Alþjóðlegi jafnréttiskólinn og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stóðu í hádeginu í dag fyrir stuttu málþingi um kyngervi og herafla þar sem Lotte Öhman, sérfræðingur frá sænska hernum, sagði frá reynslu sænska hersins af því að samþætta kynjasjónarmið inn í aðgerðir hersins. Sjálf sat ég í pallborði, sem aftur fékk mig til að leiða hugann að viðfangsefninu sem konur, friður og öryggi er.

Það var stórt skref á sínum tíma, fyrir einum ellefu árum síðan, að samþykkja ályktun númer 1325 um konur, frið og öryggi á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þá var kastljósinu beint að þeim áhrifum sem stríð og vopnuð átök hafa á líf kvenna og þeirri staðreynd að konur eru oftar en ekki nánast útilokaðar frá friðaruppbyggingu. Þrátt fyrir veikt orðalag tekur ályktunin því á afar mikilvægu efni og hefur henni og eftirrennurum hennar verið haldið á lofti í alþjóðasamfélaginu, þ.m.t. á Íslandi.

NATO og 1325

Atlantshafsbandalagið hefur veitt ályktuninni athygli og staðið fyrir heilu ráðstefnunum þar sem rætt er um konur, frið og öryggi. Sú umfjöllun hefur hins vegar öll verið á forsendum bandalagsins og kvenfrelsi er þannig gert að þjóna markmiðum NATO, einkum í Afganistan. Þannig hefur framkvæmdastjóri NATO, Anders-Fogh Rasmussen látið hafa eftir sér að hið jákvæða við þátttöku kvenna í stríðsverkefnum NATO í Afganistan sé að þær geti talað við afganskar konur og unnið traust þeirra – og mögulega aðstoðað við að hafa hendur í hári hryðjuverkamanna.  Þannig  geti konur unnið að því að tryggja öryggi NATO en á sama tíma sýnt menningu svæðisins virðingu. Þá sagði Rasmussen í ræðu sem hann flutti á ráðstefnu um málefnið í Kaupmannahöfn í fyrra:

Þessi mynd prýðir DVD-disk NATO undir yfirskriftinni: Women, Peace, Security

“In addition to specific gender advisors, ISAF nations are deploying an increasing number of female soldiers to Afghanistan. And they make a real difference. In most countries, women don’t want to be searched at check points by men. In some cultures, it is unacceptable. Female soldiers can conduct searches without causing offence, which enhances our own security in a way that fits with the culture. That’s to everyone’s benefit.

Female military medical staff run clinics where local women are happy to go and be treated. And with the increased access that female soldiers are able to gain to local women, we can promote the mutual trust that is essential in countering an insurgency. Not least because of the influential roles that women play in their families and their communities.”

Læknisþjónusta hersins

Á DVD-disk sem NATO hefur gefið út og hefur að geyma nokkrar stuttmyndir um „konur, frið og öryggi“ er umfjöllun um heilsugæsluþjónustu breska og bandaríska hersins í Afganistan. Þar gefur að líta heilbrigðisstarfsfólk í fullum herklæðum sem aðstoðar Afgana sem þangað leita – fullkomin leið til að vinna hug og hjörtu almennings. En ef við skiptum nú bandarísku og bresku herbúningunum út fyrir einhverja aðra, hvernig horfði dæmið þá við? Franski herinn að læknisstörfum á Fílabeinsströndinni? Al-Kaída býður konum upp á ómskoðun í fáförnum fjallahérðuðum Afganistans? Kúbanskir hermenn veita læknisþjónustu fólki sem rekið er út af sjúkrahúsum á Miami?

Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn hafa ítrekað kallað eftir því að skýr lína sé dregin milli mannúðarstarfa og hernaðar. Þegar kemur að slíku grundvallaratriði skiptir engu máli hvort þeir sem veita eða þiggja læknisþjónustu eru karlar eða konur. Og einmitt það er lykilatriðið. Það eitt að koma konum í heri er ekki markmið í sjálfu sér. Markmiðið er að breyta stríðsmenningu og binda enda á vopnuð átök. Konur eiga ekki að koma að friðaruppbyggingu vegna þess eins að það geti leitt til betri og/eða langvarandi lausna. Þær eiga að koma að friðaruppbyggingu vegna þess að þær eru helmingur mannskyns og stríð hefur hörmuleg áhrif á líf þeirra. Konur eru afar sjaldan – ef nokkurn tímann – í hópi þeirra sem hagnast á vopnuðum átökum. Þær verða hins vegar fyrir margvíslegu ofbeldi þegar slík átök geysa, ekki einungis af hálfu óvinarins, heldur einnig af hálfu þeirra sem næst þeim standa. Þessu verður ekki breytt með því að klæða hjúkrunarkonur í einkennisbúninga eða fjölga konum í herjum NATO-ríkjanna, eða með því að tveir hermenn leiki sér við börn í Afganistan. Þarna þarf miklu meira til.

Með þessu skal þó alls ekki gert lítið úr viðleitni einstaklinga, ríkja, samtaka og stofnana til að kynjasamþætta aðgerðir í stríði og friði, þvert á móti. En kynjasamþætting ein og sér í þessu samhengi er langt frá því að vera róttæk breyting, þvert á móti gengur hún út frá óbreyttu ástandi. Og mótsagnirnar eru margar.