Öfugt við Egil Helgason þá þykir mér umræðan um Magma-málið ekki þvælin. Hann setur fram nokkrar spurningar á vefsíðu sinni. Hér geri ég tilraun til að svara þeim. Egill spyr:
Væru menn ánægðari ef:
a) Þetta væri íslenskt einkafyrirtæki?
Svar: Það væri örlítið skárra því þá færi arðurinn ekki beina leið úr landi. En í prinsippinu skiptir það ekki höfuðmáli.
b) Ef þetta væri fyrirtæki sem væri örugglega starfrækt á EES-svæðinu?
Svar: Það væri skárra að því leytinu til að þá hefði ekki verið stofnað skúffufyrirtæki markvisst til að fara á svig við lög. Slíkt er nefnilega ólöglegt.
c) Ef nýtingarrétturinn væri styttri?
Svar: Mér þykir lengd nýtingarréttarins ekki vera höfuðatriði heldur tilvist hans yfirleitt. Staðreyndin er hins vegar sú að 65 ára nýtingarréttur á miklu meira skylt við eignarrétt en nokkuð annað. Sjálfstæðismenn vildu lengri nýtingarrétt (að lágmarki 100 ár) og nú vill Samfylkingin styttri nýtingarrétt.
d) Ef ríkið- eða sveitarfélögin sæju alfarið um þetta?
Þá væri ég ánægðari því að arðurinn af notkun auðlindanna færi til almennings, ekki til hluthafa. Slíkt er miklu eðlilegra og sanngjarnara. Um leið væri hægt að tryggja lýðræðislega stjórn yfir auðlindunum og nýtingu þeirra.
e) Ef Magma myndi greiða meira fyrir auðlindina?
Auðvitað hefði verið skárra að Magma greiddi eitthvað að ráði fyrir nýtingarréttinn og að ekki hefði verið veitt svimandi hátt kúlulán í anda Íslands fyrir efnahagshrun. Þá væru líka litlar líkur á að fyrirtækið hefði getað staðið að „fjárfestingunni“. Því hefur heldur aldrei verið svarað af hverju OR gat ekki veitt opinberum aðilum sambærilegt kúlulán. Hins vegar snýst hin raunverulega pólitíska deila um hvort við viljum yfirleitt að einkaaðilar komi að orkuauðlindum almennings með þessum hætti.
19.07.2010Fréttir berast nú af fjölda vinnuslysa við Kárahnjúkavirkjun. Í ljós kemur að 1.700 vinnuslys voru tilkynnt á svæðinu, fjórir létu lífið og 120 eru enn óvinnufær eftir vinnuslys við framkvæmdirnar. Burtséð frá almennri andstöðu minni við byggingu Kárahnjúkavirkjunar þá var ég, ásamt mörgum öðrum, mjög hikandi gagnvart þeirri ákvörðun að fela verktakafyrirtækinu Impregilo framkvæmdina. Þær áhyggjur virðast því miður hafa verið á rökum reistar.
Til samanburðar má benda á að vinnuslys við byggingu álversins á Reyðarfirði voru margfalt minni og sá munur verður ekki aðeins skýrður með ólíkum aðstæðum. En bygging Kárahnjúkavirkjunar var ódýrari fyrir vikið, kannski sumum þyki þetta ásættanlegur fórnarkostnaður?
15.07.2010Því miður skortir mig tíma til að uppfræða formann Lögmannafélags Íslands í þeim mæli sem til þyrfti þegar kemur að kynbundnu ofbeldi og verslun með líkama fólks. Ég kemst hins vegar ekki hjá því að setja nokkur orð á blað varðandi hans nýjasta innlegg um vændi.
Af skrifum formannsins er fyllilega ljóst að hann er hugmyndafræðilega mótfallinn því að kaup á vændi séu ólögleg. Um það erum við einfaldlega ekki sammála og hægt væri að standa í löngum ritdeilum um málið. Hitt er hins vegar merkilegt og það er hversu langt hann teygir sig í röksemdarfærslu sinni og hvernig hann þverneitar að horfast í augu við raunveruleikann.
Það virðist vera tilhneiging innan lögfræðistéttarinnar á Íslandi að fjalla um lög í eins konar tómarúmi, ótengdt öðrum fræðigreinum og félagslegum raunveruleika. Þetta verður augljóst í tilfelli formanns Lögmannafélagsins þar sem hann lítur svo á vændiskaupandi og vændiskona (-maður) séu tveir einstaklingar sem standa algerlega jafnfætis. Hann lítur framhjá sögulegu samhengi, misskiptingu valds og félagslegum veruleika. Ekki nóg með það heldur minnist hann ekki orði á þriðja aðilann, sem gegndi veigamiklu hlutverki í þeim málum sem upp komu hér á Íslandi, eins og Silja Bára Ómarsdóttir fjallar um í ágætri grein.
Öllum þeim sem eitthvað hafa farið ofan í saumana á félagslegum raunveruleika vændis er ljóst að hugmyndin um „hið frjálsa val“ nýtist illa við að skýra ákvarðanatökuferli mikils meirihluta þeirra sem stunda vændi. Í því samhengi má benda á nýlega grein í Aftonbladet þar sem m.a. kemur fram að á milli 70 og 80% vændiskvenna í rauða hverfinu í Amsterdam hefðu verið þvingaðar til að vinna þar.
Það er einfaldlega ekki hægt að slíta vændi úr samhengi og staðsetja það í draumaveröld Brynjars Níelssonar, þar sem konur velja að selja körlum aðgang að líkama sínum, og hafa jafnvel gaman að. Í þessu samhengi er fátt annað hægt en að hvetja formann Lögmannafélags Íslands til að kynna sér formgerð og valdastrúktúr vændisiðnaðarins í heiminum.
Varðandi orð lögmannsins um að löggjöf sem bannar kaup á vændi náist aldrei fram í „hinum stóru lýðræðisríkjum Evrópu“ þótt hún geri það „í smáríkjum nyrst í Evrópu“ þá má benda á að Norðurlöndin þykja skara fram úr þegar kemur að jafnrétti og kvenfrelsi. Því hljótum við öll að fagna, nema að hæstaréttarlögmanninum hugnist það illa?
Brynjar lýkur pistli sínum á þeim orðum að það hafi kannski lítinn tilgang að ræða vændiskaup við fólk sem trúir að „viðskipti með kynlíf“ sé kynferðisofbeldi. Líklega getur rökræðum okkar því lokið hér því hann er harla lítill tilgangurinn í að rökræða við mann sem neitar að horfast í augu við raunveruleikann. Varðandi lokaorð Brynjars um að það sé „jafnlíklegt til árangurs og að reyna að sannfæra þá ágætu menn, Snorra í Betel og Gunnar í Krossinum um að Guð sé ekki til“ hef því ég aðeins eitt að segja: Spegill!
Um vændi á Íslandi má m.a. lesa í eftirfarandi skýrslum: Vændi og klám 2002, Kynlífsmarkaður í mótun 2003, Vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess 2001.
12.07.2010Brynjar Níelsson sýnir mér þann heiður að tileinka mér heilan pistil á bloggi sínu á Pressunni. Um pistil hans hef ég þetta að segja:
Ég hef gagnrýnt lokun þinghalds yfir vændiskaupendum, væga dóma yfir þeim tveimur sem játuðu en mættu ekki fyrir rétt, nafnleysi þeirra eftir að þeir voru sekir fundnir og þá staðreynd að dómarnir eru ekki aðgengilegir á vefsíðu Héraðsdóms Reykjavíkur.
Brynjar segir okkur femínista ekki hafa getað litið glaðan dag vegna þess að farið hafi verið að lögum í málum vændiskaupendanna. Staðreyndin er sú að hvergi segir í lögum að réttarhöld yfir vændiskaupendum eigi að vera lokuð eða nöfn þeirra ekki birt. Það segir heldur ekki í lögum að réttarhöld í kynferðisbrotamálum eigi að vera lokuð. Þvert á móti er meginreglan sú að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði. Dómarar geta hins vegar lokað þinghaldi en þeim ber að vera reiðubúnir til að rökstyðja þá ákvörðun sína.
Eitt er jákvætt við pistil Brynjars, sem er formaður Lögmannafélags Íslands og reyndur lögmaður á sviði kynferðisbrota, og það er að hann flokkar vændiskonurnar sem brotaþola. Ég fæ hins vegar ekki séð að þær hafi stöðu brotaþola í þessum málum, heldur aðeins stöðu vitna.
Vel hefði mátt loka vitnaleiðslum yfir vændiskonunum, til að vernda þær, en hafa aðra þætti réttarhaldanna opna. Dómarinn lagði hins vegar mikið upp úr því að vernda brotamennina og þá vaknar sú spurning hvers vegna þeir eigi að njóta verndar umfram aðra brotamenn, eins og ég hef ítrekað bent á.
Forvarnargildið út í veður og vind
Vændiskaupendurnir tveir sem játuðu brot sín (annar þó aðeins að hafa gert tilraun til að kaupa vændi) mættu ekki fyrir rétt en fengu samt sláandi litla refsingu í formi lágra sekta. Vegna þess að þeir mættu ekki fyrir rétt eru dómarnir ekki birtir á Netinu, sem er út af fyrir sig undarleg regla. Fjölmiðlar, hagsmunasamtök, alþingismenn og aðrir sem láta sig málið varða geta því ekki kynnt sér hvernig dómarinn komst að sinni niðurstöðu og um leið njóta karlanir tveir áframhaldandi nafnleyndar.
Brynjari líkar illa samanburður minn á máli stúlkunnar sem fundin var sek fyrir fjárdrátt og máli vændiskaupendanna. Stúlkan er dæmd í skilorðsbundið fangelsi og nafngreind í dómnum á meðan vændiskaupendurnir fá sektir og eru hvergi nafngreindir. Staðreyndin er sú að brotin áttu sér stað í sama landi og málin voru rekin fyrir sama dómstóli. Þess vegna er eðlilegt að vekja athygli á þeirri misjöfnu meðferð sem brotamennirnir fá.
Þótt refsiramminn sé misjafn í brotaflokkunum sem um ræðir, eins og Brynjar bendir réttilega á, þá hefur hámarksrefsing fyrir brot ekki ráðið því hvort nöfn brotamanna eru birt eða ekki. Dæmdir kynferðisbrotamenn hafa öllu jafna notið nafnleyndar þegar tengsl þeirra við brotaþola eru þannig að með því að gefa upp nafn kynferðisbrotamannsins sé gefið upp nafn brotaþolans um leið. Þegar kemur að vændi eiga þessi rök ekki við.
Staðreyndin er sú að í vændisfrumvarpinu var rík áhersla lögð á fornvarnargildi sem slík lög myndu hafa og með skýrum hætti sagt að tilgangur laganna væri að koma í veg fyrir vændiskaup. Forvarnargildið fer út í veður og vind ef menn fá 80.000 kr. refsingu og nöfn þeirra birtast hvergi. Vændiskaupandinn greiðir þannig einvörðungu hærra verð fyrir vændið, en hann hefði ella gert.
Brynjar talar í hringi þegar hann í aðra röndina leggur þunga áherslu á að um kynferðisbrot sé að ræða en í hina hneykslast hann á því að kaup á vændi séu ólögleg. Því í huga Brynjars heitir vændi „kynlífsþjónusta“ og hann leggur það að kaupa sér aðgang að líkama annarrar manneskju algerlega að jöfnu við kynlíf, eins dapurlegt og það hljómar.
Á bak við luktar dyr
Lokun þinghalda yfir vændiskaupendunum byggir á mjög veikum rökum og það gerði líka ákvörðun Hæstaréttardómaranna tveggja sem neituðu að taka kæru mína til umfjöllunar. Það kemur ekki á óvart að Brynjar Níelsson skuli deila tilfinningaseminni sem þær ákvarðanir stýrðust af. Hann virðist almennt hafa mikla samúð með körlum sem beita konur ofbeldi. Eins og skyldan býður honum ver hann slíka menn fyrir rétti og er það vel. Tilhneiging hans til að verja þá líka í opinberri umræðu og gera um leið allt sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir réttarbætur í þágu þolenda kynbundins ofbeldis er hins vegar óskiljanleg.
Í réttarríki Brynjars má gera allt „bak við luktar dyr svefnherbergisins“, eins og hann orðar það sjálfur. Til að réttlæta skoðanir sínar ber hann vændi og kynferðislegt ofbeldi saman við samkynhneigð og framhjáhald. Ekki þarf að fara mörgum orðum um slíkan samanburð.
Við þetta má bæta að Femínistafélag Íslands hefur alla tíð barist fyrir því að ofbeldi gegn konum sé tekið alvarlega í samfélaginu. Félagið beinir almennt ekki sjónum sínum að einstaklingum sem slíku ofbeldi beita heldur að samfélagsgerðinni sem ofbeldið þrífst í og að kerfinu sem reynist oft vanmáttugt til að takast á við það. Tal Brynjars um ofsóknir, vandlætingu, reiði og hefndarhug er því út úr öllu korti og byggir öðru fremur á rökþurrð, og kannski hans eigin vandlætingu í garð þeirra sem berjast gegn ofbeldi.
10.07.2010Úr Morgunblaðinu í dag:
„Dómarnir verða birtir síðar í dómabók en samkvæmt reglunum verða nöfn og annað sem tengir menn persónulega við málið afmáð,“ segir Helgi [I. Jónsson, dómstjóri í Héraðsdómi Reykjavíkur]. Það sé ávallt gert þegar um persónuleg mál sé að ræða svo sem kynferðisbrotamál eða málefni barna.
Það er nefnilega það. Kynferðisbrot eru „persónuleg mál“. Samt er um brot á almennum hegningarlögum að ræða. Ég stóð alltaf í þeirri meiningu að nöfn kynferðisbrotamanna væru ekki birt opinberlega í þeim tilfellum þar sem hægt væri að tengja þá beint við brotaþolann. M.ö.o. væri verið að vernda fólk sem verður fyrir kynferðisofbeldi, ekki fólk sem beitir því. En það var greinilega misskilningur.
Ef þú kaupir vændi þá er það persónulegt mál þitt, eins ef þú brýtur gegn barni eða nauðgar konu. Ef þú stingur undan fé í Bónus er það hins vegar alls ekki persónulegt mál.
Dæma auðveldlega “niður fyrir sig”
Eva Joly vakti athygli á því í Silfri Egils í vor að dómarar ættu oft erfitt með að dæma „sína líka“. Það komi skýrt í ljós þegar dómstólar taka á fjárglæframönnum. Þá mæti dómarar mönnum sem eru úr sömu hverfum og þeir sjálfir, menn með fín bindi og snyrtilega klæddir. Dómararnir hafa samúð með þessum mönnum og trúa engu illu upp á þá. Hins vegar eiga þeir mun auðveldara með að „dæma niður fyrir sig“. Fella hiklaust dóma yfir fíkniefnaneytendum, útlendingum, rónum, slagsmálahundum og svo framvegis.
Í Svíþjóð var gerð umfangsmikil rannsókn á afdrifum kynferðisbrotamála. Þar kom í ljós að kynferðisbrotamenn sem eru af erlendu bergi brotnir eða tilheyra lægri stéttum eru miklu líklegri til að fá dóm en millistéttarmenn og góðborgarar.
Þetta má greinilega uppfæra á íslenskan veruleika. Vændiskaupendur eru verndaðir á sama tíma og nafn erlenda vændismiðlarans er ítrekað birt og myndir með. Svipaða sögu má segja um kassastúlkuna í Bónus sem dró sér fé, nafn hennar er birt, refsingin er þyngri en fyrir að kaupa sér vændi og dómurinn fer beint á Netið.
Vændiskaupendurnir sem þegar hafa verið dæmdir fá svo ótrúlega litla refsingu að sækja þarf um sérstakt leyfi til að geta áfrýjað málinu til Hæstaréttar. Þannig var dómurinn þrátt fyrir að mennirnir hefðu ekki mætt í dómsal. Og vegna þess að mennirnir mættu ekki í dómsal er dómurinn ekki birtur á Netinu!
Hér stendur ekki steinn yfir steini.
Allt er þetta ákvörðun eins dómara, sem vildi helst ekki þurfa að dæma mennina og alls ekki fyrir opnum tjöldum. Hann virðist hafa samúð með þeim, líkt og Hæstaréttardómararnir tveir sem neituðu að taka kæru mína á ákvörðun um lokað þinghald til efnislegrar meðhöndlunar. Heldur vísuðu þeir henni frá, á tæknilegum forsendum, sem standast ekki nánari skoðun.
Sumir eru meiri blaðamenn en aðrir
Ákvörðun meirihluta Hæstaréttar er ekki bara út úr öllu korti gagnvart grasrótarsamtökum sem láta sig ákveðna málaflokka varða heldur líka áfall fyrir íslenska blaðamenn, enda ljóst miðað við fyrri dómaframkvæmd að mál mitt var ekki tekið fyrir þar sem ég starfa ekki lengur á fjölmiðli. Ég vinn sjálfstætt sem blaðamaður, fræðimaður og rithöfundur. Það dugar ekki dómurunum, sem eru greinilega þess umkomnir að greina á milli blaðamanna með allt öðrum hætti heldur en hefur verið gert innan stéttarinnar. Ef ég hefði unnið á Morgunblaði Davíðs Oddssonar þá hefði málið verið tekið fyrir.
Dómararnir vildu svo gjarnan vísa málinu frá, því þeir vissu sem var að annars hefðu þeir þurft að rökstyðja stuðning sinn við ákvörðun um lokað þinghald með þeim hætti að það hefði stangast á við ákvörðun Hæstaréttar í öðru máli þessu líku, þar sem maður var ákærður fyrir vörslu á barnaklámi.
Dómskerfið stýrist í þessu máli af tilfinningasemi og meðvirkni í garð karlanna sem „lentu í því að kaupa sér vændi“. Þess vegna þarf réttarkerfið allt að líta í eigin barm, ekki seinna en strax.
08.07.2010Útlensk kona er fundin sek um að hafa dregið sér fé er hún vann við afgreiðslustörf í Bónus og fær 30 daga skilorðsbundinn fangelsisdóm samkvæmt Héraðsdómi Reykjavíkur. Jafnframt á hún að greiða Bónusi skaðabætur og laun verjanda síns. Dómurinn er birtur á Netinu og greint er frá nafni konunnar. Nafnið ratar í fréttir og sakaskráin er ekki lengur hrein. Það verður erfitt fyrir konuna að sækja um vinnu aftur.
Íslenskur karl er fundinn sekur um að hafa brotið lög með því að kaupa sér aðgang að líkama annarrar manneskju. Hún er að líkindum útlensk og milliliðurinn hefur verið fundinn sekur um mansal. Hámarksrefsing er eins árs fangelsi en karlinn er aðeins dæmdur til að greiða sekt, ekki er vitað um málskostnað. Dómurinn er ekki birtur á Netinu og hvergi kemur nafn karlsins fram. Hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því næst þegar hann sækir um vinnu að það sé á allra vitorði að hann hafi brotið lög.
Dæmin þarfnast varla nánari skýringa. Svona er réttarríkið Ísland.