27.05.2009

Grein um vörugjald á gosdrykki

Birtist í Morgunblaðinu 27. maí 2009

Gosdrykkir og verðtrygging

Í umræðum um vörugjöld á gosdrykki hafa heyrst raddir um að slík gjöld leiði til hækkunar á vísitölu neysluverðs og að í beinu framhaldi hækki afborganir af verðtryggðum lánum. Þegar slíkar raddir heyrast er eðlilegt að mörgum verði hverft við, ekki síst í ljósi þess að landsmenn þurfa nú að bera þunga skuldabagga, sem þeir efndu aðeins til að litlum hluta. Engu að síður er fátt sem bendir til þess að tilefni sé til þessara áhyggja.

Árið 2004 vann Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skýrslu fyrir Lýðheilsustöð um hvaða áhrif það hefði á vísitölu neysluverðs að leggja svonefnt forvarnargjald á sykur. Niðurstöðurnar sýna að áhrif slíks vörugjalds á vísitölu neysluverðs væru óverulegar. Til að mynda var sýnt fram á að væri lagt 10 króna gjald á hvern lítra af sykruðum gosdrykkjum gæti það leitt til vísitöluhækkunar upp á 0,09%. Nú kynni þessi tala að hafa breyst lítillega en engu að síður er ljóst að áhrifin væru ekki tilfinnanleg.

Hitt er svo annað og það er að ef kæmi í ljós að vörugjald á gosdrykki gæti haft meiri áhrif á neysluvísitölu mætti, eins og Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, benti á í viðtali við DV 20. maí sl., skoða möguleikann á því að taka slíkt gjald út úr vísitölugrunninum. Þannig ætti vísitala neysluverðs og þar með hin umdeilda verðtrygging ekki að koma í veg fyrir að lagt verði vörugjald á gosdrykki.

Hálfur lítri af gosi á dag

Íslendingar eru miklir gosþambarar og lætur nærri að hálfur lítri renni ofan í hvern landsmann á degi hverjum. Gosdrykkjaneysla hjá börnum er of mikil og unglingsstrákar þamba mest. Afleiðingarnar eru skemmdar tennur og ofþyngd sem aftur geta leitt til skertari lífsgæða, auk þess sem kostnaðurinn getur verið umtalsverður, bæði fyrir einstaklinga og skattborgara.

Þegar skattar og gjöld á matvælum voru lækkuð árið 2006 varð lækkunin mest á gosdrykkjum, þvert gegn tillögum Lýðheilsustöðvar en hennar hlutverk er einmitt að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um stefnumótun á sviði lýðheilsu.

Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði, og Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ, bentu á það í grein í Morgunblaðinu nýverið að verðaukning á gosdrykkjum skili sér í minni neyslu. Þá hefur verið sýnt fram á að unglingar eru sérstaklega næmir fyrir verðhækkunum.

Öll rökin hníga því í þá einu átt að auknar álögur á gosdrykki séu mikilvægt vopn í baráttunni gegn slæmri tannheilsu og að sama skapi gegn þeim vanda sem getur falist í óheilsusamlegri ofþyngd, ekki síst hjá börnum og ungmennum. Vörugjöld væru hins vegar aldrei eina vopnið. Hér eftir sem hingað til gegna forvarnir lykilhlutverki í að vernda heilsu landsmanna og þar er Lýðheilsustöð okkar flaggskip. Þess vegna hunsum við ekki ráðleggingar Lýðheilsustöðvar og okkar færustu sérfræðinga heldur þvert á móti förum eftir þeim.

 

23.05.2009

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 11. janúar 2007

Bara fyrir íþróttatýpur?

“Það kom mér dálítið á óvart að hann skuli hafa svona mikinn áhuga á íþróttum, hann virkar engan veginn þessi íþróttatýpa,” sagði íslenskur gestur minn í Ástralíu um meðleigjanda minn þar syðra. Þetta var alveg satt hjá honum og ég hafði einmitt velt því sama fyrir mér. Meðleigjandinn, sem við skulum kalla Jónas, var ekki beinlínis sterklega byggður. Hann talaði lágt, hékk óhóflega mikið fyrir framan sjónvarpið og fékk næringu sína meira úr bjór en úr mat. Bjórinn drakk hann gjarnan yfir áströlskum fótbolta eða þá að hann dró mig á barinn til að horfa á krikket eða rugby og útskýrði reglurnar þolinmóður fyrir mér. 

Þetta þótti mér samt engin ávísun á að maðurinn legði stund á íþróttir þó að hann hefði einhvern tíma minnst á að hafa æft ástralskan fótbolta á barnsaldri. Þess vegna kom það mér dálítið á óvart að með vorinu fór Jónas að mæta nánast daglega í ræktina. Hann sagðist vera að undirbúa sig fyrir fjallaklifur sumarsins. Í sömu andrá talaði hann um helgarferðir á brimbretti og svo ætlaði hann kannski á salsanámskeið með vinkonu sinni. Nú má alveg taka fram að Jónas kom oft litlu í verk af því sem hann ætlaði sér en áhuginn var engu að síður til staðar og það var kannski öðru fremur það sem kom okkur Íslendingunum á óvart, enda virkaði hann ekki sem “þessi íþróttatýpa”. 

Ég smitaðist af öllu íþróttafjörinu og var allt í einu komin bæði á skvass- og júdónámskeið. Ég hafði reyndar gert tvær tilraunir til að byrja að æfa júdó hér heima en gafst fljótlega upp. Í Ástralíu var sagan önnur. Síðustu vikurnar áður en ég hélt heim á leið mætti ég á júdóæfingar allt að fjórum sinnum í viku milli þess sem ég reyndi fyrir mér í skvassi og spilaði fótbolta með vinunum. Júdóæfingarnar voru skemmtilegar og gengu fyrst og fremst út á að læra júdó. Keppnisfólk gat farið á sérstakar þrekæfingar ef þeim sýndist svo. 

Tillit var tekið til byrjenda og við fengum oft að æfa með þeim sem voru lengra komin til að læra meira. Ég hugsaði með hryllingi til júdóæfingar hér heima fyrir nokkrum árum þar sem ég lá máttlaus undir manni sem var 30 kg þyngri en ég og byrjandi líka. Staðreyndin er sú í svona íþróttum að byrjendur slasa hver annan. Lengra komnir slasa mann ekki. 

Þetta fékk mig til að velta aðeins fyrir mér íþróttamenningu hér heima fyrir. Fyrrnefndur gestur frá Íslandi tók ungur ákvörðun um að íþróttir væru ekki töff. Hann hafði mætt á sína fyrstu fótboltaæfingu níu ára en þótti ekki meistaraflokksefni, var því settur í c-lið og fékk ekki að koma með á fótboltamót í Eyjum. Núna, næstum 20 árum síðar, er hann nýfarinn að prófa fótbolta aftur og finnst bara furðugaman. 

Fyrir nokkrum árum var reynt að fylgja þeirri stefnu að börn yngri en níu ára væru ekki í sérstökum íþróttagreinum heldur í íþróttaskóla þar sem þau prófuðu sem flestar íþróttir. Nokkur félög neituðu að taka þátt í þessu og íþróttaskólahugmyndin leið smám saman undir lok enda sumir foreldrar farnir að keyra börn sín milli bæjarhluta eða í önnur bæjarfélög svo þau gætu æft fótbolta eða handbolta frá 6 ára aldri. 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar í íþróttum barna og unglinga síðustu ár og fleiri félög eru farin að reka yngriflokka starfsemi sína með leik og skemmtun í fyrirrúmi en ekki stöðuga keppni við að búa til afrekslið fyrir framtíðina. Yngriflokkarnir í hópíþróttum æfa eftir sem áður 2var-3var í viku og fjölgar með aldrinum upp í fjórar og jafnvel fimm æfingar. (Litlir strákar æfa enn í sumum félögum oftar en jafnaldra vinkonur þeirra. Kannski þeir borgi hærri æfingagjöld?) 

Þessi mikla áhersla á eina íþrótt getur varla verið góð til að virkja áhuga barna á íþróttum og heilsusamlegri hreyfingu. Er ekki undarlegt að barn sem byrjar í nýrri íþrótt tíu ára gamalt sé þá þegar svo langt á eftir jafnöldrum sínum í getu að það fái kannski aldrei almennilega að reyna fyrir sér? Bestu leikmennirnir sitja svo jafnvel uppi með álagsmeiðsl á unglingsárunum og þá verður lítið úr framanum sem hófst með svo dramatískum hætti í 6 ára bekk. 

Íþróttir þurfa nefnilega að vera skemmtilegar og opnar fyrir byrjendum til að börn jafnt sem fullorðnir endist í þeim. Persónulega finnst mér bæði gaman í júdó og í fótbolta. Það finnst hins vegar ekki það fótboltalið á höfuðborgarsvæðinu sem æfir sjaldnar en fjórum sinnum í viku og svo fer fimmti dagurinn í leik yfir leiktímabilið. Æfði ég fótbolta væri því lítið pláss fyrir önnur áhugamál. Hvað júdó varðar hafa vondar minningar frá fyrstu tilraunum mínum haldið aftur af mér hér heima fyrir enda langar mig að æfa júdó til að læra meira í íþróttinni en ekki til að vera á stöðugum þrekæfingum sem skila mér orkulausri heim en kannski engu nær um íþróttina sjálfa. 

Þótt það geti reynst erfitt að alhæfa um muninn á Ástralíu og Íslandi út frá fáum dæmum þá þykist ég samt viss um að munurin á íþróttamenningu í þessum tveimur löndum er mjög mikill. Í Ástralíu er nefnilega eðlilegt að alls konar fólk stundi íþróttir en ekki bara “þessar íþróttatýpur”. Fólk sem ekki virtist efni í afreksíþróttamenn á barnsaldri hefur þá val um fleira en líkamsrætkarstöðvar og sundlaugar.

Það er allri þjóðinni til góðs að reyna að þróa betri íþróttamenningu þar sem afreksfólk í íþróttum getur æft sem slíkt en áhugafólk fær að vera áhugafólk. Íþróttir fyrir alla!

15.05.2009

Grein um heilbrigðismál
Birtist í Morgunblaðinu eftir nokkra bið 15. maí 2009

Af hverju ekki?

Af hverju ekki? Af hverju ættum við ekki að geta gert hlutina öðruvísi? Þessum spurningum varpaði Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi landlæknir, fram við lok opins vinnudags sem heilbrigðisráðherra, í samstarfi við fag- og stéttarfélög, efndi til þann 7. apríl sl. Líflegar umræður spunnust um þær áskoranir sem heilbrigðisþjónustan stendur frammi fyrir á tímum efnahagsþrenginga og tekið var á ólíkum hliðum í fjórum málstofum þar sem var rætt um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu, samráð við ákvarðanatöku, samspil hins andlega og hins líkamlega og um heilbrigðisþjónustu á krepputímum.

Í kringum 150 manns lánuðu vinnudeginum krafta sína og hugmyndaflug og úr varð mikill hugmyndabanki sem nýtist til áframhaldandi vinnu. Meðal þess sem lagt var til var að efla grunnþjónustu til muna; auka heimahjúkrun og heimaþjónustu; sameina heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið til að tryggja sem besta og skilvirkasta þjónustu; innleiða rafræna sjúkraskrá til að auðvelda alla vinnu og spara fé; endurskoða launakerfi heilbrigðisstarfsfólks og efla samráð við allar ákvarðanir.

Kærkomið samráð

Það skemmtilegasta við vinnudaginn var að kalla saman fólk frá ólíkum stofnunum og í ólíkum stöðum innan heilbrigðisþjónustunnar og fá það til að móta tillögur í sameiningu. Stundum virðast nefnilega múrar milli stétta innan heilbrigðisþjónustunnar vera háir og einn málstofuhópanna lagði t.a.m. áherslu á að rífa þyrfti þessa múra niður. Á vinnudeginum var hins vegar ekki hægt að merkja hópaskiptingu heldur var samhugur í fólki um að takast á við breyttan veruleika með hag heilbrigðisþjónustunnar – og þannig allra íbúa Íslands – að leiðarljósi.

Þá kom skýrt fram að samráð væri mjög kærkomið en mörgum þótti tíminn á vinnudeginum knappur. Það er því ljóst að heilbrigðisstarfsfólk er fúst til að leggja sín lóð á vogarskálarnar í þeim erfiðu verkefnum sem framundan eru. Gerum þetta saman. Af hverju ekki?