26.02.2010

Hinn eitursmellni penni Viðskiptablaðsins, Andrés Magnússon, heldur víst enn úti fjölmiðlapistlum í blaðinu en á sínum tók hann við keflinu af vini mínum Ólafi Teiti Guðnasyni. Ég sé aldrei þetta strákablað en ekki þarf ég að örvænta enda tekur vefmiðillinn Pressan pistil „fjölmiðlarýnisins“ upp sem um frétt væri að ræða. Endar fréttin á þessum orðum:

„Og í lokin sendir fjölmiðlarýnirinn Andrés eitraða pillu á forystu Blaðamannafélags Íslands, sem ekkert hefur tjáð sig um ritstjóraskiptin á Fréttablaðinu í gær, en sendi frá sér umdeilda ályktun þegar Ólafur var rekinn af Morgunblaðinu og þeir Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen ráðnir í hans stað. Andrés veltir fyrir sér hvort faxtækið á skrifstofu Blaðamannafélagsins kunni að vera bilað?“

Óþarfi er að eyða plássi í að leiðrétta ranghermi pistlahöfundarins og um leið Pressunnar um ályktanir Blaðamannafélagsins en ekki þarf mikla snilligáfu – og alls ekki faxtæki – til að finna þær á heimasíðu félagsins. Hins vegar vakna spurningar um hvort það hljóti ekki að vera annað hvort mjög langt milli borða á Viðskiptablaðinu eða takmörkuð samskipti milli starfsmanna. Andrés hefði nefnilega vel getað spurt ritstjórann sinn, Sigurð Má Jónsson, út í málið og fengið þá allar upplýsingar um hvernig Blaðamannafélagið hefur ályktað og hvort einhvers nýs væri að vænta úr þeim ranni. Sigurður þessi situr jú í stjórn Blaðamannafélags Íslands. Það er auðvitað umfjöllunarefni út af fyrir sig að ritstjóri skuli sitja í stjórn stéttar- og fagfélags blaðamanna en þangað var hann auðvitað kosinn áður en hann varð ritstjóri.

En þarna er kannski rót misskilningsins. „Fjölmiðlarýnirinn“ heldur eflaust að stjórn Blaðamannafélagsins sé ritstjóraklúbbur. Slíkur klúbbur hlyti auðvitað að álykta um öll ritstjóraskipti en hafa minni áhyggjur af fjöldauppsögnum blaðamanna. Líklega hafa þó almennir félagar í Blaðamannafélagi Íslands meiri áhyggjur af hinu síðarnefnda.

25.02.2010

Þá munu valdablokkirnar tvær í Sjálfstæðisflokknum hafa tækifæri til að takast á í gegnum tvö stærstu dagblöð landsins. Öðrum megin verður Evrópusambandið dásamað en hinum meginn því fundið allt til foráttu.

Ég fullyrti nýlega að búsáhaldabyltingin stæði enn yfir. Hins vegar er ljóst að hún hefur ekki náð til fjölmiðlanna. Er ekki kominn tími til þess?

23.02.2010

Upphlaup Gunnars I. Birgissonar í framhaldi af forvali Sjálfstæðismanna í Kópavogi er óborganlegt. Hann sóttist eftir 1. sæti en hafnaði í því þriðja. Um þetta er ýmsum að kenna, svo sem núverandi bæjarstjóra, mótframbjóðanda hans í prófkjörinu og svo auðvitað hinum ógurillu bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar. Einhvern veginn læðist að manni sá grunur að Rússarnir hljóti að hafa komið eitthvað að málum. Óhróðri var dreift, upplýsingum lekið og ekki nóg um það heldur kaus fólk í prófkjörinu sem tilheyrir öðrum flokkum!

Nú má kannski minna á að hér á landi er fólki frjálst að vera skráð í alla þá stjórnmálaflokka, félagasamtök og hreyfingar sem það lystir. Þannig er hægt að vera félagi í öllum flokkum og reyna jafnt að hafa áhrif á stefnu þeirra sem mannaval á lista fyrir kosningar. Þetta getur varla verið nýtt í augum hins gamalreynda stjórnmálamanns í Kópavoginum.

Lætin í Gunnari minna dálítið á fyrstu viðbrögð sjálfstæðismanna við mótmælunum sem síðar leiddu til búsáhaldabyltingarinnar. Þá var ekki tímabært að leita að sökudólgum en á sama tíma leituðu kjörnir fulltrúar að sökudólgum í öllum hornum, nema þeirra eigin auðvitað. Ótrúlegasta fólk var dregið til ábyrgðar fyrir þá gagnrýni sem flokkurinn sætti og lengst gengu samsæriskenningarnar þegar því var haldið fram fullum fetum að Vinstri græn stæðu ein og óstudd að baki öllum mótmælunum á Austurvelli.

Stundum er kannski betra að líta í eigin barm. Og verði Gunnari litið þangað þá finnur hann eflaust ýmislegt sem hafði meiri áhrif á gengi hans í forvalinu en allt hitt „vonda fólkið“.

22.02.2010

  1. … hvernig í ósköpunum það á að standast að til sé sérstakur armur kenndur við Svavar Gestsson í VG en hann hætti einmitt á þingi sama ár og VG varð til.
  2. … hvernig í ósköpunum ég eigi að geta tilheyrt þeim armi.

Sú hópaskipting sem ég hef orðið vör við innan grasrótar VG snýst meira um bakgrunn fólks og þau baráttumál sem hvert og eitt okkar hefur sett á oddinn. Þannig má alveg greina hóp umhverfisverndarsinna, hóp femínista, hóp friðarsinna og hóp þeirra sem leggja mesta áherlsu á félagshyggju. Þessir hópar hafa borið gæfu til að vinna náið saman, enda sammála málstað hvers annars (þannig verða stjórnmálahreyfingar til). Ég er t.d. femínisti, umhverfisverndarsinni, friðarsinni og vinstri sinnuð, þótt ég hafi einbeitt mér meira að femínisma. Þessi mikla þörf til að draga almenna félaga VG í dilka er óþolandi, hvort sem hún kemur innan frá eða utan frá.

17.02.2010

… að nú gangi laus hópur kvenna sem sé ekki bara að kafna úr frekju heldur kenni sig líka við femínisma. Þessar konur eru auðvitað snarbilaðar og stórhættulegar. Þær setja fram fáránlegar kröfur á borð við að konur og karlar njóti jafns réttar og jafnrar stöðu. Svo vilja þær binda endi á ofbeldi gegn konum og þær vilja að konur fái að taka ákvarðanir um málefni samfélagsins eins og karlar. Þannig bjóða þær sig ekki aðeins fram til trúanaðarstarfa fyrir stjórnmálaflokka heldur vilja þær jafnvel líka leiða lista. Og svo láta þær til sín taka innan eins stjórnarflokkanna, sem vel að merkja er femínískur flokkur. Þvílíkt og annað eins. Frekja og yfirgangur.

17.02.2010

Á einni bloggsíðu er því velt upp hvernig það væri ef Sóley Tómasdóttir væri kall-fauskur. Mér detta nokkur atriði í hug.

  1. Þá væri henni hampað sem einum mesta baráttumanni fyrir mannréttindum fyrr og síðar
  2. Þá hefðu aldrei verið notuð um hana öll þau ljótu orð sem hafa fallið í bloggheimum
  3. Þá hefði það ekki stressað suma fjölmiðlamenn upp úr öllu valdi að hún sigraði forval VG í Reykjavík og þeir því ekki gripið allar gróusögur um kosningasigur hennar á lofti og slegið þeim upp sem fréttum
  4. Þá myndi ofangreindur bloggari ekki halda því fram að Sóley hefði sigrað forvalið á „vafasaman hátt” enda hefði hann kynnt sér málið betur og bæði áttað sig á því að ekkert var „vafasamt” og séð að Sóley sigraði ekki bara forvalið eftir að póstatkvæði skiluðu sér heldur líka kosninguna sem var framkvæmd á staðnum
  5. Þá hefði ekki verið gerð úr því frétt eftir frétt á visi.is að Sóley starfaði með sínum félögum í borgarstjórn og þ.m.t. þegar kemur að því að greiða atkvæði. Því það er jú það sem stjórnmálaflokkar gera, þeir ræða slík mál og reyna oftast að beina kröftum sínum í sama farveg. (Hafa fréttamennirnir aldrei séð atkvæðagreiðslu á Alþingi?)
  6. Þá hefði kannski verið haft samband við fleiri en Ólaf F. til að spyrja hvort eitthvað óeðlilegt hefði átt sér stað á borgarstjórnarfundinum

Seinna getum við farið í leikinn sem heitir: Hvað ef allir blaðamenn væru góðir og vandvirkir …

15.02.2010


Eftirfarandi tilvitnun er úr ræðu sem ég flutti á flokksráðsfundi VG á Akureyri nú í janúar:

„Ég er femínisti, vinstri sinnuð, róttæk, umhverfisverndarsinni og fylgjandi alþjóðlegu samstarfi. Ég endurtek, femínisti, ég fór ekki í pólitík til að láta draga mig í dilka eftir skoðunum einhverra karla, þótt þeir kunni að vera á sömu skoðun og ég. Og er mér alveg sama hvort þeir heita Ögmundur, Steingrímur eða Karl Marx.”

07.02.2010

Hann er sterkur listinn sem Vinstri græn í Reykjavík stilla upp fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Sóley Tómasdóttir hefur sýnt og sannað að hún býr yfir miklum leiðtogahæfileikum, þrautseigju og atorku. Vonandi leiðir hún ekki bara listann í kosningunum heldur borgina eftir kosningar. Þorleifur Gunnlaugsson, sem hlaut góða kosningu í forvalinu í gærkvöld, hefur líkt og Sóley staðið sig afspyrnu vel á vettvangi borgarinnar og saman mynda þau gott teymi til sigurs í vor.

Hástökkvari forvalskosninganna er Líf Magneudóttir en hún hlaut 3. sætið í kosningunum í gær. Þar er á ferðinni dugnaðarforkur sem kemur án efa með ferskan blæ inn í baráttuna. Elín Sigurðardóttir er í 4. sæti en hún er bæði reynslumikil og kröftug. Þá skipar Davíð Stefánsson 5. sætið á listanum en á þessari síðu er varla við hæfi að hafa of mörg orð um hann, enda er hann sambýlismaður höfundarins og fengi því kannski óþarflega mikla lofræðu. Í 6. sæti er Hermann Valsson en hann hefur verið varaborgarfulltrúi og þekkir því vel starfsemina í borginni.

Á Akureyri fór einnig fram forval í gær og þar hreppti Andrea Hjálmsdóttir 1. sætið. Andreu treysti ég til góðra verka og það er mikill fengur fyrir Vinstri græn að fá hana af krafti inn í flokksstarfið. Listinn á Akureyri er einnig sterkur með nýliðum og reynsluboltum í bland.

Svo er bara að vona að þetta verði Vinstri grænt vor – um allt land!

04.02.2010

Elva Björk Sverrisdóttir, varaformaður Blaðamannafélags Íslands, hélt áhugavert erindi á fundi Félags fjölmiðlakvenna í gærkvöldi þar sem hún kom m.a. inn á hlutfall kvenna í hópi æðstu yfirmanna stóru fréttamiðlanna. Það er ekki gáfulegt: 0%. Ef litið er til aðstoðarritstjóra, fréttastjóra og varafréttastjóra þá taldist Elvu til að konurnar væru sex og karlarnir 13. Sé síðan litið til þeirra sem vinna við að skrifa fréttir þá verður hlutfallið skást á RÚV og Stöð2/Vísi þar sem konur eru um þriðjungur. Í tvö af fjórum dagblöðum landsins skrifar engin kona, þ.e. Viðskiptablaðið og DV.

Þessi staða er ekki í lagi. Í ofanálag hefur konum snarfækkað á fjölmiðlum í þeim uppsagnarhrinum sem hafa átt sér stað en það segir sig sjálft að þótt álíka mörgum konum og körlum sé sagt upp þá fækkar konum hlutfallslega miklu meira. Það vekur furðu að á fjölmiðlum þar sem konur eru aðeins um þriðjungur blaðamanna eða minna þá séu þær samt um helmingur þeirra sem sagt er upp. Eru allar þessar konur meðal slökustu blaðamanna sinna ritstjórna? Eða getur verið að karlkyns yfirmennirnir hafi meiri samúð með karlkyns kollegum sínum og falli því í gryfju sem atvinnurekendur um allan heim hafa gert þegar þrengir að; að senda konurnar heim en halda körlunum eftir í vinnu.

Gríðarlegt bakslag hefur orðið í þeirri jafnréttisbaráttu sem fjölmiðlakonur hafa háð síðustu áratugina. Baráttu sem hefur öðrum þræði gengið út á það að ekki sé einsleitur hópur karla sem fer með „fjórða valdið”. Þessari þróun verður að snúa við. Ábyrgð þeirra sem fjölmiðlum stjórna og fjölmiðla eiga er mikil.

04.02.2010

Hátt í hundrað konur voru á fundi Félags fjölmiðlakvenna í gærkvöld. Hiti var í konum, enda ástandið á fjölmiðlum slæmt þessa dagana. Þetta var líflegur og fjörugur fundur og þarna voru miklir reynsluboltar í bland við konur sem eru að stíga sín fyrstu skref í fjölmiðlum. Eftirfarandi ályktun var samþykkt og verður vonandi sú brýning sem efni gefa til:

“Fjölmennum fundi Félags fjölmiðlakvenna, sem haldinn var í Reykjavík 3. febrúar 2010, ofbýður ástandið á ritstjórnum fjölmiðla landsins. Hlutur kvenna hefur ávallt verið rýr innan fjölmiðla. Uppsagnir hafa orðið til þess að konur eru ekki eins sýnilegar á fjölmiðlum og áður og þróunin er uggvænleg. Engar konur eru meðal æðstu stjórnenda stærstu fréttamiðla landsins og í hópi næstráðenda er hlutur kvenna aðeins um þriðjungur. Konum hefur einnig snarfækkað í hópi almennra blaða- og fréttamanna og þáttastjórnenda og var hlutfallið ekki gott fyrir. Einsleitur hópur karla er ráðandi í ákvörðunum um efnistök sem er ekki síst alvarlegt í ljósi þess að nú á sér stað endurmótun íslensks samfélags.

Félag fjölmiðlakvenna harmar uppsagnir kvenna sem hafa gagnrýnt yfirmenn og eigendur fjölmiðla og krefst þess að hneykslanlegar uppsagnir á reyndum fjölmiðlakonum síðustu misserin verði leiðréttar og þær ráðnar aftur til starfa. Um leið styður félagið heils hugar við bakið á þeim konum sem eftir eru á ritstjórnum fjölmiðla og hvetur þær til góðra verka.
Fundurinn skorar á stjórnvöld og yfirmenn fjölmiðla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að rétta hlut kvenna á fjölmiðlum landsins.”

Næsta síða →