Áhugaverð umræða hefur spunnist um grein mína um málefni Blaðamannafélags Íslands, sem ég birti hér á þessari síðu fyrir þremur dögum síðan. Á vefmiðlunum tveimur Eyjunni og Pressunni, sem deila sömu eigendum, er það gert að aðalatriði að aðstoðarmaður ráðherra skrifi grein um Blaðamannafélag Íslands og málefni þess.

Nú skal það rifjað upp að ég var félagi í Blaðamannafélagi Íslands þar til ég missti vinnuna sem blaðamaður. Þrátt fyrir óskir um annað fór ég út af félagatalinu og veit ég um fleiri sem svo er ástatt um. Hefði ég hlotið biðaðild, eins og ég óskaði eftir, þá hefði ég tekið þátt í fundinum á fimmtudag, ekki sem aðstoðarmaður ráðherra, heldur sem fyrrum blaðamaður á Morgunblaðinu og félagi í BÍ. Ég get ekki séð að sú aðkoma hefði verið á nokkurn hátt flokkspólitískari en þátttaka framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokks og fyrrum bæjarstjóra Samfylkingarinnar á þeim fundi. Þau eiga aðild að félaginu og hafa rétt á að taka þátt í fundum þess sem slíkir. Þann rétt eiga líka nokkrir núverandi þingmenn, eins og Árni Johnsen, Álfheiður Ingadóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Furðufrétt Moggans

Ég játa að það kom mér ekki endilega á óvart að vefmiðlarnir, Pressan og Eyjan, (sem ganga iðulega mjög langt í spuna en hika ekki við að nota orð eins og „málgagn“ um aðra miðla) skyldu einblína á stöðu mína fremur en það sem ég hafði fram að færa. En það  kom mér í opna skjöldu þegar Morgunblaðið hafði samband til að spyrja mig út í greinaskrifin – og þá ekki í hverju gagnrýnin var fólgin, heldur hvaða hatt ég hafði á kollinum þegar ég ritaði greinina. Úr þessu varð til undarleg fylgja með frétt um aðalfundinn, sem birtist á bls. 2 í blaði gærdagsins, þar sem fjallað er um að ég hafi skrifað greinina sem fyrrum félagi í BÍ. Flestum lesendum sem ekki lásu æsilegar fregnir vefmiðlanna frá deginum áður hefur sennilega verið hulin ráðgáta um hvað fréttin fjallaði.

Í þessum fréttaskrifum kristallast einn stærsti vandi fjölmiðlaumfjöllunar – og umræðu almennt – á Íslandi. Einblínt er á form, ekki innihald. Greinin er tortryggð á grundvelli stöðu eða skoðana höfundar, ekki á grundvelli þess sem þar er sett fram.

Gagnrýni mín sneri að vinnubrögðum innan BÍ, m.a. þeirri staðreynd að félagatalið er ekki í neinu samræmi við lög félagsins (svo það sé endurtekið og vakin á því athygli sem hugsanlega hefði mátt teljast fréttapunktur í greininni). Atkvæðagreiðslan sem fram fór á aðalfundinum fyrir um ári síðan var eins og þær gerast verstar í pólitík (og reyndar heyrist oft krafa um að atkvæðagreiðslur eigi alltaf að vera þannig). Dagskrárbreytingartillagan sem lögð var fram á þessum fundi árið 2010 var vel ígrunduð og rökstudd og það hefði ekki þurft að dyljast neinum sem kynnti sér málið eða hlýddi á málshefjanda. En þá þegar var búið að skipta fundinum í lið: Með eða á móti Hjálmari Jónssyni, með eða á móti yfirlýsingum þáverandi stjórnar BÍ um eigendur fjölmiðla, með eða á móti ritstjóra Morgunblaðsins.

Umræða fyrir alla, ekki suma

Hæglega hefði mátt samþykkja dagskrárbreytingartillöguna, halda framhaldsaðalfund í samræmi við lög félagsins og niðurstaðan hefði eflaust orðið sú sama. Þannig hefði sanngirni verið gætt og blaðamannafélagið ekki gerst sekt um vinnubrögð sem bera vott um leyndarhyggju, geðþóttaákvarðanir og flaustur. En svo fór ekki. Það harmaði ég þá (og má bæta því við að þá var ég ekki aðstoðarmaður heldur sinnti ég fræðiskrifum og ritstörfum). Og það harma ég enn.

Blaðamenn hafa starfa að því að spyrja gagnrýninna spurninga, koma upp um og jafnvel í veg fyrir spillingu og sjá til þess að lýðræði sé virkt og virt. Þess vegna má gera miklar kröfur  til fag- og stéttarfélaga blaðamanna. Það er jafnframt eðlilegt – og engin ástæða til að óttast slíkt – að starfandi blaðamenn (hvort sem þeir eru innan félagsins eða utan), fyrrum blaðamenn og aðrir sem áhuga hafa taki þátt í slíkri umræðu.  Þá hlýtur að vera farsælla að fara í boltann en manninn.