24.09.2009

Ég veit ekki hvað ég var gömul þegar ég byrjaði að lesa Morgunblaðið. Ég man samt að ég las það aftur á bak og ég man að mamma vildi stundum fá forgang í blaðið yfir morgunmatnum. Þá las ég íþróttafréttirnar í staðinn. Ég hef látið Moggann elta mig úr Mosfellsbæ til Reykjavíkur, á Fáskrúðsfjörð og í Neskaupstað og aftur til baka. Ég hef beðið íslenska gesti um að taka hann með sér til Danmerkur og til Ástralíu. Ég hef verið áskrifandi frá því að ég fór að standa á eigin fótum.

Árið 1999 kom ég í fyrsta sinn inn á ritstjórnarskrifstofu Moggans. Þá ákvað ég að þar vildi ég vinna. Það tók sinn tíma en í millitíðinni tókst mér að kynnast Styrmi Gunnarssyni, Karli Blöndal og Árna Jörgensen. Karl spurði mig í hvaða átt ég læsi Moggann. Þá byrjaði ég alltaf á aðsendu greinunum. Núna byrja ég alltaf á byrjuninni. Síðar kynntist ég Ólafi Stephensen og hann réði mig til starfa sem blaðamann á innlendri fréttadeild. Ég hóf störf 2. júní 2003.

Styrmir mundi alltaf eftir óðamála stelpunni sem datt inn á skrifstofu hans árið 2000. Hann hafði gaman að mér og stundum stakk ég af úr blaðamannasætinu, drakk te á skrifstofu Styrmis og reifst við hann um pólitík.
Ég þvældist til útlanda en kom alltaf aftur. Kom og fór og kom og fór og einu sinni sagði Styrmir: Halla, þú átt heima hérna. Og þannig leið mér. Ég átti heima þarna.

Styrmir kallaði mig byltingarsinna, Ólafur kallaði mig bláeygan kommúnista og einhvern tímann heyrði ég talað um marxistann á Morgunblaðinu. Mér er skítsama um Marx, sagði ég, og hvað veit ég um kommúnisma? Ég var bara átta ára þegar múrinn féll. Hann féll í svarthvítu sjónvarpi. Og nei, ég veit ekki hvernig það var.

Ég skrifaði fréttir um dúxa í framhaldsskólum, endalausu leitina að síldinni, skipulagsmál á Laugarvatni, kaldan veruleika vændis, nýjustu kofana á smíðavellinum við Hlíðaskóla, elsta stuðningsmann Víkings, ömmu Víking, já og vissuð þið að ef þið missið tönn eigið þið að geyma hana í mjólk?

Í viðhorfspistlum mátti ég segja allt sem ég vildi. Ég hrópaði: Herinn burt! Og skammaði Íslendinga fyrir að elska ekki náttúruna, karla fyrir að brjóta á konum og heiminn fyrir að vera svona ranglátur. Ég var Moggablaðamaðurinn sem afsannaði regluna: Ung, róttæk, hávær, vinstri sinnuð kona. En var samt í liðinu.

Smám saman fór ég að einbeita mér meira að pólitískum fréttum og náði þá að sameina áhugann á stjórnmálum við ástríðuna fyrir að skrifa. Við árslok 2006 var staða þingfréttaritara laus og ég rétti upp hönd. Í stórum yfirmannahópi Moggans voru skiptar skoðanir og þegar ég var við það að fá nei breyttist neiið í já og ég varð þingfréttaritari.

Út undan mér heyrði ég gagnrýniraddir. Ég væri alltof pólitísk í starfið. Gæti ekki verið hlutlaus. Hlutlaust fólk hlýtur að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, í mesta lagi Framsókn. Að vísu rugluðust sumir gagnrýnendurnir, sem héldu að ég væri í raun og veru bróðurdóttir Styrmis, og þeim þótti ég alltof hægrisinnuð í starfið. Fréttirnar mínar voru því gagnrýndar þvers og kruss, vinstri og hægri.

Flestir þingmenn tóku mér vel en ákveðinn hópur innan Sjálfstæðisflokksins sætti sig aldrei við að þingfréttaritari Morgunblaðsins væri ekki þeirra. Þeir kvörtuðu undan öllu sem þeir gátu og sennilega tók steininn úr þegar forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins hringdi sjálfur í ritstjóra Morgunblaðsins og kvartaði undan orðalagi í undirfyrirsögn. Ég tók þetta ekki nærri mér, enda stóð ritstjórinn með mér. Ef ég gerði mistök þá leiðrétti ég þau en gagnrýni á að fréttaskrif mín væru lituð af pólitík lenti utan skotskífunnar. Í þingbréfum gat ég hins vegar tjáð mínar skoðanir og ég hafði gaman af að gagnrýna þingstörfin og segja frá lífinu í litla þingfréttaritaraherberginu.

Ég kvaddi Styrmi með söknuði 2. júní 2008. Við borðuðum köku honum til heiðurs en skáluðum svo fyrir nýja ritstjóranum, Ólafi Stephensen. Hann var ungur og átti að tákna nýja tíma – íhaldssamur prestssonur, fyrrum formaður Heimdallar. Drengurinn sem byrjaði á Morgunblaðinu 19 ára gamall og varð aðstoðarritstjóri 33 ára gamall. Hann pússar gleraugun sín með Morgunblaðinu og hefur alltaf skrifað með zetu, þótt hún hafi verið afnumin áður en hann byrjaði í skóla. Hann var tákn nýja tímans á Morgunblaðinu.

Mér samdi vel við Ólaf. Ég held honum hafi fundist þingfréttaritararugludallurinn skemmtileg fígúra og mér þótti gaman að kynnast svona hressilega borgaralegum manni. Blaðið breytti um takt. Og sennilega var tími til kominn.

Mér leið vel sem þingfréttaritari. Ég var Moggablaðamaður af lífi og sál. Ég lagði mig alla fram. Fór í vörn fyrir blaðið og man eftir einu atviki þar sem ég hækkaði róminn við sambýlismann minn, sem hafði ýmislegt við það að athuga að vinningsljóð í ljóðasamkeppni hefði ekki verið birt: Ég þoli þetta ekki hér í mínu eigin eldhúsi! Við erum undir brjáluðu álagi. Moka, moka, moka. Heldurðu virkilega að við höfum tíma til að leggjast í samsæri vegna birtingar ljóða úr grunnskólasamkeppni?!

Staðreyndin er nefnilega sú að á Mogganum voru ekki haldnir skipulagðir plottfundir þar sem hver einasta fyrirsögn í fréttum og myndbirting var ákveðin með það að markmiði að gera lítið úr sumum og ekki öðrum. Og ég upplifði alltaf að velflest samstarfsfólk mitt væri mjög áfram um að þvo Sjálfstæðisflokksstimpilinn af blaðinu. Við unnum að því hörðum höndum og okkur var alvara. Þarna vann og vinnur enn kröftugt og metnaðarfullt fólk sem hefur ástríðu fyrir að búa til dagblað. Dagblað sem er skýrt og vel upp sett, fullt af úrvalsljósmyndum. Dagblað sem höfðar til allra aldurshópa, hefur að geyma fréttir, fréttaskýringar og vandaða menningarumfjöllun og er um leið vettvangur fyrir almenna umræðu.

Fyrir ári síðan var ég oft spurð hvort ég óttaðist að missa vinnuna. Ég sagði nei, ekki nema að blaðið fari á hausinn. Svo vel leið mér í Moggahópnum og svo vel voru störf mín metin.

En …

… svo kom hrun. Bankahrun. Kerfishrun.

Völdin færðust að nýju í stjórnmálin. Þingið nötraði dag eftir dag. Meira nötraði Sjálfstæðisflokkurinn. Þar kom fólk saman og velti fyrir sér hvernig mætti vera að flokknum gengi svona illa. Ástæðurnar voru margar og að sjálfsögðu allar utanaðkomandi. Ein af ástæðunum var ég.

Halla Gunnarsdóttir flytur ræðu á borgarafundi.
Eggjum er kastað í þinghúsið.
Ergo: Halla kastaði eggjum í þinghúsið.
Halla er óvinur ríkisins.

Einhvern veginn svona virtist rökhugsun sumra vera, a.m.k. þeirra sem aldrei höfðu séð mótmælafund annars staðar en í sjónvarpi. Hægri vefmaskínan reyndi hvað hún gat til að gera mig tortryggilega. Ég var tengd við VG, flokkinn sem í huga Sjálfstæðismanna á þeim tíma stóð einn og sér að búsáhaldabyltingunni. Hugsunin um að til væri fólk sem sjálft risi upp, án þess að vera handbendi stjórnmálaflokka, var ekki til í hugum þeirra.

Ég fór aldrei leynt með það að áður en ég varð þingfréttaritari var ég félagi í VG og aldrei reyndi ég að þvo af mér þann stimpil. Meðan ég gegndi starfi þingfréttaritara var ég hins vegar ekki félagi í neinum flokki, nema Sjálfstæðisflokknum um tíma, en í hann höfðu einhverjir gamansamir vinir mínir skráð mig, að mér forspurðri. Ég kom til dyranna eins og ég var klædd.

Og staðreyndin er sú að aldrei fékk ég marktækar athugasemdir við þingfréttaskrif mín, nema einu sinni, en þá skammaði Styrmir mig fyrir að hafa ekki gert stjórnarandstöðunni nógu hátt undir höfði í umræðum um utanríkismál. Ég skildi aldrei af hverju sumir sjálfstæðismenn (alls ekki allir) höfðu svona miklar áhyggjur af því að ég myndi misnota aðstöðu mína. En seinna áttaði ég mig: Þeir hefðu gert það sjálfir.

Ég tók þessi læti aldrei nærri mér. Ég var vön þessu og hélt bara áfram að skrifa fréttir. En síðan breyttist eitthvað.

Það er fín lína milli ritskoðunar og ritstjórnar.

Ég þurfti ekki mikla næmni til að átta mig á hvað var í gangi. Ég veit samt ekki hvernig það gerðist. Mánaðarmótin nóvember/desember var ég viss um að mér yrði sagt upp. Þar sem ég var oftast niðri í þingi en ekki í Hádegismóum þá var þetta furðuleg tilfinning. Þrátt fyrir fjarlægðina vissi ég hvað var í gangi.

Mér fór að líða illa í vinnunni. Ég varð stressuð. Sjálfsritskoðunin varð ýktari og þar með hættulegri. Ég reyndi jafnvel að komast hjá því að skrifa þingbréf og kannski er það engin tilviljun að á meðan búsáhaldabyltingin var gerð lá ég heima með magakveisu.

30. janúar 2009 var mér sagt upp störfum á Mogganum. Á leið upp í Hádegismóa til að taka við uppsagnarbréfinu hringdi ég í mömmu og mína bestu vini og sagði þeim að ég væri að verða atvinnulaus. Leigubílstjórinn hlustaði. Hann beið eftir mér þegar ég kom út. Vildi telja í mig kjark.

Þresti Helgasyni, ritstjóra Lesbókarinnar, var líka sagt upp störfum. Ástæðan fyrir báðum uppsögnum var hagræðing. Innanhúss hristist allt. Þetta voru síðustu uppsagnir blaðamanna áður en nýir eigendur tóku við, áður en skuldaafskriftirnar fóru fram. Það var löngu orðið ljóst að staða Ólafs yrði ekki sterk í nýjum eigendahópi og ég þóttist viss um að hann færi sömu leið og ég. Það tók hins vegar lengri tíma.

Ég les ennþá Moggann yfir morgunmatnum og ég hafði hugsað mér að gera það áfram. Sex ára gamall stjúpsonur minn er kominn upp á lagið með að skoða barnablaðið og jafnframt farinn að lesa skrítlurnar. Nú hafa hins vegar runnið á mig tvær grímur. Ráðning hins nýja ritstjóra og fylgisveins hans setur málin í allt annað ljós og veltir upp spurningum um hlutverk Morgunblaðsins á næstu mánuðum. Á það að vera vandaður fréttamiðill eða er tilgangurinn öðru fremur að berjast gegn aðild að ESB og koma Sjálfstæðisflokknum aftur í ríkisstjórn?

Ég vildi líta svo á að enn ynni á Mogganum það öfluga fólk sem kann að búa til gott blað. En því hefur fækkað svo mikið að alls óljóst er hvort hægt verður að gefa áfram út almennilegt dagblað. Ég veit ekki hvernig þeim fáu sem eftir eru gengur að vinna undir þessum nýju kringumstæðum. Þeim óska ég alls hins besta.

Ég hef hins vegar misst traust á Mogganum, hvort sem hann er lesinn aftur á bak eða áfram. Hans á ég eftir að sakna sárt.

11.09.2009

Ég skal fúslega játa að ég verð alltaf jafngáttuð á því þegar menn, sem þóttu miklir spekingar í íslensku samfélagi fyrir hrun, stíga fram á sjónarsviðið núna og syngja sama sönginn og þeir sungu þá. Það gerir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í kvöldfréttum Sjónvarps í gær og söngurinn hans fjalla um dásemdir stóriðjunnar. Staksteinar Morgunblaðsins taka svo undir og halda mætti að skortur á stóriðju sé meginástæðan fyrir atvinnuleysi.

Staðreyndin er sú að atvinnuleysið sem við glímum við í dag er tilkomið vegna þeirrar brjálæðislegu stefnu sem Hannes og skoðanabræður hans predikuðu um. Það var stefna einkavæðingar og einstaklingshyggju þar sem réttindi einstaka auðmanna (sem reyndar kom í ljós að voru engir auðmenn heldur aðeins menn sem fengu himinhá lán) voru fremri réttindum samfélagsins. Þessi hugmyndafræði hrundi sl. haust. Gallinn er sá að hún tók íslenskt samfélag með sér í hruninu. Og fyrir það borgum við. Ísland fyrir hrun var einmitt Ísland stóriðjurnar. Hvernig væri að horfa í aðrar áttir?

10.09.2009

Áhugaverðar upplýsingar koma fram í þessari frétt. Ekki þó því að Pétur Gunnarsson sé kominn til starfa á enn einn fjölmiðilinn, enda varla saga til næsta bæjar. Það var aftur á móti þessi lína sem vakti athygli mína: „Pétur hefur að undanförnu sinnt verkefnum fyrir Varnarmálastofnun …”. Þá hljóta að vakna spurningar: Hvaða verkefnum sinnti Pétur hjá Varnarmálastofnun? Hvenær kom hann þangað til starfa? Hvernig fór sú ráðning fram? Hvers vegna var ekkert vitað um starf hans fyrr en eftir að hann hættir?

Það vill svo til að fyrir nokkru barst mér til eyrna að Pétur sinnti verkefnum fyrir Varnarmálastofnun. Ég átti bágt með að trúa því og leitaði á vefsíðu stofnunarinnar af tilkynningu um ráðningu hans. Hana fann ég ekki. Ég spurðist fyrir í kringum mig og var sagt að jú, hann væri að vinna einhver verkefni á Keflavíkurflugvelli en að leynd hvíldi yfir því um hvaða verkefni væri að ræða. Rétt er að minna á að þetta er ríkisstofnun!

Staðreyndin er sú að utanríkisráðherra hefur lýst því yfir að til standi að leggja Varnarmálastofnun niður í núverandi mynd. Löngu áður en hann lýsti því yfir lá í loftinu að ekki væri pólitískur vilji fyrir því að halda kostnaðarsamri starfseminni á Miðnesheiði áfram óbreyttri, enda var aldrei pólitísk sannfæring fyrir stofnun Varnarmálastofnunnar, hvorki á hægri né vinstri vængnum. Þetta var einfaldlega verk embættismanna. Pólitískur vilji hefur þó ekki haldið Varnarmálastofnun frá því að auka umsvif sín enn frekar og ráða til sín starfsfólk í hin ýmsustu verkefni á meðan aðrar ríkisstofnanir segja upp fólki.

Ólíklegt hlýtur að teljast Pétur Gunnarsson hafi verið ráðinn til að sinna ratsjáreftirliti eða hafa umsjón með húseignum. Hans sérgrein er PR-mennska og nafnbótin spunameistari er ekki úr lausu lofti gripin. Það þarf því ekki miklar samsæriskenningar til að geta sér til um að Pétri hafi verið falið að auka hróður stofnunarinnar og hjálpa forsvarsmönnum hennar að halda lífi í verkefnum sem byggja á úreltri hugmyndafræði. Um leið er lýðræðinu gefinn fingurinn og embættismannaveldið tekur málin í sínar hendur. Flott vinnubrögð það!

09.09.2009

Á vordögum árið 2008 samþykkti Alþingi frumvarp þar sem orku- og auðlindalögum var breytt. Breytingarnar voru að mestu til hins betra en náðu ekki eins langt og til hefði þurft og stjórnarflokkarnir Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ásamt Framsókn veiktu frumvarpið í meðförum þingsins.

mjolklarvirkjun

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að orkuauðlindir ættu að vera að minnsta kosti að 2/3 hlutum í eigu opinberra aðila, það er ríkis og sveitarfélaga. Því var breytt í 51% eignaraðild, en í reynd þýðir það að til dæmis Magma Energy gæti eignast 49% hlut í HS-orku. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að ríkjum og sveitarfélögum væri óheimilt að framselja eignarrétt á vatni fyrir virkjanlegt afl umfram 7 MW. Þingið hækkaði viðmiðið í 10 MW en aðeins Vinstri græn greiddu atkvæði gegn þeirri breytingartillögu. Þannig varð heimilt að einkavæða Mjólkárvirkjun, sem er í eigu Orkubús Vestfjarða og Andakílsvirkjun, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Hefði 7 MW viðmiðið staðið væri það ekki leyfilegt. Upphaflega stóð reyndar til að miða við 1 MW og þá hefði til að mynda ekki verið hægt að einkavæða Elliðarárvirkjun, eins og OR er heimilt samkvæmt lögunum. Með því viðmiði hefði verið staðinn raunverulegur vörður um vatnsaflið en vitanlega hugnaðist það ekki Sjálfstæðisflokknum, sem hefur alltaf viljað einkavæða auðlindir landsins, hvaða nafni sem þær nefnast.

65 ára nýtingarréttur

Þetta kom skýrt fram þegar frumvarpið var rætt á þingi. Þar sagði Sigurður Kári Kristjánsson, þáverandi þingmaður og núverandi aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins:

„Það er ekkert launungarmál að ég hef efasemdir um að það sé skynsamlegt að banna framsal með þeim hætti sem frumvarpið kveður á um vegna þess að slíkt bann hefur í för með sér, eins og Friðrik Már Baldursson segir, að það sé ekki efnahagslega skynsamlegt eða hagkvæmt að grípa til slíkra takmarkana.”

Og með vísan í ákvæði sem heimilar ríki og sveitarfélögum að veita afnotarétt af auðlindum til allt að 65 ára sagði flokssystir Sigurðar Kára, Ragnheiður Elín Árnadóttir:

,,Eins og ég sagði við 1. umr. þessa frumvarps er það almennt skoðun mín að hagkvæm og best nýting auðlinda sé betur tryggð með því að þær séu í einkaeigu og ég ætla ekki að draga dul á þá skoðun mína. Niðurstaðan er sú að ákvæðið um 65 ára leigutíma standi óbreytt og styð ég þá niðurstöðu. Nefndin leggur hins vegar til þá mikilvægu breytingu að handhafi afnotaréttar skuli að liðnum helmingi afnotatímans eiga rétt á viðræðum við leigjanda um framlengingu. Þetta finnst mér afar mikilvæg breyting sem eyðir óvissu við rekstur þessara fyrirtækja og þeirra miklu fjárfestinga sem um ræðir í þessum bransa. Þessi breyting skiptir því miklu máli og færir þetta nær því sem væri um að ræða ef þetta væri í einkaeigu og þrátt fyrir að skiptar skoðanir séu um það í þessum sal þá fagna ég því.”

Norðurorka lagði til að markið yrði 100 ár fremur en 65 og margir sjálfstæðismenn voru á því máli. Blessunarlega var 65 ára viðmiðið þó ekki hækkað og enn betra hefði verið að lækka það en Frjálslyndi flokkurinn lagði til 35 ár og Vinstri græn studdu það. Rétt er að taka fram að ekkert segir að samningarnir verði að vera til 65 ára. Þeir mega allt eins standa til tíu ára.

Hvað gera sexmenningarnir?

Á félagsfundi VG í Reykjavík sl. mánudagskvöld höfðu nokkrir á orði að þeim liði eins og þeir væru komnir aftur til ársins 2007 og REI málið væri að endurtaka sig. Leyndarhjúpur yfir samningum, fum og fát, óttaáróður, flóttaleg augu. Viðskiptahættir í anda ársins 2007. Sum okkar trúðu því að með REI málinu og síðar hugmyndafræðihruninu sem varð sl. haust myndu einkavæðingarflokkarnir taka stefnu sína til endurskoðunar. En nei, það er ennþá einlægur vilji Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að koma auðlindunum í einkaeigu, eða eins nálægt henni og komist verður í ljósi núgildandi laga.

Á þriðjudag verður hinn stórskrítni samningur Orkuveitu Reykjavíkur við Magma Energy um sölu á hlut OR í HS orku ræddur í borgarstjórn Reykjavíkur. Umræðan um hann er aðeins hluti af deilum um hvort einkavæða eigi orkuauðlindir Íslands eða ekki. Nú reynir að nýju á borgarfulltrúana, og þar með talið sexmenningana í Sjálfstæðisflokknum sem þóttust hafa viljað standa gegn spillingunni í REI-málinu. Það verður fylgst vel með atkvæðagreiðslunni.

Mynd af Mjólkárvirkjun, fengin af bb.is

07.09.2009

Það er mikill akkur í því að fá hagfræðiprófessorinn og Nóbelsverðlaunahafann Joseph Stiglitz til landsins á þessum tímum. Stiglitz var áður aðalhagfræðingur Alþjóðabankans og í bók hans Globalization and its discontents má lesa hvernig hann smám saman fékk efasemdir um hugmyndafræðina sem Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvíla á.

Stiglitz var í Silfri Egils í gær og er óhætt að mæla með því viðtali. Hann var jákvæðari í garð AGS en oft áður og sagði sjóðinn gera margt betur hér en víða annars staðar. Hann varaði þó eindregið við því að fara of skart í niðurskurð en AGS hefur ansi bratta áætlun í þeim efnum. Varla er annað hægt en að taka undir þessi varnaðarorð. Með of miklum niðurskurði er ekki aðeins vegið að undirstöðum velferðarkerfisins heldur eykur hann einnig atvinnuleysi, sem aftur getur haft mjög slæmar langtímaafleiðingar.

Það er áhugavert að líta til þess að AGS fæst nú við ríki sem fylgdi hugmyndafræði sjóðsins að miklu leyti. Einkavæðingarmantran náði vel eyrum íslenskra stjórnvalda en blessunarlega var látið ógert að fara að ráðum AGS um einkavæðingu í heilbrigðis- og menntakerfinu. Þá fyrst stæðum við illa.

Þau tæki sem keyrðu Ísland í kaf verða ekki notuð til að reisa það úr rústum að nýju. Hugmyndafræði AGS er löskuð og tækifærið notar sjóðurinn vonandi til að breyta um hugmyndafræði, ekki til að lappa upp á hana með nýju orðfæri. Íslendingar eiga að standa í lappirnar gagnvart sjóðnum og nota reynslu annarra ríkja til að koma í veg fyrir afglöp. Hlustum á ráð Stiglitz!

stiglitz


Stiglitz flytur fyrirlestur í Háskóla Íslands kl. 12:30 í dag.

Mynd fengin frá abc.net.au

07.09.2009

Heimsborgarinn er í tilvistarkreppu. Þannig er nefnilega að bestu vinkonu Heimsborgarans finnst hann ekki eiga heima þar sem hann hefur hreiðrað um sig. Henni finnst hann stinga í stúf á vefsíðunni og að kaldhæðni hans virki tilgerðarleg. Heimsborgarinn eigi að hætta að vera heimsborgari og sætta sig við að þvælast innan um aðrar skoðanir síðuhöfundar. Heimsborgarinn veit satt að segja ekki hvernig hann ætlar að bregðast við þessu, en hann er þögull meðan hann hugsar ráð sitt.

02.09.2009

Ég gat ekki annað en brosað þegar ég var að fara í gegnum gagnasafn Moggans og rakst á frétt sem ég skrifaði 2. október í fyrra um fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram 1. október. Fréttin hefst svona: “ÞAÐ HARÐNAR á dalnum á næsta ári en framtíðin er bjartari, ef marka má forsendur fjárlagafrumvarpsins sem lagt var fram á Alþingi í gær…”

Fjárlagafrumvarp þetta var ónýtt örfáum dögum eftir að það var lagt fram, en við skulum vona að spáin um að framtíðin verði bjartari reynist rétt!

02.09.2009

Í febrúar árið 2007 var frumvarp hóps Samfylkingarþingmanna um Lánasjóð íslenskra námsmanna tekið til umræðu á Alþingi. Frumvarpið fól í sér að þriðjungur námslána gæti breyst í styrk að námi loknu. Eins og svo mörg önnur mál þá fór það inn í nefnd og aldrei út úr henni aftur.

Enginn Sjálfstæðisþingmaður tók þátt í umræðunni en Gunnar Birgisson, sjálfstæðismaður og þáverandi stjórnarformaður LÍN, svaraði röksemdunum í grein í Fréttablaðinu. Þar áréttaði hann, með vísan í útreikninga Ríkisendurskoðunar, að helmingur námslána væri nú þegar styrkur, enda væri vaxtaprósentan svo lág, það er 1%. Ríkissjóður þyrfti að leggja út 51 krónu með hverjum 100 krónum sem væru lánaðar.

Hvers vegna að rifja þetta upp? Jú, lán Orkuveitu Reykjavíkur til Magma Energy, sem á svo að nota til að kaupa hlut í OR, er á 1,5% vöxtum. Afborgunin fer að vísu fram með eingreiðslu og að sjö árum liðnum en á móti kemur að lánið er ekki verðtryggt, það er veitt í dollurum og OR tekur á sig alla gengisáhættuna! Og með þessu á að koma erlendu fjármagni inn í landið. Með öðrum orðum: Við lánum útlenskum köllum útlenska peninga og hrósum svo happi yfir að hið erlenda fjármagn sé notað til fjárfestinga á Íslandi. 2007, einhver?

Það væri sannarlega gaman að sjá útreikninga Ríkisendurskoðunar á því hversu hátt hlutfall láns OR til Magma er í raun og veru styrkur. Erlent fjármagn með dágóðum afslætti frá almenningi (því það er jú alltaf hann sem borgar á endanum) til kaupa á orkuauðlindum landsins hlýtur að teljast frétt til næsta bæjar, eða hvað?