31.08.2009

Flokksráðsfundur Vinstri grænna sem haldinn var á Hvolsvelli sl. helgi var mjög gagnlegur og góður í alla staði. Það duldist engum fyrir fundinn að mjög skiptar skoðanir voru um tvö fyrirferðamikil mál sumarsins: ESB og Icesave. Síðarnefnda málið virðist komið í farveg sem hugnast breiðum hópi VG fólks en titringurinn vegna hins fyrrnefnda lifir enn, einkum meðal landsbyggðarfólks. Um þetta var tekist á með málefnalegum hætti á fundinum.

Stóra áskorunin fyrir VG á næstu misserum lýtur að róttækni í öllum málum sem hreyfingin kemur að. Þá dugar ekki að nota gömul meðul frjálshyggjunnar heldur á einmitt að hugsa hlutina upp á nýtt með hagsmuni norræna velferðarsamfélagsins að leiðarljósi. Forgangsröðunin þarf að vera skýr. Ég spáði því á fundinum að það væri einungis tímaspursmál hvenær AGS færi að knýja á um einkavæðingu velferðarþjónustunnar til að minnka skuldir ríkisins, eins og sjóðurinn ráðlagði okkur árið 2001. Þá stendur ekki á okkar svari. Það er NEI.

Ályktarnir flokksráðsfundar eru aðgengilega hér.

27.08.2009

Eitthvað virðist UEFA hafa gert óþarflega litlar kröfur til útsendinga frá EM í Finnlandi. Útsendingin dettur reglulega út og við blasir svartur skjár. Ég er ekki sérlega fróð um sjónvarpsútsendingar og vel má vera að þetta hafi eitthvað með Ríkisútvarpið að gera. Það breytir þó ekki því að svona gæði myndu aldrei viðgangast í karlaboltanum, og eiga ekki að gera það í kvennaboltanum. Þannig horfði ég á Birgit Prinz, leikmann Þýskalands, þeysa upp völlinn áðan og leggja boltann fyrir en síðan kom bara svartur skjár. Þegar myndin kom aftur mátti sjá Þjóðverja fagna sínu fyrsta marki í leiknum.

Útsending frá EM karla í fyrra datt að vísu út í undanúrslitaleik (að mig minnir). Það var mjög dramatískt að fylgjast með áhorfendum á götum úti í Berlín en vita ekkert hvað var að gerast í leiknum. Útsendingatruflanirnar í EM kvenna eru hins vegar ítrekaðar og gerast í nánast hverjum einasta leik. Þetta hlýtur að standa til bóta.

25.08.2009

Mbl.is segir frá því í þessari frétt að foreldrum í Smárabíó hafi verið brugðið þegar sýnd var pókerauglýsing á undan sýningu á Ísöld 3 um helgina. Viðbrögð forsvarsmanns bíósins eru eftirfarandi: „Við höfum ekki fengið neinar kvartanir yfir þessu,” segir Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Senu sem rekur Smárabíó. Hann segir auglýsingar sem eru ógnvekjandi eða gera út á nekt ekki sýndar á barnasýningum en téð auglýsing hafi ekki þótt til þess fallin að særa blygðunarkennd fólks. Berist kvartanir segir Björn að athugað verði að taka hana úr umferð á Ísöld 3.

Þessi viðbrögð eru mjög svo dæmigerð. Ekki þarf að huga að neinu nema kvartanir berist. Það er ekki nóg að það sé alveg út í hött að birta pókerauglýsingar á undan barnamynd (og reyndar yfirleitt út í hött þar sem slíkt er ólöglegt á Íslandi), kvartanir verða að berast, og þá má skoða að taka hana úr umferð.

Ég man eftir því þegar ég fór í bíó í Ástralíu hvað mér fannst auglýsingarnar áhugaverðar. Hvers vegna? Jú, því að þar höfðu aðstandendur bíóanna vit á því að selja auglýsingar eftir markhópum. Ef ég var að horfa á heimildamynd um baráttu samkynhneigðra í Ísrael voru engar líkur á að mér væru sýnd kynningarmyndbönd úr lélegum amerískum bardagamyndum, sem jafnvel gera út á hómófóbíu. Fyrir vikið þjónuðu margar auglýsingarnar þeim tilgangi að upplýsa mig um aðrar myndir, viðburði eða vörur sem ég gæti haft áhuga á.

Hér á landi er hins vegar öllum auglýsingum grautað saman, alveg óháð því hver líklegur markhópur er í bíósalnum. Og einmitt þess vegna er birt pókerauglýsing á undan barnamynd.

24.08.2009

Hörkubarátta um boltann

Eins og margir Íslendingar sat ég límd við skjáinn áðan og horfði á stelpurnar okkar mæta Frökkum. Það er eflaust að bera í bakkafullan lækinn að blogga um leikinn, en ég ætla samt að leyfa mér það. Líklega hef ég sjaldan verið eins spennt yfir fótboltaleik í sjónvarpi, enda eins og bent hefur verið ítrekað á undanfarið merkilegur dagur í íslenskri fótboltasögu. Þegar Ísland komst síðan yfir með glæsilegu marki eftir stuttan leik var þetta of gott til að vera satt, sem síðan kom á daginn.

Vítaspyrnurnar tvær sem Frakkarnir fengu voru á gráu svæði, a.m.k. sú fyrri. Hin var kannski dómur í harðari kantinum en engu að síður klaufalegt af hálfu okkar varnarmanns. Sennilega má kenna reynsluleysi um að okkar stelpur náðu sér ekki aftur á strik. Spennan var einfaldlega of mikil og þegar vonbrigði bætast ofan á reynir mjög á sterkustu karaktera.

Frönsku stelpurnar fengu of mikið pláss fyrir framan okkar mark og þannig kom mark númer þrjú. Síðan var alveg hræðilegt að við skyldum ekki nýta okkar vítaspyrnu og þar með komist aftur inn í leikinn. En nú er þessi leikur að baki og þá er lítið annað að gera en að sætta sig við það og horfa fram á við. Íslensku stelpurnar eru nú reynslunni ríkari og miðað við karakterinn sem þær hafa sýnt þá geta þær rifið sig upp og mætt fílefldar til næsta leiks. Áfram Ísland!

Mynd fengin af vefsíðu KSÍ

21.08.2009

Fréttablaðið birtir í dag viðtal við Tor Iversen, heilsuhagfræðing, sem er hér á landi á ráðstefnu norrænna heilsuhagfræðinga í Háskóla Íslands. Iversen er beðinn um ráð til handa Íslendingum og rauði þráðurinn í hans svörum er að styrkja eigi grunnheilbrigðisþjónustu. Þetta er einmitt það sama og kom ítrekað fram á stórum vinnudegi með starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar sem haldinn var í apríl sl. Þessi sýn er einföld en um leið ein af stærri áskorunum íslenskrar heilbrigðisþjónustu á næstu árum. Stefnan hér á landi hefur raunar verið frá grunnþjónustu og til mikillar sérfræðiþjónustu og þannig er komið að margt fólk þverneitar að leita til „venjulegra lækna” og vill aðeins dýra sérfræðiþjónustu. Dýr sérfræðiþjónusta getur vissulega verið nauðsynleg en ekki í þeim mæli sem hún er nýtt hér á landi.

Öruggur heimur hernaðarhyggjunnar

skric3b0dreki

Norrænu heilsuhagfræðingarnir eru þó ekki einu Norðurlandabúarnir sem heiðra Ísland með nærveru sinni þessa dagana. Hinn stríðsglaði Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO og fyrrverandi forsætisráðherra Dana, sótti Íslendinga heim í gær og spjallaði við utanríkisráðherra og forsætisráðherra. Rasmussen þessi þverbraut allar hefðir í dönskum stjórnmálum árið 2003 með ákvörðun sinni um að Danmörk yrði þátttakandi í stríðinu við Írak. Danir eru vanir að gera allar tilraunir til að ná fram samstöðu um veigamikil mál en þessi ákvörðun var tekin í skyndi á danska þinginu, með naumum meirihluta ríkisstjórnarflokkanna og Dansk Folkeparti. (Rasmussen lagði að vísu það ómak á sig að koma málinu í gegnum þingið, sem er meira en íslenskir starfsbræður hans gerðu). Síðan þá hafa dönsku vinstri flokkarnir reynt að koma þeirri lagabreytingu í gegn ákvarðanir um þátttöku í stríði skuli taka með 2/3 hlutum atkvæða. Það hefur ekki gengið eftir og mun ekki gera það, a.m.k. ekki undir núverandi stjórnvöldum, sem telja nauðsynlegt að Danmörk geti farið í stríð.

Hlutverk Rasmussens núna er að sýna heiminum fram á að hægt sé að búa til öruggan heim með hernaðarhyggju, hernaðaruppbygingu og myndun hernaðarbandalaga. Eða eins og NATO auglýsir: „Peace and Security: That’s our mission.” Þvílíkur léttir!

19.08.2009

Blaðamannafélagið, Birtingur og Björk Eiðsdóttir hafa stigið mikilvægt skref með ákvörðun sinni um að kæra niðurstöðu Hæstaréttar í máli Ásgeirs Þórs Davíðsson gegn blaðamanni og ritstjóra Vikunnar til Mannréttindadómstóls Evrópu. Það sætir satt að segja furðu hversu óáreittur Ásgeir hefur verið miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið um hans starfsemi. Lögregluyfirvöld virðast máttlaus og það sama má segja um fjölmiðla, sem eiga yfir höfði sér málsókn og í framhaldinu sektir fyrir að fjalla um gjörðir Ásgeirs og félaga (það er eins gott að tala ekki um glæpi).

Fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein um vændi á Íslandi fyrir Morgunblaðið. Í samtölum sem ég átti fékk ég upplýsingar um ýmislegt misjafnt en enginn viðmælenda þorði að tjá sig undir nafni (og þá ekki af ótta við lögsóknir). Þegar tímaritið Ísafold birti ítarlega grein og vel unna grein Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur og Jóns Trausta Reynissonar um starfsemi Goldfinger (nektardansstaðar í eigu Ásgeirs) skrifaði ég vitneskju mína niður og hugleiddi að birta sem viðhorf í Morgunblaðinu. Mér var hins vegar ráðið frá því og ekki að ástæðulausu. Skemmst er frá því að segja að Ásgeir kærði Ingibjörgu og Jón Trausta, og vann málið.

Gengur gegn frelsi fjölmiðla

Það verður mikilvægt fyrir íslenska fjölmiðla að fá úr því skorið fyrir mannréttindadómstólnum hvort hinn þröngi rammi sem dómstólar sníða íslenskum blaðamönnum standist mannréttindasáttmála Evrópu. Og svo vitnað sé í frétt af press.is: „Mannréttindadómstóll Evrópu hefur margsinnis ítrekað í dómum sínum, að það feli í sér alvarlegt brot á tjáningarfrelsi og gangi gegn frelsi fjölmiðla að gera blaðamann ábyrgan fyrir orðum viðmælanda síns. Víðast hvar verður tjáningarfrelsi ekki takmarkað nema með ströngum undanþágum. Fleiri málaferli gegn íslenskum blaðamönnum og hærri sektardómar benda til þess að þróunin sé öfug hér á landi. Þannig  hafa  íslenskir  dómstólar  ekki  sýnt  fjölmiðlum nægan skilning í dómsmálum  þar  sem  reynir á rétt fjölmiðla til að taka við og miðla áfram upplýsingum  um  umdeild  málefni. Viðbrögð  yfirvalda  við  umfjöllun um efnahagshrunið  á  Íslandi  þar sem birtar voru leynilegar bankaupplýsingar sem var lekið í fjölmiðla, leiða einnig í ljós takmarkaðan skilning á rétti fjölmiðla  til að birta upplýsingar sem varða almannahag þótt þeim kunni að hafa verið komið í hendur fjölmiðla með ólögmætum hætti.”

18.08.2009

Danskir stjórnburkamálamenn hafa nú fetað í fótspor margra kollega sinna í öðrum löndum og hafið umræðu um klæðaburð kvenna. Klæðaburður kvenna er nokkuð sem almenningur víða um heim hefur eytt ómældum tíma í að velta fyrir sér. Stjórnvöld sumra landa líta svo á að með klæðaburði kvenna sé mörkuð ákveðin stefna fyrir viðkomandi ríki og að ásýndin (les: útlit kvenna) eigi að vera í samræmi við það sem hentar stjórnvöldum. Í því skyni eru sett lög og reglur um hverju konur megi klæðast og hverju ekki. Stundum ná reglurnar aðeins til hins opinbera, s.s. skóla og opinberra stofnanna, en sums staðar eru reglurnar algildar. Þetta á t.d. við í sumum ríkjum Miðausturlanda á borð við Íran og Sádí-Arabíu en ýmis vestræn ríki hafa einnig daðrað við hugmyndina og jafnvel hrint henni í framkvæmd, s.s. Frakkland. Þar eru reglurnar þó klæddar í þann búning að bannað sé að bera trúartákn utan á sér og því var höttum og hálsmenum úthýst af hinu opinbera sviði til þess að geta bannað slæðuna, sem sumar múslimakonur bera.

Magabolir í tísku = stórmálplommer-klipptur2

Í öðrum löndum fer umræða um klæðaburð kvenna ekki fram í efstu lögum valdsins heldur á lægri stigum. Hér á Íslandi má nefna þá miklu samfélagsumræðu sem varð þegar magabolir komust í tísku meðal unglingsstelpna. Þá var jafnvel rætt í sumum skólum að banna ákveðna tegund klæðaburðar og klæðnaður stúlkubarna var settur í kynferðislegt samhengi, sem var aftur ekki gert með misvelheppnaða drengjatísku, t.d. að láta sjást vel í nærbuxurnar sínar og hvað þá með þá lensku iðnaðarmanna að sýna alltaf á sér hálfan rassinn þegar þeir eru við sína iðju.

Það verður áhugavert að fylgjast með hvernig umræðunni vindur fram í Danmörku og hvort sambærileg umræða sprettur nokkurn tímann upp hér á landi. Áhuginn á klæðaburði kvenna er nefnilega greinilega ekki bundin við ein landamæri eða eina heimsálfu. Það er líka áhugavert að fylgjast með því hvernig stjórnmálamenn setja fram rök fyrir því að banna einn klæðnað umfram annan. Einhvern veginn virðist alveg ljóst hvaða klæðnaður verður fyrir valinu. En hvað ef til stæði að banna konum að ganga í pilsum? Eða kannski bara að banna gallabuxur?

13.08.2009

Árið 1949 var samþykkt á Alþingi að Ísland yrði eitt af stofnríkjum Atlantshafsbandalagsins. Sjálfstæðisþingmenn greiddu allir atkvæði með frumvarpinu, sósíalistar voru allir á móti en Alþýðuflokkurinn og Framsókn, sem sátu ásamt Sjálfstæðisflokki að völdum, klofnuðu. Ákvörðunin leiddi til einna mestu mótmæla 20. aldarinnar og harðar ásakanir gengu manna á milli. Og hverjar urðu afleiðingarnar?

Þjóðin klofnaði í tvo hópa: Með og móti aðild að NATO. Koma bandaríska hersins til landsins bætti olíu á eld og raunar allt kalda stríðið. Stofnuð voru félög hvort með sínum málstaðnum og stjórnmálamenn þurftu flestir að gera upp við sig hvorri fylkingunni þeir vildu tilheyra.

Engin samstaða

Þetta leiddi til þess að erfitt var að ná samstöðu um nokkra utanríkispólitíska ákvörðun og hvergi á Norðurlöndum er deilt eins mikið um utanríkis- og varnarmál eins og hér á landi. Almennt reyna ríki nefnilega að móta utanríkisstefnu í sátt sem flestra. Hér á landi hefur það enn ekki tekist.

Átakastjórnmálin og skotgrafahernaðurinn sem hafa einkennt íslenska pólitík geta verið mjög dýru verði keypt. Þau leiða til þess að við stjórnarskipti eru oft gerðar dramatískar breytingar, sem hafa bæði efnahagsleg og samfélagsleg áhrif. Þessu verður að breyta. Um öll veigameiri mál á að leita allra leiða til að skapa sem víðtækasta sátt þannig að ákvarðanirnar geti orðið varanlegar. Vissulega tekur það ferli tíma, en þeim tíma er ekki sóað, jafnvel þótt ekki takist á endanum að ná samstöðu, það var a.m.k. reynt.

Reynum til þrautar að ná samstöðu

Icesave-málið er af þeirri stærðargráðu að sé ákvörðun um það tekin í pólitískri ósátt eða með naumum meirihluta hættum við á að mynda gjá sem ekki verður brúuð næstu áratugina. Icesave yrði þá viðvarandi umræðuefni og tæki tíma og orku frá öðrum mikilvægum verkefnum. Icesave er heldur ekki flokkspólitískt mál. Það er ekkert sem heitir vinstri eða hægri þegar kemur að því að tryggja hag Íslands sem best. Þess vegna á að leita allra leiða til að skapa sátt á Alþingi og meðal þjóðarinnar. Jafnvel þótt fyrri ríkisstjórnir hafi ekki beitt slíkum aðferðum. Við viljum ekki aðra NATO-ákvörðun.

11.08.2009

Fín mæting var á ljóðakvöld Nykurs á Boston í gærkvöld. Þar lásu ljóð, auk mín, Davíð Stefánsson (stórskáld!), Sverrir Norland (sem aukinheldur lék á hljóðfæri), Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Emil Hjörvar Petersen. Hér á eftir eru tvö ljóðanna sem ég las:

Gifting

Kirkjuklukkur

Tunglið situr á Esjunni

eins og það sé presturinn

Sápukúla hefur villst af leið

Mig langar að vera hér

uns dauðinn aðskilur

ókunnugt fólk.

Klumpurinn

Þegar hann grætur

sígur á honum brúnin

og djúp hrukka myndast milli augnanna.

Örlítið ískur

þegar jaxlarnir mæta hver öðrum

kjálkinn læsist.

Andardrátturinn verður grunnur

hraður

taktlaus

Brjóstið herpist

vöðvarnir spennast

augnlokin leggjast saman.

Broshrukkurnar snúa í öfuga átt.

Síðan koma

engin

tár.

***

Fyrst ég er byrjuð á þessu er rétt að láta tvær vísur af hagyrðingakvöldinu á Borgarfirði Eystra um verslunarmannahelgina fljóta með.

Þessi fjallað um fréttir af tvíbura sjálfs síns, þ.e. folald sem varð til úr tveimur eggjum:

Undarlegt er líf í sveit,

lifa bestu skinn.

Hýrum augum heiminn leit,

hún er bróðir sinn.

Og af því að það er alltaf auðvelt að skjóta á Framsóknarflokkinn þá fær þessi að fylgja með en henni skaut ég á Stefán Boga Sveinsson, framsóknarmann með meiru:

Flokkurinn og fylgið hrundu

föst í skrítnu mynstri.

Því að aldrei menn þar munu

muninn á hægri og vinstri.

10.08.2009

Lengi vel hélt ég að þegar talað var um „meint brot” væri orðið „meint” til marks um alvarleika brotsins. Þessi misskilningur kom að sjálfsögðu til af þeim sökum að orðinu meint er sjaldnast skeytt fyrir framan nema þegar um kynferðisbrot er að ræða. Það var því kannski ekki svo galið að draga þá ályktun að orðið hefði eitthvað með alvarleika brotanna að gera.

En orðið „meint” vísar til þess að ekki sé víst að brotið hafi átt sér stað. Sú staðreynd að fjölmiðlar nota það aðeins þegar um kynferðisbrot er að ræða ýtir enn frekar undir þá goðsögn að þolendur kynferðisbrota – sem eru í miklum meirihluta konur – séu margfalt líklegri til að ljúga en þolendur annarra brota.

“Meint” bílvelta

Í því sambandi má benda á að aldrei er talað um „meint bílslys” þótt vel sé þekkt að menn hafi velt sínum bílum sjálfir til að fá peninga frá tryggingafélögum. Það er einfaldlega gengið út frá því að um slys eða óhöpp sé að ræða, nema annað komi í ljós. Engar rannsóknir benda til þess að fólk sé líklegra til að segja ósatt um nauðgun en um bílveltu.

Nú halda því margir fram að þetta sé ekki samanburðarhæft þar sem ónýtur bíll sé vissulega ónýtur bíll á meðan kona sem verður fyrir nauðgun geti verið áverkalaus. Vissulega eru fæstar nauðganir framkvæmdar með líkamlegu ofbeldi, enda svo miklu einfaldara fyrir ofbeldismenn að sleppa því og auka þar með líkurnar á að þeir komist í stóran hóp manna sem aldrei þurfa að svara til saka fyrir ljótan glæp. Hins vegar vita allir sem hitt hafa manneskju sem orðið hefur fyrir nauðgun að þar er ekki „áverkalaus” manneskja á ferð. Það þyrfti mjög færan leikara til að gera sér upp afleiðingar af nauðgun.

Lygi skárri en nauðgun

Ástæður þess að fjölmiðlar tönnlast á orðinu „meint” í tengslum við kynferðisbrot eru tvær. Í fyrsta lagi er um að ræða almenna afneitun samfélagsins. Það er þægilegra að vita til þess að einhver ljúgi en að einhver nauðgi og ef allar sögurnar um nauðganir eru sannar neyðumst við öll til að horfast í augu við að það er eitthvað verulega athugavert í samfélagi þar sem svona mörgum konum (og körlum) er nauðgað. Staðreyndin er nefnilega sú að nauðganir verða ekki til í tómarúmi. Það þarf ofbeldismann til að framkvæma verknaðinn. Þess vegna er betra að láta eins og um tómar sögusagnir sé að ræða. Í öðru lagi verður til almenn meðvirkni með árásarmanninum og ótti við að mögulega sé hann hafður fyrir rangri sök. Einföld leið til að koma sér út úr þeirri klemmu er að tala um „meintan árásarmann”. Orðið á nefnilega við þar, en ekki um nauðgunina sjálfa.

Fjölmiðlafólk ætti ekki að vera lengi að breyta þessu orðalagi. Það er síðan samfélagsins alls að hætta afneituninni og takast á við þá þætti sem búa til skilyrði og réttlætingu fyrir kynferðisbrotum.

Næsta síða →