Er 0% ásættanlegt hlutfall?

Elva Björk Sverrisdóttir, varaformaður Blaðamannafélags Íslands, hélt áhugavert erindi á fundi Félags fjölmiðlakvenna í gærkvöldi þar sem hún kom m.a. inn á hlutfall kvenna í hópi æðstu yfirmanna stóru fréttamiðlanna. Það er ekki gáfulegt: 0%. Ef litið er til aðstoðarritstjóra, fréttastjóra og varafréttastjóra þá taldist Elvu til að konurnar væru sex og karlarnir 13. Sé síðan litið til þeirra sem vinna við að skrifa fréttir þá verður hlutfallið skást á RÚV og Stöð2/Vísi þar sem konur eru um þriðjungur. Í tvö af fjórum dagblöðum landsins skrifar engin kona, þ.e. Viðskiptablaðið og DV.

Þessi staða er ekki í lagi. Í ofanálag hefur konum snarfækkað á fjölmiðlum í þeim uppsagnarhrinum sem hafa átt sér stað en það segir sig sjálft að þótt álíka mörgum konum og körlum sé sagt upp þá fækkar konum hlutfallslega miklu meira. Það vekur furðu að á fjölmiðlum þar sem konur eru aðeins um þriðjungur blaðamanna eða minna þá séu þær samt um helmingur þeirra sem sagt er upp. Eru allar þessar konur meðal slökustu blaðamanna sinna ritstjórna? Eða getur verið að karlkyns yfirmennirnir hafi meiri samúð með karlkyns kollegum sínum og falli því í gryfju sem atvinnurekendur um allan heim hafa gert þegar þrengir að; að senda konurnar heim en halda körlunum eftir í vinnu.

Gríðarlegt bakslag hefur orðið í þeirri jafnréttisbaráttu sem fjölmiðlakonur hafa háð síðustu áratugina. Baráttu sem hefur öðrum þræði gengið út á það að ekki sé einsleitur hópur karla sem fer með „fjórða valdið“. Þessari þróun verður að snúa við. Ábyrgð þeirra sem fjölmiðlum stjórna og fjölmiðla eiga er mikil.

Prev PostKonurnar aftur á fjölmiðlana
Next PostSterkur listi VG í borginni og á Akureyri