Birtist á Smugunni 1. apríl 2011

Í fyrstu íslensku hegningarlögunum frá árinu 1869 var lögð helmingi lægri refsing við nauðgun ef konan sem nauðgað var hafði á sér óorð. Eins og gefur að skilja var þá lítill skilningur á kynferðislegu ofbeldi og umræða um það lá í láginni þar til seint á síðustu öld. Fólk vildi trúa því að slík brot ættu sér aðeins stað úti í hinum ljóta heimi, ekki í litlu íslensku samfélagi.

Á 8. og 9. áratugnum hófst vitundarvakning um kynferðislegt ofbeldi, sem stendur enn. Sú vitundarvakning hefur þegar skilað miklum árangri, ekki síst þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Almennur skilningur er á því að til sé fullorðið fólk – í flestum tilfellum karlar – sem beitir börn kynferðislegu ofbeldi. Að sama skapi er nú samstaða um að kynferðislegt ofbeldi gegn börnum sé aldrei réttlætanlegt, burtséð frá hegðun barnanna sjálfra. Það var ekki endilega sjálfsagt á árum áður.

Ofbeldi og kynlíf

Þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi gegn fullorðnum – oftast karla gegn konum  – virðist umræðan hins vegar flækjast. Athyglin beinist stundum takmarkað að sjálfu brotinu en í meira mæli að öðrum þáttum eins og áfengisdrykkju eða fyrri samskiptum þolanda og geranda – og ekki er langt síðan klæðaburður brotaþola þótti skipta máli við rannsókn nauðgunarmála.

Í umræðunni er ofbeldi og kynlífi stundum skellt saman í einn graut og látið að því liggja að á milli þessara tveggja andstæðna sé stórt grátt svæði. En ef nánar er að gáð þá eru skilin milli ofbeldis og kynlífs afskaplega skýr, jafn skýr og milli gamnislags og ofbeldis. Það vita allir hvar leiknum sleppir og ofbeldi tekur við.

Þótt enn vanti upp á almennan skilning á eðli og afleiðingum nauðgana þá hefur mikið vatn runnið til sjávar á síðustu áratugum. Það hefur skilað sér í mikilvægum breytingum á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga og einnig í mikilvægri hugarfarsbreytingu. En samt þarf að staldra við og velta því upp hversu langt við höfum náð á þessari vegferð, hvernig samfélagið tekst á við kynferðislegt ofbeldi og hvernig réttarkerfið er í stakk búið til að takast á við þau.

Líkamlegir áverkar duga ekki til

Danir hafa tekið saman ítarlega skýrslu, Voldtægt der anmeldes um meðferð nauðgunarmála þar í landi. Farið var ofan í allar nauðgunarkærur sem fram komu á árunum 2000-2002 eða alls 1264 mál. Þess ber að geta að í rannsókninni voru flokkaðar burt allar nauðgunarkærur sem ekki voru taldar á rökum reistar og var þar stuðst við víða skilgreiningu. Þetta var gert til að koma í veg fyrir að nauðsynleg umræða um niðurstöður rannsóknarinnar yrði afvegaleidd með tali um upploganar sakir.

Skýrslan er í sex hlutum en í þeim sjötta er farið sérstaklega ofan í meðferð nauðgunarmála í réttarkerfinu. Þar kemur fram að sjö af tíu nauðgunarkærum fara aldrei fyrir dóm. Oftast eru mál felld niður vegna „ónógra sannanna“. Nokkrir þættir virðast auka líkurnar á að gefin sé út ákæra, t.d. að sakborningur sé ókunnugur brotaþola, að kæra sé lögð fram strax eftir brotið og að brotaþoli sé með líkamlega áverka. Ekkert af þessu er hins vegar trygging fyrir því að ákæra sé lögð fram og það vekur sérstaka athygli að aðeins fjögur af hverjum tíu málum þar sem brotaþolinn er með líkamlega áverka enda fyrir dómstólum. 60% mála þar sem líkamlegir áverkar virðast renna stoðum undir framburð brotaþola eru felld niður vegna „ónógra sannanna“.

Áfengisneysla hefur einnig áhrif á mögulega dómsmeðferð. Hið merkilega er að í tilvikum þar sem gerandinn, þ.e. karlinn, segist ekki hafa verið undir áhrifum eru meiri líkur á gefin sé út ákæra á hendur honum en ef hann var undir áhrifum. Ef brotaþolinn, þ.e. konan, var að eigin sögn undir áhrifum eru aftur á móti minni líkur á að gefin sé út ákæra. M.ö.o. orðum þá „gagnast“ það sakborningi að hafa verið drukkinn en brotaþola að hafa verið edrú.

Fyrri samskipti tiltekin

Í nokkrum dæmum sem tiltekin eru í skýrslunni voru fyrri samskipti brotaþola og sakbornings notuð sem ástæða til að fella niður mál. Ein kona hafði kysst fyrrum kærasta sinn á bar áður en hann nauðgaði henni á salerni staðarins. Hún hafði þó jafnframt látið í ljós við dyravörð að hún óttaðist manninn og reynt að finna leiðir til að komast út af staðnum án þess að hann sæi til. Engu að síður voru kossarnir notaðir sem ein af ástæðum til að fella málið niður.

Einnig má lesa dæmi þar sem það þótti draga úr trúverðugleika brotaþola að muna ekki, sökum áfengisdrykkju, nákvæma röð atburða í aðdraganda ofbeldisins eða eftir það. Gilti þar einu þótt konan gæti lýst atburðarásinni frá því að hún áttaði sig á því í hvað stefndi og meðan á ofbeldinu stóð nákvæmlega. Málið var fellt niður og ekki rekið fyrir dómstólum.

Flestir, sem á annað borð neyta áfengis, hafa ábyggilega upplifað að muna illa atburðarás eða samtöl. Hugsun getur hins vegar orðið skýr á augabragði, þrátt fyrir áfengisdrykkju, ef einhvers konar „krísa“ kemur upp. Þess vegna þarf ekki að vera óeðlilegt að manneskja sem er nauðgað hafi skýra mynd af ofbeldinu en muni ekki endilega nákvæma atburðarás í aðdragandanum. Við rannsókn sakamáls hlýtur meint brot að skipta mestu máli, ekki aðdragandi þess eða eftirleikur.

Áfram með vitundarvakningu

Hér á landi hefur sannarlega mikið vatn runnið til sjávar frá árinu 1869 þegar lög kváðu á um lægri refsingu hefði brotaþolinn, þ.e. konan, á sér óorð. En kannski eimir enn eftir af þessari hugsun – að sumar nauðganir séu verri en aðrar, ekki vegna grófleika heldur vegna stöðu, hegðunar eða atferlis brotaþola.

Danska skýrslan gefur skýrar vísbendingar um atriði sem þarf að hafa í huga við meðferð nauðgunarmála í réttarvörslukerfinu. Rannsóknaraðferðir, rannsóknarspurningar og sönnunarkröfur þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Það kann að vera að við slíka endurskoðun komi í ljós að rannsóknir og ákvarðanir um saksókn, niðurfellingu, sýknu eða sakfellingu byggi almennt á traustum grunni, en hugsanlega kemur eitthvað í ljós sem getur bætt meðferð þessara mála. Aðeins með því að spyrja er hægt að ganga úr skugga um að við sem samfélag séum á réttri leið í að takast á við kynferðislegt ofbeldi. Og þá heldur vitundarvakningin áfram.