24.02.2012

Ræða flutt á flokksráðsfundi VG

Ágætu félagar,

Ég ákvað að þessu sinni að vera með skrifaða ræðu. Ég skrifa yfirleitt ekki ræður fyrir flokksráðsfundi nema að mér finnist ég þurfa að koma miklu til skila á skömmum tíma eða – og á það við í þessu tilfelli – mér er svo mikið niðri fyrir að ég treysti mér tæplega til að tala blaðlaust.

Það kemur kannski ekki á óvart að það mál sem ég vil gera að umtalsefni er þingsályktunartillöga um að heimila staðgöngumæðrun. Ég gæti haldið um þetta mjög langt erindi en ætla að halda mig við mínúturnar fjórar, sem mér er úthlutað.

Í umræðunni um staðgöngumæðrun blandast saman svo margt sem hreyfir ekki aðeins við kollinum á mér heldur hreinlega innyflunum, þar með talið leginu. Ekki þó svo að skilja að legið fari á flakk og ég upplifi svokallaða hysteríu, sem var læknisfræðileg skýring fyrri tíma á þjáningum kvenna.

Ég leyfi mér hér að tala um leg vegna þess að það líffæri hlýtur að eiga að vera miðlægt í umræðu um staðgöngumæðrun. Samt hef ég afar sjaldan heyrt á það minnst og sennilega aldrei í opinberri umræðu, nema þá í læknisfræðilegum tilgangi þegar fjallað er um konur sem missa leg eða fæðast án legs, eða um vægast sagt vafasama nýjung sem sænskir læknar hafa þróað: Að taka leg úr einni konu og setja í aðra.

Ástralska fræðikonan Germaine Greer ritar um legið í bók sinni The whole woman og bendir á hvernig líffræðilegar skýringarmyndir hafa sýnt þetta líffæri, ranglega, eins og vasa á billjard-borði, rými sem bíður þess að vera fyllt. Menningarlegt meðvitundarleysi um leg geri það að verkum að tungumálið nái ekki einu sinni utan um það. Þannig tölum við um að verðandi móðir gangi með barn í maganum – sem væri afar óþægilegt fyrir alla – en ekki í leginu. Tíðarverkir eru sagðir í maga eða baki, en hvar eru þeir í alvörunni?

Greer segir:

„Tungumál okkar styrkir í sessi þá hugmynd að legið sé tómarúm sem þurfi að fylla, mannlaust húsnæði sem bíður leigjanda. Í umræðu um staðgöngumæðrun er oft talað um leg til láns eða leg til leigu, eins og kona sem samþykkir að vera staðgöngumóðir reki mannlega heimavist.“

Séu yfirleitt tengsl milli líkamlegrar nándar og tilfinningalegrar þá geti sú tenging varla orðið meiri en milli konu og barns sem dafnar inni í líkama hennar, bendir Greer á. Samt sé til þess ætlast að konur gangi með barn og gefi það frá sér án þess að finna til.

Í áratugi hafa konur á Íslandi barist fyrir því að þurfa ekki að gefa frá sér börn sem þær ganga með. Uppbygging velferðarkerfisins og almenns menntakerfis gekk öðrum þræði út á það, að ekki sé minnst á frjálsar fóstureyðingar. En nú, árið 2012, hefur Alþingi falið velferðarráðherra að semja frumvarp sem gengur út á að konur gangi með börn gagngert til að gefa þau frá sér, þvert gegn áliti allra umsagnaraðila nema frjálshyggjumanna og hagsmunaaðila.

Það er merkilegt að samfélag sem er jafn ómeðvitað um leg og raun ber vitni, sé tilbúið, nánast umhugsunarlaust, að heimila með lögum að hægt sé að biðja konu um að veita afnot af legi sínu og líkama, til að aðrir geti náð fram sínum markmiðum. Og þetta þarf að ræðast alveg óháð því hversu falleg markmiðin sem hér um ræðir geta verið, þ.e. að uppfylla löngunina til að ala upp barn af ást og umhyggju.

Ég spyr því: Var hér e.t.v farið fram af kappi, fremur en forsjá? Getur verið að við sem samfélag séum langt frá því að geta tekið ákvarðanir eins og þessa? Ég tel svo vera.

Þess vegna hvet ég eindregið – og í fullum kærleika – þá þingmenn sem samþykktu þingsályktunartillöguna að endurskoða afstöðu sína, því frumvarpið er enn ekki orðið til og lög hafa ekki verið sett. Skipumst á skoðunum og sameinumst um að gefa samfélaginu miklu lengri tíma til umræðunnar og hinu alþjóðlega umhverfi til rannsókna á langtíma áhrifum staðgöngumæðrunar. Umræðan á ekki að fjalla um einstaklinga, heldur um hugmyndir, siðferði, menningu og samfélag. Já og kannski leg!

03.02.2012

Í gær fór fram umræða á Alþingi um frumvarp til nýrra barnalaga. Verði frumvarpið að lögum verða grunngildi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna lögfest og réttarstaða barna styrkt til muna, ekki síst barna sem deilt er um forsjá yfir og umgengni við. Sátt er lykilhugtak frumvarpsins og aðkoma hins opinbera að deilum mun miða að því að aðstoða foreldra við að ná sátt, vegna þess að sátt er best fyrir börnin. Málefni barna eiga ekki heima inni í farvegi átaka, heldur farvegi sáttar. Þannig er gert ráð fyrir að veita stórauknum fjármunum til sáttameðferða og foreldrar sem eiga í deilum verða skikkaðir til að ræða málin með fagaðila.

Sporin hræða

Þetta eru byltingarkenndar breytingar og ég játa því að það kom mér á óvart hversu takmarkað pláss þær hlutu í umræðunni á þingi, sem nokkrir þingmenn tóku þátt í. Mest púður fór í að ræða hvort dómarar eigi að hafa heimild til að dæma sameiginlega forsjá, en í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að lögfesta slíka heimild. Þar að baki býr m.a. það sjónarmið að leita eigi allra leiða til að draga þessi mál út úr dómstólafarvegi og inn í heilbrigðari farveg sáttameðferðar. Takist það ekki, sé hins vegar erfitt að koma á samstarfi með dómi. Þótt öll Norðurlöndin hafi dómaraheimild í sínum lögum þá hræða sporin. Í Svíþjóð kom í ljós að dæmd var sameiginleg forsjá í alltof mörgum málum þar sem ljóst mátti þykja að foreldrar gætu ekki starfað saman og í alltof mörgum málum þar sem sterkar vísbendingar, jafnvel sannanir, voru um að annað foreldrið hefði beitt hitt ofbeldi. Enn verra er að til eru dæmi þess að dæmd sé sameiginleg forsjá og úrskurðuð jöfn umgengni í málum þar sem foreldri hefur orðið uppvíst af ofbeldishegðun gagnvart börnum. Börnin hafa þannig ekki notið vafans í öllum tilfellum þar sem sameiginleg forsjá hefur verið dæmd. Rétt er að taka fram að til eru dæmi um að sameiginleg forsjá hafi verið dæmd og það lukkast vel. En hin dæmin eru sláandi.

Frumvarp til barnalaga setur auknar skyldur á hið opinbera þegar kemur að ákvörðun um forsjá og umgengni. Skilyrðislaust ber að líta til hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimilinu hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi.

Þótt deilt sé um dómaraheimild um sameiginlega forsjá væri afar slæmt ef sú deila yrði til þess að frumvarpið – sem felur í sér veigamiklar réttarbætur fyrir börn – hlyti ekki afgreiðslu Alþingis.

Þótt ræða megi réttindi barna í samhengi við dómaraheimildina og að ég beri virðingu fyrir þeim ólíku sjónarmiðum sem þar eru uppi, þá er ljóst að réttindi barna sem kveðið er á um í þessu frumvarpi einskorðast ekki við þetta ákvæði. Þvert á móti.

Samhengi hlutanna

Þegar umræðu um þetta frumvarp lauk á Alþingi í gær tók við umræða um frumvarp sem er liður í fullgildingu á sáttmála Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og misneytingu á börnum. Þar er m.a. að finna ákvæði sem gerir það refsivert að mæla sér mót við barn í kynferðislegum tilgangi, en hingað til hefur slíkt aðeins verið álitið undirbúningsathöfn að glæp í skilningi laganna. Verði frumvarpið að lögum er löggjöf gegn barnaklámi – eða myndrænni kynferðislegri misnotkun á börnum – einnig styrkt.

Það er aldrei rétt að gera það að kröfu að baráttufólki fyrir réttindum á einu sviði skuli berjast á öðrum sviðum líka. Engu að síður vakti það athygli að þegar kynferðisbrotafrumvarpið kom til umræðu, u.þ.b.  30 sekúndum eftir að barnalagafrumvarpsumræðunni lauk, hurfu allir talsmenn réttinda barna úr þingsal, að undanskildum einum, Siv Friðleifsdóttur, sem fagnaði frumvarpinu og hét því að vinna því framgöngu á vettvangi allsherjar- og menntamálanefndar.

Íslensk börn búa við einar bestu aðstæður sem um getur í heiminum. Það gerðist hins vegar ekki af sjálfu sér, heldur vegna þrotlausrar og óeigingjarnrar baráttu fólks, þ.m.t. þingmanna, fyrir réttindum barna, réttindum sem byggja á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og bestu framkvæmd hans sem finna má í löndum heims. Okkur sem á eftir komum, hvort sem er innan ráðuneyta, stofnana, Alþingis eða samfélagsins í heild, ber skylda til að viðhalda þessum árangri og skoða í hvívetna möguleika á að bæta um betur. Hætt er við að umræðan einskorðist við einstök pólitísk viðfangsefni samtímans, eins og sjá mátti á umræðu um dómaraheimildina á Alþingi í gær. Alþingismenn verða að geta hugsað stærra en svo til að viðhalda og berjast fyrir auknum réttindum barna.

Umræðan um barnalögin er aðgengileg hér: http://www.althingi.is/altext/140/02/l02163413.sgml

03.02.2012

Birtist í DV 20. janúar 2012

Í vikunni stóð ég mig að því að ætla að svara spurningu sem ég kunni ekkert svar við. Sennilega þótti mér spurningin, sem kom frá útlendingi og laut að Bláa lóninu, þess eðlis að ég ætti að vita svarið. Áður en ég romsaði út úr mér ágiskunum eins og um staðreyndir væri að ræða náði ég að staldra við og svaraði heldur með þeim einfalda hætti: „Ég veit það ekki.“

Þetta kom mér til hugar þegar ég heyrði Liz Kelly, prófessor og sérfræðing í meðferð kynferðisbrotamála, tala um kröfur sem gerðar eru til brotaþola kynferðisofbeldis þegar þeir leita réttar síns. Hvernig tengist þetta tvennt? Jú, Liz Kelly vekur athygli á því hvernig við hegðum okkur í daglegu lífi  og hvernig sönnunarkröfur í kynferðisofbeldismálum geta gengið á skjön við mannlega hegðun. Út frá rannsóknum á meðferð kynferðisbrota á Bretlandi og í Bandaríkjunum tekur hún tvö dæmi:

1.    Þegar við segjum frá einhverju sem reynist okkur erfitt á frásögnin til að vera óreiðukennd og óyfirveguð. Ef við þekkjum viðmælandann takmarkað byrjum við stundum á því að prófa hann með því að segja frá litlum þætti þess sem liggur okkur á hjarta, til að átta okkur á því hvernig hann tekur upplýsingunum og hvort honum sé treystandi. Í kynferðisbrotamálum er hins vegar gerð krafa um skipulega frásögn frá fyrsta stigi og það kann að vera notað gegn brotaþola komi hann fram með nýjar upplýsingar á síðari stigum.

2.    Þegar við höfnum einhverju í daglegu lífi gerum við það sjaldnast hreint út heldur tölum við í kringum neitunina, til að særa ekki tilfinningar annarra. Einfalt svar við matarboði frá vini getur jafnvel innihaldið langa afsökun: „Því miður kemst ég ekki, ég er að…“. Þegar kemur að því að greina hvort manneskja hafi hafnað kynlífi getur hins vegar verið gerð krafa um miklu skýrari neitun, helst með orðinu nei og jafnvel líkamlegri mótspyrnu.

Með sama hætti eigum við til að svara spurningum með ágiskunum, e.t.v. vegna þess að við teljum upplýsingarnar litlu máli skipta. Slíkt getur hins vegar komið sér afar illa þegar sakamál er til rannsóknar!
Liz Kelly verður meðal fyrirlesara á ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota sem innanríkisráðuneytið og lagadeild Háskóla Íslands í samvinnu við Evrópuráðið og Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr standa fyrir í dag. Á ráðstefnunni verður meðal annars fjallað um barnvinsamlegt réttarkerfi, þróun nauðgunarhugtaksins og mat á trúverðugleika. Ráðstefnan er liður í að skoða hvort og þá hvernig megi halda áfram að bæta meðferð kynferðisbrota til að brotaþolar og sakborningar upplifi að þeir hljóti réttláta málsmeðferð. Ráðstefnan hefst kl. 10 og er öllum opin.