30.04.2011

Áhugaverð umræða hefur spunnist um grein mína um málefni Blaðamannafélags Íslands, sem ég birti hér á þessari síðu fyrir þremur dögum síðan. Á vefmiðlunum tveimur Eyjunni og Pressunni, sem deila sömu eigendum, er það gert að aðalatriði að aðstoðarmaður ráðherra skrifi grein um Blaðamannafélag Íslands og málefni þess.

Nú skal það rifjað upp að ég var félagi í Blaðamannafélagi Íslands þar til ég missti vinnuna sem blaðamaður. Þrátt fyrir óskir um annað fór ég út af félagatalinu og veit ég um fleiri sem svo er ástatt um. Hefði ég hlotið biðaðild, eins og ég óskaði eftir, þá hefði ég tekið þátt í fundinum á fimmtudag, ekki sem aðstoðarmaður ráðherra, heldur sem fyrrum blaðamaður á Morgunblaðinu og félagi í BÍ. Ég get ekki séð að sú aðkoma hefði verið á nokkurn hátt flokkspólitískari en þátttaka framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokks og fyrrum bæjarstjóra Samfylkingarinnar á þeim fundi. Þau eiga aðild að félaginu og hafa rétt á að taka þátt í fundum þess sem slíkir. Þann rétt eiga líka nokkrir núverandi þingmenn, eins og Árni Johnsen, Álfheiður Ingadóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Furðufrétt Moggans

Ég játa að það kom mér ekki endilega á óvart að vefmiðlarnir, Pressan og Eyjan, (sem ganga iðulega mjög langt í spuna en hika ekki við að nota orð eins og „málgagn“ um aðra miðla) skyldu einblína á stöðu mína fremur en það sem ég hafði fram að færa. En það  kom mér í opna skjöldu þegar Morgunblaðið hafði samband til að spyrja mig út í greinaskrifin – og þá ekki í hverju gagnrýnin var fólgin, heldur hvaða hatt ég hafði á kollinum þegar ég ritaði greinina. Úr þessu varð til undarleg fylgja með frétt um aðalfundinn, sem birtist á bls. 2 í blaði gærdagsins, þar sem fjallað er um að ég hafi skrifað greinina sem fyrrum félagi í BÍ. Flestum lesendum sem ekki lásu æsilegar fregnir vefmiðlanna frá deginum áður hefur sennilega verið hulin ráðgáta um hvað fréttin fjallaði.

Í þessum fréttaskrifum kristallast einn stærsti vandi fjölmiðlaumfjöllunar – og umræðu almennt – á Íslandi. Einblínt er á form, ekki innihald. Greinin er tortryggð á grundvelli stöðu eða skoðana höfundar, ekki á grundvelli þess sem þar er sett fram.

Gagnrýni mín sneri að vinnubrögðum innan BÍ, m.a. þeirri staðreynd að félagatalið er ekki í neinu samræmi við lög félagsins (svo það sé endurtekið og vakin á því athygli sem hugsanlega hefði mátt teljast fréttapunktur í greininni). Atkvæðagreiðslan sem fram fór á aðalfundinum fyrir um ári síðan var eins og þær gerast verstar í pólitík (og reyndar heyrist oft krafa um að atkvæðagreiðslur eigi alltaf að vera þannig). Dagskrárbreytingartillagan sem lögð var fram á þessum fundi árið 2010 var vel ígrunduð og rökstudd og það hefði ekki þurft að dyljast neinum sem kynnti sér málið eða hlýddi á málshefjanda. En þá þegar var búið að skipta fundinum í lið: Með eða á móti Hjálmari Jónssyni, með eða á móti yfirlýsingum þáverandi stjórnar BÍ um eigendur fjölmiðla, með eða á móti ritstjóra Morgunblaðsins.

Umræða fyrir alla, ekki suma

Hæglega hefði mátt samþykkja dagskrárbreytingartillöguna, halda framhaldsaðalfund í samræmi við lög félagsins og niðurstaðan hefði eflaust orðið sú sama. Þannig hefði sanngirni verið gætt og blaðamannafélagið ekki gerst sekt um vinnubrögð sem bera vott um leyndarhyggju, geðþóttaákvarðanir og flaustur. En svo fór ekki. Það harmaði ég þá (og má bæta því við að þá var ég ekki aðstoðarmaður heldur sinnti ég fræðiskrifum og ritstörfum). Og það harma ég enn.

Blaðamenn hafa starfa að því að spyrja gagnrýninna spurninga, koma upp um og jafnvel í veg fyrir spillingu og sjá til þess að lýðræði sé virkt og virt. Þess vegna má gera miklar kröfur  til fag- og stéttarfélaga blaðamanna. Það er jafnframt eðlilegt – og engin ástæða til að óttast slíkt – að starfandi blaðamenn (hvort sem þeir eru innan félagsins eða utan), fyrrum blaðamenn og aðrir sem áhuga hafa taki þátt í slíkri umræðu.  Þá hlýtur að vera farsælla að fara í boltann en manninn.

27.04.2011

Birtist einnig á visir.is

Fyrir rétt um ári síðan hélt Blaðamannafélag Íslands aðalfund sinn við heldur skrítnar aðstæður. Meirihluti stjórnar hafði neitað að samþykkja ársreikninga félagsins vegna skorts á upplýsingum frá framkvæmdastjóra félagsins, til margra ára, um fjárhagsstöðu BÍ. Framkvæmdastjórinn ákvað í framhaldinu að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni en kjörtímabil formanns er aðeins eitt ár. Sitjandi formaður dró hins vegar framboð sitt til baka og því var aðeins eitt framboð, frá starfsmanni stjórnar félagsins, sem óljóst var hvort væri kjörgengur. Aðalfundur  þurfti að takast á við þetta, auk þess sem samþykkja þurfti ársreikninga sem meirihluti stjórnarinnar hafði neitað að skrifa upp á.

Illskiljanlegt félagatal

Í aðdraganda aðalfundarins og á honum sjálfum komu í ljós verulegir annmarkar á skipulagi og rekstri BÍ. Lög félagsins eru óljós og félagatal ekki í neinu samræmi við þau lög sem gilda um aðild að félaginu. Samkvæmt lögunum geta blaðamenn orðið félagar ef þeir hafa fjölmiðlun að aðalstarfi, bæði sem starfsmenn ritstjórna og sem lausapennar. Hætti viðkomandi í blaðamennsku jafngildir það úrsögn úr félaginu og ekki er annað að sjá en sama gildi um blaðamenn sem hætta af sjálfdáðum og þá sem sagt er upp störfum. Blaðamenn geta þó fengið svokallaða biðaðild með samþykki stjórnar.

Þetta er mikilvægt þar sem fjöldi blaðamanna hefur misst vinnuna undanfarin ár en fyrir síðasta aðalfund hafði stjórn ekki tekið eina einustu ákvörðun um biðfélaga. Hins vegar höfðu sumir, sem þess óskuðu, fengið samþykkta biðaðild af áðurnefndum framkvæmdastjóra. Á sama tíma er fjöldi fólks á félagatali BÍ sem fyrir margt löngu hætti í blaðamennsku og sneri sé að störfum á öðrum vettvangi. Þar má t.d. finna nokkra núverandi alþingismenn, upplýsingafulltrúa stofnana, fyrirtækja og einstaklinga og einstaka rithöfund. Margir sem misstu vinnuna í uppsagnahrinum á fjölmiðlum, þ.m.t. sú sem þetta ritar, duttu hins vegar samstundis út af félagatalinu – jafnvel þvert á eigin óskir – og hafa því ekki atkvæðarétt á aðalfundi.

Fyrir aðalfund BÍ árið 2010 var alls óljóst hver hafði aðild að félaginu – og þar af leiðandi atkvæðarétt – og hver ekki. Þar af leiðandi var líka óljóst hverjir höfðu málfrelsi og tillögurétt á fundinum og hverjir voru kjörgengir. Þannig var því aldrei svarað hvort framkvæmdastjórinn væri sjálfur kjörgengur en miðað við lög félagins benti allt til þess að svo væri ekki.

Eitt loforð gefið – eitt loforð svikið

M.a. vegna þessara vafaatriða var lagt til í upphafi aðalfundarins að fresta kjöri formanns og stjórnar. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum samþykkti aðalfundur frávísun á þessa tillögu. Framkvæmdastjórinn og tilvonandi formaður hélt dramatíska (og mjög langa) ræðu um dugnað sinn í starfi (þ.m.t. fyrir að hafa rekið „skúringakellinguna“ og tekið að sér skúringar sjálfur) og veifaði reikningum sem enginn fékk að skoða. Hann svaraði hins vegar í engu þeim mikilvægu spurningum sem voru spurðar, að því undanskildu að hann sagðist ekki ætla sér að vera starfandi formaður, heldur aðeins formaður. Formaður BÍ hafði áður 80 þúsund krónur í mánaðartekjur en framkvæmdastjórinn að því er virðist í kringum 700 þúsund krónur.

Frá þessum aðalfundi hefur lítið borið á stjórn BÍ. Vonir stóðu til að lög félagsins yrðu endurskoðuð en svo fór ekki. Starfið hefur verið í lágmarki og opnir fundir, sem annars voru yfirleitt vel sóttir, hafa legið niðri. Formaðurinn réð framkvæmdastjóra í hlutastarf – án auglýsingar – en hélt sínum tekjum sem formaður, þvert á yfirlýsingar sem hann gaf á aðalfundinum.

Á morgun, fimmtudag, koma félagar í BÍ saman til aðalfundar. Að þessu sinni er formaður ekki sjálfkjörin en valið stendur milli sitjandi formanns, Hjálmars Jónssonar, og Ingimars Karls Helgasonar. Ingmar hefur gert vel grein fyrir þeim áherslum sem hann vill taka með sér inn í stjórn BÍ en um þær má m.a. lesa á vefsvæðinu press.is, þar sem Hjálmar gerir einnig grein fyrir sínum sjónarmiðum. Hvernig sem á það er litið þá þarf að efla að Blaðamannafélag Íslands og mynda traust um starfsemi þess. Það traust er ekki fyrir hendi í dag og núverandi formaður hefur ekkert aðhafst í að lagfæra þá annmarka sem athygli var vakin á fyrir síðasta aðalfund. Félagar fjölmenna vonandi á fundinn og kjósa breytingar til batnaðar.

Hér má sjá skrif um aðalfundinn frá því í fyrra sem varpa betur ljósi á þær spurningar sem þá voru settar fram en aldrei fengust svör við:

http://halla.is/?p=1072

http://halla.is/?p=1075

Athugasemd: Í greininni stendur að lög félagsins hafi ekki verið endurskoðuð. Þar er ekki rétt með farið. Lagabreytingar voru á dagskrá fundarins en afraksturinn hefur ekki verið birtur opinberlega. Biðst ég velvirðingar á misherminu.

01.04.2011

Birtist á Smugunni 1. apríl 2011

Í fyrstu íslensku hegningarlögunum frá árinu 1869 var lögð helmingi lægri refsing við nauðgun ef konan sem nauðgað var hafði á sér óorð. Eins og gefur að skilja var þá lítill skilningur á kynferðislegu ofbeldi og umræða um það lá í láginni þar til seint á síðustu öld. Fólk vildi trúa því að slík brot ættu sér aðeins stað úti í hinum ljóta heimi, ekki í litlu íslensku samfélagi.

Á 8. og 9. áratugnum hófst vitundarvakning um kynferðislegt ofbeldi, sem stendur enn. Sú vitundarvakning hefur þegar skilað miklum árangri, ekki síst þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Almennur skilningur er á því að til sé fullorðið fólk – í flestum tilfellum karlar – sem beitir börn kynferðislegu ofbeldi. Að sama skapi er nú samstaða um að kynferðislegt ofbeldi gegn börnum sé aldrei réttlætanlegt, burtséð frá hegðun barnanna sjálfra. Það var ekki endilega sjálfsagt á árum áður.

Ofbeldi og kynlíf

Þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi gegn fullorðnum – oftast karla gegn konum  – virðist umræðan hins vegar flækjast. Athyglin beinist stundum takmarkað að sjálfu brotinu en í meira mæli að öðrum þáttum eins og áfengisdrykkju eða fyrri samskiptum þolanda og geranda – og ekki er langt síðan klæðaburður brotaþola þótti skipta máli við rannsókn nauðgunarmála.

Í umræðunni er ofbeldi og kynlífi stundum skellt saman í einn graut og látið að því liggja að á milli þessara tveggja andstæðna sé stórt grátt svæði. En ef nánar er að gáð þá eru skilin milli ofbeldis og kynlífs afskaplega skýr, jafn skýr og milli gamnislags og ofbeldis. Það vita allir hvar leiknum sleppir og ofbeldi tekur við.

Þótt enn vanti upp á almennan skilning á eðli og afleiðingum nauðgana þá hefur mikið vatn runnið til sjávar á síðustu áratugum. Það hefur skilað sér í mikilvægum breytingum á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga og einnig í mikilvægri hugarfarsbreytingu. En samt þarf að staldra við og velta því upp hversu langt við höfum náð á þessari vegferð, hvernig samfélagið tekst á við kynferðislegt ofbeldi og hvernig réttarkerfið er í stakk búið til að takast á við þau.

Líkamlegir áverkar duga ekki til

Danir hafa tekið saman ítarlega skýrslu, Voldtægt der anmeldes um meðferð nauðgunarmála þar í landi. Farið var ofan í allar nauðgunarkærur sem fram komu á árunum 2000-2002 eða alls 1264 mál. Þess ber að geta að í rannsókninni voru flokkaðar burt allar nauðgunarkærur sem ekki voru taldar á rökum reistar og var þar stuðst við víða skilgreiningu. Þetta var gert til að koma í veg fyrir að nauðsynleg umræða um niðurstöður rannsóknarinnar yrði afvegaleidd með tali um upploganar sakir.

Skýrslan er í sex hlutum en í þeim sjötta er farið sérstaklega ofan í meðferð nauðgunarmála í réttarkerfinu. Þar kemur fram að sjö af tíu nauðgunarkærum fara aldrei fyrir dóm. Oftast eru mál felld niður vegna „ónógra sannanna“. Nokkrir þættir virðast auka líkurnar á að gefin sé út ákæra, t.d. að sakborningur sé ókunnugur brotaþola, að kæra sé lögð fram strax eftir brotið og að brotaþoli sé með líkamlega áverka. Ekkert af þessu er hins vegar trygging fyrir því að ákæra sé lögð fram og það vekur sérstaka athygli að aðeins fjögur af hverjum tíu málum þar sem brotaþolinn er með líkamlega áverka enda fyrir dómstólum. 60% mála þar sem líkamlegir áverkar virðast renna stoðum undir framburð brotaþola eru felld niður vegna „ónógra sannanna“.

Áfengisneysla hefur einnig áhrif á mögulega dómsmeðferð. Hið merkilega er að í tilvikum þar sem gerandinn, þ.e. karlinn, segist ekki hafa verið undir áhrifum eru meiri líkur á gefin sé út ákæra á hendur honum en ef hann var undir áhrifum. Ef brotaþolinn, þ.e. konan, var að eigin sögn undir áhrifum eru aftur á móti minni líkur á að gefin sé út ákæra. M.ö.o. orðum þá „gagnast“ það sakborningi að hafa verið drukkinn en brotaþola að hafa verið edrú.

Fyrri samskipti tiltekin

Í nokkrum dæmum sem tiltekin eru í skýrslunni voru fyrri samskipti brotaþola og sakbornings notuð sem ástæða til að fella niður mál. Ein kona hafði kysst fyrrum kærasta sinn á bar áður en hann nauðgaði henni á salerni staðarins. Hún hafði þó jafnframt látið í ljós við dyravörð að hún óttaðist manninn og reynt að finna leiðir til að komast út af staðnum án þess að hann sæi til. Engu að síður voru kossarnir notaðir sem ein af ástæðum til að fella málið niður.

Einnig má lesa dæmi þar sem það þótti draga úr trúverðugleika brotaþola að muna ekki, sökum áfengisdrykkju, nákvæma röð atburða í aðdraganda ofbeldisins eða eftir það. Gilti þar einu þótt konan gæti lýst atburðarásinni frá því að hún áttaði sig á því í hvað stefndi og meðan á ofbeldinu stóð nákvæmlega. Málið var fellt niður og ekki rekið fyrir dómstólum.

Flestir, sem á annað borð neyta áfengis, hafa ábyggilega upplifað að muna illa atburðarás eða samtöl. Hugsun getur hins vegar orðið skýr á augabragði, þrátt fyrir áfengisdrykkju, ef einhvers konar „krísa“ kemur upp. Þess vegna þarf ekki að vera óeðlilegt að manneskja sem er nauðgað hafi skýra mynd af ofbeldinu en muni ekki endilega nákvæma atburðarás í aðdragandanum. Við rannsókn sakamáls hlýtur meint brot að skipta mestu máli, ekki aðdragandi þess eða eftirleikur.

Áfram með vitundarvakningu

Hér á landi hefur sannarlega mikið vatn runnið til sjávar frá árinu 1869 þegar lög kváðu á um lægri refsingu hefði brotaþolinn, þ.e. konan, á sér óorð. En kannski eimir enn eftir af þessari hugsun – að sumar nauðganir séu verri en aðrar, ekki vegna grófleika heldur vegna stöðu, hegðunar eða atferlis brotaþola.

Danska skýrslan gefur skýrar vísbendingar um atriði sem þarf að hafa í huga við meðferð nauðgunarmála í réttarvörslukerfinu. Rannsóknaraðferðir, rannsóknarspurningar og sönnunarkröfur þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Það kann að vera að við slíka endurskoðun komi í ljós að rannsóknir og ákvarðanir um saksókn, niðurfellingu, sýknu eða sakfellingu byggi almennt á traustum grunni, en hugsanlega kemur eitthvað í ljós sem getur bætt meðferð þessara mála. Aðeins með því að spyrja er hægt að ganga úr skugga um að við sem samfélag séum á réttri leið í að takast á við kynferðislegt ofbeldi. Og þá heldur vitundarvakningin áfram.

01.04.2011

Birtist á Smugunni 27. mars 2011

Í aðdraganda hrunsins á Íslandi snarbreikkaði bilið milli  hæstu og lægstu launa í samfélaginu. Það þótti orðið eðlilegt að launamunur í meðalfyrirtæki væri ekki tvöfaldur eða þrefaldur heldur tí- og tuttugufaldur, jafnvel meiri. Þannig gat forstjóri réttlætt fyrir sjálfum sér að meta eigið vinnuframlag fjörtíufalt á við vinnuframlag óbreytts starfsmanns. Ekki vegna þess að forstjórinn ynni fjörtíufalt meira, heldur vegna þess að hann átti það skilið, því hann var svo ægilega klár og mikilvægur. Jafnvel verkalýðsleiðtogum þótti – og þykir enn – sjálfsagt að vera á margföldum launum fólksins sem þeir áttu að vinna fyrir. Verkalýðsfélög hvöttu jafnvel til hærri launa forstjóra til að næstu stjórnendur á eftir fengju líka hærri laun.

Það er brjálæðislegt að enn stígi fram fólk og mæli þessu fyrirkomulagi bót með sömu röksemdum og á Íslandi hrunsins. Að sama skapi er í besta falli hlægilegt að hlusta á hálaunafólk sem mærir eigið vinnuframlag, eigið ágæti og meint mikilvægi, sem er að sjálfsögðu á við 10, 20, 30 eða 40 starfsmenn.

Hátekjuskatt á þreföld lágmarkslaun

Nú getur tvöfaldur launamunur í fyrirtæki verið með einhverju móti réttlætanlegur. Og mögulega má með því að teygja sig langt sættast á þrefaldan launamun í samfélagi. En þegar hann er orðinn meiri er hann óútskýranlegur og óhollur samfélagi.
Fyrir nokkru brugðust talsmenn atvinnurekenda ókvæða við þegar lagt var til að lágmarkslaun á Íslandi yrðu 200 þúsund krónur. Þetta þarf að endurtaka: 200 þúsund krónur. Og bankastjórinn með milljónirnar á mánuði botnar ekkert í því að samfélagið bregðist ókvæða við launatölunum. Í þeirri umræðu heyrist auðvitað ekkert í talsmönnum atvinnurekenda, eða öðrum „aðilum“ sem alltof mikla athygli fá í fjölmiðlum og samfélagsumræðu.

Jöfnuður er markmið í sjálfu sér því samfélög þar sem jöfnuður er mikill eru almennt betri samfélög en hin þar sem bilið milli ríkra og fátækra er breitt. Ein leið til að vinna að jöfnuði er að skattleggja duglega tekjur sem eru yfir þreföldum lágmarkslaunum. Þá miðar regluverkið við lágmarkslaun, ekki hina fáu hátekjueinstaklinga. Þannig verður til sá möguleiki að ofurlaunastefnan lúti í lægra haldi, frekar en samfélagið eins og gerðist með hruninu.

01.04.2011

Birtist á Smugunni 8. mars 2011

Stjórn Ungra vinstri grænna hefur sent frá sér ályktun þar sem „hugmyndum dómsmálaráðherra sem fela í sér stórauknar rannsóknarheimildir lögreglunnar“ er harðlega mótmælt. Svo frjálslega er farið þær hugmyndir sem innanríkisráðherra hefur reifað í fjölmiðlum að ekki er hægt að láta ótalið að bregðast við.

Bakgrunnur þeirrar umræðu sem nú fer fram er sá að skipulögð glæpastarfsemi hefur færst í vöxt á Íslandi. Hér fara um glæpagengi sem eiga til að mynda rætur í Litháen og Póllandi, auk þess sem mótorhjólagengi eru í nánu samstarfi við alþjóðleg glæpasamtök. Rétt er að taka fram að það er ekki upprunaland glæpamannanna sem er áhyggjuefnið heldur þvert á móti umfang og skipulag glæpastarfseminnar og ofbeldið sem henni fylgir.

Einn hlekkur í keðju

Algengasta glæpastarfsemin sem komið hefur upp á yfirborðið hérlendis tengist fíkniefnasölu. Glæpirnir eru þó ekki bundnir við fíkniefni því hér hafa komið upp alvarleg mansalsmál, sem teygja anga sína inn í ljótustu afkima alþjóðlegrar glæpastarfsemi. Þá stunda glæpasamtökin ólögmæta meðferð vopna, fjárkúgun, handrukkun og peningaþvætti, svo fleiri dæmi séu tekin.

Lögregla hefur heimildir til að hefja rannsókn mála ef líkur eru taldar á því að brot verði framin. Hins vegar þarf dómsúrskurð til að  beita rannsóknaraðferðum sem teljast verulegt brot á friðhelgi einkalífs. Á þetta t.d.  við um símhlerun og notkun eftirfararbúnaðar. Til að fá slíkar rannsóknarheimildir þarf rannsókn að beinast að alvarlegu broti, auk þess sem sýna þarf fram á að upplýsingarnar sem aflað er með slíkum aðgerðum skipti miklu fyrir rannsókn máls og fáist aðeins með þessum hætti. Þá ber lögreglu skylda til að upplýsa einstaklinga sem slíkum aðgerðum er beint gegn þegar rannsókn er lokið.

Lögregluyfirvöld telja núverandi rannsóknarheimildir ekki nægjanlegar til að fylgjast með starfsemi glæpahópa á Íslandi, m.a. vegna þess að löggjöfin miðist við brot einstaklinga en ekki skipulagða starfsemi hópa, þar sem einstaklingurinn sem brýtur af sér er oft aðeins einn hlekkur í langri, stigskiptri – og oft ofbeldisfullri – keðju.

Dómsúrskurður áfram nauðsynlegur

Til eru þeir sem vilja að lögregla fái allt að því ótakmarkaðar rannsóknarheimildir til að fylgjast með einstaklingum og hópum, jafnvel án þess að verulegt eftirlit sé með slíkum heimildum. Það hefur verið skýrt  frá upphafi að núverandi innanríkisráðherra er ekki í þeim hópi. Hann vill hins vegar hlusta á það fólk sem starfar á vettvangi og vekur athygli, með rökstuðningi, á vaxandi og stigversnandi glæpastarsfemi.

Þess vegna hafa nú verið boðaðar lagabreytingar sem er ætlað að auðvelda lögreglu rannsókn á hópum sem grunaðir eru um að stunda skipulagða glæpastarfsemi. Slíkar heimildir koma til með að ná til brota sem glæpasamtökin stunda – s.s. fíkniefnabrota, mansals og fjárkúgunar – ekki annarra brota. Dómsúrskurður verður eftir sem áður nauðsynlegur til að grípa til aðgerða á borð við símhlerun og áfram verður einstaklingum sem slíkum aðgerðum er beint að tilkynnt um það þegar rannsókn er lokið. Þessi framkvæmd stenst þær mannréttindakröfur sem settar hafa verið fram á alþjóðavettvangi. Í þessu samhengi má þó ekki gleyma því að mannréttindi þeirra sem rannsókn beinist að eru ekki þau einu sem um er að tefla heldur einmitt líka þeirra sem verða viðföng glæpamannanna.

Engin stefnubreyting?

Að framansögðu er ljóst að engin innistæða er fyrir þeim fullyrðingum stjórnar UVG að hér standi til að leiða í lög „stórauknar“ rannsóknarheimildir til lögreglu, sem heimili „njósnir um einstaklinga án þess að fyrir liggi rökstuddur grunur um saknæmt athæfi“. Og það verður að gera kröfu að stjórnin  kynni sér betur efni  hugmynda sem hún hyggst mótmæla áður en hún samþykkir ályktanir og  sendir á alla fjölmiðla.

Það verður líka að játast að viðbótarfullyrðingar stjórnarinnar um að ekki hafi orið vart við „gagngerar stefnubreytingar“ á sviði ráðuneytisins frá því að vinstri stjórnin tók við völdum koma á óvart, ekki síst í ljósi þeirra dæma sem tiltekin eru í ályktuninni og snúa m.a. að málefnum hælisleitenda og annarra útlendinga. Staðreyndin er sú að í september sl. samþykkti Alþingi breytingar á útlendingalögum sem treystu til muna réttarstöðu fólks sem sækir um hæli á Íslandi, þ.m.t. fólks sem hefur flúið heimaland sitt en er ekki skilgreint sem flóttamenn skv. alþjóðsamningum. Í október sl. hætti Ísland, annað evrópskra ríkja, að senda hælisleitendur til Grikklands. Þótt þessar breytingar séu ekki endir á vegferð – heldur miklu fremur upphaf – þá geta þær skipt sköpum fyrir örlög fólks sem sækir um hæli á Íslandi.

Engu að síður er það satt að verkefnalistinn í innanríkisráðuneytinu er langur og aðkallandi. En þau verkefni sem þegar hefur verið ráðist í frá því að vinstri stjórnin tók við völdum bera vott um „gagngerar stefnubreytingar“. Ekki þarf mikla sanngirni til að sjá það.