Áhugavert sandkorn er að finna í DV í dag þar sem yfirskriftin er: „Þingmannsdóttir í formannsframboð“. Með fylgir mynd af Ögmundi Jónassyni, svo að ætla mætti að hann væri umrædd þingmannsdóttir. En nei, sandkornið fjallar um þingmannsdótturina „Maríu Pétursdóttur“, sem bauð sig fram til formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og uppskar samkvæmt dagbókum DV „einungis örfá atkvæði“. Þessi örfáu atkvæði voru reyndar 15% atkvæða en formannsframbjóðandinn Þorvaldur Þorvaldsson uppskar rúm 7% atkvæða og Steingrímur tæp 73%.

Sandkornaskríbent DV tengir framboð „Maríu“ við Ögmund Jónasson, sem aftur er sagður hafa beðið ósigur á landsfundinum. Sjálf sat ég landsfundinn en varð ekki vör við einhverja persónulega keppni Ögmundar við einn eða neinn. Á fundinum voru hins vegar nokkur mál afgreidd í ágreiningi og má þar helst nefna ályktunartillögur um staðgöngumæðrun, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Eftir því sem ég fékk best séð voru landsfundarfulltrúar að taka afstöðu til mála á eigin forsendum, en ekki annarra.

Dilkadráttur

Það er lenska valdapólitíkusa að draga einstaklinga í dilka eftir meintum valdalínum. Engin manneskja geti verið frjáls, hún þurfi alltaf að vera handbendi annarra og ganga erinda þeirra sem sagðir eru bítast um völd. Þá gerir hugsun valdapólitíkusa ekki ráð fyrir öðru en að völd séu það eina sem bitist er um. Málefnalegur ágreiningur er ekki til, enda er enginn ósammála öðrum nema til þess eins að vega að völdum hans. Heilu hreyfingarnar skulu síðan dregnar í dilka eftir því. Það liggur til að mynda við að öll þjóðin sé dregin í dilka eftir löngu liðnum átökum í Sjálfstæðisflokknum. Annar formannsframbjóðandinn skrifar pólitískar greinar í Morgunblaðið en hinn í Fréttablaðið. Og hvort les maður nú Moggann eða Fréttablaðið, er það Davíð eða Þorsteinn?

Í VG hafa armarnir verið kenndir við Steingrím J. Sigfússon og Ögmund Jónasson. Að vísu var sá fyrrnefndi einhvern tímann kenndur við Svavar Gestsson og í einni atburðarás fyrir nokkru síðan var sú sem þetta ritar kennd við Svavars-arminn, með öðrum orðum kennd við karl sem hætti á þingi einmitt sama ár og ég mátti kjósa til Alþingis í fyrsta sinn. Það skilja það e.t.v. ekki allir en fyrir femínista – sem hefur afskipti af pólitík einmitt á femínískum forsendum – þá er afar lítið eftirsóknarvert að vera dregin í dilka eftir skoðunum karla.

Nafn hennar aukaatriði

Það nægir ekki sandkornsskríbentnum að kenna „Maríu“ við einn karl, hún er líka kennd við föður sinn, sem eitt sinn sat á þingi. Í hamaganginum tekst heldur ekki að fara rétt með nafn hennar. En rétt nafn Margrétar er kannski aukaatriði í samhenginu og eflaust líka sú staðreynd að hún bauð sig fram á fundinum öllum að óvörum en ekki að áeggjan eins eða neins. Þetta snýst jú um meintar átakalínur milli tveggja karla og við hin hljótum að leika þeirra leik í hvert sinn sem við hreyfum okkur, eða hvað?