30.03.2010

Varnarmálastofnun tók til starfa 1. júní 2008. Þá þegar voru uppi miklar efasemdir um stofnunina, þótt ekki færu þær hátt þá. Ári síðar hafði ný ríkisstjórn komist að samkomulagi um að stofnunina skildi leggja niður. Það var í júní í fyrra og nú er kominn mars.

Þótt fagna beri því að utanríkisráðherra hafi lagt frumvarp fyrir ríkisstjórn í dag þá hefði mátt ætla að það yrði aðeins bitastæðara. Stofnunin á að starfa fram að áramótum, sem er illskiljanlegt. Sérstök stjórn á að koma verkefnum stofnunarinar fyrir á þeim tíma og skal hún skipuð embættismönnum 5 ráðuneyta, einmitt sömu ráðuneyta og áttu fulltrúa í nefnd sem nú hefur skilað af sér og átti að undirbúa tilfærslu þessara sömu verkefna.

Það tekur eitt og hálft ár að leggja niður stofnun sem starfaði í ár og alltaf voru efasemdir um. Einmitt út af þessu á ekki að koma á fót nýjum ríkisstofnunum að vanhugsuðu máli. Þetta hefur verið gríðarlega kostnaðarsamt ævintýri.

25.03.2010

Alþýðusamband Íslands hefur nú fundið sinn „skötusel“ í deilum við ríkisstjórnina, það er áform um sameiningu Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar. Á sama tíma skammast kóngur ASÍ yfir því að starfsendurhæfingarsjóður verkalýðsfélaganna sé ekki orðinn nógu digur. Samkomulag um þennan sjóð voru mistök og ríkisstjórnin ætti fremur að taka skref til baka en áfram í þeim efnum. Eins og glöggt má sjá af lestri á bréfi Gylfa Arnbjörnssonar til forsætisráðherra þá gengur sjóðurinn út á það að tryggja rétt fólks á vinnumarkaði umfram aðra, s.s. ef kemur til slysa eða veikinda. Fjárhæðirnar sem renna eiga í þennan sjóð eru alltof háar miðað við þann niðurskurð sem hið opinbera stendur frammi fyrir. Það er ekki réttlætanlegt að höggva í velferðarkerfið þannig að allur almenningur líði fyrir en veita á sama tíma fé inn í sérstaka sjóði verkalýðsfélaga sem er ætlað að bjóða fólki á vinnumarkaði betri þjónustu en þeim sem utan hans standa.

Forsvarsmenn ASÍ verða að taka tillit til samfélagsins alls í kröfum sínum og það sama á við um Samtök atvinnulífsins. Þessi valdamiklu hagsmunasamtök eiga að axla sína ábyrgð. Það verður ekki gert með stöðugum hótunum.

23.03.2010

Meirihluti Íslendinga er andsnúinn því að slakað sé á kröfum um umhverfisvernd til að greiða fyrir stóriðjuframkvæmdum. Þetta er niðurstaða könnunar Fréttblaðsins, sem greint er frá í dag. Könnunin er gott veganesti fyrir ríkisstjórnina og þá ekki síst umhverfisráðherra sem hefur sett alla landsins „aðila“ í uppnám með því að standa með umhverfinu en ekki frekum körlum. Könnunin hlýtur líka að hreyfa aðeins við fjölmiðlum og opna á smá sjálfsgagnrýni varðandi viðmælendaval þegar kemur að umræðu um virkjanaframkvæmdir og stóriðju. Þannig lætur nærri að míkrafónn sé rekin framan í talsmenn stóriðjusinnaðra samtaka og fyrirtækja a.m.k. fjórum sinnum fyrir hvert skipti sem umhverfisverndarsinnar fá að tjá sig. Kannski er kominn tími til að leita fanga víðar þegar kemur að viðbrögðum við yfirlýsingum eða ákvörðunum sem tengjast náttúrvernd.

Mismunur  á afstöðu kynjanna kemur ekki á óvart, enda er þetta mynstrið um allan heim. Konur eru líklegri til að vilja standa vörð um náttúruna andspænis stórfyrirtækjum og sterkum hagsmunaöflum. Hins vegar vekur athygli að þrátt fyrir þetta þá vill helmingur íslenskra karla ekki að slakað sé á kröfum um umhverfisvernd. Þetta eru skýr skilaboð.

Munurinn á afstöðu eftir stjórnmálaskoðunum kemur heldur ekki á óvart. Hægri öflin héldu hér úti gegndarlausri stóriðjustefnu á meðan vinstri flokkarnir hafa heldur viljað skoða aðrar leiðir, bæði vegna umhverfisins og vegna efnahagslegra afleiðinga heróínstefnunnar. En stjórnarandstaðan (að undanskilinni Hreyfingunni) syngur enn sama sönginn um virkjanir og álver. Getur einhver tekið að sér að kenna henni nýtt lag?

Niðurstaða skoðanakönnunarinnar er vindur í segl stjórnarflokkanna sem vinna nú hörðum höndum að því að byggja upp nýtt, fjölbreytt og lýðræðislegt Ísland.

17.03.2010

Miður er hvernig umræða um listamannalaun hefur spunnist í samfélaginu. Halda mætti að helsta byrði á íslenska ríkinu væru þeir fáu listamenn sem fá laun frá ríkinu í takmarkaðan tíma í senn. Þess má geta að margfalt færri fá listamannalaun en þess óska og ættu skilið. Listamannastéttin er jafnframt sjálfbær í þeim skilningi að hún skilur meira eftir sig í samfélaginu en hún tekur frá því. Það mættu margir taka til fyrirmyndar, til að mynda þeir sem telja rétt að þeir fái bónusgreiðslur sem hljóða upp á slíkar fjárhæðir að halda mætti uppi fjölda listamanna fyrir.

Greiðslur til listamanna þarf að setja í samhengi. Samkvæmt fjárlögum fara 373,8 milljónir í listamannalaun á þessu ári. Á einmitt sömu fjárlögum fá Samtök iðnaðarins litlar 420 milljónir til sinnar starfsemi. Réttlætingin fyrir því síðarnefnda er sú að fjármunirnir fáist með innheimtingu iðgjalds sem lagt er á allan iðnað í landinu. Fyrirtækin eru hins vegar bundin að lögum til að greiða það gjald og það rennur í gegnum ríkissjóð. Eins og annar skattur, t.d. virðisaukaskattur af bókum.

Það væru mikil glöp að gefa skít í listir á menningu, þótt nú sér hart í ári. Þjóðir sem hafa úr miklu minni fjármunum að spila halda uppi öflugu listalífi. Listir og menning eru mikilvægur hluti af samfélaginu og hreinlega af lýðræðinu. Þannig á það að vera áfram.

11.03.2010

Ég átti leið niður á Alþingi á dögunum og ákvað að kíkja upp í þingfréttaritaraherbergið til að heilsa upp á gamla kollega. Eflaust átti það ekki að koma mér á óvart en kollegarnir voru í eintölu, það er Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður Ríkisútvarpsins.

Þegar ég byrjaði sem þingfréttaritari vorum við langoftast fjögur í húsi og stundum fimm. Fréttablaðið og Mogginn höfðu fasta blaðamenn í að sinna Alþingi, Ríkisútvarpið hafði tvo, einn fyrir sjónvarp og annan fyrir útvarp og af og til datt inn fréttamaður frá Stöð 2.

Smám saman fór viðvera Fréttablaðsins minnkandi í þinghúsinu. Þegar fréttadeildir útvarps og sjónvarps voru sameinaðar var ákveðið að Jóhanna Vigdís sinnti báðum miðlum. Næst ákvað Morgunblaðið að leggja niður stöðu þingfréttaritara (það er mína stöðu) og fréttamenn Stöðvar tvö sáust æ sjaldnar.

Áhugavert er að þessi þróun átti sér stað á nákvæmlega sama tíma og völdin færðust úr viðskiptalífinu og aftur inn í pólitíkina. Allt í einu voru stóru bankarnir allir komnir undir ríkishattinn og um leið fjöldinn allur af fyrirtækjum. En fjölmiðlar höfðu samt sem áður, og hafa enn, margfalt meiri áhuga á viðskiptalífinu, sem er bæði fjárhagslega og hugmyndafræðilega gjaldþrota. Þannig vinnur fjöldinn allra blaðamanna við að skrifa viðskiptafréttir á meðan pólitískum fréttaskrifum er iðulega sinnt í hjáverkum. Rétt er að taka fram að með þessu er ég hvorki að varpa rýrð á þá blaðamenn sem skrifa um viðskipti né þá sem skrifa um stjórnmál heldur aðeins að velta upp spurningum um forgangsröðunina.

Eftirlitshlutverk fjölmiðla er gríðarmikilvægt og ekki síður nú þegar endurmótun íslensks samfélags stendur yfir. Liður í slíku eftirliti er að fylgst sé með umræðum sem eiga sér stað á Alþingi. Slíkt aðhald getur ekki komið frá einum fréttamanni sjónvarpsins. Það þarf fleiri til.

08.03.2010

Femínistafélagið boðaði alla ráðherra í ríkisstjórn á fund sinn í morgun en þeir eru núverandi handhafar hvatningarverðlauna félagsins, Bleiku steinanna. Sex ráðherrar mættu á staðinn; allir kvenráðherrarnir nema forsætisráðherra en aðeins einn karlanna í ríkisstjórn sá sér fært að mæta, og stoppaði ekki lengi.

Þetta er vissulega táknrænt og minnir okkur um leið á að kyn skiptir máli.

Fundurinn var góður og mikill hugur í fólki, jafnt ráðherrum sem fulltrúum Femínistafélagsins. Viljinn til að byggja upp nýtt Ísland þar sem jafnrétti er haft að leiðarljósi er ríkur en viljinn einn nægir auðvitað ekki. Aðgerðir verða að fylgja. Nú þegar hafa unnist áfangasigrar eins og að kaup á vændi séu ólögleg og að mansalsmál skuli tekin föstum tökum. Enn er þó langt í land og ég skora bæði á þingmenn og ráðherra að gera alla daga að baráttudögum fyrir jafnrétti og kvenfrelsi!

Femínistafélagið boðaði alla ráðherra í ríkisstjórn á fund sinn í morgun en þeir eru núverandi handhafar hvatningarverðlauna félagsins, Bleiku steinanna. Sex ráðherrar mættu á staðinn; allir kvenráðherrarnir nema forsætisráðherra en aðeins einn karlanna í ríkisstjórn sá sér fært að mæta, og stoppaði ekki lengi.

Þetta er vissulega táknrænt og minnir okkur um leið á að kyn skiptir máli.

Fundurinn var góður og mikill hugur í fólki, jafnt ráðherrum sem fulltrúum Femínistafélagsins. Viljinn til að byggja upp nýtt Ísland þar sem jafnrétti er haft að leiðarljósi er ríkur en viljinn einn nægir auðvitað ekki. Aðgerðir verða að fylgja. Nú þegar hafa unnist áfangasigrar eins og að kaup á vændi séu ólögleg og að mansalsmál skuli tekin föstum tökum. Enn er þó langt í land og ég skora bæði á þingmenn og ráðherra að gera alla daga að baráttudögum fyrir jafnrétti og kvenfrelsi!

08.03.2010

Fréttaskýring

Birtist á Smugunni 3. mars 2010

Niðurstöðu starfshóps um niðurlagningu Varnarmálastofnunar er að vænta á næstu dögum en í hópnum sitja fulltrúar fimm ráðuneyta. Hópurinn hefur farið yfir verkefni Varnarmálastofnunar og mun leggja mat á hvar sé æskilegt að þau verkefni verið hýst í framtíðinni. Þegar ríkisstjórnin tilkynnti ákvörðun sína um að leggja niður Varnarmálstofnun 4. desember sl. var hún tengd við mögulega stofnun innanríkisráðuneytis, sem á að verða til við sameiningu samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytis og mannréttinda- og dómsmálaráðuneytis. Eins og gildir um allar breytingar á verkaskiptingu ráðuneyta þá eru skiptar skoðanir um stofnun innanríkisráðuneytis innan stjórnsýslunnar. Þótti sumum sem tengingin á milli þess og niðurlagningar Varnarmálastofnunar væri aðeins til þess fallin að fresta því síðarnefnda. Engu að síður var frá upphafi tekið skýrt fram að leggja þyrfti Varnarmálastofnun niður strax á þessu ári en stofnun innanríkisráðuneytis tæki lengri tíma.

Hver tekur við ratsjáreftirlitinu?

Samkvæmt heimildum Smugunnar hefur bæði verið rætt um að koma sem flestum verkefnum Varnarmálastofnunar fyrir á einum stað, svo sem hjá Landhelgisgæslunni, og að dreifa verkefnunum á ólíkar ríkisstofnanir. Stærsta einstaka verkefni stofnunarinnar er rekstur ratsjárkerfisins sem Bandaríkjaher bar áður kostnað af og Ratsjárstofnun sinnti. Bandaríkjaher byggði ratsjárkerfið upp á 9. áratugnum en íslensk stjórnvöld settu skilyrðið um að það gæti nýst til eftirlits með borgaralegu flugi. Kerfið er því tvíþætt. Annars vegar er um að ræða svokallaðar svarratsjár sem nema merki sem flugvélar senda frá sér og hins vegar frumratsjár en þær geta greint vélar sem ekki senda slík merki frá sér og eru því á ferð í öðrum tilgangi en að flytja farþega eða vörur. Eina dæmið um þetta síðustu ár eru ferðir rússneskra sprengjuvéla á svæðinu í kringum Íslands en áréttað skal að það svæði sem fylgst er með er margfalt stærra en íslensk lofthelgi. Hún nær aðeins um 12 mílur frá landi en utan við lofthelgi ríkja er alþjóðlegt flugsvæði, sem öllum er frjálst að fljúga um, þ.m.t. Rússum.

Lítið hefur verið rætt um þann möguleika að slökkva á frumratsjárkerfinu en það er mun dýrara í rekstri en svarratsjárnar. Flugmálayfirvöld leggja ríka áherslu á að geta fylgst með allri flugumferð í kringum landið, meðal annars til að geta gert flugmönnum í borgaralegu flugi viðvart ef óþekktar vélar eru á ferð á svæðinu. Flugstoðir ohf. (sem til stendur að sameina Keflavíkurflugvelli ohf.) sinna borgaralegri flugumferðastjórn og iðulega hefur verið bent á að vel væri hugsanlegt að koma eftirliti með merkjum úr frumratsjám fyrir þar. Slíkt lægi raunar beinar við en að Landhelgisgæslan tæki við verkefninu en til að leggja mat á það þyrftu að liggja fyrir frekari upplýsingar um áætalaðan kostnað stofnananna hvorrar fyrir sig við að taka verkefnið yfir. Landhelgisgæslan væri aftur á móti vel í stakk búin að taka við umsjón með svokallaðri loftrýmisgæslu NATO herja og heræfingum sem haldnar eru hér á landi, ef ákveðið verður að halda þeim verkefnum til streitu.

Framtíð loftrýmisgæslu óráðin

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnaflokka er sérstaklega tekið fram að loftrýmisgæsla skuli tekin til endurskoðunar. Loftrýmisgæsla kallast viðvera herja NATO-ríkja hér á landi en hún átti upphaflega að eiga sér stað fjórum sinnum á ári í 2-3 vikur í senn. Þeim skiptum var þó fækkað á síðasta ári með vísan til efnahagsástands og íslensk stjórnvöld afþökkuðu áætlaða komu Breta í desember 2009 eftir að þeir síðarnefndu beittu hryðjuverkalögum gegn íslenskum fyrirtækjum.

Nú er hins vegar danskur her á landinu í þessum tilgangi og áætlað er að hann sinni því fram til 30. mars. Á sínum tíma var gert ráð fyrir að kostnaður íslenskra skattgreiðenda við loftrýmisgæslu væri í kringum 50 milljónir króna fyrir hvert skipti. Eftir efnahagshrunið var þess farið á leit að erlendu herirnir bæru meiri kostnað og samkvæmt upplýsingum frá Varnarmálastofnun er áætlaður kostnaður við loftrýmisgæslu Dana í kringum 15 milljónir króna. Kostnaðurinn er greiddur af Varnarmálastofnun, sem fékk úthlutað tæpum 970 milljónum króna á fjárlögum fyrir árið 2010.

Framtíð loftrýmisgæslunnar er óráðin. Innan VG er mikil andstaða við veru erlendra herja á Íslandi, hvort sem er vegna heræfinga eða loftrýmisgæslu. Ekki er virk andstaða við slíkt í öðrum flokkum en margir þingmenn telja takmörkuðum fjármunum betur varið í önnur verkefni en loftrýmisgæslu. Á móti kemur að sumir telja „sýnilegar varnir“ mikilvægar fyrir öryggi Íslands og um leið samstarf við NATO. NATO-ríkin eru hins vegar ekki á einu máli um mikilvægi loftrýmisgæslu og sem dæmi má nefna að hún er aðeins að nafninu til í Slóveníu.

Um þetta gæti þó orðið einhver ágreiningur á Alþingi en ólíklegt er að stór hópur þingmanna reyni að koma Varnarmálastofnun í heild sinni til bjargar. Þegar stofnuninni var komið á laggirnar árið 2008, í tíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, var takmörkuð pólitísk sannfæring fyrir því að koma á fót sérstakri stofnun utan um þessi verkefni. Hugmyndin var runnin undan rifjum nokkurra embættismanna í utanríkisráðuneytinu og forsætisráðuneytinu og ekki spannst um lögin mikil umræða, hvorki á þingi né úti í samfélaginu. Allir flokkar sem þá áttu sæti á Alþingi greiddu atkvæði með lögunum, að undanskilinni Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Eftir efnahagshrunið í október 2008 beindust hins vegar sjónar að þessari stofnun sem þótti hafa heldur rúm fjárráð og fara nokkuð frjálslega með vald sitt, eins og m.a. kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar í nóvember í fyrra.

Erfitt fyrir ríkisstjórnarflokkana ef málið tefst meira

Andstöðu Vinstri grænna við tilurð stofnunarinnar má rekja til friðarstefnu hreyfingarinnar og almennrar andstöðu við hvers kyns „hernaðarbrölt“. Innan Sjálfstæðisflokksins hafa einnig verið talsverðar efasemdir þótt á öðrum forsendum séu. Þar á bæ er lítil hrifning þegar nýjum ríkisstofnunum er komið á fót og fyrrum dómsmálaráðherra og þingmaður flokksins, Björn Bjarnason, var alltaf á þeirri skoðun að verkefni Varnarmálastofnunar gætu vel rúmast innan þeirra borgaralegu stofnana sem fyrir starfa í landinu. Framsóknarflokkurinn studdi varnarmálalögin árið 2008, m.a. vegna þess að  vinnan við umrætt frumvarp hófst í tíð Valgerðar Sverrisdóttur í utanríkisráðuneytinu. Hins vegar hefur mikil endurnýjun orðið innan þingflokks Framsóknar og alls ekki víst að þar á bæ telji þingmenn sérlega ráðlagt að ráðast í stjórnarandstöðu gegn niðurlagningu stofnunarinnar. Þá verður að teljast ólíklegt að andstaða komi frá Borgarahreyfingunni eða Þráni Bertelssyni, óháðum þingmanni.

Málið gæti orðið Samfylkingunni erfiðast en hún fór með utanríkisráðuneytið þegar varnarmálalögin voru samþykkt og gerir það einnig nú þegar nýtt frumvarp um niðurlagningu Varnarmálastofnunar og hugsanlega almenna breytingu á varnarmálalögunum verður tekið til umfjöllunar. En þrátt fyrir að enginn þingmaður innan Samfylkingarinnar hafi borið upp efasemdir þegar varnarmálalögin voru samþykkt árið 2008 ríkti þar innaborðs ekki sannfæring ein og ekkert bendir til þess að þingmenn flokksins leggist að einhverju leyti gegn mögulegum breytingum.

Þess er að vænta að frumvarp um niðurlagningu stofnunarinnar líti ljóst á vorþingi og það gæti orðið ríkisstjórnarflokkunum, einkum Vinstri grænum, óþægur ljár í þúfu ef málið dregst mikið lengur. Vinstri græn hafa talið sér til tekna að leggja eigi stofnunina niður og í umræðum um þann stóra bita sem hreyfingin kyngdi með aðildarumsókn að Evrópusambandinu hefur iðulega verið bent á að á móti komi niðurlagning Varnarmálastofnunar, þótt málin séu vitaskuld ólík að umfangi og inntaki. Stjórnarandstaðan mun að líkindum minna á uppruna málsins og stefnubreytingu Samfylkingarinnar, þótt það veiki málstað hennar að Sjálfstæðisflokkur er einnig í þeirri stöðu að hafa greitt atkvæði með stofnun Varnarmálastofnunar án þess að hafa haft sannfæringu fyrir því. Ekki þarf því að búast við andstaðan verði  mikil, enda á Varnarmálastofnun sér enga raunverulega pólitíska stuðningsaðila. Það ætti því að vera unnt að leggja stofnunina niður á næstu vikum án teljandi vandræða.

06.03.2010

Í forsetakosningunum árið 2004 kaus ég Ólaf Ragnar Grímsson. Ég kaus hann ekki af því að mér fyndist hann á nokkurn hátt sérstaklega spennandi forseti eða af því að hann hefði staðið sig svo vel. Mest langaði mig að skila auðu. En Sjálfstæðisflokkurinn hafði hrundið af stað mikilli herferð gegn Ólafi þar sem öll atkvæði sem ekki féllu honum í skaut átti að túlka sem andstöðu við forsetann,næstum því stuðning við Sjálfstæðisflokkinn og þáverandi leiðtoga hans sem var æfur eftir að Ólafur synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar. Morgunblaðið birti stríðsfyrirsögn um að auðir seðlar yrðu taldir sérstaklega í fyrsta skipti og þar með aðskildir frá ógildum seðlum. Áróðurinn var mikill og hann náði til mín. Ég ákvað að kjósa Ólaf frekar en að skila auðu því ég nennti ekki að horfa upp á Sjálfstæðisflokkinn hrósa sigri yfir atkvæði mínu.

Ég hef alltaf séð eftir þessari ákvörðun.

Mér finnst ótrúlegt að stjórnmálamenn og álitsgjafar skuli sí og æ taka sér vald til þess að skilgreina um hvað kosningar snúast og túlka niðurstöður út og suður eftir því. Þjóðaratkvæðagreiðslan í dag snýst um hvort núgildandi Icesave lög eigi að halda gildi eða ekki. Ég er á móti þeim samningi eins og hann lítur út. Þess vegna mæti ég á kjörstað og segi nei. Atkvæði mitt snýst um það. Ekki um ríkisstjórnina, stjórnarandstöðuna, Grikkland, Írland, Ólaf Ragnar Grímsson eða einstaka samningamenn. Enginn skal fá að taka atkvæði mitt og lesa út úr því allt önnur skilaboð en þau að ég sé á móti þessum Icesave samningi. Og ég sé enga ástæðu til að sitja heima og sleppa því að kjósa, ekki í þessum kosningum frekar en nokkrum öðrum. Áróður fyrir því finnst mér óskiljanlegur.

01.03.2010

Það væri gaman að hitta fyrir  brandarakarlinn eða –kerlinguna sem skipuleggur snjómokstur í Reykjavík. Einhvern veginn hélt ég að það heyrði sögunni til að snjó væri mokað upp á gangstéttir þannig að bílarnir gætu komist leiða sinna en gangandi vegfarendur alls ekki. Þetta gengur alveg upp í rólegum götum þar sem umferð er hæg en þegar erfitt er að komast leiðar sinnar meðfram umferðabrjálvirkjum á borð við Miklubraut og Hringbraut þá er fokið í flest skjól. Allra furðulegast er þegar snjónum af götunum er rutt upp á eyjurnar sem gangandi vegfarendur þurfa að fara yfir til að komast yfir götu. Þá þarf að klofa snjóinn eða drösla hjólinu í gegnum hann, sem er bæði strembið og pirrandi. Ég get rétt ímyndað mér að fyrir eldra fólk og lítil börn geti þessar snjóhrúgur orðið hinn versti farartálmi.

Þarna reynir auðvitað á forgangsröðunina og hún er augljóslega í þágu þeirra sem fara um á einkabílum. Hvernig væri að breyta því í vor?

01.03.2010

Á laugardag var haldið upplýsinga- og samstöðuþing í Iðnó þar sem skuldarar voru hvattir til að kynna sér rétt sinn. Nú er ég ein af þessum stórfurðulegu tegundum sem tók engin lán í góðærinu, nema námslán (og að vísu eitt skuldabréf árið 2002 til að kaupa mér hlut í búsetaíbúð, það greiddi ég upp ári síðar). Ég skulda því ekkert og á frekar lítið. Fyrir vikið hef ég ekki sett mig neitt sérstaklega vel inn í umræðu um „skuldavanda heimilanna“. Á köflum hef ég átt dálítið erfitt með þessa umræðu en eins og verða vill þá heyrir maður oft aðeins í þeim sem hæst gala en hávaði er ekki alltaf í jöfnu hlutfalli við skynsemi. Kröfurnar hafa stundum virst út úr öllu korti.

En á þinginu í Iðnó fékk ég greinarbetri mynd af þeirri gagnrýni og þeim kröfum sem settar eru fram. Þar mátti líka heyra á spurningum og umræðum að margt fólk er mjög óvisst um réttarstöðu sína vegna lána sem það hefur tekið og er nú gert að greiða margföld til baka . Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum:

Ályktun frá Upplýsinga- og samstöðuþingi

Iðnó, 27. febrúar 2010

Upplýsinga- og samstöðuþing, haldið í Iðnó 27. febrúar 2010, hvetur viðskiptavini lánastofnana til að kynna sér réttindi sín. Mikil óvissa ríkir um réttmæti þeirra krafna sem hafa verið settar fram á hendur skuldugum einstaklingum eftir efnahagshrunið. Lánastofnanir hafa túlkað ýmsa lánasamninga sér í hag, einkum er varðar svokölluð gengistryggð lán. Þannig hafa lán verið hækkuð án þess að sýnt hafi verið fram á með óyggjandi hætti að það sé heimilt. Má nefna sem dæmi skuldabréf þar sem lánþegi fellst á greiða til baka jafnvirði tiltekinnar krónutölu. Jafnvirðið er því bundið við íslenska krónu en lánastofnanir hafa reynt að tengja það við erlenda gjaldmiðla, sem aftur leiðir til þess að skuld lánþegans margfaldast. Ef lánastofnanir ætla að halda þessari túlkun sinni til streitu er rétt að þær fái hana sannreynda fyrir dómstólum. Á meðan það hefur ekki gerst eiga lántakendur að njóta vafans.

Þingið krefst þess af stjórnvöldum að standa við gefin loforð um að draga úr vægi verðtryggingar. Viðurkenna þarf þann forsendubrest sem varð milli lánastofnana og lánþega og úrræði eiga að taka mið af því. Tryggja þarf sanngjarna meðferð lántakenda. Þannig á fólk að eiga rétt á sértækri skuldaaðlögun eða greiðsluaðlögun þrátt fyrir að það hafi mögulega skuldsett sig umfram greiðslugetu. Ábyrgð lánveitenda er að veita ekki lán nema ljóst sé að einstaklingur geti staðið í skilum. Lánveitendur hafa hins vegar varpað allri ábyrgð yfir á lántakendur. Mjög gagnrýnivert er að skuldug fyrirtæki og lánastofnanir fái betri meðferð en skuldugir einstaklingar. Það var ekki hinn almenni launamaður sem setti Ísland á hausinn heldur einmitt lánastofnanir og fyrirtæki sem spiluðu langt um efni fram og tóku stöðu gegn almennum lántakendum.

Þingið fer fram á að nýfallinn Héraðsdómur nr. E-7206/2009 í máli Lýsingar gegn viðskiptavini sínum hljóti flýtimeðferð fyrir Hæstarétti. Binda þarf endi á þá réttaróvissu sem ríkir um gengistryggð lán.

Að upplýsinga- og samstöðuþinginu stóðu: Opinn borgarafundur, Samtök lánþega, Þrýstihópur um réttláta meðferð bílalána og Hagsmunasamtök heimilanna. Borgarahreyfingin kostaði þinghaldið.