27.04.2012

Ávarp flutt fyrir hönd verkefnisstjórnar um vitundarvakningu um ofbeldi gegn börnum við undirritun samnings milli innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis

27. apríl 2012

Ágæta samkoma,

Mig langar að opna þessa  athöfn með því að biðja ykkur sem fullorðin teljist, hvert og eitt, að hverfa til baka í tímann. Sum fara aðeins nokkur ár, önnur áratugi, aftur til barnæskunnar og rifja upp hvernig það var að vera barn. Hvernig lífsskilningurinn þróaðist smám saman og heimurinn tók á sig mynd. Þessi þróun er ekki línulegt ferli, hún gengur í bylgjum, stundum stökkum, fer fram á við en stundum líka aftur á bak.

Á árum áður þótti óhugsandi að líta á barnæskuna sem sérstakt æviskeið. En nú er til alþjóðasáttmáli, sem næstum öll ríki heims eru aðilar að, þar sem réttindi barna eru sérstaklega tryggð ­– Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Því börn eru alltaf háð fullorðnum og þess vegna er það samfélagsins alls að gæta réttar þeirra. Og bundinn er sá er barnsins gætir.

Ísland er aðili að sáttmála Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu gegn börnum. Varnir, heitir það, en æskilegast væri að tala um útrýmingu eða upprætingu. Ekkert fær réttlætt ofbeldi og aldrei gagnvart barni.

Samningurinn sem hér er undirritaður í dag er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna yfirstandandi fullgildingar á sáttmála Evrópuráðsins. Hann felur í sér að efnt verði til vitundarvakningar um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og með fyrirvara um samþykki Alþingis um fjárveitingar gildir hann til þriggja ára. Á þessu ári  verður 25 milljónum króna varið til vitundarvakningarinnar og áætlað er að verja 16 milljónum á ári næstu tvö árin.

***

Vitundarvakning verður ekki framkvæmd í eitt skipti fyrir öll. Vitundarvakningin um kynferðislegt ofbeldi er heldur ekki að hefjast. Hún hefur staðið yfir í áratugi og við stöndum í þakkarskuld við alla þá sem baráttunni hafa lagt lið, hvort sem er innan hins opinbera eða frjálsra félagasamtaka, að ógleymdum þeim einstaklingum sem stigið hafa fram til að vekja okkur til meðvitundar.

Þetta verkefni sem hér er kynnt til sögunnar er því hvorki upphafspunktur né endapunktur, það markar áframhald, en einnig þá stefnumörkun að kynferðislegt ofbeldi gegn börnum sé mál samfélagsins alls. Og að stjórnvöld gegni hlutverki andspænis þeirri ógn, eins og öðrum ógnum. Því bundinn er sá er barnsins gætir.

Samkvæmt sáttmála Evrópuráðsins skal fræðslu um ofbeldi gegn börnum beint að almenningi, réttarkerfinu, fólki sem starfar með börnum og síðast en ekki síst, börnunum sjálfum.

Til eru þær raddir sem segja að börn eigi að vera frjáls undan upplýsingaflæði hinna fullorðnu um hið illa í heiminum. Þau eigi að fá að vera börn, laus við áþjánina sem þekkingu getur fylgt. Hér er rétt að staldra við. Prófum að færa röksemdina yfir á aðra ógn, sem að börnum steðjar. Þá er nærtækt að nefna umferðina. Við kennum börnum umferðarreglurnar, en vekjum einnig hjá þeim meðvitund um hætturnar sem eru í umferðinni. Um bílstjóra sem aka hratt þótt það sé bannað, virða ekki gagnbrautarskilti og finnst þeir e.t.v. ekki þurfa að stoppa fyrir litlum börnum á leið yfir götu.  Hvernig getur nokkur maður verið svo illgjarn að stunda ofsaakstur í grennd við skóla? Enginn myndi halda því fram að fræðsla af þessum toga ræni barnæskunni af börnum. Og ég leyfi mér að halda því fram að hið sama gildi um aðrar ógnir, þar með talið kynferðislegt ofbeldi.

Því það eru ekki upplýsingar um ofbeldi sem svipta börn sakleysinu, það er ofbeldið sjálft.

Ofbeldismenn fara sínu fram í trausti þess að barnið sem í hlut á segi ekki frá. Barn sem ekki veit að ofbeldi er til er miklu líklegra til að þegja yfir „leyndarmálinu“. Barn sem veit hvað ofbeldi er og hefur fullorðið fólk í sínu umhverfi sem það getur treyst, er líklegra til að segja frá með einhverjum hætti. Þannig er ábyrgðinni varpað á þann sem beitir ofbeldinu og á sama tíma er barninu gert mögulegt að vinna úr afleiðingum ofbeldisins. Því það er hægt að vinna úr afleiðingum kynferðislegs ofbeldis, eins og öðrum áföllum.

***

Börn eru börn til 18 ára aldurs. Alvarleiki ofbeldis fer ekki minnkandi þótt barnið eldist og heldur ekki þótt gerandinn sé nær því sjálfu í aldri. Það er ekki neins að skipta ofbeldi upp með þeim hætti að það sé talið léttvægara gegn einum en öðrum. Við eigum að taka allt ofbeldi alvarlega. Því ofbeldi er niðurbrjótandi og kynferðislegt ofbeldi vegur að friðhelgi manneskjunnar.

Fræðsla um kynferðislegt ofbeldi þarf því að fjalla bæði um það ofbeldi sem fullorðnir beita börn og um ofbeldi þar sem gerandi og þolandi eru nær í aldri. Fáir myndu halda því fram í dag að lítil börn bæru ábyrgð á ofbeldi sem fullorðnir beita þau eða að ímyndarveiki væri stærra vandamál en kynferðislegt ofbeldi. Einhvern veginn virðist myndin flækjast þegar börnin eru orðin að unglingum. Þetta endurspeglast í samfélagslegri umræðu og einnig innan kerfisins, þar með talið réttarkerfisins. Það er verkefni okkar allra að breyta því. Við eigum að draga skýra línu milli kynlífs og ofbeldis. Kynlíf er fallegt form fyrir nánd, þar erum við berskjölduð, jöfn og náin. Ofbeldi á ekkert skylt við það. Í ofbeldi felast yfirráð og niðurlæging, sársauki og ótti.

***

Á fundi sem innanríkisráðuneytið efndi til á dögunum um mannréttindi geðsjúkra tók til máls maður sem hafði reynslu af glímu við geðsjúkdóm. Hann benti á það að margir sem glíma við geðsjúkdóma eiga sára reynslu úr bernsku, sem tekur sig upp undir álagi á fullorðinsárum. Svo bætti hann við: Þess vegna verðum við að koma í veg fyrir að börn verði fyrir ofbeldi.

Það var eitthvað við þessa setningu sem sat í mér, hún virtist koma frá dýpstu hjartarótum

En hann talaði líka um fyrirgefninguna, að fyrirgefa þótt beiðni um fyrirgefningu sé ekki endilega sett fram. Og ég held að við þurfum að fyrirgefa samfélaginu, okkur, fyrir að hafa ekki tekist betur til.

Því kynferðislegt ofbeldi getur aðeins þrifist í svo miklum mæli sem það gerir að samfélagið leyfi það. Það er eitthvað að í samfélagsgerðinni fyrst svo margir beita ofbeldi, vilja öðlast yfirráð yfir öðrum. Ef við ætlum að komast áfram og breyta samfélaginu, breyta okkur sjálfum, þurfum við að horfast í augu við þetta, viðurkenna brestina og reyna að laga þá. Við gerum ábyggilega mistök á þeirri vegferð, þar með talið í þessu verkefni. En við erum að reyna. Og við ætlum að læra af reynslunni og halda áfram að reyna.

Takmarkið er að ekkert barn verði fyrir ofbeldi og að ekkert barn vaxi úr grasi með þeim hætti að það beiti aðra ofbeldi. Ég hef trú á því að það sé hægt. Það gerist ekki á einni nóttu, heldur með því að halda alltaf áfram og gefast aldrei upp. Því bundinn er sá er barnsins gætir.