24.07.2009

icesave

afram-esb1Fréttir um tengingu milli aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu og frágangs samninga um Icesave koma ekki á óvart. Svona tengingar hafa alla tíð tíðkast í milliríkjadeilum, þar sem ríki nota öll vopn sem þau mögulega komast yfir. Engu að síður sætir furðu að hollenski utanríkisráðherrann skuli fara svo djarft fram að reyna að þrýsta á Alþingi í gegnum utanríkisráðherra Íslands. Holland gefur sig út fyrir að vera lýðræðisríki og utanríkisráðherra landsins er því fyllilega ljóst að lýðræðið verður að hafa sinn gang. Lýðræði tekur tíma og lýðræði á að virða.

Í ofanálag eru Íslendingar beittir þrýstingi í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn með ljósum og óljósum hótunum um að frekari lánagreiðslur berist ekki nema að Íslendingar gangi frá samkomulagi vegna Icesave. Um þetta er að vísu kveðið á í samningi (sem er kallaður viljayfirlýsing) Íslands við sjóðinn, sem fyrri ríkisstjórn stóð að, en þar segir þó aðeins að það eigi að „efna til viðræðna á næstu dögum” með það að markmiði að ná samkomulagi. Þar eru engin tímamörk og hvergi kemur fram að Alþingi eigi að flýta afgreiðslu málsins til að Ísland geti fengið næstu greiðslu.

Vinaþjóðir?

Á það ber að benda að meðal þeirra ríkja sem veita Íslendingum lán í gegnum AGS eru Danmörk, Svíþjóð, Noregur og Finnland, þ.e. okkar einlægustu vinaþjóðir. Vinskapurinn er þó ekki meiri en svo að hjálpin kemur ekki nema að Íslendingar láti undan þrýstingi í Icesave málinu. Hvaða hag hafa þessar þjóðir af því? Mér er spurn. Vert er að minna á að Færeyingar veita Íslandi lán óháð Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og stilla sér því ekki upp við hlið kúgaranna.

Þetta mál varpar enn skýrara ljósi á hversu afleitt er að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið á þessum tímapunkti. Samningsstaða Íslands er mjög slök gagnvart sterkum ríkjum, sem skirrast ekki við að blanda saman óskyldum málum til að ná fram markmiðum sínum.

23.07.2009

Heimsborgarinn er kröfuharður viðskiptavinur og á það til að vera móðgunargjarn ef hann fær ekki það sem hann telur sig borga fyrir. Fyrir vikið er Heimsborgarinn óhræddur við að kvarta á veitingastöðum og í verslunum ef hann er ósáttur. Stundum er kvörtunum Heimsborgarans vel tekið en alltof oft mætir hann fálæti og litlum áhuga á að bæta úr því sem miður fór. Heimsborgarinn varð því mjög glaður þegar honum barst tölvupóstur frá eiganda tælenska veitingastaðarins Menam á Selfossi en áður hafði Heimsborgarinn notað þennan vettvang til að tuða yfir núðlusúpu sem hann keypti á staðnum. Eiganda Menam er greinilega mjög annt um sína starfsemi og hefur nú boðið Heimsborgaranum að koma aftur og reyna matinn í von um að hann gangi ánægður út. Heimsborgarinn fékk þá líka tækifæri til að útskýra hvað honum þótti slæmt við núðlusúpuna en jafnframt til að þakka fyrir aðra góða rétti sem hann hefur bragðað á staðnum. Svona vinnubrögð þykja Heimsborgaranum til fyrirmyndar og hann hlakkar til að gefa veitingastaðnum annað tækifæri.

22.07.2009

Miðað við allar þær fréttir sem berast af siðlausum og nánast ótrúlegum gerningum úr fjármálaheiminum ætti fátt að koma á óvart. Ég játa hins vegar að ég reitti hár mitt (og hefði reitt skegg mitt væri ég með svoleiðis) þegar fregnir bárust af því að KR-sport hefði fengið 11 milljóna króna láni breytt í styrk einni mínútu fyrir bankahrun og einni og hálfri mínútu áður en velgjörðarfyrirtækið – Samson – fór í greiðslustöðvun. Fyrir þau sem ekki vita þá er KR-sport hlutafélag sem stofnað var í kringum rekstur meistaraflokks karla og 2. flokks karla. Vel að merkja þá sér knattspyrnudeildin um rekstur meistaraflokks kvenna og karlaklúbburinn toppaði sjálfan sig þegar hann fékk nektardansmeyjar Geira á Goldfinger til að fara úr fötunum í tengslum við búningauppboð á karlakvöldi félagsins.

Satt að segja væri verðugt rannsóknarefni að kyngreina allt fjármagnið sem flæddi úr bönkunum og í furðulegustu verkefni. Einhvern veginn læðist að mér sá grunur að mest af peningunum hafi karlar lánað (les: gefið) til karla til að gera vel við karla.

21.07.2009

moggiÞegar mér loksins var úthlutað varanlegu skrifborði á Mogganum einhvern tímann árið 2004 var mér plantað bak í bak við gamalreyndan blaðamann, Kristján Jónsson. Í hönd fóru áhugaverðir vinnudagar, enda vorum við ekki lengi að átta okkur á því hvaða málefni við værum óssammála um, og þau voru ekki fá. Við rökræddum oftast en stundum þróuðust rökræðurnar út í rifrildi og þá var gott að geta snúið baki við karlinum og tuðað ofan í lyklaborðið.

Þegar Mogginn flutti í Hádegismóa var ég ekki bara ósátt út af þeirri yfirmáta furðulegu staðsetningu heldur líka vegna þess þá var Kristján fluttur burtu frá mér og ég hafði engan til að rífast við. Að vísu erum við bæði gædd þeim kosti og galla að taka mark á góðum rökum og þess vegna færðumst við nær hvort öðru í skoðunum með tímanum, þó að ég vilji auðvitað meina að hann hafi bara færst nær mér.

Núna get ég ekki skammast í Kristjáni daglega en á það til að reita hár mitt yfir pistlum sem hann skrifar í Morgunblaðið. Yfir morgunmatnum í dag gat ég hins vegar ekki annað en tekið undir með honum. Í pistli dagsins óskar Kristján þess að við Íslendingar látum ógert að endurnýta ósiði gömlu kaldastríðshetjanna með tilheyrandi dramatískum orðaforða á borð við landsölu, þjóðníðinga og svívirðingar. Það fæst nefnilega ekkert með svona upphrópunum. Það er hálfspaugilegt að á miðopnu Moggans er líka önnur grein þar sem þess sama er óskað.

Hugmyndafræði, fremur en nauðhyggja

Staðreyndin er sú að hluti Íslendinga heldur að með mögulegri inngöngu í Evrópusambandið sé verið að gera hræðileg mistök. Annar hluti telur því hins vegar öfugt farið og að gangi Ísland ekki í Evrópusambandið versni lífsskilyrði hér til muna. Þessar skoðanir verður að virða og taka síðan lýðræðislega ákvörðun um hvernig skuli fara að. Upphrópanir og blótsyrði standa hins vegar lýðræðislegri umræðu fyrir þrifum og gera hvorugum málstaðnum gagn.
noeu_320afram-esb

Persónulega held ég að Ísland farist ekki þótt við göngum ekki í Evrópusambandið og það farist heldur ekki þó að við göngum í Evrópusambandið. Ég kýs að taka afstöðu til Evrópusambandsins út frá hugmyndafræði, ekki nauðhyggju, og satt að segja þá mælir ýmislegt með inngöngu en ansi margt á móti. Væri mér gert að greiða atkvæði í dag myndi ég segja nei en ég áskil mér allan rétt til að bíða með endanlega ákvörðun þar til samningsdrög liggja fyrir. Svo tek ég þátt í því með þjóð minni að ákveða.

20.07.2009

Ég veit ekki alveg hvort innlegg Einars Steingrímssonar, prófessors í stærðfræði við Háskólann í Reykjavík, í umræðuna um háskóla- og vísindastarf geti flokkast sem málefnalegt. Af grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið á laugardag má ráða að allir sem hafi eitthvað með háskólamál að gera hér á landi séu meira eða minna algerir vitleysingar. Stjórnendur háskólanna hugsa bara um eigin hag og í menntamálaráðuneytinu er enginn starfsmaður nógu góður til að geta unnið að endurskipulagningu háskóla- og vísindastarf.

Einari þykir líka ástæða til að grafa undan ráðgjafa menntamálaráðherra, Berglindi Rós Magnúsdóttur, og tilgreinir sérstaklega að hún hafi ekki lokið doktorsnámi. Einar nefnir að sjálfsögðu ekki að hann situr sjálfur í rýnihópi, undir forystu ráðgjafans, sem menntamálaráðherra skipaði til að fara einmitt með þetta verkefni. Einar hefur því sjálfur beina aðkomu að ferlinu og þess vegna vekur óneitanlega athygli að hann skuli hvergi nefna það á meðan hann notar Morgunblaðið sem vettvang fyrir grjótkast í allar áttir. Sjálfur leggur hann það mat að Berglind hafi ekki nægilega reynslu af háskólastarfi til að vinna þetta starf en gaman væri að vita hver gæti talist nægilega hæfur að mati Einars ef stjórnendur háskólanna eru allir ómögulegir og sömuleiðis starfsfólk menntamálaráðuneytisins. Kannski hann sjálfur væri eini rétti maðurinn?

Hvað menntun ráðgjafa menntamálaráðherra varðar má benda á að þar er á ferðinni fær menntunarfræðingur sem tók sér leyfi frá doktorsnámi til að koma ráðherra til aðstoðar. Engri manneskju treysti ég betur til að leiða uppbyggingarstarf í skólamálum á faglegan og sanngjarnan hátt. Frjálshyggjukenningar þess efnis að veita eigi öllu til fárra útvaldra (meintra) snillinga og að þannig detti brauðmolarnir niður til okkar meðaljónanna hljóta að heyra sögunni til.

20.07.2009

Hún er áhugaverð umræðan sem hefur spunnist um þá ákvörðun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Einn þingmaður Sjálfstæðisflokks greiddi atkvæði með tillögu ríkisstjórnarinnar en allir aðrir á móti.

Auðvitað er brotið blað í sögu Sjálfstæðisflokksins, þar sem enginn má hafa sjálfstæða skoðun, þegar formaður og varaformaður greiða ekki atkvæði nákvæmlega eins. Það er hins vegar ekki brotið blað þegar þingmaður greiðir atkvæði öðruvísi en flokkssystkini hans, enda hefur Pétur H. Blöndal iðulega staðið með sinni sannfæringu í þinginu, þvert gegn vilja annarra þingmanna og flokksforystunnar.

Valdabaráttan opinberast

Strax daginn eftir atkvæðagreiðsluna um Evrópusambandið mátti líta fréttaskýringu eftir Agnesi Bragadóttur í Morgunblaðinu þar sem niðurstaðan var sú að pólitísk staða Þorgerðar hefði veikst eftir atkvæðagreiðsluna og þingmenn Sjálfstæðisflokks voru sagðir reiðir í garð varaformannsins. Í framhaldinu birtist Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, í sjónvarpinu og sagði óheppilegt að ekki væri einhugur í forystu flokksins um málið. Einhvern veginn þarf ekki mikla samsæriskenningaáráttu til þess að einhverjar bjöllur fari að hringja. Þótt Bjarni segi stöðu Þorgerðar ekki hafa veikst og að fullt traust ríki milli þeirra þá grefur hann um leið undan henni með því að segja málið „óheppilegt”.

Á laugardag komu Staksteinar Morgunblaðsins Þorgerði til varnar. Skrif Agnesar voru vissulega fréttaskrif og Staksteinar eru leiðaraefni en það breytir ekki því að þarna opinberast valdabaráttan í Sjálfstæðisflokknum á síðum Morgunblaðsins. Agnes tilheyrir gömlu Davíðsklíkunni og er í góðu sambandi við karlana sem há mikla baráttu gegn Evrópusambandinu. Hennar fólk tók við völdum í flokknum eftir að Geir H. Haarde hrökklaðist frá völdum. Ritstjóri Morgunblaðsins, Ólafur Stephensen, tilheyrir hins vegar annarri klíku. Hann horfir vonaraugum til Evrópusambandsins og tekur þess vegna upp hanskann fyrir Þorgerði Katrínu þegar hún er jákvæð í garð ESB.

Miðað við umræðuna á síðum Morgunblaðsins hefði mátt halda að háværar raddir kölluðust. Ekki hef ég orðið vör við mikla umræðu í netheimum eða yfirleitt meðal fólks, þó að vissulega gæti eitthvað hafa farið framhjá mér. Einhvern veginn virðist gagnrýnin á Þorgerði Katrínu ekki koma frá grasrót flokksins heldur einmitt frá forystu hans, eða öllu heldur hinum hluta forystu hans. Tilgangurinn með því á síðan eflaust eftir að koma í ljós.

Hvað veldur því að pólitísk staða veikist?

Annars er það ekki síður merkilegt að það sé ekki fyrr en nú að talað sé um veika stöðu Þorgerðar Katrínar. Það var ekki eftir að hún var ráðherra í ríkisstjórn meðan allt var keyrt í kaf. Og það var ekki vegna þess að hún var varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sem keyrði áfram hugmyndafræðina sem olli hruninu. Og það er heldur ekki vegna þess að maðurinn hennar tók fullan þátt í glaumnum og glæfraskapnum. Nei, það var vegna þess að Þorgerður Katrín gerði tilraun til að fylgja sinni sannfæringu í atkvæðagreiðslu um Evrópusambandinu. Flottur flokkur þessi Sjálfstæðisflokkur.

16.07.2009

Þau eru misfalleg orðin sem falla um þingmenn nú eftir að atkvæðagreiðsla um aðildarumsókn að Evrópusambandinu hefur farið fram. Sumir hrósa happi og líta svo á að nú komist Ísland í öruggt skjól á meðan aðrir telja þetta hin mestu mistök. Gott og vel. En þótt það sé klisjukennt þá leyfi ég mér samt að minna á aðgát skal höfð í nærveru sálar. Það er engin ástæða til að fara ljótum orðum um einstaklinga, hvort sem sannfæring þeirra er sú að greiða eigi einu sinni þjóðaratkvæði um Evrópusambandið, tvisvar eða aldrei.

Köstum vondum hefðum

Ég er stolt af þingmönnum Vinstri grænna, sem leyfðu sér að hafa hvert sína skoðun á þessu umdeilda mál. Kjósendur Vinstri grænna hafa líka mismunandi skoðun og enginn þingmaður gekk með atkvæði sínu í dag gegn stefnu flokksins eða landsfundarályktunum.

Málinu er langt frá því að vera lokið. Nú hefst mikil umræða og barátta fylkinga á milli. Það er mín einlæga ósk að sú barátta fari fram á heiðarlegan hátt og af virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Við skulum rjúfa þá hefð að Íslendingar þurfi alltaf að vera í tveimur hatrömmum fylkingum í utanríkismálum.

Lýðræðisást?

Annars gat ég ekki að því gert að finnast undarlegt að hlusta á málflutning sjálfstæðismanna um lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur í þinginu í dag. Vissulega fagna ég þessari miklu og skyndilegu lýðræðisást en það hefði verið gott að sjá örla á henni örlítið fyrr. Sjálfstæðismenn hafa nefnilega staðið mjög svo í vegi fyrir tilraunum til að koma á einhvers konar beinu lýðræði og þá oft með þeim rökum að það veiki þingið. Eina skiptið sem vísa átti máli til þjóðaratkvæðagreiðslu (fjölmiðlalögunum) þá kom Davíð Oddsson í veg fyrir það. Hver veit nema þau hefðu verið samþykkt…

Sjálfstæðismenn voru heldur ekki mjög áfram um að breyta stjórnarskrá fyrir kosningar þannig að hægt væri að opna á þjóðaratkvæðagreiðslur eftir kosningar.

En batnandi mönnum er víst best að lifa.

16.07.2009

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að mörgum framsóknarmönnum sé heitt í hamsi vegna afstöðu Guðmundar Steingrímssonar í Evrópusambandsmálinu en hann hyggst greiða atkvæði með tillögu ríkisstjórnarinnar um að gengið verði til aðildarviðræðna við bandalagið. Framsóknarflokkurinn hefur farið nokkra hringi í þessu máli, eins og stundum vill verða í þeim ágæta flokki. Hvað sem því líður þá virðist afstaða Guðmundar og Sivjar Friðleifsdóttur vera mun meira í takti við niðurstöðu flokksþings Framsóknar en afstaða annarra þingmanna flokksins, sem ætla sér að greiða atkvæði með tillögu Sjálfstæðisflokks um tvöfalda atkvæðagreiðslu.

Vilji flokksþings Framsóknar var skýr

Það vill svo til að ég sat flokksþing Framsóknar í janúar sl. sem blaðamaður Morgunblaðsins. Hvað sem segja má um Framsóknarflokkinn þá verður að viðurkennast að þar á bæ kunna menn að halda landsfundi. Allt gekk smurt fyrir sig og satt að segja fannst mér til fyrirmyndar að tekinn var frá langur tími til að ræða Evrópumálin en eins og í mörgum flokkum eru mjög skiptar skoðanir í þeim efnum innan Framsóknar. Eftir langa umræðu voru greidd atkvæði um ályktun sem lá fyrir fundinum og hún var samþykkt. Í ályktuninni er skýrt að sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu með umboði frá Alþingi. Hvergi er minnst á tvöfalda atkvæðagreiðslu.

Hins vegar setti Framsóknarflokkurinn líka mörg skilyrði fyrir mögulegri aðild og breytingartillaga sem Vigdís Hauksdóttir hefur lagt fram tekur mið af þeim, að undanskildu skilyrði um að Íslendingar eigi sökum fámennis að hafa “varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum”.

Tvöfalda leiðin var lítið rædd

Ég minnist þess ekki að í löngum og fræðandi umræðum á flokksþingi Framsóknar hafi nokkur þeirra þingmanna, sem nú vilja greiða atkvæði með Sjálfstæðismönnum, komið í pontu og lagt til að fremur yrði farin leið tvöfaldrar atkvæðagreiðslu. Misminni mig þá skal ég gjarnan leiðrétta það.

Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti hins vegar tvöföldu atkvæðagreiðsluleiðina á sínum landsfundi og stendur fast við þá afstöðu. Landsfundur Vinstri grænna tók ekki afstöðu til þess hvort leiða ætti málið til lykta í einni eða tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum heldur var einungis lögð á það þung áhersla að þjóðin hefði úrslitavald. Þess vegna kemur ekki á óvart að þingmenn VG greiði sumir atkvæði með tvöföldu leiðinni en aðrir með tillögu ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu á grundvelli fyrirliggjandi samnings, þegar þar að kemur.

Staðreyndin er sú að innan allra flokka nema Samfylkingarinnar eru skiptar skoðanir um aðild að Evrópusambandinu. Það á að virða.

Persónulega tel ég að það skipti ekki höfuðmáli hvort haldin verði ein eða tvær atkvæðagreiðslur. Hins vegar er þetta mál þannig að kominn er tími til að leiða það til lykta á lýðræðislegan hátt. Fyrsta skrefið á þeirri vegferð verður stigið þegar þingmenn ganga til atkvæða á Alþingi í dag.

14.07.2009

Nafnbirtingar dæmdra glæpamanna hafa löngum vafist fyrir blaðamönnum og yfirmönnum fjölmiðla, bæði vegna þess að við búum í litlu samfélagi og vegna almennrar meðvirkni með þeim sem hafa framið glæpi. Þess vegna er mjög áhugavert að fylgjast með því hvaða nöfn eru birt og hvaða nöfn eru ekki birt.

Nöfn fíkniefnaafbrotamanna og ofbeldismanna í almannarýminu hafa oft verið birt án nokkurrar umhugsunar. Þegar kemur að annars konar glæpum hafa menn hins vegar stigið varlegar til jarðar og þá allra varlegast í kynferðisbrotamálum.

Þegar ég byrjaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu spurðist ég fyrir um hvort einhver þumalputtaregla væri til um hvaða nöfn væru birt og hvaða nöfn ekki. Svarið var að almennt væru ekki birt nöfn dæmdra glæpamanna nema að um væri að ræða 2 ára eða lengri dóm. Mig rámar í að RÚV hafi stuðst við ámóta reglu. Þetta þýddi auðvitað að dæmdir kynferðisbrotamenn þurftu sjaldnast að óttast um að sjá nöfn sín í blaðinu, enda þungir dómar ekki vanalegir í þeim málaflokki.

Dómstólar birta ekki nöfn

Síðustu vikur hafa fallið dómar sem fela í sé lengri fangelsisvist en tvö ár og nokkur nöfn kynferðisbrotamanna hafa verið birt í fjölmiðlum. Það vakti hins vegar athygli þegar maðurinn sem dæmdur var í átta ára fangelsi nýverið fyrir hrottalegt líkamlegt, andleg og kynferðislegt ofbeldi, var með öllu nafnlaus í fjölmiðlum.

Í þessu samhengi má benda á að fjölmiðlafólk, þvert á það sem margir halda, er ekki einrátt í þessum efnum því að í dómum eru nöfn ofbeldismanna ekki birt ef ætla má að fórnarlambið geti hlotið af því miska. Með vísan til þessa hafa nöfn ekki verið birt í sifjaspellismálum eða í tilvikum þar sem ofbeldi fer fram innan veggja heimilisins.

Fyrir þessari reglu má færa góð rök en mótrökin eru einnig sterk.

Hugmyndin að baki því að birta ekki nöfn allra ofbeldismanna byggir raunar á hinni óþolandi lífsseigu goðsögn að þolandinn beri sjálfur einhverja sök á ofbeldinu og að skömmin eigi heima hjá honum, ekki ofbeldismanninum.

Vissulega er vert að velta því upp hvort komi á undan: Að fjallað sé eins um alla brotamenn eða að samfélagið losi sig endanlega við þá heimskulegu innrætingu að konur geti sjálfum sér um kennt ef þær verða fyrir ofbeldi. Ég hallast að því að hið fyrrnefnda sé ein af forsendum þess síðarnefnda. Staðreyndin er nefnilega sú að með því að birta ekki nöfn ofbeldismanna sem eru nánir fórnarlömbum sínum er verið að vernda stóran hluta þeirra sem beita ofbeldi. Þess í stað eru aðeins birt nöfn þeirra sem beita ofbeldi á götum úti og þannig var það mjög áberandi að þremur dögum eftir að hrottaofbeldismaðurinn var dæmdur birtist frétt um nafngreindan mann sem hafði framið strætisnaugðun. Sá síðarnefndi bar einnig erlent nafn og það getur ýtt undir fordóma eða ósannar staðhæfingar um að einungis útlendingar nauðgi.

Annað sem gerist er að sögur geta komist á kreik um hver viðkomandi nauðgari er. Þannig fór ég inn á Ölstofuna sl. laugardagskvöld og var bent á að hrottanauðgarinn stæði hinum megin við barinn. Ég fékk strax óbeit á manninum, án þess þó að geta á nokkurn hátt fengið staðfestingu á því að þarna væri réttur maður á ferð.

Að því gefnu að um réttan mann hafi verið að ræða þá hlýtur það líka að vekja upp spurningar hvernig maður sem er nýbúinn að fá fangelsisdóm fyrir hræðilegt ofbeldi, og er stórhættulegur samfélaginu, getur staðið hress á Ölstofunni og drukkið bjór. Eins og ekkert hafi í skorist.

Jafnræðisregla?

Dómstólar eru vissulega alltaf íhaldssamir og sjaldnast róttækir. En frá hreinu realísku og lagalegu sjónarhorni eru varla sterk rök fyrir því að birta nöfn sumra brotamanna en annarra ekki.

Öll samúð er hjá þeim sem verða fyrir ofbeldi og þá ekki síst svo grófu ofbeldi sem kynferðislegt ofbeldi er. Þrátt fyrir það þá virðast rökin gegn nafnbirtingu mun veikari en rökin með henni. Tilgangurinn er alls ekki sá að kalla fram múgsefjun gegn þeim sem ofbeldinu beita. Þvert á móti þá er ein af forsendum þess að uppræta kynferðisofbeldi sú að við gerum okkur grein fyrir því hversu algengt það er og að gerendurnir eru oft “venjulegustu menn”. Það er enginn einn samfélagsflokkur manna sem beitir svona ofbeldi. Þeir eru ekki allir alkar, útlendingar, geðsjúklingar eða ómenntamenn, eins og margir vildu óska, enda væri mjög þægilegt ef það væri bara ein gerð ofbeldismanna og við gætum öll reynt að forðast þá.

Það er kominn tími til að ofbeldi innan veggja heimilisins sé litið jafnalvarlegum augum og ofbeldi á götum úti. Staðreyndin er nefnilega sú að fyrrnefndu brotin snúast ekki aðeins um ofbeldið sjálft heldur líka brot á trausti og á friðhelgi heimilisins. Það á enginn leyndarhjúpur að hvíla yfir þeim.

13.07.2009

Umræða um Evrópusambandið heldur áfram á Alþingi og nú þegar kl. er hálfsjö á mánudagskvöldi eru 22 þingmenn á mælendaskrá. Ætla mætti að þá væri líf og fjör í sölum þingsins. Af reynslu minni sem þingfréttaritari að dæma er sambandið milli mælendaskrár og fjölda þingmanna í þingsölum hins vegar öfugt, þ.e. því fleiri sem tala þeim færri eru í þingsal. Það vekur upp spurningar um til hvers er talað; stundum til að koma sjónarmiðum á framfæri, stundum til að láta málið taka lengri tíma.

Það olli mér ákveðnum vonbrigðum að ekki skyldi hafa tekist að sameina ESB-tillögur stjórnar og stjórnarandstöðu í utanríkismálanefnd. Þykist ég viss um að Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, hafi reynt sitt ýtrasta til að ná sátt og hefði verið til fyrirmyndar ef stríðandi fylkingar hefðu viljað teygja sig lengra í sáttaátt. Of oft hafa verið teknar afdrifaríkar utanríkispólitískar ákvarðanir hér á landi án þess að um þær ríki sátt. Má þarf nefna aðild að NATO, komu bandaríska hersins og stuðning við Íraksstríðið.

Engu að síður skiptir það ekki höfuðmáli hvort fram fer ein eða tvær þjóðaratkvæðagreiðslur. Tvær atkvæðagreiðslur hefðu skapað meiri sátt – sem hefði verið gott – en kostir þeirrar leiðar og gallar eru raktir í góðu Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sl. sunnudag.

Höfuðatriðið er hins vegar að samningurinn verður borinn undir þjóðina og hún hefur því síðasta orðið. Með því móti er lýðræðisleg ákvörðun tryggð og þar með meiri sátt um niðurstöðuna, á hvorn veginn sem hún verður.

Næsta síða →