30.04.2010

Fundur Blaðamannafélags Íslands í gær var til marks um þau miklu átök sem eiga sér stað í íslensku samfélagi eftir efnahagshrunið. Alls staðar er tekist á og enginn vill láta hanka sig á rugli.

Það var sorglegt að Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skyldi ekki gefa kost á sér áfram sem formaður, enda ljóst að eitt ár í formannsstóli er alltof skammur tími. Hins vegar skil ég vel hennar ákvörðun, það er erfitt að taka þátt í svona sirkús, þegar félagatalið er handónýtt  og að því er virðist háð geðþóttaákvörðunum  hver fær að halda aðild og hver ekki. Ég virðist t.d. vera dottin út af félagaskrá þrátt fyrir að hafa óskað eftir biðaðild í gegnum starfsmann stjórnar félagsins, sem nú er orðinn formaður, eftir að ég missti vinnuna á Morgunblaðinu. Síðan kemur í ljós að kannski hefði ég ekkert þurft að óska eftir biðaðild heldur bara að vera áfram fullgildur félagi. A.m.k. lítur allt út fyrir að Árni Johnsen sé fullgildur félagi og þar af leiðandi með atkvæðarétt í félaginu! Þá virðist engin umsókn um biðaðild hafa verið tekin fyrir í stjórn félagsins síðustu ár sem aftur þýðir að varla er nokkur félagsmaður biðfélagi, enda þarf stjórnin samkvæmt lögum félagsins að samþykkja biðfélaga.

Efasemdir um kjörgengi nýs formanns

Í grein 2.1 segir:

Félagar geta orðið allir þeir, sem hafa fjölmiðlun að aðalstarfi eða eru fastráðnir starfsmenn ritstjórna á dagblöðum, vikublöðum, sértímaritum, landshlutablöðum, vefmiðlum og fréttastofum útvarps- og sjónvarpsstöðva, svo og aðrir þeir, sem fastráðnir eru við frétta- og fjölmiðlun á launakjörum, sem félagið hefur samið um eða gefið út taxta fyrir Þar með eru taldir blaðamenn, fréttamenn, útlitsteiknarar, prófarkalesarar, handritalesarar, ljósmyndarar, ritstjórar, ritstjórnarfulltrúar, fréttastjórar, dagskrárgerðarmenn fréttadeilda útvarps- og sjónvarpsstöðva hljóð- og tökumenn, tækni- og aðstoðarfólk á dagskrár- og fréttadeildum.

Af þessu er ljóst að áhöld eru um hvort starfsmaður stjórnar félagsins hafi verið kjörgengur þegar hann lagði framboð sitt fram. Kannski hefur hann lausapennaaðild að félaginu eða mögulega biðaðild, þótt ólíklegt teljist auk þess sem biðfélagar eiga samkvæmt lögunum ekki að hafa atkvæðarétt á fundinum og geta því tæplega talist kjörgengir. Það er þó ekki skýrt í lögum. Svör við þessu komu ekki fram á fundinum í gær að öðru leyti en því að starfsmaðurinn veifaði eintaki af Blaðamanninum og sagðist hafa skrifað í hann greinar. Vel má vera að starfsmaðurinn sé fullgildur félagi en það hefði þurft að vera á hreinu fyrir formannskosninguna.

Á þessu vakti Svavar Halldórsson athygli  í upphafi fundar. Hann benti einnig á að starfsmaður félagsins hefði skráð tugi félaga sem biðfélaga án þess að fyrir því lægi samþykki stjórnar. Kjörskrá var hins vegar breytt á miðvikudagskvöld að frumkvæði stjórnar og að fengnu lögfræðiáliti þess efnis að þar sem mál biðfélaganna voru ekki tekin fyrir í stjórn teljist þeir fullgildir félagar. Það orkar þó líka tvímælis því samkvæmt lögunum getur allt þetta fólk ekki verið fullgildir félagar. Þarna var því kominn hópur fólks sem hafði fyrr í vikunni fengið þau skilaboð að það væri hvorki kjörgengt á fundinum né með atkvæðisrétt.

Frestun ekki samþykkt

Félagatal BÍ stangast á við lög félagsins. Lögin eru vissulega meingölluð. Þau eru óskýr og ekki nægilega vel skrifuð. Ný stjórn hlýtur að koma af stað vinnu við að endurskoða lögin. En það þýðir það ekki að brjóta megi lögin áður en þeim er breytt. Svavar flutti dagskrárbreytingartillögu sem fól í sér að kjöri formanns og stjórnar yrði frestað til að hægt væri að skera úr um öll vafaatriði. Einnig lagði hann til að umræðu um ársreikninga yrði frestað þar sem meirihluti stjórnar félagsins taldi sig ekki hafa nægar upplýsingar til að staðfesta reikningana.

Fram kom frávísunartillaga á dagskrárbreytingartillögu Svavars. Hún var samþykkt með 43 atkvæðum gegn 28. Fundurinn hélt því áfram samkvæmt dagskrá þótt mikil áhöld væru um lögmæti hans og formannskjörsins. Það er mjög miður.

Engin „skúringakelling“

Formaður félagsins flutti fundinum skýrslu þar sem ágreiningi við starfsmann stjórnarinnar var lýst. Starfsmaðurinn steig síðan fram og flutti dramatíska ræðu um góða efnahagsstöðu félagsins og dugnað hans sjálfs í starfi. Um hvorugt skal efast. Ræðan var hins vegar heldur sundurlaus og gagnrýni sem raunverulega beindist að starfsmanninum hefði mátt svara skýrar, s.s. varðandi það að stjórnin hafi ekki fengið þau gögn sem hún óskaði eftir (og þar er átt við gögn, ekki munnlegar romsur).

Af ræðunni að dæma fékk ég best skilið að stærstu glæpir formanns félagsins hefðu verið að gagnrýna eignarhald á fjölmiðlum, að leggja til að blaðamaður fengi hlutastarf sem felst í umsjón með vefnum press.is  í stað Birgis Guðmundssonar, prófessors og að hafa viljað þiggja styrk sem norrænu blaðamannafélögin vildu bjóða BÍ vegna erfiðra aðstæðna á Íslandi. Flest af þessu þykir mér mjög eðlilegt. Starfsmaðurinn vildi hins vegar ekki þessa miklu krítík á eigendur, ekki að blaðamaður fengi hlutastarf á press.is og alls ekki að taka við styrk frá útlöndum. Félagið væri nógu vel statt til að sjá um sig sjálft, þótt starfsmaðurinn hafi reyndar sagt upp ræstitækninum sem skúraði gólfin vegna efnahagshrunsins. Vakti hann athygli á framtakssemi sinni við skúringar og klykkti hann út með orðunum að halda mætti að félag eins og BÍ ætti að geta haft „skúringakerlingu“ í vinnu. (Hann var þó ekki einn um að tala um „kerlingar“ á fundinum því það gerði líka mín gamla samstarfskona Agnes Bragadóttir sem hrópaði að Þóru Krístinu að hún væri „nauðaómerkileg dylgjukerling“. )

Eftir ræðu starfsmannsins stóðu þrír stjórnarmenn upp og sögðu af sér úr stjórn eða gáfu ekki kost á sér áfram. Síðan var kjörin ný stjórn, skipuð 6 körlum og einni konu. (Vel í takti við þá tilhneigingu „Nýja Íslands“ að afhausa konur og hampa körlum.) Hinn nýi formaður varð við ósk fráfarandi formanns um að sitja ekki áfram sem framkvæmdastjóri tæki hann við embætti formanns. Staða framkvæmdastjóra verður því væntanlega auglýst á næstunni og eflaust verða margar umsóknir frá blaðamönnum, enda kjörin góð og starfsöryggi meira en víða í stéttinni.

Hærri meðalaldur og meira fjör

Ég missti því miður af umfjöllun um fjölmiðlahlutinn í Rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem ég fór yfir á aðalfund Rithöfundasambands Íslands, sem ég er nýr félagi í. Þar var stemmningin öll önnur (og meðalaldur margfalt hærri!). Kristín Steinsdóttir var kjörin formaður en Sölvi Björn Sigurðsson fékk einnig góða kosningu. Þau töluðu vel hvort um annað og hinir eldri rithöfundar voru yfir sig hamingjusamir með fundinn. Það hefur þó ekki alltaf verið þannig, í fyrri tíð voru þessir fundir víst allt að því blóðugir.

Blaðmannafélag Íslands er klofið og það er miður, ekki síst á þessum tímum. Kannski tekst samt með tíð og tíma að vinna að sátt innan félagsins og kannski rennur sá dagur upp að blaðamenn standi saman sem stétt, en ekki sundraðir. Let us hope.

28.04.2010

Átökin sem hafa átt sér stað í Blaðamannafélagi Íslands eru athygliverð. Aðalfundur félagsins fer fram á morgun og starfsmaður félagsins hefur boðið sig fram gegn sitjandi formanni. Meirihluti stjórnar félagsins neitaði að samþykkja ársreikninga þar sem stjórnarmeðlimir töldu sig ekki hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins. Við því hafa takmörkuð svör borist en skýringar hljóta að koma fram á fundinum á morgun. Þess í stað talar starfsmaðurinn um lýðræðislegar hefðir sem verði að virða en hvergi kemur fram í hverju þær felast. Varla er lýðræðið í heiðri haft ef stjórnarmenn telja skorta á upplýsingar?

Kunnugleg stef

Í umræðu blaðamanna á milli má heyra kunnugleg stef um að formaðurinn sé frek, stjórnsöm, dónaleg og bitur kona. Einhvern veginn finnst mér ég hafa heyrt þessa lýsingu hundrað sinnum áður og hún á alltaf við um konur sem halda einhvers staðar um stjórnartauma. Ekki man ég eftir að hafa heyrt talað um frekan, stjórnsaman, dónalegan og bitran karl í þessu samhengi, þótt eflaust sé enginn skortur á  þeim.

Gagnrýni á eignarhald

Formaður Blaðamannafélagsins hefur verið harðlega gagnrýndur, jafnvel úthrópaður, vegna ályktunar frá stjórn félagsins um fjöldauppsagnir blaðamanna á Morgunblaðinu eftir að ritstjórum þar var fjölgað úr einum í tvo. Davíð Oddsson var annar þeirra. Ráðning hans var gagnrýnd vegna starfa sem tengdu hann við efnahagshrunið. Ályktunina má lesa í heild sinni hér en henni lýkur á þessum orðum:

Blaðamannafélagið lýsir jafnframt þungum áhyggjum af stöðu fjölmiðla á Íslandi, enda hefur um hundrað blaðamönnum verið sagt upp störfum síðustu misseri. Þá hefur harkalegur niðurskurður á ritstjórnum þrengt mjög að faglegri og frjálsri blaðamennsku. Þetta er sérstaklega hættulegt nú þegar aldrei hefur riðið jafn mikið á og nú að standa vörð um lýðræði hér á landi.

Erfitt er að koma auga á glæpinn í því að stjórn Blaðamannafélagsins standi með blaðamönnum og mótmæli fjöldauppsögnum. Kannski hefði mátt álykta oftar og meira og ef gagnrýnin snýst um það á að setja hana þannig fram. Þá er formanninum legið á á hálsi fyrir að hafa áhyggjur af eignarhaldi fjölmiðla á Íslandi. Þess má þó geta að formaðurinn er ekki einn um þessar áhyggjur enda koma þær skýrt fram í Rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem þáttur fjölmiðla í útrás og hruni er gagnrýndur.

Stuðningur Norðurlanda

Formenn norrænna samtaka blaða- og fréttamanna lýstu yfir áhyggjum af þróun fjölmiðla á Íslandi. Formaður BÍ var skammaður yfir að hafa matreitt ályktunina ofan í formennina og jafnvel skrifa hana bara sjálf. Í Rannsóknarskýrslu Alþingis segir:

Formenn Samtaka blaða- og fréttamanna á Norðurlöndum hafa lýst yfir áhyggjum vegna þróunar fjölmiðla á Íslandi og segja vegið að rit- og tjáningarfrelsi hérlendis. Það er dapurlegur vottur um íslenska umræðusiði að þessi athugasemd hefur ekki orðið tilefni málefnalegrar rökræðu um stöðu fjölmiðla á viðsjárverðum tímum í íslensku samfélagi heldur hafa menn hlaupið í skotgrafir.

Hvað er það í ályktuninni sem er svona hræðilegt? Hvernig væri að fá fram málefnalega umræðu frekar en að ráðast í öðru hverju orði á formann Blaðamannafélagsins eins og hún sé ekki bara alvaldur á Íslandi heldur líka um öll Norðurlönd?

Um þetta ritaði Gunnar Hersveinn góðan pistil sem má lesa hér.

Þreytandi sundurleitni

Sundurleitni hefur lengi verið vandamál í blaðamannastéttinni. Blaðamenn eiga það til að standa með eigendum sínum frekar en kollegum og grafa hver undan öðrum fremur en að standa saman. Þetta er leiðigjarnt og þreytandi. Hins vegar á þetta ekki við um alla  blaðamenn og eflaust er meirihluti sem vill hafa hlutina öðruvísi. Því er hægt að breyta.

Ég hvet alla blaðamenn til að mæta á aðalfundinn á morgun, ekki aðeins til að geta kosið og reynt að átta sig á deilum milli formanns og starfsmanns samtakanna heldur líka til að hafa áhrif á nýjar siðareglur blaðamanna sem til stendur að ræða á fundinum.

Einnig kosið í Rithöfundasambandinu

Sjálf er ég aðeins með biðaðild að Blaðamannafélaginu og ekki atkvæðisrétt. Ég geri því ráð fyrir að sitja fremur fund Rithöfundasambands Íslands en þar verður einnig kosinn nýr formaður. Valið stendur milli Kristínar Steinsdóttur og Sölva Björns Sigurðssonar. Bæði eru þau verðugir kandídatar, þótt ég halli mér fremur að Kristínu, ekki síst vegna mikillar reynslu hennar af rithöfundastörfum sem og starfi innan Rithöfundasambandsins. Kona hefur einnig aðeins einu sinni gegnt formennsku í Rithöfundasambandinu. Þá spillir ekki fyrir að Kristínu þekki ég persónulega og það af mjög góðu!

Morgundagurinn er spennandi. Ég held með konunum!

20.04.2010

Grein um stjórnmál

Birtist á Smugunni 20. apríl 2010

Pólitísk umræða er sérstök á Íslandi þessa dagana. Hrunflokkarnir þrír bregðast hver með sínum hætti við upplýsingum úr Rannsóknarskýrslu Alþingis. „Ekki benda á mig“ er algengasta viðkvæðið  og stjórnmálamenn sem taka sér tímabundið leyfi frá störfum geta ekki beðið eftir að snúa aftur. Öll hafa þau hreina samvisku að eigin dómi, það féll bara dálítið ryk á  hana út af öllum hinum sem bjuggu til ruglað kerfi.  Síðan skulu allir flokkar og allir stjórnmálamenn dregnir með í fallinu. Þannig talaði Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í Silfri Egils á dögunum þegar hún svaraði hverri pólitískri spurningunni á fætur annarri með því að kalla eftir minni flokkslínuhugsun og meira samstarfi. Það er eitthvað ljóðrænt við pólitíkus sem forðast að tala um pólitík í aðdraganda kosninga. Eftir hverju á þá að kjósa?

Pólitík er dagvistun og snjómokstur

Pólitík er viðfangsefni daglegs lífs. Pólítík er göngustígar, dagvistun barna, frístundaheimili, svifryk og snjómokstur. Þegar gengið er til kosninga er kosið um ólíka hugmyndafræði. Hún snýst til dæmis um hvort hækka eigi skatta eða auka gjaldtöku á leikskólum þegar hart er í ári. Hún snýst líka um hvort eigi að setja í forgang, fólk eða mannvirki. Hvort tryggja eigi börnum leikskólapláss eða fjölga golfholum. Hvort orkuauðlindir séu sameign okkar allra eða vænleg gjafavara til misgáfulegra viðskiptamanna. Svona mætti lengi telja. Um þetta er kosið í vor og reyndar alltaf þegar gengið er til kosninga. Hitt er síðan annað mál að eftir kosningar eiga stjórnmálaflokkarnir að vinna saman að sem flestum viðfangsefnum og það er ekkert sem segir að sami meirihluti og minnihluti eigi að gilda í öllum málum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alið á brjálæðislegu meirihlutaræði í gegnum tíðina. Flokkurinn hefur viljað halda einn um stjórnartaumana og honum gekk vel að kúga litla samstarfsflokkinn, Framsókn til hlýðni. Í samstarfi við stærri flokk, þ.e. Samfylkinguna, gekk það verr og margir sjálfstæðismenn þoldu það ekki. (Reyndar er líka ljóðrænt hvernig hinir kúguðu lærðu af kúgaranum að fara með völd og reyndu að hegða sér eins þegar þeir komust í sömu stöðu, en það er önnur saga).

Nú á að lappa upp á laskaða ímynd Sjálfstæðisflokksins með því að draga pólitíkina sjálfa til ábyrgðar fyrir þeirra eigin vafasömu vinnubrögð. Stöldrum aðeins við. Staðreyndin er sú að þótt Sjálfstæðisflokkurinn – og meðreiðarsveinar hans eftir atvikum – hafi notað pólitísk völd sín til spillingar og einkavinavæðingar þá er ekki þar með sagt að stjórnmál séu í sjálfu sér spilling og einkavinavæðing. Og þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi í gegnum tíðina fært hagsmunaöflum auðlindir Íslendinga á silfurfati án þess að fá nokkuð í staðinn annað en fyrirgreiðslu til flokksins og einstaka pólitíkusa þá þýðir það ekki að stjórnmál snúist um slík vinnubrögð. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi keyrt Ísland í þrot þá er ekki þar með sagt að allir stjórnmálaflokkar eða allir stjórnmálamenn myndu gera það. Vond verk eins stjórnmálaflokks eru ekki það sama og stjórnmál almennt.

Hvernig var hægt að vera ekki á móti?

Til eru stjórnmálamenn sem ekki tóku þátt í ruglinu. Til er heil stjórnmálahreyfing sem engan þátt tók í því og reyndi aðeins að vara við. Það er hreyfingin sem sagði nei við Kárahnjúkavirkjun og þenslunni sem hún olli, nei við vafasamri einkavæðingu bankanna og annarra ríkisfyrirtækja, nei við skattalækkunum á kolvitlausum tíma og nei við hlutafélagavæðingu opinberra stofnana. Þessi hreyfingin lagði líka til aðskilnað starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka og guð má vita hversu háum fjárhæðum íslenskur almenningur tapaði vegna samkrullsins sem gerði einstaka körlum kleift að fara með peninga sparifjáreigenda eins og sína eigin. Þetta stjórnmálaafl heitir Vinstrihreyfingin grænt framboð og var á tímum gleðskaparins sögð vera alltaf á móti. En þegar betur er að gáð og um öxl litið: Hvernig var annað hægt en að vera á móti?

Að gera pólitík eins og hún leggur sig ábyrga fyrir vondum verkum hægri manna þjónar engum tilgangi öðrum en að slá ryki í augu almennings sem sýpur seyðið af aðgerðum og aðgerðaleysi þessara sömu manna, hvort sem þeir fóru með ábyrgð í stjórnmálum, atvinnulífi, viðskiptalífi eða innan verkalýðshreyfinga og hagsmunasamtaka. Ætlunin er síðan að koma sama fólkinu aftur til valda og lækna íslenskt hagkerfi með meðulunum sem drápu það. Þá vegferð þarf að stöðva. Það verður ekki gert með því að færa Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda, hvort sem er á sveitarstjórnarstigi eða landsvísu.

Íslenskur almenningur olli ekki hruninu. En ábyrgð hans er skýr í einu afmörkuðu atriði – hér fengu flokkar hrunhugmyndafræðinnar góða kosningu aftur og aftur og aftur. Nú hlýtur sá tími að vera liðinn.