25.10.2010

Klukkan 14:25 streyma konur út af vinnustöðum á Íslandi til að taka þátt í fjöldagöngu og baráttufundi í tilefni af 24. október. Tímasetningin er engin tilviljun. Kl. 14:25 hafa konur unnið fyrir launum sínum. Ennþá árið 2010 er kynbundinn launamunur á Íslandi þetta mikill. Konur vinna einnig mikla ólaunaða vinnu og þeim meira sem skorið er niður í velferðarkerfinu þeim meiri vinna lendir á herðum kvenna. Það er raunar ótrúlegt að heilt samfélag skuli sætta sig við þessa stöðu.

Að þessu sinni er kastljósinu beint að baráttu kvenna gegn kynferðislegu ofbeldi. Á Íslandi er a.m.k. 2-300 konum nauðgað árlega. Sé litið til ofbeldis gegn börnum þá eykst enn á tölfræðina en áætla má að í kringum 500 konur og börn, og í sumum tilfellum karlar, verði fyrir kynferðislegu ofbeldi á ári hverju. Aftur: Það er ótrúlegt að heilt samfélag skuli sætta sig við þessa stöðu.

Ofbeldið verður ekki til í tómarúmi. Það eru ofbeldismenn, í langflestum tilfellum karlar, á bak við hvert einasta tilvik og þeir eru að jafnaði álíka margir og þolendurnir. (Þótt sumir menn beiti margar konur og börn ofbeldi þá eru líka margir þolendur sem verða fyrir ofbeldi af hálfu margra manna).

Við litla varðhunda feðraveldisins sem geta ekki lesið svona greinar án þess að rísa upp á afturlappirnar og hrópa að þetta sé meira eða minna bull eða að femínistar séu hræðilegt fólk að halda því fram að ofbeldismennirnir séu langflestir karlar vil ég segja eftirfarandi: „Tölurnar tala sínu máli. Ísland er ekki eyland í þessum efnum því kynferðislegt ofbeldi á sér stað um allan heim og þolendurnir eru í langflestum tilfellum konur og börn. Það má vel vera að ofbeldi gegn körlum sé vanmetið þar sem þeir greini síður frá en það að gera hróp að þeim sem berjast gegn ofbeldi breytir engu um það. Takið frekar þátt í baráttunni með okkur.“

Taina Bien Aime, framkvæmdastýra samtakanna Equality now!,benti á það á ráðstefnu Skottanna um kynferðislegt ofbeldi í Háskólabíói í gær að einhverju sinni hefðu menn haldið því fram að þrælahald væri óhjákvæmilegt og það yrði aldrei hægt að útrýma því með öllu. Það hefði hins vegar ekki reynst rétt og jafnrétti væri því ekki óraunhæft markmið.

En til þess á ná jafnrétti þarf að útrýma ljótustu birtingarmynd misréttisins, kynferðislegu ofbeldi  í hvaða formi sem það birtist. Setjum okkur að markmiði að Ísland verði fyrsta land í heimi þar sem konur þurfa ekki að lifa við stöðuga ógn um nauðganir eða annars konar ofbeldi. Ísland gæti þá raunverulega orðið friðsælt land. Hvernig væri það?

14.10.2010

Birtist á Smugunni, 14. október 2010

Þriðjudaginn síðastliðinn fékk ég sms kl. 7:38 um morguninn frá gömlum samstarfsfélaga sem var mikið niðri fyrir vegna leiðaraskrifa Morgunblaðsins. Ekki kom fram um hvað leiðarinn fjallaði en ég svaraði sms-inu eitthvað á þessa leið: „Ekki búin að sjá leiðarann. Leyfðu mér að giska. Hann fjallar um að ÖJ [dómsmálaráðherra] sé ekki með réttu ráði að hafa rætt við ríkissaksóknara og viðbrögðin við tali þess síðarnefnda eru kennd við femínista í VG.“ Þótt ég segi sjálf frá þá komst ég ótrúlega nærri innihaldinu. Spádómsgáfan mín er þó ekki svo mikil að ég hafi giskað út í loftið. Ég hafði einfaldlega lesið heimasíðu Björns Bjarnasonar daginn áður og jafnframt „fuglahvísl“ AMX. Þeir fara ekkert í felur með samhæfð viðbrögð sín, það er nokkuð ljóst.

Viðurkennd réttarfarsleg sjónarmið?

Forsaga málsins er sú að ríkissaksóknari birtist í tveimur viðtölum við DV og reifaði skoðanir sínar á nauðgunarmálum, þar með talið á einstaka málum sem hafa verið felld niður hjá embættinu. Dómsmála- og mannréttindaráðherra barst fjöldi athugasemda vegna þeirra viðhorfa sem komu fram í viðtölunum. Athugasemdirnar komu víða að og ekki síst frá þolendum kynferðisbrota, sem upp til hópa virðast veigra sér við að leita réttar síns og þótti ummælin meiðandi og til þess fallin að draga enn frekar úr trausti kvenna (og í sumum tilvikum karla) á réttarvörslukerfinu. Stígamót lýstu yfir efasemdum um að þau gætu ráðlagt konum að kæra nauðgun.

Í framhaldinu hitti ráðherra ríkissaksóknara og greindi honum frá viðbrögðunum. Þar fékk ríkissaksóknari jafnframt tækifæri til að skýra sitt mál. Að sama skapi óskaði ráðuneytið eftir greinargerð frá embættinu. Þetta finnst nafngreindum og ónafngreindum „fuglahvíslurum“ fyrir neðan allar hellur og leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir að ríkissaksóknari hafi aðeins lýst „eðlilegum og viðurkenndum refsiréttarlegum sjónarmiðum.“ . Samkvæmt því   eru t.d. eftirfarandi  viðhorf  ríkissaksóknara „viðurkennd réttarfarsleg sjónarmið“:

„Manneskja sem verið er að nauðga biður ekki um smokk.“

„Er mælikvarðinn endilega sá að hún sé ekki virk í rúminu með honum, taki ekki þátt? Það held ég að sé nú bara mismunandi.“

Einnig er vert að vekja athygli á því að dæmin sem voru reifuð í umfjölluninni voru raunveruleg dæmi. Dæmi kvenna sem leituðu réttar síns en þurftu að sætta sig við niðurfellingu málsins hjá embætti ríkissaksóknara. Þær gátu nú lesið um mál sitt í DV og í framhaldinu skoðanir ríkissaksóknara á málinu. Ef við skiptum nauðgunarmálum út fyrir einhvern annan brotaflokk væri hljóðið kannski annað í „hvíslurunum“.

Nauðganir í flokkspólitískum gröfum

Hitt er síðan annað og öllu alvarlegra, og það eru tilraunir hvíslaranna til að láta eins og athugasemdir hafi aðeins komið frá Vinstri grænum femínistum. VG væri sannarlega ríkur flokkur ef það væri rétt. Hafi „hvíslararnir“ lesið fjölmiðlaumfjöllun um málið má þeim vera ljóst að gagnrýnin barst víða að.

Með því að draga umfjöllun um nauðganir niður í flokkspólitískar grafir er gert lítið úr þeim fjölda kvenna og karla sem hafa þurft að þola kynferðislegt ofbeldi og búa við þann napra veruleika að slík mál rata afar sjaldan í gegnum allt réttarvörslukerfið. Aðeins örfáir þolendur, sem þó kæra, fá mál sín tekin fyrir hjá dómstólum. Og til að það sé sagt þá vil ég árétta að það að horfast í augu við þennan veruleika verður ekki lagt að jöfnu við að ætla að hengja saklausa menn í stórum stíl. Engar kröfur eru uppi um slíkt, þótt leiðarahöfundur Morgunblaðsins kjósi að láta sem svo sé.

Á Íslandi eru 200-300 nauðganir á ári hverju. Nauðganir eru veruleg ógn við líf og heilsu kvenna, jafnt á Íslandi sem annars staðar í heiminum. Fáir ofbeldismenn þurfa að svara til saka og margfalt færri eru fundnir sekir. Það er sorglegt til þess að hugsa að fyrrum dómsmálaráðherra, ritstjóra Morgunblaðsins og hinum ónafngreindu „fuglahvíslurunum“ skuli þykja það minna áhyggjuefni en að núverandi dómsmálaráðherra greini ríkissaksóknara frá viðbrögðum kvenna og karla – og þolenda nauðgana – við áðurnefndum viðtölum við DV. Áhugavert er þeirra réttlæti, að ekki sé meira sagt.

12.10.2010

Erindi flutt á hádegisfundi Evrópuvaktarinnar

12. október 2010

Ágæta samkoma,

Þegar Anna Pála Sverrisdóttir hafði samband við mig og spurði hvort ég vildi flytja erindi á fundi með yfirskriftinni ESB – stærsta friðarbandalagið eða hernaðarbandalag? svaraði ég henni eitthvað á þessa leið: „Ég geri ráð fyrir að ég eigi að halda því fram að það sé hernaðabandalag?“

Ég segi ykkur þetta vegna þess að hægt er að halda langa og lærða fyrirlestra um hvort sjónarmiðið fyrir sig. Vissulega varð Evrópusambandið til í andrúmslofti þar sem fólk vildi gera hvað sem var til að koma í veg fyrir aðra heimsstyrjöld. Það hefur að hluta til tekist þegar kemur að þeim löndum sem hafa verið hluti af sambandinu í Evrópu. En það mistókst hrapallega í fyrrverandi Júgóslavíu, þar sem ESB gerði ekkert til að koma í veg fyrir tilraun til þjóðarmorðs í Evrópu. Á sama tíma og Júgóslavía var að liðast í sundur lét utanríkisráðherra Lúxemborgar, sem fór með formennsku í ráðherraráði ESB, engu að síður hafa eftir sér að nú væri stund Evrópu runnin upp!

Evrópusambandið, eða forverar þess öllu heldur (ég hlífi ykkur við sögulegum skýringum um upphaf Evrópusamvinnunar), getur ekki eignað sér allan heiðurinn af því að ekki hefur brotist út stríð í Vestur-Evrópu í líkingu við heimsstyrjaldirnar tvær  síðustu áratugi. ESB er ekki eina bandalagið á svæðinu. Þar er líka heldur fyrirferðarmikið bandalag – Atlantshafsbandalagið – sem telur sig eflaust eiga nokkurn þátt í stríðsleysi Vestur-Evrópu sl. áratugi. En stríðsleysi er ekki sama og friður, og að því kem ég seinna í þessu erindi.

Leyniþjónusta í anda CIA

Upphaflegur tilgangur Evrópusambandsins nægir ekki til að fullyrða að sambandið sé öðru fremur friðarbandalag. Miklu fremur þarf að líta til þess hvernig Evrópusambandið er nú og spyrja um leið hver framtíðarsýn sambandsins sé.

Ákvæði Lissabon-sáttmálans um öryggis- og varnarmál opna á framtíðarsýn sem leiðtogar sumra Evrópuríkja hafa um Evrópusambandið sem eitt herveldi eða eitt örygggissvæði. Þar má nefna ekki ómerkilegri þjóðarleiðtoga en Nicolas Sarkozy og Angelu Merkel en allt frá árinu 1999 hefur bandalagið haft áform um að koma upp 60 þúsund manna fastaher, sem sumir myndu kalla hraðlið eða viðbragðssveitir.

Með Lissabon-sáttmálanum festu ríki Evrópusambandsins sameiginlega utanríkis- og varnarstefnu í sessi. Aðildarríkjunum er gert að leggja fram til sambandsins  borgaralegan og hernaðarlegan styrk og efla að auki og styrkja sinn eigin hernaðarlega mátt. Sérstakri varnarmálastofnun (European Defence Agency) er falið að meta þörf og viðbúnað í einstaka löndum og hún á jafnframt að leitast við að styrkja hergagnaiðnaðinn og gera hann hagkvæmari með því að bæta iðn- og tækniþróun á því sviði. Gerðar eru kröfur til ríkja sambandsins um ákveðinn hernaðarmátt, sem jafnframt þýðir ákveðin fjárframlög til málaflokksins og það töluverð, og eins að ráða yfir átakasveitum (combat units) eða að minnsta kosti fólki til að manna slík teymi.

Allt er þetta hernaðarlegs eðlis, hvað svo sem líður upphaflegum friðvænlegum tilgangi bandalagsins. Við það má bæta að uppi eru hugmyndir um að stofnsetja evrópska leyniþjónustu í anda CIA,[1] en þess má geta að ríki Evrópusambandsins hafa gengið mun lengra í hvers kyns forvirkum rannsóknarheimildum og njósnastarfsemi um einstaklinga en nokkurn tímann Íslendingar.

Samkvæmt Lissabon-sáttmálanum eiga ríki Evrópusambandsins að koma hvert öðru til aðstoðar ef til ófriðar kemur og jafnframt kvitta ríkin upp á samstöðuyfirlýsingu verði eitthvert þeirra fyrir hryðjuverkaárás eða hamförum, hvort sem er af náttúrunnar hendi eða mannanna. Í slíkum aðstæðum á sambandið og ríki þess að koma til hjálpar, þar með talið með hernaðarlegum mætti. Að sama skapi eiga ríkin að hjálpa hvert öðru við að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir.

Innan bandalagsins eru hins vegar mjög skiptar skoðanir á því hvað samstöðuyfirlýsingin felur í sér (eins og fram kemur í ágætri, en þó ekki gallalausri, greiningu Söru Myrdal og Marks Rhinard hjá sænsku Alþjóðamálstofnuninni, UI). Hvergi hefur verið skilgreint hvaða aðstæður kalla á sameiginleg viðbrögð ríkjanna og að sama skapi eru fyrirvararnir sem skrifaðir eru inn í sáttmálann þess eðlis að þeir útvatna áðurnefndar yfirlýsingar. Þannig er ríkjunum í sjálfsvald sett hvernig þau breðgast við hættuástandi og mögulegar aðgerðir eiga ekki að stangast á við helstu stefnuáherslur (specific characters) hvers ríkis í öryggis- og varnarmálum.

Jafnframt er mikið lagt upp úr því  að öryggis- og varnarmálasamstarf ESB gangi ekki gegn samstarfi og skuldbindingum á vettvangi NATO, enda hefðu ríkin sem tilheyra báðum bandalögum aldrei samþykkt annað.[2]

Vandræðagangur í Tsjad

Þótt ríkar hernaðarlegar áherslur sé að finna í Lissabon-sáttmálanum þá hafa verkefni Evrópusambandsins á erlendri grund öðru fremur verið borgaralegs eðlis, svo sem friðargæsla og uppbygging eftir stríð eða átök. Hins vegar eru ákveðnar blikur á lofti og áþreifanlegustu dæmin er að finna í Afríku.

Eins og gefur að skilja eru afskipti Evrópubúa af málefnum ríkja Afríku í sögulegu samhengi mjög vandmeðfarin. Á 10. áratug síðustu aldar lagði Evrópusambandið einkum áherslu á það sem upp á enska tungu kallast conflict prevention og conflict management, eða hættuástandsstjórnun eins og það hefur verið orðað á heldur slappri íslensku. Með tímanum hafa aðgerðir sambandsins hins vegar orðið sífellt hernaðarlegri utan Evrópu og þá á kostnað annars konar uppbyggingar. Evrópusambandið hefur sætt gagnrýni fyrir þessar áherslur og er átalið fyrir að setja evrópska hagsmuni í fyrsta sæti en áhyggjur af málefnum Afríkuríkja aðeins í annað sæti. Þannig hefur slagorðið „afrískar lausnir við afrískum vandamálum“ mátt lúta í lægra haldi fyrir hinni klassísku hernaðarlegu nálgun.[3]

Evrópskir hagsmunir eru hins vegar ekki endilega evrópskir. Þeir geta verið mun nátengdari hagsmunum einstakra ríkja, ekki síst þeirra valdamestu innan sambandsins. Sem dæmi má nefna aðgerðir ESB í Afríkuríkinu Tsjad. Evrópusambandið sendi friðargæslusveitir, sem er erfitt að kalla annað en hersveitir, til landsins í byrjun árs 2008, með heimild og vilja öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Frakkland leiðir verkefnið og meirihluti átakasveitanna er úr franska hernum.

Frakkar eru ekki bara einhver og einhver í þessu samhengi. Tsjad var frönsk nýlenda frá 1920-1960 og saga þeirra áratuga er blóði drifin. Framferði franskra ríkisborgara innan Tsjad eftir nýlendutímann varð einnig að álitshnekki fyrir gömlu nýlenduherrana. Sem nýlegt dæmi má nefna að í lok árs 2007 voru sex starfsmenn franskra hjálparsamtaka fundnir sekir um barnasölu frá Tsjad. Aðeins nokkrum mánuðum fyrr höfðu önnur frönsk hjálparsamtök reynt að smygla 100 munaðarlausum börnum úr landi. Þau hér inni sem hafa ferðast um fyrrum franskar nýlendur í Afríku þekkja eflaust vel viðhorfið gagnvart Frökkum og geta vel gert sér í hugarlund að frönskum hermönnum er ekki endilega tekið höndum tveim á þessum slóðum.

Vegna forsögunnar hafa Frakkar verið sakaðir um að misnota Evrópusambandið í  þágu eigin pólitísku hagsmuna. Franski herinn sigli ekki eingöngu undir merkjum Evrópusambandsins heldur fjármagni sambandið einnig uppbyggingu á áhrifasvæði Frakka í Afríku.[4] Í þessu samhengi hefur Sarkozy verið sakaður um að „Evrópuvæða“ frönsku  hersveitirnar í Tsjad. [5]

Athafnir Evrópusambandsins leiða einnig hugann að því að verkefni sem eru tengd við falleg orð á borð við friðargæslu, uppbyggingu og að koma í veg fyrir átök eru oft unnin af hermönnum og undir yfirstjórn herja. Spenna og átök eða náttúruhamfarir í fjarlægum löndum hafa þannig verið notuð til að viðhalda herjum og hernaðarlegri hugmyndafræði. Þess vegna er franski herinn í Tsjad og þess vegna er bandaríski herinn á Haítí.

Þekkingin er innan herjanna, segja valdhafar, en ekki hvarflar að þeim að umturna hernaðarlegum stofnunum, leggja niður vopnin og reka raunverulega friðarstefnu. Evrópusambandið er engin undantekning þar á.

Afdráttarlaust eða í grundvallaratriðum?

En snúum okkur að Íslandi, sem nú á í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þegar þingsályktunartillaga um aðildarumsókn að ESB var rædd á Alþingi kom sameiginleg öryggis- og varnarmálastefna bandalagsins lítið við sögu. Í tveimur minnihlutaálitum utanríkismálanefndar er sú stefna hvergi nefnd en meirihlutinn áréttaði sérstöðu Íslands sem herlausrar og vopnlausrar þjóðar. Í áliti meirihlutans kom einnig fram að eðlilegt væri að Ísland stæði utan Evrópsku varnarmálastofnunarinnar (EDA). Orðrétt segir:

Meiri hlutinn ítrekar að hverju aðildarríki er í sjálfsvald sett innan síns ramma hvort og þá að hve miklu leyti það kýs að taka þátt í samstarfi ESB á sviði utanríkis- og öryggismála. Út frá fyrirliggjandi upplýsingum og þeim skýringum sem fylgja Lissabon-sáttmálanum telur meiri hlutinn tryggt að Ísland haldi skilyrðislausu forræði sínu yfir öryggis- og varnarmálum og Ísland verði áfram herlaust og friðsælt land. Þrátt fyrir það telur meiri hlutinn rétt að leggja ríka áherslu á þessi atriði við samningsgerð þannig að samsvarandi tillit verði tekið til Íslands sem herlausrar þjóðar.

Það þarf hins vegar ekki að koma á óvart að á Íslandi eru skiptar skoðanir um að hve miklu leyti Ísland eigi að taka þátt í hernaðarsamvinnu, hvort sem hún er innan ESB, NATO eða milli ríkja. Þegar embættismenn utanríkisráðuneytisins unnu að einum hinna  frægu spurningalista  frá Evrópusambandinu, sem laut að öryggis- og varnarmálasamstarfi, þurftu þeir meðal annars að svara spurningunni um hvort Ísland samþykkti afdráttarlaust framtíðarskipan utanríkis-, öryggis- og varnarmmálastefnu Evrópusambandsins, þar á meðal hernaðarhluta hennar, sem unnt yrði að framfylgja eftir staðfestingu Lissabon-sáttmálans.

Svarið var í stuttu máli: „Já“ og notað var orðið afdráttarlaust (unreservedly). Í meðförum utanríkismálanefndar þingsins var svarinu hins vegar breytt á þann veg að Ísland myndi í grundvallaratriðum (in principle) samþykkja samstarf á þessu sviði. Þar er talsverður munur á.

Enn er hins vegar óljóst hvernig samningar nást um mögulega þátttöku Íslands í utanríkis- og varnarmálastoð Evrópusambandsins. Þótt fyrirvarar utanríkismálanefndar hafi verið skýrir – og samninganefnd Íslands gagnvart ESB getur ekki litið framhjá þeim – hefur þeim möguleika að Ísland fái undanþágu gagnvart þessum hluta ESB ekki verið haldið á lofti.

Norðurlandaþjóðirnar sem eru aðilar að Evrópusambandinu, hafa farið misjafna leið í þeim efnum. Danir eru með undanþágu frá samstarfinu á meðan Finnar og Svíar taka þátt í því og þeir síðarnefndu eru drífandi, þrátt fyrir orðræðu um hlutleysi Svíþjóðar. Þessi munur skýrist með þeirri staðreynd að Danir eru aðilar að NATO. Það eru Svíar og Finnar hins vegar ekki og hafa því verið áfram um að gera sameiginlegri öryggistryggingu bandalagsins hátt undir höfði.

Undanþágu Dana má meðal annars rekja til þess að margir töldu að með varnarsamvinnu innan Evrópusambandsins yrði grafið undan NATO. Í almennri umræðu vógu fullveldisrök einnig þungt – og þá ekki síst óttinn við að embættismenn í Brussel tækju ákvarðnir um að senda danska hermenn í stríð á fjarlægum slóðum. Vegna þessarar umræðu var undanþága frá öryggis- og varnarsamvinnunni einn af fjórum fyrirvörum Dana þegar aðild að Evrópusambandinu var borin í annað sinn undir þjóðaratkvæði þar í landi árið 1994 og var samþykkt.[6] Danskir stjórnmálamenn, jafnt á hægri vængnum sem þeim vinstri, vilja gjarnan fella út þessa undanþágu og verða fullir aðilar að öryggis- og varnarmálasamstarfinu. Sá róður getur orðið þungur. Tal um evrópskan her er nefnilega ekki aðeins bundið við unga bændur á Íslandi. Slíkar upphrópanir heyrast reglulega í Danmörku og hafa áhrif, þó miklu fremur vegna fullveldissjónarmiða, en einlægrar friðarstefnu.

Blóð og sviti en engin tár

Þrátt fyrir að halda megi því fram að Evrópusambandið hafi hervæðst sem samband á síðustu árum ætla ég ekki að halda því fram að Evrópusambandið sé hernaðarbandalag í sama skilningi og Atlantshafsbandalagið. Öryggis- og varnarmálasamstarfið er enn of óljóst til að hægt sé að fullyrða að svo sé. Hins vegar er ekki hægt að líta framhjá stórveldisdraumum sem greina má innan sumra Evrópuríkja, eins og Frakklands, og eins og hefðin býður er hernaðarhyggja ekki fjarri í slíkum draumum.

En má halda því fram að Evrópusambandið sé friðarbandalag?

Til að svara þeirri spurningu nægir að lesa öryggis- og varnarmálahluta Lissabon-sáttmálans. Samband sem leggur slíka áherslu á hernaðaruppbyggingu getur aldrei flokkast sem friðarbandalag.

Herir eru andlýðræðislegt fyrirbæri og skipulag þeirra gengur gegn mörgum þeim gildum sem ég geri ráð fyrir að flestir hér inni kenni sig við. Herir byggja á stigskiptingu valds, eða hírarkíi, þar sem ungir menn, oftast karlar, læra að taka við skipunum að ofan án þess að spyrja eða hafa yfirleitt nokkra skoðun á því sem þeim er sagt að gera. Slík valdakerfi opna alltaf á misbeitingu valds, eins og mýmörg dæmi eru um.

Til að halda úti her þarf að skapa menningu þar sem stríð og vopnuð átök eru siðferðislega réttlætanleg. Samfélagið þarf að samþykkja að ofbeldi eigi stundum rétt á sér og að það geti verið nauðsynlegt að beita því. Málið vandast síðan þegar ákveða þarf hvenær beita má ofbeldi og ekki síður: Hver á að ákveða það?

Á heimasíðu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna gefur að líta upplýsandi mynd. Þar eru tugir jakkafataklæddra karla, en konurnar eru teljandi á fingrum annarrar handar. Þetta er ákvörðunarvaldið.

Stríð og hernaðarrekstur eru gríðarlega kynjuð fyrirbæri. Karlar eru 97-98% allra hermanna og hlutfallið fer nær 100% þegar kemur að bardagasveitum. Kynhlutverkin eru niðurnegld og kynmótunin með þeim hætti að bæði kyn tapa. Karlar fara illa út úr harkalegri félagsmótun sem kennir þeim að beita ofbeldi og leyfir blóð og svita, en engin helvítis tár. Konur eru á sama tíma gerðar valdalausar yfir eigin örlögum og ekki ósjaldan, eigin líkama.

Þessi félagsmótun er gríðarlega skaðleg og fórnarkostnaðurinn mikill. Hún á sér hins vegar ekki eingöngu stað á stríðstímum. Þvert á móti þarf að viðhalda henni á öllum tímum til þess að halda megi úti herjum. Stríðsleysi er þess vegna ekki endilega það sama og friður.

Hvað sem líður friðsamlegu viðskiptasambandi Evrópuríkja í milli þá byggir öryggis- og varnarmálasamstarf Evrópusambandsins á hernaðarhyggju. Ef Evrópusambandið vill verða friðarbandalag þá á það að leggja niður heri sína og hætta að nota átök og spennu, jafnvel náttúruhamfarir, í öðrum heimshlutum til að viðhalda vígbúnaði og vopnum. Slíkt bandalag væri friðarbandalag. Evrópusambandið er langt frá því að feta þá braut.


[1] http://www.german-foreign-policy.com/en/fulltext/57873

[2] ESB og NATO eru með samstarf sín í milli, byggt á Belínar-plús samkomulaginu frá árinu 2002. Samkvæmt því á ESB að hafa aðgang að hernaðarviðbúnaði NATO til að sinna hættuástandsstjórnun og friðargæslu. Tyrkir standa hins vegar í vegi fyrir þessu samstarfi þar sem þeir viðurkenna ekki Kýpur, sem varð aðili að ESB árið 2004, og lítið hefur á það reynt.

[3] http://www.informaworld.com/smpp/content~db=all~content=a910740680 (útdráttur) og http://www.fornet.info/documents/CFSP-Forum_vol7_no1.pdf

[4] Þessi gagnrýni hefur meðal annars heyrst frá Þýskalandi og Póllandi

[5] http://www.spiegel.de/international/germany/0,1518,531792,00.html

[6] Fyrirvararnir: http://www.eu-oplysningen.dk/dokumenter/traktat/eu/edinburgh/

11.10.2010

Nú styttist óðum í að framboðsfresti til stjórnlagaþings ljúki þann 18. október. En hvert er hlutverk stjórnarskrárinnar og á hvaða gildum viljum við byggja samfélag okkar? Er hægt að komast að sátt um þessi gildi? Hvert verður hlutverk kvenna í að skapa nýja stjórnarskrá? Femínistafélagið efnir til umræðna um stjórnlagaþing á næsta Hitti. Þar munu Ellý K. Guðmundsdóttir, Daði Ingólfsson og Steinunn Valdís Óskarsdóttir mæta og ræða um stjórnarskránna, stjórnlagaþing og hlutverk kvenna í því samhengi. Við hvetjum alla sem hafa áhuga á að mæta. Einnig væri gaman að sjá einstaklinga sem hafa hug á að bjóða sig fram til þingsins. Hittið verður haldið í Friðarhúsi að Njálsgötu 87 milli 20 og 22 og er öllum opið. Sjáumst á þriðjudag!
Ráð Femínistafélags Íslands