Birtist á Smugunni 27. mars 2011

Í aðdraganda hrunsins á Íslandi snarbreikkaði bilið milli  hæstu og lægstu launa í samfélaginu. Það þótti orðið eðlilegt að launamunur í meðalfyrirtæki væri ekki tvöfaldur eða þrefaldur heldur tí- og tuttugufaldur, jafnvel meiri. Þannig gat forstjóri réttlætt fyrir sjálfum sér að meta eigið vinnuframlag fjörtíufalt á við vinnuframlag óbreytts starfsmanns. Ekki vegna þess að forstjórinn ynni fjörtíufalt meira, heldur vegna þess að hann átti það skilið, því hann var svo ægilega klár og mikilvægur. Jafnvel verkalýðsleiðtogum þótti – og þykir enn – sjálfsagt að vera á margföldum launum fólksins sem þeir áttu að vinna fyrir. Verkalýðsfélög hvöttu jafnvel til hærri launa forstjóra til að næstu stjórnendur á eftir fengju líka hærri laun.

Það er brjálæðislegt að enn stígi fram fólk og mæli þessu fyrirkomulagi bót með sömu röksemdum og á Íslandi hrunsins. Að sama skapi er í besta falli hlægilegt að hlusta á hálaunafólk sem mærir eigið vinnuframlag, eigið ágæti og meint mikilvægi, sem er að sjálfsögðu á við 10, 20, 30 eða 40 starfsmenn.

Hátekjuskatt á þreföld lágmarkslaun

Nú getur tvöfaldur launamunur í fyrirtæki verið með einhverju móti réttlætanlegur. Og mögulega má með því að teygja sig langt sættast á þrefaldan launamun í samfélagi. En þegar hann er orðinn meiri er hann óútskýranlegur og óhollur samfélagi.
Fyrir nokkru brugðust talsmenn atvinnurekenda ókvæða við þegar lagt var til að lágmarkslaun á Íslandi yrðu 200 þúsund krónur. Þetta þarf að endurtaka: 200 þúsund krónur. Og bankastjórinn með milljónirnar á mánuði botnar ekkert í því að samfélagið bregðist ókvæða við launatölunum. Í þeirri umræðu heyrist auðvitað ekkert í talsmönnum atvinnurekenda, eða öðrum „aðilum“ sem alltof mikla athygli fá í fjölmiðlum og samfélagsumræðu.

Jöfnuður er markmið í sjálfu sér því samfélög þar sem jöfnuður er mikill eru almennt betri samfélög en hin þar sem bilið milli ríkra og fátækra er breitt. Ein leið til að vinna að jöfnuði er að skattleggja duglega tekjur sem eru yfir þreföldum lágmarkslaunum. Þá miðar regluverkið við lágmarkslaun, ekki hina fáu hátekjueinstaklinga. Þannig verður til sá möguleiki að ofurlaunastefnan lúti í lægra haldi, frekar en samfélagið eins og gerðist með hruninu.