Á morgun verður gengið til sveitarstjórnarkosninga. Þessar kosningar, eins og þær síðustu og þær næstu og næstu, snúast um uppgjör við hugmyndafræði efnahagshrunsins. Íslenskur almenningur gerði afdrifarík mistök með því að kjósa ítrekað yfir sig hugmyndafræði fjármagnsins og einstaklingsins, jafnt á sveitarstjórnarstigi sem á landsvísu. Það var hið stóra “fokkjúmerki” sem nú er iðulega talað um í samhengi við kosningarnar í Reykjavík. Það var “fokkjúmerki” til komandi kynslóða. Það var “fokkjúmerki” til eldri kynslóða sem byggðu upp samfélag með velferðarkerfi og almennri menntun. Það var “fokkjúmerki” til okkar allra sem búum á Íslandi og erum allt í einu stórskuldugt eftir fáránlega pólitík, fáránlega hugmyndafræði.

Þá er spurningin hvort svarið við vondri hugmyndafræði síðustu ára sé engin hugmyndafræði. Er lausnin kannski Sjálfstæðisflokkurinn án fálkans? Eða er lausnin kannski brandari og sprell?

Ég held ekki.

Nú hlýtur að koma sá tími að við öxlum ábyrgð á því að velja hvernig samfélag við viljum byggja eftir að hið meinta velmegunarsamfélag hrundi til grunna. Nú höfum við tækifæri til að kjósa samfélag félagshyggju, jöfnuðar og sjálfbærrar þróunar. Stjórnmálaaflið sem getur leitt slíka uppbyggingu er Vinstri hreyfingin grænt framboð. Það er hreyfingin sem tók ekki þátt í spillingunni og peningaæðinu. Það er hreyfing sem hefur mótað sér skýra hugmyndafræði sem breytist ekki fyrir kosningar og var sú sama bæði fyrir og eftir hrun.

Ábyrgð kjósenda er rík. Munum eftir “fokkjúmerkinu” sem við höfum þegar sent komandi kynslóðum. Hugsum okkur tvisvar um áður en við sendum annað slíkt.