12.09.2010

Femínistafélag Íslands hefur vetrarstarfið með sínu fyrsta Hitti þriðjudaginn 14. september. Efni Hittsins að þessu sinni verður spurningin um hvort nú sé tími fyrir nýtt kvennaframboð eða kvennalista í anda þeirra sem voru í upphafi síðustu aldar og á 9. og 10. áratugnum. Sú spurning hefur orðið áleitnari eftir efnahagshrunið.

Meðal spurninga sem velt verður upp eru: Hverjir eru kostir og gallar sérstaks kvennaframboðs? Hvers ve…gna lognaðist Kvennalistinn út af? Á nýtt kvennaframboð sér grundvöll árið 2010? Hvert væri hlutverk slíks framboðs og hvernig yrði það upp byggt?

12.09.2010

Snorri Páll Úlfhildarson gerir fréttaflutning minn frá árinu 2008 um samskipti nímenninganna og þingvarða alþingishússins að umtalsefni í ágætri grein í Morgunblaðinu í gær. Gagnrýnir hann þar einkum tvö atriði. Annað lýtur að því að ég hafi skrifað í frétt að þingverði hafi „verið hrint á ofn þegar ruðst var upp stigaganginn“. Bendir Snorri Páll á að á upptökum eftirlitsmyndavéla hafi komið í ljós að þingverðinum hafi ekki verið hrint á ofninn heldur fallið á hann í kjölfar þess að annar þingvörður kippti í einn sakborninga og dró hann afturábak. Því miður hef ég ekki séð upptökurnar en rengi Snorra Pál ekki í þessum efnum. Vel má færa fyrir því rök að fréttin hefði átt að verið orðuð öðruvísi og þá með þeim fyrirvara að um upplifun viðkomandi þingvarðar hafi verið að ræða. Því má þó bæta við að í fréttinni segir einnig: „Mótmælendur héldu því hins vegar fram að þeir hefðu eingöngu ætlað að fara upp á þingpalla til að hlýða á umræður en verið varnað inngöngu.“

Annað sem Snorri Páll gagnrýnir er forsíðufrétt Morgunblaðsins þennan sama dag, þar sem því var haldið fram að atburðurinn ætti sér ekki fordæmi. Í því samhengi talar Snorri Páll um sögufölsun. Um þetta mætti þræta fram og aftur, hvað geti talist fordæmi og hvað ekki. Hins vegar man ég ekki eftir því hvort ég skrifaði þessa frétt og finnst það fremur ólíklegt. Hún er ómerkt í gagnasafni Morgunblaðsins. Stundum skrifaði ég fréttir sem vísuðu inn á mínar eigin þingfréttir en stundum voru þær skrifaðar af öðrum blaðamönnum, sem mögulega sátu vaktina eftir að ég var farin. Hafi ég skrifað fréttina þá er nokkuð ljóst að ég man ekki hvað bjó að baki þessari fullyrðingu.

Um atburðina í þinghúsinu er hægt að þræta fram og aftur og upplifun okkar sem í húsinu vorum þennan dag er eflaust æði misjöfn. Eftir stendur þó − og því miður eru fyrir því fordæmi − að ekki var einungis kært og ákært fyrir meintar líkamsmeiðingar heldur einnig fyrir árás á Alþingi. Sú ákvörðun er forkastanleg. Þeirri skoðun deili ég með Snorra Páli og fleirum.

Viðbót, kl. 16:40

Mér yfirsást því miður að Snorri Páll var einnig að vísa til minnar fréttar inni í blaðinu þar sem því er haldið fram að atvikið eigi sér ekki hliðstæðu (og forsíðufréttin byggir væntanlega á). Þar segir:”Þingmönnum og starfsfólki Alþingis var mjög brugðið en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins á þetta atvik sér enga hliðstæðu. Þótt komið hafi til óeirða fyrir utan þinghúsið hefur aldrei verið ruðst inn í það með þessum hætti. Þingfundi var þó haldið áfram en óundirbúnar fyrirspurnir teknar út af dagskrá.”

Dæmin sem Snorri Páll tiltekur sýnast mér ekki eiga við. Þótt komið hafi til ryskinga áður þá hafi ekki verið ruðst inn á þingpallana með þessum hætti (eða hópi varnað inngöngu). En hér má vel viðurkennast að rannsóknarvinna mín við skrif þessarar fréttar hefur án efa verið takmörkuð, eins og vinnuálagið var á mér og öðrum blaðamönnum á þeim tíma. Það má því vel vera að sambærilegt atkvik hafi átt sér stað.