29.01.2010

Fullt var út úr dyrum á fundi Vinstri grænna í Reykjavík í gær þar sem fjallað var um málefni Ríkisútvarpsins og niðurskurð í menningarmálum. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, og Svanhildur Kaaber, formaður stjórnar RÚV ohf., sátu fyrir svörum og í tvær klukkustundir fóru fram líflega umræður um Ríkisútvarpið, hlutverk þess, rekstrarform og framtíð. Kvikmyndagerðarmenn fjölmenntu á fundinn og komu gagnrýni sinni varðandi niðurskurð til íslenskrar kvikmyndagerðar vel á framfæri. En þótt þær raddir hefðu ekki verið eins háværar þá voru þær líka sem gagnrýndu aðrar niðurskurðaraðgerðir RÚV þar sem gengið er bæði gegn byggðasjónarmiðum og kynjasjónarmiðum.

Sjónvarpslaust á fimmtudögum?

Þótt almennur skilningur sé í þjóðfélaginu á því að skera þurfi niður og það alls staðar þá var þessi fundur um RÚV til marks um vilja fólks til að taka þátt í umræðum um forgangsröðun. Sú rödd heyrðist utan úr sal að það hefði bara átt að skera flatt niður alls staðar, það væri sanngjarnast. Ég get ekki tekið undir þau orð. Á svona tímum verður að forgangsraða.

Sé Ríkisútvarpið tekið sem dæmi þá er ekki eðlilegt að skera alla liði flatt niður innanhúss því þannig gætum við eyðilagt alla dagskrárliði. Kolbrún Halldórsdóttir kom með ýmsar hugmyndir á fundinum í gær og kallaði eftir svörum um hvort þær hefðu verið skoðaðar. Má hafa einn sjónvarpslausan dag eins og hér áður fyrr? Er hægt að stytta dagskrá í báða enda? Og við það vil ég gjarnan bæta spurningum um hvort ekki mætti bara hætta að kaupa erlent efni meðan staða krónunnar er svo slæm sem raun ber vitni? Er ekki eðlilegt að Ríkisútvarpið sjái um það sem markaðurinn býður ekki upp á og telst ekki „fjárhagslega hagkvæmt” í framleiðslu? Þótt Ríkissjónvarpið hætti að kaupa bandaríska afþreyingarþætti þá hætta slíkir þættir ekki að verða til. Öðru máli gegnir um vandaðan fréttaflutning af landsbyggðinni og innlent sjónvarpsefni.

Bjóðast til að borga biðlaun útvarpsstjóra

Svona mætti halda lengi áfram. Ljóst var að meirihluti fundarmanna í gær (huglægt mat, vissulega, byggt á ræðum, klappi og húrrahrópum) ber ekki traust til útvarpsstjóra eftir framgöngu hans undanfarið. Hávær krafa var uppi um að hann ætti að víkja og svo langt gekk krafan að einn ræðumanna stakk upp á að kvikmyndagerðin borgaði biðlaun útvarpsstjórans með auka niðurskurði á þessu ári, þar sem niðurskurðurinn væri hvort eð er svo mikill. Vakti þetta mikla kátínu. Önnur krafa var að rekstrarformi RÚV yrði breytt. Bæði menntamálaráðherra og formaður stjórnar RÚV tóku vel í slíkar hugmyndir. Menntamálaráðherra lagði jafnframt ríka áherslu á að skapa þyrfti sátt um RÚV og sú sátt væri augljóslega ekki fyrir hendi.

Ljóst er að markaðsvæðing RÚV sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð að hefur ekki skilað neinu nema tapi á fjármunum og menningarauðæfum. Það er samt aldrei of seint að snúa þróuninni við. Og menntamálaráðherra nýtur ríks stuðnings í þeim verkum.

28.01.2010

Hugtakið „pólitísk afskipti” hefur óneitanlega fremur neikvæða merkingu í hugum fólks. Oft eru slík afskipti tengd beint við spillingu, einkavinavæðingu eða eitthvað þaðan af verra.

En hvað eru pólitísk afskipti?

Pólitísk geta verið fremur máttlítil en þau geta líka verið kraftmikil. Tilraunir óbreytts þingmanns til að stöðva einhverja fjölmiðlaumfjöllun geta verið hlægileg en tilraunir embættismanns eða ráðherra sem kannski er besti vinur ritstjóra geta haft mikil áhrif. Slík afskipti verða þó aldrei alvarleg fyrr en ritstjórar eða aðrir sem ráða efnistökum fjölmiðla láta undan. Slíkt hefur vissulega gerst.

Sama má segja um þá tilhneigingu sumra ráðamanna að setja vini sína og velunnara í allar stöður. Sú tilhneiging hefur dregið úr trausti gagnvart íslenskri stjórnsýslu og ofan af því verður að vinda.

En pólitísk afskipti af öðrum málefnum geta verið mjög eðlileg. Þannig væri óeðlilegt ef heilbrigðisráðherra hefði ekki „pólitísk afskipti” af því hvernig staðið er að niðurskurði í heilbrigðiskerfinu. Íslenskur almenningur á nefnilega heilbrigðiskerfið og við kjósum okkar fulltrúa til sjá til þess að það virki þegar við þurfum á því að halda. Íslenskur almenningur á líka Ríkisútvarpið og okkar kjörnu fulltrúar eiga að sjá til þess að það virki sem almenningsútvarp. Það þýðir þó ekki að kjörnir fulltrúar eigi að hlutast til um fréttaflutning eða koma í veg fyrir umfjöllun af einhverju tagi.

Opinber hlutafélög í uppáhaldi

Það rekstrarform sem nú gildir um RÚV gerir það að verkum að menntamálaráðherra hefur nánast ekkert yfir hinu opinbera hlutafélagi að segja. Þannig getur ráðherra ekki sinnt sínu hlutverki gagnvart okkur sem borgum brúsann. Völdin eru hjá útvarpsstjóra. Stjórn RÚV ræður hann og hann ræður.

Opinber hlutafélög voru í miklu uppáhaldi hjá Sjálfstæðisflokknum og margur ríkisrekstur var settur í það form í þeirra stjórnartíð. Fyrir vikið minnkaði eftirlit hins opinbera með þessum félögum, en sem dæmi má nefna að fjárlaganefnd Alþingis fékk ekki ársfjórðungsuppgjör margra þeirra og kjararáð hafði ekki yfir launum yfirmanna félaganna að segja. Forstjórar voru þá kannski með laun (og eru sums staðar enn) sem voru langt yfir öllum skynsemismörkum. Þannig gat Páll Magnússon fengið ofurlaun og fínan jeppa í ofanálag.

Rekstrarformið breytti þó ekki því að þegar hlutafélögin fóru fram úr fjárlögum, eins og oft vildi verða, þá voru það auðvitað við, skattgreiðendur, sem þurftum að borga. Með öðrum orðum: Við borgum en höfum ekkert um starfsemina að segja. Henni ræður Páll (eða aðrir forstjórar eftir því sem við á). Og þegar skera á niður hjá RÚV þá er auðvitað snjallt að höggva þar sem fundið er fyrir. Þannig er gengið gegn byggðasjónarmiðum og jafnréttissjónarmiðum og ráðist að íslenskri kvikmyndagerð – því þar er fólk sem mun rísa upp. Svo segir Páll: Ekki benda á mig. Ég er búinn að skila jeppanum. Beinið reiði ykkar annað.

Pólitísk afskipti í þessu tilfelli myndu miða að því að setja Páli stólinn fyrir dyrnar. Fá fram upplýsingar um hvers vegna svæðisstöðvar verða fyrir valinu en ekki innkaup á þætti um örvæntingarfullar eiginkonur. Hvort það sé ekki tímaskekkja að ætla að vera með einn sérstakan landsbyggðarfréttatíma, fremur en landsbyggðarfréttir í bland við allt annað.

Markaðurinn sér ekki um þetta

Ef allir forsvarsmenn opinberra stofnanna léku sama leik og Páll Magnússon væri stutt í upplausn í samfélaginu. Forstjóri Landspítalans myndi loka geðdeild og biðja fólk að beina reiði sinni annað. Skólastjóri MA myndi setja 300 nemendur saman í bekk og segja fólki að beina reiði sinni annað. Forstjóri Flugstoða myndi tilkynna að eftirliti með borgaralegu flugi verði hætt þar sem það sé svo dýrt og segja fólki að beina reiði sinni annað. Þetta getur varla talist ábyrgðarfullur málflutningur.

Staða mála á Ríkisútvarpinu kallar á nýja og frjóa umræðu um hvaða svið stjórnmálin eiga að ná yfir og hvaða svið ekki. Ljóst er að markaðurinn „sér ekki um þetta” og lausnir markaðarins virka illa á opinberan rekstur. Það sem almenningur borgar fyrir hlýtur almenningur, í gegnum sína kjörnu fulltrúa, að hafa eitthvað að segja  um.

27.01.2010

Mig langaði bara að skrifa ykkur því ég er orðin dálítið þreytt á ráðleggingum ykkar og mér þætti vænt um að fá nánari skýringar á því hvernig eigi að fara að því að byggja Ísland upp með sömu verkefærum og það var rifið niður. Hvað varðar nýjustu hugmyndirnar úr ykkar ranni um að skera niður menntakerfið um 20% – án þess að það “komi niður á afköstum” – og að lækka laun ríkisstarfsmanna vil ég segja eftirfarandi: 20% niðurskurður getur aldrei annað en “komið niður á afköstum”, því ekki var menntakerfið offjármagnað fyrir. Kannski á þetta við um skólana sem þið komið að og þá dettur mér í hug hvort 20% mætti ná með því að hætta að veita framlög til þeirra. Viðskiptaráð gæti þá eitt og sér rekið Háskólann í Reykjavík og Verslunarskóla Íslands. Hvernig hljómar það?

Síðan held ég þið ættuð að byrja á að lækka ykkar eigin laun áður en þið farið að amast yfir launum fólks sem er margt með margfalt lægri tekjur. Um leið gætuð þið dregið úr allri ykkar starfsemi og varið fénu í uppbyggingu samfélagsins, atvinnuúrræði fyrir fólk sem hefur misst vinnuna eftir að kerfið hrundi og auðvitað menntunina, sem þið svo stolt segist styðja með ráðum og dáð. Betri útlistingar gæti ég komið með hefði ég fundið ársreikning ykkar á vefsíðu ráðsins.

Með virðingu,

Halla

26.01.2010

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem forvalsreglum Vinstri grænna í Reykjavík er fagnað. Í framhaldinu hafa spunnist nokkrar umræður um reglurnar en til að taka af öll tvímæli er rétt að útskýra í hverju þær felast:

Forvalsreglur VG í Reykjavík taka mið af leiðbeinandi reglum sem stjórn VG samþykkti í fyrra. Samkvæmt þeim er fléttuleiðréttingu aðeins beitt ef hallar á konur í úrslitum forvals. Þessar reglur má rekja til þeirra spurninga sem upp komu þegar konum fór að ganga betur í forvali VG (einkum á höfuðborgarsvæðinu) en áður og þá stóð flokkurinn frammi fyrir því, vegna reglna um fléttulista, að draga konur niður og lyfta körlum upp. Í einhverjum tilvikum óskuðu karlar eftir að vera ekki færðir upp en í öðrum tilvikum tók uppstillingarnefnd ákvörðun um að færa konur ekki niður á listanum. Þetta olli nokkrum rökræðum innan hreyfingarinnar þar sem sumum félögum þótti eðlilegt að tryggja jafnt hlutfall kynjanna á framboðslistum.

Þar gæti þó nokkurs misskilnings því að markmið femínísks flokks hlýtur að vera að konur og karlar komi jafnt að ákvarðanatöku. Enn hallar verulega á konur bæði á Alþingi og innan sveitarstjórna. Konur hafa í gengum tíðina alltaf komið verr út úr prófkjörum en karlar á heildina litið og það þjónar því engum tilgangi að draga konur niður sem ná árangri í þeim leik. Þegar hins vegar hlutfall kynjanna er orðið nokkuð jafnt inni á Alþingi og í sveitarstjórnum, þá þarf að endurmeta þessar reglur og taka ákvörðun um hvort kannski verði kominn sá tími að ekki þurfi lengur að beita sérstækum aðgerðum eða hvort hugsanlega þurfi að hífa karla upp.

Þegar kemur að innra starfi VG, eins og t.d. stjórn flokksins og svæðisfélaga, þá ber að tryggja jafnt hlutfall kynjanna. Þá er eðlilegt að konur þurfi að víkja sæti fyrir körlum ef þeir eru í minnihluta, því að markmiðið er jú jöfn kynjahlutföll við ákvarðanatöku.

Því miður hafa ekki öll svæðisfélög VG gert þessar leiðbeinandi reglum að sínum, en það stendur vonandi til bóta. Þetta er sérstæk aðgerð, sem miðar að því að leiðrétta skekkjuna í pólitík sem allir femínístar viðurkenna að sé fyrir hendi. Þannig byggjum við Ísland upp á nýtt.

21.01.2010

ARGOUT_PLAKAT_FINALHeimildamyndin Maybe I should have? var frumsýnd í Háskólabíói í gær við góðar undirtektir. Rétt er að taka fram að Gunnar Sigurðsson, leikstjóri og aðalsöguhetjan, er faðir minn og þess vegna ansi langt frá því að ég geti sett fram hlutlausa gagnrýni á myndina!

Hvað sem því líður þá þótti mér myndin heppnast vel í flesta staði. Ég get varla annað en dáðst að framtakssemi fólksins sem að myndinni stendur en hún er gerð fyrir mjög takmarkaða peninga og margir lögðu á sig ómælda vinnu, oft launalaust eða launalítið.

Styrkur myndarinnar liggur án efa í því að hún sýnir venjulegan mann (eða svona … nokkuð venjulegan!) sem vaknar upp einn daginn við þann vonda draum að efnahagskerfi landsins hans er að hrynja til grunna. Og hann rís upp úr sófanum, eins og allt hitt fólkið sem tók þátt í búsáhaldabyltingunni.

Oft er talað eins og búsáhaldabyltingin hafi átt sér stað fyrir ári síðan og henni lokið á nokkrum dögum. Ég vil hins vegar meina að byltingin standi enn. Og kannski er hún bara rétt að byrja. Þessi mynd er mjög gott og þarft innlegg í byltinguna og ætti að verða flestum áminning um að staldra ekki við heldur halda áfram að krefjast breytinga.

Í myndinni þvælist pabbi ásamt sínu fólki milli staða, sem á einn eða annan hátt tengjast efnahagshruninu á Íslandi. Viðtöl við erlenda fræðimenn styrkja myndina, sem og við þá Íslendinga sem hafa fylgst vel með gangi mála. Stór galli á myndinni er hins vegar sá að karlar eru í miklum meirihluta viðmælenda og þótt margir hafi margt gott fram að færa þá eru nokkrir sem bæta litlu við myndina og þá hefði að mínu mati mátt klippa út. Viðtölin finnst mér þó flest passa vel við framgang myndarinnar og það gera líka úrklippur úr blöðum og bútar úr sjónvarpsfréttum og -þáttum.  Það er líka áhugavert að sjá í mynd hús á Tortóla sem á að hýsa mörg þúsund fyrirtæki og gamalt fólk á Guernsey sem missti allt sitt sparifé eftir að hafa treyst hinum aldagamla, trausta, íslenska Landsbanka fyrir peningunum sínum. Einnig kemur fram sá mikilvægi punktur að þótt heyra megi að Íslendingar séu einhvers konar fórnarlömb í alþjóðlegri fjármálakreppu þá voru hinir íslensku útrásarvíkingar líka arkítektar að henni. Hún varð vegna bankamanna eins og þeirra sem Íslendingar fluttu út á erlenda grund. Einn þeirra, Björgólfur Thor Björgólfsson, kemur illa fyrir í myndinni og talar eins og sparifé sem fólk hefur unnið sér inn á allri sinni ævi geti bara gufað upp sísona. „… lot of money goes to money heaven …” segir hann. En kannski er peningahimnaríki Björgólfs á Tortola eða í Lúxemborg, hver veit.

Maybe I should have? er gott innlegg í umræðuna á Íslandi í dag. Hún fer í almennar sýningar 5. febrúar nk. en verður ekki sýnd oft. Hvet ég alla til að ná sér í miða, bæði því að myndin er áhugaverð og því að við viljum að á Íslandi sé eftirspurn eftir svona myndum.

20.01.2010

Í dálkinum frá degi til dags í Fréttablaðinu í dag segir að ég hafi kvartað undan því á þessari síðu að blaðamaður Fréttablaðsins hafi ekki verið á flokksráðsfundi VG um helgina og hlýtt á umræður. Ég á dálítið erfitt með að skilja hvernig orðið „kvarta” getur átt við um pistilinn hér að neðan. En það er önnur saga.

Rauði þráðurinn í færslu minni frá í gær er sá að Vinstri græn eru klofin um þá lausn Icesave málsins sem nú liggur fyrir. Það vita allir sem vilja. Sá skoðanaágreiningur þarf ekkert að koma á óvart, enda hefðu Vinstri græn aldrei getað séð fyrir að þau ættu eftir að fá annað eins mál í fangið. Þetta er reyndar ekkert vandamál sem bundið er við VG, heldur er skoðanaágreiningur um málið innan allra flokka.

Hvað sagnfræðinga framtíðarinnar varðar er kannski rétt að minna sagnfræðinginn sem ritar umræddan dálk í Fréttablaðinu á eitt: Hingað til hefur verið litið svo á að fjölmiðlar eigi þó nokkurn hlut í því að skrifa söguna.

Í framhaldinu hljóta því að vakna spurningar. Hvers vegna „kvarta” fjölmiðlamenn undan því að Vinstri græn hafi ekki ályktað um Icesave á flokksráðsfundinum um helgina? Hvað átti að koma fram í slíkri ályktun sem ekki var þegar ljóst? Og hvað hefði komið þar fram sem hefði breytt þeim farvegi sem málið er nú þegar í? Átti ályktunin kannski bara að hjálpa blaðamönnum að skrifa söguna?

Við því væri gott fá svör.

19.01.2010

Það gætir stundum misskilnings um tilgang ályktana á fundum stjórnmálaflokka. Þannig lágu 47 ályktanir fyrir flokksráðsfundi Vinstri grænna um helgina en um var  að ræða tveggja daga fund, sem hefði  aldrei nokkurn tímann geta rætt allar þessar ályktanir. Sumar ályktananna voru í raun skilaboð til kjörinna fulltrúa flokksins og áttu miklu fremur heima í ræðum flutningsmanna. Það er líka vandséð að hægt sé að leggja fram stefnumarkandi ályktanir á flokksráðsfundi, enda er hann ekki æðsta stofnun flokksins og aðeins lítill hluti félagsmanna er með atkvæðarétt. Vandinn sem þessar 47 ályktanir hefðu skapað var leystur farsællega með málefnahópum þar sem sumar ályktanir voru sameinaðar og aðrar sendar til stjórnar.

Leiðarahöfundur Fréttablaðsins í dag fjallar um ályktanir Vinstri grænna frá því um helgina. Að hans mati átti VG að álykta um Icesave og veita þingmönnum og ráðherrum leiðarljós um hvernig eigi að vinna úr því flókna og erfiða máli. Nú er það ekkert launungamál að Vinstri græn eru klofin í Icesave málinu og á það ekki aðeins við um þingflokkinn. Málið er hins vegar í farvegi sem gæti mögulega leitt til sáttar. Þjóðaratkvæðagreiðsla er fyrir dyrum en verði önnur leið farin, sem ég persónulega hef efasemdir um að sé ráðlagt, þá er ljóst að hún verður byggð á þverpólitískri samstöðu.

Um þetta var satt að segja mikið rætt á flokksráðsfundinum, eins og leiðarahöfundur Fréttablaðsins hefði vitað hefði hann, eða einhver kollega hans af Fréttablaðinu, setið fundinn. Icesave var raunar mest rædda mál fundarins og þær ólíku skoðanir sem þar komu fram, og reyndar líka á flokksráðsfundinum á Hvolsvelli í lok ágúst sl., geta ekki verið annað en leiðarljós fyrir þingmenn og ráðhera VG, bæði í þessu máli og í stórum viðfangsefnum sem framundan eru.

En hvað sem leiðarahöfundi Fréttablaðsins kann að finnast um þá staðreynd að VG hafi ekki ályktað sérstaklega um Icesave um helgina þá er skrítið að hann skuli um leið velja að gera lítið úr öðrum ályktunum fundarins. Það hefði nefnilega verið í hæsta máta óeðlilegt ef VG hefði ákveðið að álykta ekki um neitt af því að Icesave málið sé svo stórt. Eða á að setja allt annað á ís á meðan fundin er lausn í einu máli?

Grasrót flokksins ber að standa sína vakt, minna á fyrir hvað Vinstri græn standa og hvers vegna hreyfingin fékk þá kosningu sem hún fékk. Það er ekki hlutverk ályktana á flokksráðsfundi að koma með fullbúnar lausnir á öllum viðfangsefnum sem fyrir liggja. Þarna er hins vegar tækifæri flokksfélaga að koma sínum hugðarefnum á framfæri. Og þegar skerðing á fæðingaþjónustu er í umræðunni þá hlýtur að vera eðlilegt að minna á mikilvægi þjónustu við fæðandi konur. Og þegar atvinnusköpun er í fullum gangi þá er hlutverk hins femíníska flokks að minna á hversu kynjaður íslenskur vinnumarkaður er og þá um leið allar aðgerðir í atvinnuuppbyggingu. Og þegar fjölmiðlar eru í mikilli kreppu og blaðamenn missa vinnuna í hrönnum þá er eðlilegt að vinstri sinnaður flokkur taki afstöðu með launafólki og frjálsri blaðamennsku. Þetta er veganestið.

12.01.2010

Eigendur og ritstjórar Morgunblaðsins hafa nú tekið ákvörðun um að segja Elvu Björk Sverrisdóttur, blaðamanni Morgunblaðsins til margra ára og varaformanni Blaðamannafélags Íslands, upp störfum. Þannig hefur Morgunblaðinu tekist að losa sig bæði við formann og varaformann Blaðamannafélagsins úr störfum hjá sér, sem þó eru báðar afburðablaðamenn en greinilega ekki eigendum og ritstjórum þóknanlegar.

Í tilviki Elvu er vísað til niðurskurðaraðgerða frá sl. hausti en Elva átti að hefja störf nú um áramótin eftir fæðingarorlof. Þetta er ekki síst merkilegt í ljósi þess að á þeim mánuðum sem hafa liðið frá „skipulagsbreytingunum” hafa blaðamenn verið ráðnir inn á ritstjórn Morgunblaðsins. Það er því deginum ljósara að Morgunblaðið vildi losa sig við Elvu, hvaða ástæður sem þar búa að baki. Kannski var nóg að í viðtali við RÚV hafði Elva, sem varaformaður Blaðamannafélagsins, lýst áhyggjum af trúverðugleika blaðsins með Davíð Oddsson í farabroddi og félagið gagnrýndi þá ráðningu. Kannski þótt Elva „of pólitísk” en þann stimpil er auðvelt að setja á blaðamenn til að reyna að rýra trúverðugleika þeirra. Því miður tekst það alltof oft og blaðamenn vinna jafnvel hver gegn öðrum í þeim efnum.

Í tilviki Elvu hefur pólitíkin þó ekki meiri en sú að hún hefur ekki tekið þátt í starfi eins einasta stjórnmálaflokks. En hver veit, kannski var það líka ástæða til að láta Elvu fara, hún hefur jú aldrei verið í Sjálfstæðisflokknum, öfugt við flesta strákana sem voru ráðnir inn á síðustu mánuðum ársins sem leið.

Fyrir okkur sem börðumst ötullega fyrir því að gera Morgunblaðið að vinnustaði karla og kvenna er sorglegt að horfa á þær breytingar sem nú hafa orðið. Örfáar konur eru eftir á ritstjórn Moggans og kvenkyns yfirmönnum hefur snarfækkað. Það er líka sorglegt að fylgjast með trúverðugleika Morgunblaðsins hrynja, enda vorum við mörg sem eyddum miklum tíma og orku í að byggja hann upp. Sumir áttu sér það fyrir ævistarf.

Í bjartsýni væri hægt að segja að það væri ekki of seint fyrir eigendur Moggans að snúa blaðinu við. Enn starfar þar afspyrnu gott fólk í að búa til blöð. Mogginn ber ennþá höfuð yfir önnur íslensk dagblöð, núverandi og fyrrverandi, í umbroti og uppstillingu og hefur löngum verið skrifaður á vönduðu, íslensku máli. Mannauðurinn er til staðar, eða var til staðar öllu heldur, en eigendurnir ákváðu frekar að nota blaðið í þágu þröngra, pólitískra hagsmuna. Kannski er hægt að snúa við. En ég óttast að það sé að verða of seint.

07.01.2010

Kannski er orðspor okkar ekki eins vont úti í hinum stóra heimi og í stefndi? Að minnsta kosti hefur umræðan verið okkur hliðhollari í dag en í gær.

Þennan póst fékk ég sendan áðan frá breskum vini mínum:

Hi Halla, I hope you are well?!

Iceland in the news again in the UK! A very brave move and I, for one, would support it! The international financers (IMF, EY, World Bank etc) should not be telling countries how to run their affairs!

Best wishes
x

d

Nú er kominn tími á að almenningur á Norðurlöndunum fái að vita hvernig ríkisstjórnir þeirra hafa brugðist við Icesave deilunni. Ekki vegna þess að ég hafi ofurtrú á ídeólógískri, norrænni frændsskapssamstöðu, heldur bara vegna þess að þá getur fólk alla vega tekið afstöðu sjálft og ég losnað við að hlusta á Svía halda því fram að þeir hafi verið rosalega góðir við Íslendinga í gegnum alla kreppuna. (Heyrði mikið af því í ferð til Svíþjóðar sl. haust).

Síðan er kominn tími á að Íslendingar standi saman sem einn maður í því ferli sem framundan er, málið hætti að vera flokkspólitískt innanlands og að við hættum að svara alltaf sjálf fyrir hönd Breta og Hollendinga í almennum umræðum. Hvernig væri það? Ábyrgðin er okkar allra.

06.01.2010

Úr frétt á Eyjunni:

“Með þeim fyrirvara sem eðlilegt er að setja við allar vefkannanir fer ekkert á milli mála að stór meirihluti þátttakenda í vefkönnunum tveggja stórra fjölmiðla, Wall Street Journal og Guardian, styður þá ákvörðun Íslendinga að neita að greiða reikninginn vegna Icesave.”

Spyr sú sem ekki veit: Hafa Íslendingar neitað að greiða reikninginn vegna Icesave? Missti ég af einhverju?

Annars hlyti það að vera að bera í bakkafullan lækinn að blogga um ákvörðun forsetans að skrifa ekki upp á frumvarpið. Ég verð hins vegar að viðurkenna að eftir fimm vikna dvöl á Indlandi hef ég miklu meiri húmor fyrir þessu öllu saman en áður en ég fór út. Kannski ættu sem flestir að fara til Indlands, þá gætum við hlegið hátt, slappað aðeins af og brugðist svo við því sem bregðast þarf við með æðruleysi og ró, hvort sem við erum sammála hvert öðru eða ósammála. Þannig er það nefnilega bara.

Næsta síða →