Útlensk kona er fundin sek um að hafa dregið sér fé er hún vann við afgreiðslustörf í Bónus og fær 30 daga skilorðsbundinn fangelsisdóm samkvæmt Héraðsdómi Reykjavíkur. Jafnframt á hún að greiða Bónusi skaðabætur og laun verjanda síns. Dómurinn er birtur á Netinu og greint er frá nafni konunnar.  Nafnið ratar í fréttir og sakaskráin er ekki lengur hrein. Það verður erfitt fyrir konuna að sækja um vinnu aftur.

Íslenskur karl er fundinn sekur um að hafa brotið lög með því að kaupa sér aðgang að líkama annarrar manneskju. Hún er að líkindum útlensk og milliliðurinn hefur verið fundinn sekur um mansal. Hámarksrefsing er eins árs fangelsi en karlinn er aðeins dæmdur til að greiða sekt, ekki er vitað um málskostnað. Dómurinn er ekki birtur á Netinu og hvergi kemur nafn karlsins fram. Hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því næst þegar hann sækir um vinnu að það sé á allra vitorði að hann hafi brotið lög.

Dæmin þarfnast varla nánari skýringa. Svona er réttarríkið Ísland.