Því miður skortir mig tíma til að uppfræða formann Lögmannafélags Íslands í þeim mæli sem til þyrfti þegar kemur að kynbundnu ofbeldi og verslun með líkama fólks. Ég kemst hins vegar ekki hjá því að setja nokkur orð á blað varðandi hans nýjasta innlegg um vændi.

Af skrifum formannsins er fyllilega ljóst að hann er hugmyndafræðilega mótfallinn því að kaup á vændi séu ólögleg. Um það erum við einfaldlega ekki sammála og hægt væri að standa í löngum ritdeilum um málið. Hitt er hins vegar merkilegt og það er hversu langt hann teygir sig í röksemdarfærslu sinni og hvernig hann þverneitar að horfast í augu við raunveruleikann.

Það virðist vera tilhneiging innan lögfræðistéttarinnar á Íslandi að fjalla um lög í eins konar tómarúmi, ótengdt öðrum fræðigreinum og félagslegum raunveruleika.  Þetta verður augljóst í tilfelli formanns Lögmannafélagsins þar sem hann lítur svo á vændiskaupandi og vændiskona (-maður) séu tveir einstaklingar sem standa algerlega jafnfætis. Hann lítur framhjá sögulegu samhengi, misskiptingu valds og félagslegum veruleika. Ekki nóg með það heldur minnist hann ekki orði á þriðja aðilann, sem gegndi veigamiklu hlutverki í þeim málum sem upp komu hér á Íslandi, eins og Silja Bára Ómarsdóttir fjallar um í ágætri grein.

Öllum þeim sem eitthvað hafa farið ofan í saumana á félagslegum raunveruleika vændis er ljóst að hugmyndin um „hið frjálsa val“ nýtist illa við að skýra ákvarðanatökuferli mikils meirihluta þeirra sem stunda vændi. Í því samhengi má benda á nýlega grein í Aftonbladet þar sem m.a. kemur fram að á milli 70 og 80%  vændiskvenna í rauða hverfinu í Amsterdam hefðu verið þvingaðar til að vinna þar.

Það er einfaldlega ekki hægt að slíta vændi úr samhengi og staðsetja það í draumaveröld Brynjars Níelssonar, þar sem konur velja að selja körlum aðgang að líkama sínum, og hafa jafnvel gaman að. Í þessu samhengi er fátt annað hægt en að hvetja formann Lögmannafélags Íslands til að kynna sér formgerð og valdastrúktúr vændisiðnaðarins í heiminum.

Varðandi orð lögmannsins um að löggjöf sem bannar kaup á vændi náist aldrei fram í „hinum stóru lýðræðisríkjum Evrópu“ þótt hún geri það „í smáríkjum nyrst í Evrópuþá má benda á að Norðurlöndin þykja skara fram úr þegar kemur að jafnrétti og kvenfrelsi. Því hljótum við öll að fagna, nema að hæstaréttarlögmanninum hugnist það illa?

Brynjar lýkur pistli sínum á þeim orðum að það hafi kannski lítinn tilgang að ræða vændiskaup við fólk sem trúir að „viðskipti með kynlíf“ sé kynferðisofbeldi. Líklega getur rökræðum okkar því lokið hér því hann er harla lítill tilgangurinn í  að rökræða við mann sem neitar að horfast í augu við raunveruleikann. Varðandi lokaorð Brynjars um að það sé „jafnlíklegt til árangurs og að reyna að sannfæra þá ágætu menn, Snorra í Betel og Gunnar í Krossinum um að Guð sé  ekki til“ hef því ég aðeins eitt að segja: Spegill!

Um vændi á Íslandi má m.a. lesa í eftirfarandi skýrslum: Vændi og klám 2002, Kynlífsmarkaður í mótun 2003, Vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess 2001.