Birtist á Smugunni 8. mars 2011

Stjórn Ungra vinstri grænna hefur sent frá sér ályktun þar sem „hugmyndum dómsmálaráðherra sem fela í sér stórauknar rannsóknarheimildir lögreglunnar“ er harðlega mótmælt. Svo frjálslega er farið þær hugmyndir sem innanríkisráðherra hefur reifað í fjölmiðlum að ekki er hægt að láta ótalið að bregðast við.

Bakgrunnur þeirrar umræðu sem nú fer fram er sá að skipulögð glæpastarfsemi hefur færst í vöxt á Íslandi. Hér fara um glæpagengi sem eiga til að mynda rætur í Litháen og Póllandi, auk þess sem mótorhjólagengi eru í nánu samstarfi við alþjóðleg glæpasamtök. Rétt er að taka fram að það er ekki upprunaland glæpamannanna sem er áhyggjuefnið heldur þvert á móti umfang og skipulag glæpastarfseminnar og ofbeldið sem henni fylgir.

Einn hlekkur í keðju

Algengasta glæpastarfsemin sem komið hefur upp á yfirborðið hérlendis tengist fíkniefnasölu. Glæpirnir eru þó ekki bundnir við fíkniefni því hér hafa komið upp alvarleg mansalsmál, sem teygja anga sína inn í ljótustu afkima alþjóðlegrar glæpastarfsemi. Þá stunda glæpasamtökin ólögmæta meðferð vopna, fjárkúgun, handrukkun og peningaþvætti, svo fleiri dæmi séu tekin.

Lögregla hefur heimildir til að hefja rannsókn mála ef líkur eru taldar á því að brot verði framin. Hins vegar þarf dómsúrskurð til að  beita rannsóknaraðferðum sem teljast verulegt brot á friðhelgi einkalífs. Á þetta t.d.  við um símhlerun og notkun eftirfararbúnaðar. Til að fá slíkar rannsóknarheimildir þarf rannsókn að beinast að alvarlegu broti, auk þess sem sýna þarf fram á að upplýsingarnar sem aflað er með slíkum aðgerðum skipti miklu fyrir rannsókn máls og fáist aðeins með þessum hætti. Þá ber lögreglu skylda til að upplýsa einstaklinga sem slíkum aðgerðum er beint gegn þegar rannsókn er lokið.

Lögregluyfirvöld telja núverandi rannsóknarheimildir ekki nægjanlegar til að fylgjast með starfsemi glæpahópa á Íslandi, m.a. vegna þess að löggjöfin miðist við brot einstaklinga en ekki skipulagða starfsemi hópa, þar sem einstaklingurinn sem brýtur af sér er oft aðeins einn hlekkur í langri, stigskiptri – og oft ofbeldisfullri – keðju.

Dómsúrskurður áfram nauðsynlegur

Til eru þeir sem vilja að lögregla fái allt að því ótakmarkaðar rannsóknarheimildir til að fylgjast með einstaklingum og hópum, jafnvel án þess að verulegt eftirlit sé með slíkum heimildum. Það hefur verið skýrt  frá upphafi að núverandi innanríkisráðherra er ekki í þeim hópi. Hann vill hins vegar hlusta á það fólk sem starfar á vettvangi og vekur athygli, með rökstuðningi, á vaxandi og stigversnandi glæpastarsfemi.

Þess vegna hafa nú verið boðaðar lagabreytingar sem er ætlað að auðvelda lögreglu rannsókn á hópum sem grunaðir eru um að stunda skipulagða glæpastarfsemi. Slíkar heimildir koma til með að ná til brota sem glæpasamtökin stunda – s.s. fíkniefnabrota, mansals og fjárkúgunar – ekki annarra brota. Dómsúrskurður verður eftir sem áður nauðsynlegur til að grípa til aðgerða á borð við símhlerun og áfram verður einstaklingum sem slíkum aðgerðum er beint að tilkynnt um það þegar rannsókn er lokið. Þessi framkvæmd stenst þær mannréttindakröfur sem settar hafa verið fram á alþjóðavettvangi. Í þessu samhengi má þó ekki gleyma því að mannréttindi þeirra sem rannsókn beinist að eru ekki þau einu sem um er að tefla heldur einmitt líka þeirra sem verða viðföng glæpamannanna.

Engin stefnubreyting?

Að framansögðu er ljóst að engin innistæða er fyrir þeim fullyrðingum stjórnar UVG að hér standi til að leiða í lög „stórauknar“ rannsóknarheimildir til lögreglu, sem heimili „njósnir um einstaklinga án þess að fyrir liggi rökstuddur grunur um saknæmt athæfi“. Og það verður að gera kröfu að stjórnin  kynni sér betur efni  hugmynda sem hún hyggst mótmæla áður en hún samþykkir ályktanir og  sendir á alla fjölmiðla.

Það verður líka að játast að viðbótarfullyrðingar stjórnarinnar um að ekki hafi orið vart við „gagngerar stefnubreytingar“ á sviði ráðuneytisins frá því að vinstri stjórnin tók við völdum koma á óvart, ekki síst í ljósi þeirra dæma sem tiltekin eru í ályktuninni og snúa m.a. að málefnum hælisleitenda og annarra útlendinga. Staðreyndin er sú að í september sl. samþykkti Alþingi breytingar á útlendingalögum sem treystu til muna réttarstöðu fólks sem sækir um hæli á Íslandi, þ.m.t. fólks sem hefur flúið heimaland sitt en er ekki skilgreint sem flóttamenn skv. alþjóðsamningum. Í október sl. hætti Ísland, annað evrópskra ríkja, að senda hælisleitendur til Grikklands. Þótt þessar breytingar séu ekki endir á vegferð – heldur miklu fremur upphaf – þá geta þær skipt sköpum fyrir örlög fólks sem sækir um hæli á Íslandi.

Engu að síður er það satt að verkefnalistinn í innanríkisráðuneytinu er langur og aðkallandi. En þau verkefni sem þegar hefur verið ráðist í frá því að vinstri stjórnin tók við völdum bera vott um „gagngerar stefnubreytingar“. Ekki þarf mikla sanngirni til að sjá það.