Birtist í Morgunblaðinu 17. desember 2011
Þann 2. júní 2010 kvað dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur upp ellefu samhljóða úrskurði um lokun réttarhalda í málum yfir sakborningum í svonefndu Catalinu-máli, en þeir voru allir ákærðir fyrir kaup á vændi. Þetta var í fyrsta sinn sem reyndi á nýja löggjöf, að sænskri fyrirmynd, um bann við kaupum á vændi en sú löggjöf er í samræmi við aukna þekkingu á orsökum og afleiðingum vændis.
Meginregla í íslensku sakamálaréttarfari er að þinghöld skuli haldin í heyranda hljóði, líkt og kveðið er á um í Stjórnarskrá Íslands. Dómara er hins vegar fengin heimild til að loka réttarhöldum „til að gæta velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila.“ Þessa ákvörðun rökstuddi dómarinn við Héraðsdóm Reykjavíkur með vísan til velsæmis og til þess að vernda þyrfti sakborningana og aðstandendur þeirra. Hvorki fylgdi frekari útlistun á velsæmishugtakinu né útskýring á hvers vegna sakborningar í þessum tilteknu málum þyrftu verndar við umfram aðra sakborninga.
Rétt er að taka fram að í kynferðisbrotamálum eru réttarhöld öllu jafna lokuð. Er það réttlætanlegt til verndar brotaþola, enda búum við því miður í samfélagi þar sem ábyrgð á kynferðisofbeldi er enn að hluta til varpað á þann sem fyrir ofbeldinu verður, fremur en einvörðungu þann sem beitir því, líkt og rétt væri.
Þótt staða þolenda í vændismálum sé lagalega ólík stöðu brotaþola í öðrum kynferðisbrotum hefði getað komið til álita að loka vitnaleiðslum yfir vændiskonunum sem um ræddi þeim til verndar. Það sjónarmið var hins vegar fyrirferðalítið í ákvörðun dómarans.
Blaðamaður, en ekki blaðamaður
Samkvæmt sakamálalögum getur sá sem sættir sig ekki við ákvörðun dómara um lokað þinghald krafist þess að kveðinn verði upp úrskurður um lokunina, sem síðan er kæranlegur til Hæstaréttar. Ekki er nánar tilgreint hverjir geti krafist þess að slíkur úrskurður sé upp kveðinn en í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að úrræðið geti ekki aðeins nýst brotaþola heldur einnig öðrum. Fréttamenn eru nefndir þar í dæmaskyni, með vísan í dóm Hæstaréttar frá árinu 2000 þar sem fréttamaðurinn Þór Jónsson fór fram á opnun réttarhalds yfir manni sem var ákærður fyrir nauðgun og morð. Hæstiréttur tók málið fyrir en staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um lokuð þinghöld.
Með vísan í ofangreint kærði sú sem þetta ritar ákvörðun héraðsdómarans til Hæstaréttar og gerði það sem blaðamaður, talskona Femínistafélags Íslands og almennur borgari. Var í greinargerð með kærunni m.a. vísað til þess markmiðs laganna um vændi að sporna gegn eftirspurn og bent á að „óþægindi einstaklings“ gætu ekki vegið þyngra en sjónarmið um að treysta réttaröryggi aðila, styrkja tiltrú almennings á réttarkerfinu og veita dómurum aðhald í störfum sínum.
Þriggja manna dómur Hæstaréttar klofnaði í afstöðu sinni til málsins en meirihlutinn ákvað að vísa málinu frá á þeirri forsendu að kærandi hefði ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Í niðurstöðu meirihluta Hæstaréttar er hvergi rökstutt hvers vegna ég, sem þá hafði haft blaðamennsku að aðalstarfi í sex ár, hlaut aðra meðferð en kollegi minn tíu árum fyrr. Af sératkvæði minnihluta réttarins má draga þá ályktun að það hafi m.a. verið vegna þess að í greinargerð með kærunni var ekki vísað til sérstaks fjölmðils. Það er ótrúlegt – og alfarið á skjön við veruleikann í íslenskri blaðamannastétt þar sem fjöldi fólks starfar sem lausapennar – að meirihluti Hæstiréttar hafi tekið sér það vald að ákveða að blaðamenn teljist aðeins blaðamenn fyrir réttinum að þeir starfi fyrir ákveðinn miðil.
Minnihluti Hæstaréttar var á annari skoðun hvað þetta varðar og taldi jafnframt rétt að taka málið fyrir á grundvelli þess að það var sett fram í nafni Femínistafélags Íslands en félagið hafði allt frá stofnun árið 2003 barist fyrir því að kaup á vændi yrðu gerð refsiverð.
Í stuttu máli er hin þrönga túlkun meirihluta Hæstaréttar á annars víðu lagaákvæði sakamálalaganna afar illa rökstudd.
Vernd fyrir hverja?
Nú bregður svo við, rúmu ári eftir ákvörðun um hin lokuðu réttarhöld yfir vændiskaupendunum, að beiðni lögmanns konu sem ákærð er fyrir að hafa banað nýfæddu barni sínu er synjað. Í rökstuðningi dómara Héraðsdóms Reykjavíkur segir m.a: „Það þurfa að vera ríkar ástæður til þess að víkja frá meginreglunni um að þinghöld í sakamálum séu opin. Nær öllum sakborningum er það erfitt, og sumum mikil raun, að sitja í þinghaldi þar sem fjallað er um ákærur á hendur þeim.“
Ekki nóg um að þessi úrskurður sé kveðinn upp af sama dómstóli og lokaði réttarhöldum í málefnum vændiskaupendanna, heldur einnig af sama dómara. Í staðfestingu á úrskurðinum vísar Hæstiréttur til þess að þar sem lokun réttarhalda sé undantekning frá meginreglu þá skuli skýra ákvæðið þröngt!
Þessi ólíka málsmeðferð hlýtur að vekja upp spurningar. Hvaða sjónarmið ráða för? Hagsmuni hverra vilja dómstólar vernda?
Að lokum set ég í auðmýkt fram örlitla hvatningu til þeirra sem þetta lesa, kunna að vera á öndverðum meiði og hyggjast svara greininni að gera formið ekki að aðalatriði heldur innihaldið. Sanngjörn gagnrýni og samtal getur aldrei verið af hinu illa.
07.12.2011Birtist á knuz.is 7. desember 2011
- Á Íslandi leita 230 manneskjur, að langmestu leyti konur, sér aðstoðar á hverju ári vegna nauðgunar ýmist hjá Neyðarmóttöku eða hjá Stígamótum. Um 70 mál eru kærð til lögreglu. 50 mál rata til Ríkissaksóknara. Þar er stærstur hlutinn felldur niður. Ákært er í um 15 málum og sakfellt í um það bil átta málum. Með öðrum orðum: Um 3-4% nauðgunarmála sem upp koma á ári hverju enda með sakfellingu. Athugið að hér eru ekki teknar inn nauðganir eða kynferðisleg misnotkun þar sem þolendur eru börn, þá tvöfaldast ofbeldið. Ragnar sakargiftir eru til í þessum brotaflokki eins og öðrum og að því er næst verður komist koma um 1-2 slík mál upp hérlendis á ári hverju. Hins vegar er ótalinn sá fjöldi þolenda nauðgana sem aldrei leitar sér aðstoðar.
- Nauðganir eiga sér ekki stað í lausu lofti. Þær eru ekki óumflýjanlegar eins og náttúruhamfarir. Það eru ofbeldismenn að baki hverju einasta máli. Þetta eru ekki örfáir sjúkir einstaklingar sem nauðga, þetta er fjöldi „venjulegra“ karla og þeir eru í okkar nærumhverfi – á vinnustað, í fjölskyldu, í vinahópi. Og já, það eru líka til konur sem nauðga og það er rétt að geta þess. En þær eru margfalt færri og veruleiki nauðgana er því kynjaður. Nauðgun er raunveruleg og nálæg ógn við líf og heilsu allra kvenna á Íslandi.
- Af hverju er þetta svona? Hvað er það í menningu okkar og samfélagi sem skapar rými fyrir allt þetta ofbeldi? Meðal annars er það upphafning á staðalímyndum kynjanna, en þeim er viðhaldið með kynmótun. Þannig verða til „sterkir“ karlar sem skeyta engu um tilfinningar en fara sínu fram, óháð því hvað aðrir segja. Og þannig verða til óttaslegnar konur, sem er kennt að segja ekki frá ef á þeim er brotið og ef þær segja frá þá geta þær átt yfir höfði sér dóma heimsins, útskúfun og endalausar umræður um kynhnegðun sína. Sem betur fer brýst stór hluti fólks út úr þessum staðalímyndarformum, en engu að síður viðhöldum við hugmyndinni um hinn sterka karl og hina þjónkandi konu með ýmsum leiðum í samfélagi okkar, t.d. í uppeldi barna, í samskiptum og í gegnum fjölmiðla eða aðra menningarstarfsemi. Þannig búum við til valdamisræmi og skilyrði fyrir nauðgara til að fremja sína glæpi.
- Hið samfélagslega samþykki á sér ýmsar birtingarmyndir. Ein af þeim er í gegnum „grín“, þar sem kynferðislegt ofbeldi og hótanir um það eru gerðar að aðhlátursefni. Ef samfélagið samþykkir slíkt „grín“ eru minni líkur en annars á því að nauðgari átti sig á að hann hafi gert eitthvað rangt. Önnur lýsir sér þannig að ofbeldi og kynlífi er þvælt saman og því haldið fram að þar á milli sé stórt grátt svæði. Nauðgun sé kynlíf sem „gangi of langt“. En línan þar á milli er skýr og það nauðgar enginn óvart í hita leiksins. Ekki frekar en gamnislagur þróast „óvart“ út í líkamsárás.
- Við höfum val um afneita veruleikanum. En við höfum líka val um að bregðast öðruvísi við – um að standa upp og hafna ofbeldi í öllum sínum birtingarmyndum:
- Við getum hlustað á fólk sem leitar sér hjálpar og segir frá.
- Við getum stigið varlega til jarðar í umfjöllun um nauðgunarmál, af tillitsemi við þann fjölda fólks sem hefur verið nauðgað. Höfum tölfræðina í huga.
- Við getum hætt að hlæja að bröndurum sem fjalla um ofbeldi gegn konum og neitað að taka þátt í þeirri firringu að það sé eðilegt að setja fram nauðgunarhótanir „í gríni“.
- Við getum mótmælt slíku gríni eða staðið með þeim sem hafa kjark til þess.
- Við getum sagt skilið við afstöðuleysið, sem við eigum til að detta í. Þess í stað tökum við afstöðu gegn ofbeldi, því afstöðuleysið getur verið ofbeldi í sjálfu sér.
- Til að uppræta nauðgunarmenningu þarf að taka einarða afstöðu gegn kynferðisofbeldi, kvenfyrirlitningu og kynjamisrétti. Drepum ekki sendiboðann. Styðjum heldur hvert annað í að útrýma ofbeldi.