Öfugt við Egil Helgason þá þykir mér umræðan um Magma-málið ekki þvælin. Hann setur fram nokkrar spurningar á vefsíðu sinni. Hér geri ég tilraun til að svara þeim. Egill spyr:

Væru menn ánægðari ef:

a) Þetta væri íslenskt einkafyrirtæki?

Svar: Það væri örlítið skárra því þá færi arðurinn ekki beina leið úr landi. En í prinsippinu skiptir það ekki höfuðmáli.

b) Ef þetta væri fyrirtæki sem væri örugglega starfrækt á EES-svæðinu?

Svar: Það væri skárra að því leytinu til að þá hefði ekki verið stofnað skúffufyrirtæki markvisst til að fara á svig við lög. Slíkt er nefnilega ólöglegt.

c) Ef nýtingarrétturinn væri styttri?

Svar: Mér þykir lengd nýtingarréttarins ekki vera höfuðatriði heldur tilvist hans yfirleitt. Staðreyndin er hins vegar sú að 65 ára nýtingarréttur á miklu meira skylt við eignarrétt en nokkuð annað. Sjálfstæðismenn vildu lengri nýtingarrétt (að lágmarki 100 ár) og nú vill Samfylkingin styttri nýtingarrétt.

d) Ef ríkið- eða sveitarfélögin sæju alfarið um þetta?

Þá væri ég ánægðari því að arðurinn af notkun auðlindanna færi til almennings, ekki til hluthafa. Slíkt er miklu eðlilegra og sanngjarnara. Um leið væri hægt að tryggja lýðræðislega stjórn yfir auðlindunum og nýtingu þeirra.

e) Ef Magma myndi greiða meira fyrir auðlindina?

Auðvitað hefði verið skárra að Magma greiddi eitthvað að ráði fyrir nýtingarréttinn og að ekki hefði verið veitt svimandi hátt kúlulán í anda Íslands fyrir efnahagshrun. Þá væru líka litlar líkur á að fyrirtækið hefði getað staðið að „fjárfestingunni“. Því hefur heldur aldrei verið svarað af hverju OR gat ekki veitt opinberum aðilum sambærilegt kúlulán. Hins vegar snýst hin raunverulega pólitíska deila um hvort við viljum yfirleitt að einkaaðilar komi að orkuauðlindum almennings með þessum hætti.