innan þess gætu hæglega keypt land. Er engu líkara en að þetta hafi verið uppfinning innanríkisráðherrans sjálfs að draga línuna ekki við Íslands strendur heldur við múrinn sem reistur hefur verið um Evrópu.

Það vill svo til að íslensk löggjöf mismunar útlendingum innan og utan EES í afar mörgum og veigamiklum þáttum. EES-borgarar geta ferðast til Íslands án teljandi vandræða og lifað hér og starfað ef þeim sýnist svo. Það kostar hins vegar útlendinga utan EES talsverða fyrirhöfn að koma hingað til lands sem ferðamenn. Þeir geta þurft að ferðast langar vegalengdir til að sækja um vegabréfsáritun og þurfa jafnvel að panta tíma með margra vikna fyrirvara. Jafnframt þurfa þeir að sýna fram á að þeir eigi næga peninga inni á bankareikningi til að geta framfleytt sér meðan á dvölinni á Íslandi stendur og í sumum tilfellum er farið fram á nákvæma ferðaáætlun. Það tekur enginn Indverji eða Kínverji skyndiákvörðun um að fara í frí til Íslands. Enn vandast málið ef viðkomandi skyldi detta í hug að vilja lifa eða starfa á Íslandi. Sé minniháttar atvinnuleysi á landinu þá getur útlendingur utan EES nánast gleymt slíkum draumum.

Er þetta sanngjarnt fyrirkomulag? Ég vil ekki meina að svo sé. Reyndar er ég í grunninn hlynnt opnum landamærum en þá ekki aðeins fyrir Evrópu, heldur allan heiminn. Það er e.t.v. útópísk afstaða og verður varla að veruleika. Fyrst svo er þá tel ég sanngjarnast að um alla útlendinga sem til Íslands vilja koma – hvort sem er til að skoða landið, setjast hér að eða kaupa land – gildi sömu reglur. En það mun ekki gerast meðan Ísland er aðili að EES-samningnum. Og það er merkilegt að mestu stuðningsmenn hans og þess að Ísland stígi skrefið til fulls með aðild að Evrópusambandinu, skuli vera þeir sömu og kvarta undan misrétti í garð fjárfesta utan EES.