29.04.2009

Grein að loknum Alþingiskosningum
Birtist á Smugunni 29. apríl 2009

Staksteinar og Vinstri græn

Ef Staksteinahöfundur Morgunblaðsins væri ein manneskja væri mikil ástæða til að hafa áhyggjur af viðkomandi. Ekki aðeins vegna þess hversu klofin og tvístígandi hún hlyti að vera í hinum ýmsustu málum heldur líka vegna mikillar þráhyggju út í Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Þráhyggju sem kom m.a. fram í því að vikuna fyrir kosningar fjölluðu Staksteinar um Vinstri græn í fimm af sjö skiptum. Á sjálfan kjördag helguðu Staksteinar málflutning sinn jafnframt Vinstri grænum og í fyrstu Staksteinum eftir að úrslit kosninganna urðu ljós, þ.e. í dag mánudaginn 27. apríl, um hvað er þá fjallað? Jú, VG.

Óttaáróður og innantóm loforð

Staksteinahöfundur dagsins hefur miklar áhyggjur af því að Vinstri græn glutri niður tækifærinu til stjóranarmyndunar og telur VG almennt alltaf klúðra lokaspretti kosningabaráttu. Þetta er áhugaverð söguskýring í ljósi þess að í síðustu tveimur þingkosningum hafa Vinstri græn unnið stórsigur. Staksteinar hefðu hins vegar gjarnan viljað stærri sigur. Leitt að kjósendur hafi brugðist þeim vonum.

En klúðruðu Vinstri græn kosningabaráttunni?

Kannski má líta svo á. Vinstri græn ráku nefnilega kosningabaráttu á eigin verðleikum en ekki með óttaáróðri eða útúrsnúningum á málflutningi annarra. Vinstri græn spörkuðu ekki í samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn og létu líka vera að sparka í liggjandi Sjálfstæðisflokkinn. Að sama skapi gáfu Vinstri græn ekki innantóm og óraunhæf kosningaloforð um niðurfellingu skulda, ný álver eða engar skattahækkanir. Þannig ráku Vinstri græn heiðarlega kosningabaráttu og létu verkin tala. Vinstri græn hafa sýnt að hægt er að vera stjórnmálaafl án þess að vera peningamaskína. Og það var líka hægt í „því umhverfi sem þá var” eins og þingmenn og talsmenn flokka hafa orðað það, inntir eftir því hvers vegna tekið var við himinháum styrkjum vegna prófkjörs- eða kosningabaráttu.

Sumum finnst kannski að Vinstri græn hefðu átt að beita klækjum og spila inn á ótta fólks. Mér finnst það ekki.

Sígandi lukka er best

Annars eru áhyggjur Staksteinahöfundar af því að VG verði ekki í ríkisstjórn einkar áhugaverðar miðað við tóninn sem var í Staksteinum fyrir kosningar. Af þeim mátti ekki ráða að höfundi þætti sérstaklega eftirsóknarvert að fá VG í ríkisstjórn. En þessi klofni tónn er orðinn alvanalegur í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins og þess vegna er gott til þess að vita að það er ekki bara einn maður sem heldur á ritstjórnarpennanum.

Staksteinahöfundar ættu að geta sofið rólegir, minnugir þess að sígandi lukka er best. Og Vinstri græn eru bara rétt að byrja.

19.04.2009

Grein um vændislöggjöf
Birtist á Smugunni 19. apríl 2009

Tíu ára barátta að baki

Alþingi samþykkti á sínum síðasta starfsdegi í bili, þann 17. apríl 2009, frumvarp um að kaup á vændi skuli vera refsiverð. Þetta er stór áfangi í kvenréttindabaráttu á Íslandi, sem og almennri baráttu fyrir mannréttindum. Lög þessi urðu ekki til í tómarúmi á síðustu dögum Alþingis þetta vorið heldur er um afrakstur tíu ára baráttu að ræða.

Árið 1999 settu Svíar, fyrstir ríkja, vændislög þar sem kaupandinn er dreginn til ábyrgðar. Hér á Íslandi giltu á þeim tíma mjög undarleg lög um vændi þar sem refsivert var að stunda vændi sér til framfærslu. Sektin lá því hjá vændiskonunni eða -karlinum en kaupandinn var í fullum rétti. Hvergi var að finna skilgreiningu á hversu miklar tekjur manneskja mætti hafa af því að selja aðgang að líkama sínum til að það gæti kallast „til framfærslu”. Kvennahreyfingin barðist mjög fyrir breytingu á vændislöggjöfinni og byggði röksemdir sínar á þeim ótal skýrslum sem fyrir liggja um nöturlegan veruleika vændis. Ekki verður farið nánar út í þær hér.

Fyrst rætt árið 2001

Árið 2000 var í fyrsta sinn lagt fram frumvarp á Alþingi um hina svonefndu sænsku leið. Flutningsmenn voru tvær þingkonur Vinstri grænna, Kolbrún Halldórsdóttir og Þuríður Backman. Málið fékkst ekki rætt en var lagt fram aftur ári síðar og þá bættist Steingrímur J. Sigfússon í hóp flutningsmanna. Þá tókst að fá málið á dagskrá en þó með því samkomulagi að það yrði aðeins rætt í takmarkaðan tíma. Kolbrún flutti málið og auk hennar tóku til máls Þuríður Backman og svo Samfylkingarkonurnar Guðrún Ögmundsdóttir, Margrét Frímannsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Málið var sent til allsherjarnefndar en kom aldrei þaðan út.

Sagan endurtók sig árið eftir en vorið 2003 greip Kolbrún tækifærið þegar frumvarp um kynferðisbrot gegn börnum og mansal var til afgreiðslu á Alþingi og flutti breytingartillögu um sænsku leiðina. Aðeins níu þingmenn greiddu atkvæði með breytingartillögunni, þ.e. allir þingmenn Vinstri grænna, auk Guðjóns A. Kristjánssonar, Jóhönnu Sigurðardóttur og Sigríðar Jóhannesdóttur. Aðrir viðstaddir þingmenn Samfylkingar sátu hjá en Sjálfstæðisflokkur og Framsókn sögðu nei.

Þetta vor fóru fram þingkosningar og þegar nýtt þing kom saman haustið eftir aflaði Kolbrún víðtæks stuðnings við frumvarpið. Jónína Bjartmarz, þáverandi þingmaður Framsóknarflokks og varaformaður allsherjarnefndar, hvatti mjög til þess að allar konur á þingi sameinuðust um málið og úr varð að þingkonur allra flokka nema Sjálfstæðisflokks voru flutningsmenn.

Á þessum tíma var Halldór Blöndal forseti Alþingis. Málið rataði inn á dagskrá 30. október 2003 en var heldur aftarlega og ekki þóttu miklar líkur á því að umræða færi fram. Jóhanna Sigurðardóttir tók hins vegar, sem varaforseti þingsins, ákvörðun um að færa málið framar á dagskrá við litla hrifningu Sjálfstæðismanna.

Við þessa umræðu tjáðu þingkarlar sig í fyrsta skipti um málið, þ.e. þeir Ágúst Ólafur Ágústsson, Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson og Magnús Þór Hafsteinsson. Að sama skapi var þetta í fyrsta skipti sem stjórnarliðar tóku til máls um sænsku leiðina. Ásta Möller og Drífa Hjartardóttir voru einar Sjálfstæðismanna á mælendaskrá. Ásta var ósátt við að málið skyldi hafa verið tekið fram fyrir önnur dagskrármál þar sem hún hefði ekki haft færi á að kynna sér það og Drífa gerði athugasemdir við að hnýtt væri í Sjálfstæðiskonur fyrir að hafa ekki verið með á málinu.

Mikil þjóðfélagsumræða

Það er greinilegt af þingumræðunum að hin nýtútkomna mynd, Lilja 4ever, hafði mikil áhrif á viðhorf fólks til vændis og mansals. Vændisfrumvarpið hlaut að sama skapi mikla umræðu í þjóðfélaginu og má fræðast um hana í umfjöllun undirritaðrar sem birtist í Morgunblaðinu 23. nóvember 2003.

Margareta Winberg, þáverandi jafnréttisráðherra Svíþjóðar, kom til landsins í boði kvennahreyfingarinnar og lýsti málinu eins og það horfði við sænskum stjórnvöldum. Ungt fólk úr Sjálfstæðisflokknum brá þá á það ráð að bjóða mannfræðingnum Petru Östergren til landsins en hún hélt því fram að vændiskonur í Svíþjóð hefðu það verra eftir að ný vændislöggjöf tók gildi. Um röksemdir Östergren má lesa hér.

Auður Styrkársdóttir gagnrýndi þá umfjöllun sem koma Petru Östergren fékk og benti á að fullyrðingar sínar byggði Östergren á meistararitgerð, sem fjallaði raunar ekki um vændi heldur um sænska þjóðerniskennd.

Skömmu síðar stóðu fjórtán kvennasamtök að komu sænska lögreglumannsins, Thomasar Ekman, til landsins og hafði hann allt aðra sögu að segja en Östergren eins og lesa mátti um í umfjöllun Morgunblaðsins.

Umræðan var því lífleg en á Alþingi beið þung barátta. Málinu var vísað til allsherjarnefndar og þá þurfti að finna leið til að láta það ekki sofna þar.

Jónína Bjartmarz var sem fyrr segir varaformaður allsherjarnefndar og auk hennar áttu þrír stuðningsmenn frumvarpsins sæti í nefndinni. Vandinn var hins vegar sá að til að ná frumvarpinu út úr nefndinni þurfti meirihluti nefndarmanna að fallast á það, eða fimm af níu nefndarmönnum. Sjálfstæðismennirnir Bjarni Benediktsson, Birgir Ármannsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Arnbjörg Sveinsdóttir voru ekki líkleg til að leggja málinu lið en Sigurjón Örn Þórðarson, þingmaður Frjálslyndra, fékkst til að styðja málið, með fyrirvara þó en aldrei kom fram hver hann var.

Á þessum tíma var óvíst hvort þingmeirihluti væri fyrir málinu en kvennahreyfingin og þær þingkonur sem að frumvarpinu stóðu settu allt kapp á að málið yrði tekið á dagskrá þannig að hægt væri að greiða um það atkvæði. Þær vonir urðu að engu. Frumvarpið var aldrei tekið til annarrar umræðu.

Björn Bjarnason alltaf á móti

Vonbrigðin hafa verið töluverð því að ekki var lagt fram sérstakt frumvarp aftur fyrr en vorið 2007. Kolbrún Halldórsdóttir var þá eini flutningsmaður málsins og það var aldrei tekið á dagskrá. Þetta sama vor var kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga hins vegar breytt og bann við kaupum á vændi rataði inn í viðamikla breytingartillögu frá Ágústi Ólafi Ágústssyni, Björgvini G. Sigurðssyni, Guðrúnu Ögmundsdóttur og Kolbrúnu Halldórsdóttur.

Þá lá fyrir að meirihluti þingmanna myndi greiða atkvæði með því að kaup á vændi yrðu gerð refsiverð. Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, var hins vegar alltaf harður andstæðingur sænsku leiðarinnar og í loftinu lá að kannski yrði allt kynferðisbrotafrumvarpið fryst ef breytingartillagan yrði ekki borin til baka. Þetta setti baráttufólk fyrir bættri réttarstöðu þolenda kynferðisofbeldis í talsverðan vanda því að í frumvarpinu fólust miklar réttarbætur og hafði það verið ítarlega rætt á þingi. Hefði frumvarpið ekki orðið að lögum á þessum tíma hefði þurft að leggja það fram að nýju um haustið og þá fyrir nýtt þing, enda voru kosningar á næsta leiti.

Úr varð að flutningsmenn treystu sér ekki til að bera fram breytingartillöguna um sænsku leiðina og hún var því ekki tekin til atkvæða. Hins vegar voru greidd atkvæði um aðrar breytingartillögur og m.a. samþykkt að kynferðisbrot gegn börnum skyldu vera ófyrnanleg.

Með breytingum á kynferðisbrotakaflanum var ákvæðið um bann við að stunda vændi sér til framfærslu hins vegar numið úr gildi og hefur því verið haldið fram að þannig hafi vændi raunar verið lögleitt. Áfram var þó ólöglegt að gerast milliliður í vændissölu og að sama skapi voru innleiddar refsingar við því að auglýsa vændi opinberlega.

Mótrök hvergi reifuð

Kolbrún gafst ekki upp og haustið 2007 lagði hún frumvarpið enn einu sinni fram á Alþingi ásamt samflokksfólki sínu og þingmönnum bæði Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Málið var tekið á dagskrá í janúar 2008 en að Kolbrúnu undanskilinni tók aðeins Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, til máls. Að því er virðist var þetta eina skiptið sem Björn tjáði sig um sænsku leiðina í ræðu á Alþingi. Að sama skapi vekur athygli að hvergi er til þingskjal sem reifar rök gegn sænsku leiðinni. Einu mótrökin á vettvangi þingsins voru því í áðurnefndri ræðu Björns og svo frá Ástu Möller, bæði úr umræðunni árið 2003 og þegar málið var samþykkt á þingi föstudaginn 17. apríl 2009.

Aðgerðaáætlun gegn mansali

Eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við stjórnartaumunum voru mál er varða mansal flutt frá dómsmálaráðuneytinu og yfir í félagsmálaráðuneytið. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, skipaði hóp til að vinna aðgerðaáætlun gegn mansali. Innan þess starfshóps spratt umræða um hvort kveða ætti á um sænsku leiðina í aðgerðaáætluninni en ekki náðist um það sátt, einkum vegna þess að fulltrúar bæði dómsmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins í nefndinni lögðust gegn því. Þegar ríkisstjórnin sprakk og ný stjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs var mynduð kom hins vegar annað hljóð í strokkinn og 17. mars sl. kynnti félagsmálaráðherra nýja aðgerðaáætlun þar sem skýrt kom fram að kaup á vændi ættu að vera refsiverð.

Þá þegar hafði Atli Gíslason, þingmaður VG, lagt fram frumvarp þess efnis á Alþingi og var það í fyrsta sinn sem Kolbrún Halldórsdóttir var ekki flutningsmaður, enda hún komin á annan vettvang í embætti umhverfisráðherra.

Þeir sögðu nei

Eins og venjulega var á síðustu starfsdögum Alþingis mikið þrefað bak við tjöldin um hvaða mál ættu að komast í gegn og hvaða mál skyldu fá að daga uppi. Sjálfstæðisflokkurinn hafði þegar haldið úti miklu málþófi til að stöðva breytingar á stjórnarskránni og hefði varla viljað leggja í annan eins slag gegn vændisfrumvarpinu.

Samkomulag náðist um að taka vændisfrumvarpið til atkvæða og var það afgreitt með hraði út úr allsherjarnefnd. Frumvarpið var samþykkt með 27 atkvæðum þingmanna VG, Samfylkingar, Framsóknar og Frjálslyndra. Sjálfstæðismenn sátu hjá, að undanskildum þremur en það voru Björn Bjarnason, Jón Magnússon og Kjartan Ólafsson. Þeir sögðu nei. Enginn þeirra gaf skýringu á mótatkvæði sínu og aðeins einn þeirra, þ.e. Björn Bjarnason, hafði nokkru sinni tjáð sig um málið í þingsal.

Eftir tíu ára þrotlausa baráttu íslensku kvennahreyfingarinnar eru kaup á vændi loks orðin refsiverð. Næsta skref hlýtur að snúa að því að gera lögregluna færa um að fylgja þessum lögum eftir.

 

ES.
Eftir að greinin birtist bárust ábendingar um að í greinargerð með
kynferðisbrotafrumvarpinu frá árinu 2006 eru kostir og gallar sænsku
leiðarinnar reifaðir en niðurstaða frumvarpshöfundar, Ragnheiðar
Bragadóttur, var að ekki ætti að fara sænsku leiðina í bili. Eins og
áður segir var þá að líkindum meirihluti fyrir sænsku leiðinni í
þinginu en komið var í veg fyrir að þingmenn fengju að greiða atkvæði
um það.

17.04.2009

Hefur NATO tilgangi að gegna í framtíðinni?

Fundur hjá Varðbergi í tilefni af 60 ára afmæli NATO

Hótel Borg, 17. apríl

 

Ágæta samkoma,

Mig langar að byrja á að þakka fyrir að fá að taka þátt í þessum umræðum hér í kvöld og fyrir þetta ágæta framtak Varðbergs manna, ekki síst þar sem hin opna yfirskrift býður upp á að taka umræðuna um Atlantshafsbandalagið upp úr skotgröfum fyrri ára. Hér er nefnilega ekki hugað að því hvort bandalagið hafi haft tilgangi að gegna í fortíðinni, heldur er litið til framtíðar. Og staðreyndin er sú að framtíð NATO verður í höndum kynslóðar sem kynntist ekki kalda stríðinu. Ábyrg umræða um NATO og stöðu Íslands innan bandalagsins verður þess vegna að vera laus við kaldastríðs-óttaáróður. Það er í okkar höndum að sjá til þess.

En til að svara spurningunni þá langar mig að byrja á að vitna í orð framkvæmdastjóra NATO, Jaap de Hoop Scheffer, en í ræðu sem hann flutti í Brussel 22. mars sl. sagði hann NATO standa á krossgötum. 60 ára afmælið væri ekki bara veisla heldur kallaði það líka á umræður um framtíð bandalagsins. Og hana sagði hann velta á þremur lykilþáttum:

  • 1. Alþjóðlegri þróun öryggismála: Hvaða áskorunum stöndum við frammi fyrir?
  • 2. Sameiginlegum markmiðum aðildarlandanna, þ.e. hafa þau sama skilning á þeim ógnum sem að steðja og viðbrögðum við þeim? Og ef svo er hefur bandalagið pólitískan vilja til að grípa til mótaðgerða?
  • 3. NATO sem stofnun: Er bandalagið pólitískt og hernaðarlega fært um að takast á við þau verkefni sem af því er vænst?

Ef við byrjum á fyrsta atriðinu, þ.e. um alþjóðlega þróun öryggismála, þá hefur öryggishugtakið breyst mjög á síðustu áratugum og þá ekki síst eftir að kalda stríðinu lauk. Ég leyfi mér að vitna hér í inngang nýrrar áhættumatsskýrslu fyrir Ísland:

Skilningur á öryggi hefur tekið miklum breytingum á undanförnum tveimur áratugum. Í stað þess að miðast eingöngu við ríkisvaldið, hervarnir eða ógnir frá ríkjum eða ríkjabandalögum, eins og í kalda stríðinu, hefur öryggishugtakið verið víkkað út með það fyrir augum að ná yfir „nýjar ógnir” (new threats), þ.e. hnattræna (global) eða þverþjóðlega (transnational), samfélagslega og mannlega áhættuþætti (risks), eins og skipulagða glæpastarfsemi, hryðjuverk, efnahagskreppu, ólöglega fólksflutninga, mansal, matvælaöryggi, náttúruhamfarir, farsóttir, umhverfisslys og fjarskipta-, net- og orkuöryggi. Hefðbundin mörk milli innra og ytra öryggis ríkja hafa þannig orðið æ óljósari, enda ókleift að meta þverþjóðlegar hættur og bregðast við þeim með slíkri aðgreiningu. Loks hefur hugtakið mannöryggi (human security) rutt sér til rúms. Það vísar til öryggis einstaklinga fremur en ríkja, en deilt er um hvort það eigi einungis að ná yfir ofbeldi af pólitískum toga eða einnig að taka til efnahagslegra og félagslegra þátta. 

(Tilvitnun lýkur)

Veruleikinn er því talsvert breyttur frá kalda stríðinu þegar aðildarríki NATO áttu sinn sameiginlega óvin í austri. Þess vegna verður að svara þeirri spurningu hverjar séu ógnir samtímans og hvernig Atlantshafsbandalagið eigi að mæta þeim

Og það færir okkur að öðru atriðinu sem Scheffer nefnir, þ.e. sameiginlegum skilningi á ógnum.

Í áhugverðri grein sem birtist í The Economist 28. mars sl. er vakin athygli á tvenns konar klofningi innan Atlantshafsbandalagsins. Annars vegar milli þeirra sem vilja ráðast af fullum þunga gegn talíbönum og þeirra sem ekki vilja það. Hins vegar er klofningur milli þeirra sem sjá alþjóðlegt jihad sem mestu ógnina gagnvart NATO og hinna sem líta meira til Rússlands. Vart þarf að fjölyrða um að síðarnefnda hópnum tilheyra austantjaldslöndin fyrrum. Þaðan heyrast raddir um að aðild að NATO hafi verið hugsuð sem vörn gegn Rússum, ekki til að gerast þátttakendur í stríði gegn þrotríki fjarri heimahögum bandalagsins, eins og Afganistan.

Að þessu sögðu er ljóst að það verður ekki einfaldur vegur að halda úti sameiginlegum pólitískum og öryggisfræðilegum skilningi á því hvaða ógnir steðji eða geti steðjað að bandalagsríkjunum. Þó að áhrifamesta ríkið innan bandalagsins – Bandaríkin – hafi upplifað hryðjuverkaógnina með mjög afdrifaríkum hætti hafa íbúar annarra ríkja takmarkaðan skilning á að barátta gegn mögulegum hryðjuverkum fari fram í mörg þúsund kílómetra fjarlægð.

Þriðja grundvallaratriðið sem Scheffer nefnir snýr að því hvort bandalagið sé pólitískt og hernaðarlega fært um þau verkefni sem ætlast er til af því.

Tvíþætti klofningurinn sem ég nefndi áðan grefur vitaskuld undan innviðum bandalagsins  pólitískt. Hann hefur þó líka mikil áhrif hernaðarlega, enda hika mörg ríki við að taka frekari þátt í verkefnum Atlantshafsbandalagsins í Afganistan, ekki síst í suðurhlutanum þar sem stríðsástand ríkir – verkefnum sem af mörgum leiknum og lærðum eru álitin prófsteinn á getu bandalagsins. M.ö.o. þá getur stríðið í Afganistan haft úrslitaáhrif á framtíð Atlantshafsbandalagsins.

***

Á nýafstöðnum afmælisfundi NATO stóð til að ræða nýja stefnumörkun fyrir bandalagið, sambærilegt því sem var gert á 50 ára afmælinu árið 1999. Slík umræða fór hins vegar ekki fram. Stefnumörkunin er enn í vinnslu. Hvers vegna tekur slík vinna langan tíma? Jú, af því að bandalagið er í tilvistarkreppu og því hefur ekki tekist að skilgreina hlutverk sitt á nýjum tímum.

Hvað á að leggja áherslu á? Heimavarnir? Svonefndar aðgerðir utan unmráðasvæðis? Hvert er jafnvægið þar í milli? Er NATO í baráttu gegn hryðjuverkamönnum eða á það að sinna friðargæslu á Balkansskaganum? Eða eru sjóræningjar undan ströndum Sómalíu hið nýja verkefni NATO? Minntist einhver á Rússland?

Meðal 28 aðildarríkja NATO eru upp mjög mismunandi sjónarmið um hvert eigi að stefna og engin skýr sýn liggur fyrir.

Bandaríkjamenn og Bretar vilja að NATO verði hnattrænt bandalag, sem sinni verkefnum eins og í Afganistan og grípi inn annars staðar ef þörf krefur.

Þjóðverjar og Frakkar sjá fyrir sér alþjóðlegt bandalag en það eigi alls ekki að vera utanríkispólitískt tæki Bandaríkjastjórnar og heldur ekki boðberi lýðræðisvæðingar um allan heim, eins og Bandaríkin Georgs W. Bush töldu kjörið.

Austur-Evrópuríki á borð við Pólland og Eystrasaltsríkin leggja mun meiri áherslu á staðbundið hlutverk NATO og líta fyrst og fremst á það sem varnarbandalag gegn Rússum.

Norðmenn eru síðan t.a.m. einhvers staðar mitt á milli og vilja ekki gera Afganistan að höfuðmáli bandalagsins. Í áðurnefndri Economist-grein er haft eftir Espen Barth-Eide, aðstoðarvarnarmálaráðherra Noregs: „NATO kemur fyrir sjónir margra eins og bandalag sem tekur syni okkar og sendir þá til Afganistan.”

***

En fyrst að ný stefnumörkun var ekki rædd á afmælisfundinum hvað var þá rætt? Jú, umræðurnar snerust nánast eingöngu um stöðuna í Afganistan!

Og hvernig er staðan í Afganistan?

Til að byrja með er rétt að taka fram að frá því að átök brutust út í Afganistan fyrir þrjátíu árum síðan hefur landið verið einn allsherjar átakasuðupottur og árið 2001 þótti Afganistan einn versti staður heims til að búa á.

Hvorki kommúnistum né íslamistum tókst að byggja upp sterkt ríkisvald í landinu og nú glímir NATO við það verkefni án þess að hafa náð miklum árangri. Eins og kunnugt er ákváðu Bandaríkjamenn á sínum tíma að ráðast ekki inn í Afganistan í nafni NATO, þrátt fyrir að 5. grein Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt ríki jafngildi árás á þau öll hefði verið virkjuð í fyrsta sinn, heldur á eigin vegum. NATO tók síðan við verkefninu, sem ýmist hefur verið kennt við stríð eða friðaruppbyggingu, árið 2003. Á fyrstu árum eftir innrás Bandaríkjanna var markmiðið að „vinna stríðið” en fljótlega var byrjað að tala um að „hafa hemil á aðstæðum” og nú virðist strategían ein vera að „halda í horfinu”. 

Vandinn er sá að innan aðildarríkja NATO eru mjög skiptar skoðanir á stríðinu í Afganistan. Flest aðildarríki eru með sérstakar reglur um hvað þau mega gera og hvað ekki í landinu. Þjóðverjar vilja t.d. ekki tefla sínum mönnum í tvísýnu og mörg ríki útiloka að stíga fæti niður í suðurhluta landsins, þar sem ástandið er verst .

Ríkisvaldið er ennþá mjög veikt, yfirsýnin er lítil. Samskipti hinna erlendu herja við afganskt samfélag eru mjög takmörkuð og aðgerðirnar snúast að mestu leyti um að vernda hermenn NATO.  

Stríðið í Afganistan er raunar að þróast aftur í að vera bandarísk aðgerð. Bandaríkjamenn hafa fjölgað meira í herliði sínu innan landsins en aðrar þjóðir og höfðu ekki erindi sem erfiði á afmælisfundinum þegar þeir þrýstu á að fleiri ríki sendu hermenn til Afganistan. Aðeins níu ríki urðu við þeirri bón, en fæst með langtímaskuldbindingu í huga, eins og Bandaríkjamenn hefðu helst viljað.

***

Í stuttu máli má segja að atriðin þrjú sem Jaap Hoop de Scheffer nefndi sem lykilatriði er varða framtíð bandalagsins veki miklu fleiri spurningar en svör. NATO er í tilvistarkreppu.  Engin skýr framtíðarstefna hefur verið mótuð og ef Afganistan verður áfram þungamiðjan í aðgerðum bandalagsins má búast við vaxandi klofningi.  

Til þess ber að líta að NATO er bæði hernaðarbandalag og pólitískt bandalag.

Sem pólitískt bandalag á NATO sér ýmsar jákvæðar hliðar. Bandalagið hefur ekki fallið í þá gryfju Evrópusambandsins að reyna að verða einhvers konar yfirþjóðlegt vald. Þvert á móti þá ákveða aðildarríki NATO alltaf hvað þau leggja fram og hvar þeirra áherslur liggja. Að vísu getur komið þrýstingur frá bandalaginu og öðrum ríkjum ef eitt ríki leggur ekkert fram. En tilvist hins pólitíska bandalagsins í Evrópu, ESB, setur NATO í talsverða klemmu, ekki síst í ljósi þess að Evrópusambandið er að reyna að þróa sína eigin öryggis- og varnarmálastefnu. Vissulega gætir vaxandi skilnings á því að NATO og ESB eigi ekki að vera í samkeppni á sviði öryggismála, enda eiga flest þátttökuríkin aðild að báðum stofnunum.  En í framkvæmd hefur samstarf þeirra verið erfitt vegna annarra mála, eins og samskipta Tyrklands og Evrópusambandsins eða Kýpur og Tyrklands. 

Þær vár sem steðja að aðildarríkjum NATO  eru að litlum hluta hernaðarlegs eðlis.  Vissulega má nefna hryðjuverkahættu, enda þótt hún snerti alls ekki allar bandalagsþjóðirnar með sama hætti.  Aðrar hættur  á borð við náttúruhamfarir, umhverfisslys og farsóttir, svo ég tali nú ekki um efnahagskreppu, vega nú mun þyngra en hernaðarlegir þættir. Hernaðaruppbygging og vígbúnaðarkapphlaup hjálpa því lítið í baráttu gegn því sem nefnt hefur verið „nýjar ógnir”.

Þar að auki hefur hernaðarstarfsemi ýmsan fórnarkostnað í för með sér. Í fyrsta lagi má auðvitað nefna alla þá fjármuni sem í hernað fara og væri svo miklu betur varið til skynsamlegri verkefna. En samfélagslegi fórnarkostnaðurinn er líka mikill.

Tökum dæmi: Þó að herskylda sé smám saman að leggjast af í vestrænum ríkjum þá er hún engu að síður enn til staðar og þurfum við ekki að líta lengra en til Norðurlandanna. Herskylda gengur á skjön við allar hugmyndir um frelsi einstaklingsins og kemur í veg fyrir að viðkomandi karlar, því þetta eru oftast ungir karlar, geti þroskað og nýtt sína eigin hæfileika.

Síðan er það svo að herir byggja á mjög andlýðræðislegum hugmyndum. Þeir byggja á stigskiptingu valds, eða hírarkíi, þar sem ungir menn læra að taka við skipunum að ofan, án þess að spyrja. Til þess þarf að skapa menningu þar sem stríð er siðferðilega leyfilegt og beiting ofbeldis talin lögmæt og jafnvel nauðsynleg. Vandinn er svo auðvitað að skilgreina hvenær má beita ofbeldi og umfram allt, hver á að hafa það skilgreiningavald.

Þá komum við að kynjuninni. Karlar eru 97-98% allra hermanna og hlutfallið fer nær 100% þegar kemur að bardagasveitum. Að sama skapi eru það að langmestu leyti karlar sem taka ákvarðanir um að fara í stríð og um alla hernaðaruppbyggingu. Það voru líka karlar sem stofnuðu NATO og karlar sem ákváðu að Ísland ætti að gerast aðili að NATO.

(sjá til hvort ég kasti hér upp mynd af öryggisráðinu)

Ég ætla að hlífa ykkur við frekari útlistunum á ólíkum áhrifum stríðs og hernaðar á líf  kvenna og karla, enda þekkja eflaust allir slíkar upplýsingar.

Nú veit ég að margir hér inni titra í hjartanu yfir að ég blandi kynjasjónarmiðum inn í umræðu um Atlantshafsbandalagið. Allt í lagi, leyfið tilfinningunum endilega að koma og spyrjið að vild á eftir.

Staðreyndin er hins vegar sú að stríð, hernaður og hernaðaruppbygging eru með kynjaðri fyrirbærum. Kynhlutverkin eru alveg fastmótuð og fyrir þá sem efast um annað þá er rétt að ég taki fram að bæði kynin tapa á því. Karlar græða ekki á harkalegri félagsmótun sem leyfir blóð og svita, en engin tár. Félagsmótun sem kennir þeim að beita ofbeldi.

Konur græða ekki á kynmótun sem skilur þær eftir valdalausar yfir eigin líkama, örlögum og lífi.

Það er ekki gaman að verða fyrir ofbeldi en það er heldur ekki gaman að beita því.

Og þessi félagsmótun á ekki aðeins við á stríðstímum. Hún þarf líka að eiga sér stað á friðartímum – til að hægt sé að sé að halda hernaðarhugmyndafræðinni gangandi.

Í stuttu máli: Hugmyndin um að hernaðarbandalag tryggi öryggi einstaklinga hefur verið alltof lífsseig miðað við hversu lítill fótur er fyrir henni.

***

Það er auðvelt að búa til stofnun en það getur verið erfiðara að fella hana niður. Allt frá því að kalda stríðinu lauk hefur NATO reynt að finna sér tilvistargrundvöll. Sú leit hefur takmörkuðum árangri skilað, að undanskildu því flókna og erfiða verkefni sem fann NATO eftir innrásina í Afganistan. Verkefni sem er þegar orðið eins og sagan endalausa og stuðningur við það er takmarkaður í aðildarríkjunum.

Bandalagið getur haldið áfram í tilvistarleit sinni og kannski gæti hún heppnast að einhverju leyti. Kannski getur NATO farið fremst í flokki í baráttu fyrir afvopnun í heiminum. Kannski væri hægt að reyna að fá Rússa til að ganga í NATO og frelsa þannig fjölmörg Evrópuríki undan rökstuddum og órökstuddum ótta. Kannski getur NATO tekið að sér baráttu gegn sjóræningjum, hvort sem er við strendur Sómalíu eða annars staðar og kannski getur NATO aðstoðað Sameinuðu þjóðirnar í stríðshrjáðum löndum.

Kannski.

En kannski ekki.

***

Vitanlega er það svo að trúi menn á hernaðarhugmyndafræði, sem aldrei hefur reynst til góðs, þá getur verið snjallt að halda úti bandalagi eins og NATO. Þá er hægt að nota fín orð eins og samlegðaráhrif og um leið getur bandalagið verið vettvangur fyrir leiðtogafundi og veislur þar sem pólitískar umræður um allt aðra hluti fara fram. En það er mjög útbreiddur misskilingur að halda því fram að öll aðildarríki NATO standi frammi fyrir sömu hættum. Tilmælum um hollustu í nafni sameiginlegrar óvinaímyndar ber því að taka með miklum fyrirvara. 

Er því ekki snjallara að nýta annan vettvang í pólitískar umræður? Vettvang þar sem leiðtogar gætu farið vel með þá miklu ábyrgð sem þeim er falin – að tryggja öryggi fólks.

Stofnanir vilja yfirleitt viðhalda sér og geta gengið langt í að réttlæta tilvist sína. Enn vandast málið þar sem að í þessu tilviki er um vígbúna stofnun er að ræða. Áframhaldandi tilraunir til að finna nýjan grundvöll fyrir starfi Atlantshafbandalagsins taka athyglina frá margfalt mikilvægara verkefni – að bregðast við öryggisógnum samtímans.

Öryggi okkar er ekki tryggt með hernaðarbandalagi í tilvistarkreppu.

11.04.2009

Grein um heilbrigðismál
Birtist í Fréttablaðinu 11. apríl 2009

Heilbrigðisþjónusta á tímamótum

Grunnheilbrigðisþjónustu verður að efla og niðurskurðaraðgerðir í velferðarkerfinu þurfa að byggja á heildarsýn þannig að sparnaður á einum stað leiði ekki til kostnaðar á öðrum stað. Þetta er meðal þess sem fram kom á opnum vinnudegi með starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar sem heilbrigðisráðherra, í samstarfi við fag- og stéttarfélög, efndi til þann 7. apríl. Líflegar umræður sköpuðust á fundinum og í fjórum málstofum sem boðið var upp á þar sem var rætt um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu, samráð við ákvarðanatöku, samspil hins andlega og hins líkamlega og þær áskoranir sem heilbrigðisþjónusta stendur frammi fyrir á krepputímum.

Þátttaka í vinnudeginum fór fram úr björtustu vonum og a.m.k.150 manns mættu á staðinn. Mikil ánægja var með aukið samráð og jafnframt kom fram að heilbrigðisyfirvöld yrðu að standa sig betur í því að kalla „fólkið á gólfinu” til skrafs og ráðagerða. Eftir þessar góðu viðtökur og ábyrgu umræður er ekki annað hægt en að taka undir það.

Burt með girðingar

Allir einstaklingar eru á einhverjum tímapunkti ævi sinnar háðir heilbrigðisþjónustunni og umræður á fundinum einkenndust öðru fremur af mikilli virðingu fyrir þessu mikilvæga hlutverki. Meðal þess sem lagt var til var að auka heimahjúkrun og heimaþjónustu; sameina heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið til að tryggja sem besta og skilvirkasta þjónustu; innleiða rafræna sjúkraskrá til að auðvelda alla vinnu og spara fé; endurskoða launakerfi heilbrigðisstarfsfólks; efla samráð við allar ákvarðanir og rífa niður girðingar milli fagstétta.

Hugmyndirnar nýtast allar vel til þeirrar vinnu sem framundan er í heilbrigðiskerfinu. En betur má ef duga skal. Flestir fundargestir virtust sammála um að meiri tíma þyrfti til að móta framtíðartillögur og heilbrigðisstarfsfólk er fúst til að leggja sín lóð á vogarskálarnar í þeim erfiðu verkefnum sem framundan eru. Aukið samráð er það sem koma skal – heilbrigðisþjónustunni og Íslendingum öllum til heilla.

Halla Gunnarsdóttir
Aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra

09.04.2009

Grein um heilbrigðismál
Birtist í Bæjarins besta 8. apríl 2009
Tálknfirðingur verður Íslendingur

Nýverið átti ég samtal við Akureyring sem í ónefndu samhengi minntist nokkrum sinnum á hagsmuni landsbyggðarinnar. Í framhaldinu fór ég að velta fyrir mér þessari hugmynd um landsbyggðina sem eina heild en henni er oft stillt upp andspænis höfuðborgarsvæðinu. Sjálf er ég alin upp í Mosfellsbæ og bý í Reykjavík en kynni mig aldrei sem Mosfelling eða Reykvíking. Tvisvar sinnum hef ég tekið mitt hafurtask og flutt út á land, nánar tiltekið austur á firði, og í bæði skiptin kom það mér á óvart þegar ég flutti suður aftur að hægt væri að tala um Austfirðinga sem einn hóp. Á heimaslóðum var rígurinn slíkur milli bæja að erfitt var að ímynda sér að íbúar gætu nokkurn tímann komið sér saman um eitthvert mál. En einhvern veginn er það þannig að þegar samhengið verður stærra verður samstaðan meiri. Þannig verða Tálknfirðingar Vestfirðingar, Vestfirðingar landsbyggðarfólk og landsbyggðarfólk Íslendingar, allt eftir samhengi.

Þetta kom mér í huga þegar ég fetaði mig inn í frumskóg heilbrigðisþjónustunnar fyrir rúmum tveimur mánuðum en þar er hópaskiptingin er mikil. Annars vegar er skipting milli stofnana og þ.a.l. svæða en hins vegar milli fagstétta, sem eiga það til að hnýta hverjar í aðra. Að sjálfsögðu er smá rígur bara hressandi en hann getur orðið heftandi og staðið í vegi fyrir bestu málum.

Aldrei hefur samstaða innan heilbrigðiskerfisins verið mikilvægari en einmitt nú, þegar skórinn kreppir að. Niðurskurðurinn hefur eðli málsins samkvæmt verið sársaukafullur og forstöðumenn stofnana og starfsfólk hafa sýnt ótrúlegt þrek við erfiðari aðstæður.

Velferðarmál eru atvinnumál

Reynsla annarra landa sýnir að á krepputímum á velferðarþjónusta oft mjög undir högg að sækja. Stjórnvöld þurfa að senda skýr skilaboð og það getur varla talist skynsamlegt að standa að niðurskurði sem leiðir til fjöldauppsagna á einum stað en ráðast á sama tíma í stór atvinnuátaksverkefni á öðrum stað. Eitt stærsta atvinnumálið er því að standa vörð um störf á vegum hins opinbera og þar vegur heilbrigðiskerfið þungt.

Með vel ígrunduðum ákvörðun, sem taka mið af reynslu og þekkingu þeirra sem starfa á hverju svæði fyrir sig, má koma í veg fyrir að unninn verði óafturkræfur skaði á heilbrigðisþjónustunni. Til þess þarf samstöðu, bæði innan heilbrigðisþjónustunnar og utan. Leggjum hópaskiptinguna til hliðar og sameinumst í varðstöðu um íslenskt velferðarkerfi. Það margborgar sig til lengri tíma litið.

Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra

08.04.2009

Grein um heilbrigðismál
Birtist í Sunnlenska 8. apríl 2009

Lítum orðlaus um öxl

Að loknum fundi Ögmundar Jónassonar, heilbrigðisráðherra, með starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Suðurlands um breytingar á áformuðum niðurskurði þann 24. mars sl. sagðist einn starfsmanna stofnunarinnar vera orðlaus. Ljóst var orðið að ekki þyrfti að skerða fæðingar- og skurðþjónustu á svæðinu en sérstakri nefnd hafði verið falið að fara yfir hvernig stofnunin gæti haldið sig innan fjárlagaramma án þess að þurfa að draga úr þessari þjónustu. Þennan sama dag skilaði Samband sunnlenskra kvenna 4.297 undirskriftum þar sem skorað var á heilbrigðisráðherra að falla frá áformum um lokun skurðstofunnar.

Orðleysi starfsmannsins var til komið vegna þess að í árafjöld hafði viðkomandi barist fyrir hag sinnar stofnunnar en ósköp sjaldan upplifað að baráttan breytti nokkru um.

Í þetta skiptið skilaði baráttan hins vegar árangri.

Sunnlendingar eiga sannarlega hrós skilið fyrir þá mikla elju sem þeir sýndu til að standa vörð heilbrigðisstofnunina og að sama skapi færði starfsfólkið miklar fórnir til að unnt væri að komast hjá skerðingu þjónustu á staðnum. Það væri óskandi að geta sagt að baráttunni væri lokið en svo er því miður að öllum líkindum ekki. Framundan er mikil varnarbarátta fyrir velferðarkerfið í heild sinni en dæmin frá öðrum löndum sýna að þegar skórinn kreppir að er fljótt farið að saxa á grunnstoðir velferðarþjónustunnar. Slíkar aðgerðir geta valdið óbætanlegum skaða og orðið til þess að afleiðingar kreppunnar verða langvinnari og dýrari.

Velferðarmál eru atvinnumál

Atvinnuleysi getur haft slæm áhrif á heilsufar og það skyti skökku við ef stjórnvöld myndu á einum stað skera niður þannig að til fjölda uppsagna kæmi en á öðrum stað leggjast í stór og viðamikil atvinnusköpunarverkefni. Velferðarmál eru þannig um leið atvinnumál og atvinnumál eru velferðarmál.

Til að árangur náist í varnarbaráttunni fyrir heilbrigðisþjónustuna þarf samstöðu, jafnt innan kerfis sem utan. Aðhaldsaðgerðir eru vissulega óhjákvæmilegar á tímum sem þessum og sums staðar geta þær verið sársaukafullar. Ákvarðanir verða hins vegar að taka mið af reynslu þeirra sem á starfa á hverju svæði fyrir sig.

Samstaða í baráttunni

Ábyrg samstaða á borð við þá sem starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og íbúar á svæðinu sýndu í verki á síðustu mánuðum er fyrirmyndin þegar kemur að þeirri baráttu sem framundan er. Stöndum vörð um heilbrigðisþjónustuna. Þá getum við litið orðlaus um öxl seinna meir.

Höfundur er aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra

08.04.2009

Grein í aðdraganda Alþingiskosninga
Birtist í Mosfellingi 8. apríl 2009

Íslandsmeistarinn og skólaskákmeistarinn

Nýverið átti ég leið framhjá Varmárskóla og eins og stundum vill verða helltust minningarnar yfir mig. Samferðamaður minn átti sér eflaust einskis ills von en þurfti að hlusta á misskemmtilegar sögur frá æskuárunum og öllusem þeim fylgdi. Eftir ágæta munnræpu áttaði ég mig á því að líklega hefði ég vel getað kallast tómstundatröll. Ég þurfti að vera alls staðar og mátti ekki missa af neinu. Ég var í kór, lúðrasveit, leiklist, skátunum og skák og prófaði allar mögulegar íþróttir, þó að áhuginn hafi oft verið meiri en hæfileikarnir. Það segir sína sögu að miðað við tómstundaæðið á ég afskaplega fáa verðlaunapeninga og gullpeningana get ég talið á fingrum annarrar handar. Á fimmtán ára fótboltaferli var stærsti titillinn sigur á Pæjumótinu í Eyjum og líklega myndu fáir telja það til merkisafreka að hafa orðið Varmárvisionmeistari.

Ég verð hins vegar að viðurkenna að sé skák til umræðu þá á ég það stundum til að monta mig af því að hafa orðið skólaskákmeistari Varmárskóla árið 1992. Ákveðið hafði verið að veita sérverðlaun í stúlknaflokki en ég og stórvinkona mín, Auður Alfífa Ketilsdóttir, mættum bara tvær stúlkna til leiks. Drengirnir voru margfalt fleiri. Ég vann Fífu, en bætti svo um betur og með lagni og eflaust smá heppni sigraði ég allt mótið.

Eitthvað steig velgengnin mér til höfuðs því að í framhaldinu ákvað ég að skrá mig til þátttöku á Íslandsmeistaramóti kvenna í skák. Rostinn í mér lækkaði þó fljótt og þegar ég mætti sjálfum Íslandsmeistaranum horfði ég feimin niður á taflborðið. Íslandsmeistari þessi tók skákinni með ró; lék einn leik og náði sér svo í kaffi. Fyrir vikið varð ég hin stressaðasta og tók langan tíma í að velta fyrir mér hvernig ég ætti að svara upphafsleiknum. Langur umþóttunartími minn gerði hins vegar fátt annað en að auka á kaffidrykkju Íslandsmeistarans, og ég tapaði skákinni, eins og reyndar öllum öðrum skákum á mótinu.

Það var því fremur lágt á mér risið á verðlaunaafhendingunni. Íslandsmeistarinn varði sinn titil og eftir að hafa tekið við hamingjuóskum vatt sjálf hetjan sér að mér og ræddi við mig um skáklistina. Á örskotsstundu tókst þessari viðkunnanlegu konu að hvetja barnið mig svo mjög áfram að ég gekk vígreif út, sannfærð um að einn daginn yrði ég Íslandsmeistari í skák, ef ég bara myndi æfa mig nóg.

Sá dagur er reyndar enn ekki upprunninn. En ég hélt áfram að tefla og hef alltaf verið þakklát Íslandsmeistaranum þáverandi, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, fyrir þessa miklu hvatningu. Síðan þá hef ég haft tækifæri til að kynnast henni persónulega og þó að hin barnslega lotning sem varð til á mótinu um árið hafi vikið þá hefur aðdáun mín á Guðfríði Lilju sannarlega ekki minnkað. Hún gengur til verks af heilum hug og sé einhver að láta deigan síga, eins og ég um árið, getur hún með sinni ríku hvatningu fengið hjólin til að snúast að nýju. Mosfellingar fá tækifæri þann 25. apríl nk. til að kjósa Guðfríði Lilju til starfa á Alþingi og geta verið stoltir af því að fá hana sem þingmann kjördæmisins.

Sjálf neyðist ég líklega til að fara að æfa mig í skák, ef ég ætla einhvern tímann að fá nýjan gullpening.

08.04.2009

Grein um heilbrigðismál
Birtist í Austurglugganum 8. apríl 2009

Heilbrigðismál eru atvinnumál

Íbúar Austurlands hafa eins og aðrir Íslendingar fundið áþreifanlega fyrir niðurskurði í heilbrigðiskerfinu. Það segir sig sjálft að þegar útgjöld til heilbrigðisþjónustu eru 6,7 milljörðum króna lægri en áætlað var þá er það ekki sársaukalaust, sérstaklega í ljósi þess að stofnanir heilbrigðisþjónustunnar voru langt frá því að vera offjármagnaðar eftir langa valdatíð Sjálfstæðisflokksins.

Starfsfólk heilbrigðisstofnanna hefur sýnt ótrúlegt þrek við erfiðari aðstæður. Baráttan er hins vegar rétt að byrja. Dæmin frá öðrum löndum sýna að þegar illar árar er fljótt farið að saxa á grunnstoðir velferðarþjónustunnar. Slíkar aðgerðir geta valdið óbætanlegum skaða og orðið til þess að afleiðingar efnahagsþrenginga verða langvinnari og dýrari en annars.

Langvarandi atvinnuleysi getur haft mjög slæm áhrif á heilsufar og þannig aukið álag á heilbrigðisþjónustuna. Þess vegna eru atvinnumál heilbrigðismál og um leið eru heilbrigðismál atvinnumál. Eitt stærsta atvinnumálið er að verja störf á vegum hins opinbera og þar vegur velferðarkerfið þungt.

Verkefni næstu ára verða strembin og kalla á ný viðhorf og nýjar lausnir. Með vel ígrunduðum ákvörðunum, sem taka mið af reynslu þeirra sem starfa á hverju svæði fyrir sig, getum við seinna meir litið stolt um öxl og fagnað því að hafa komist frá þessum tímum án þess að vinna stórskaða á grunnstoðum velferðarkerfisins. Það margborgar sig til lengri tíma litið.

Halla Gunnarsdóttir
aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra

06.04.2009

Grein um skattahækkanir
Birtist í Morgunblaðinu 6. apríl 2009

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú dustað rykið af gamalkunnum hræðsluáróðri um skattpínda þjóð undir stjórn vinstri afla. Á sama tíma er lýst yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafni öllum nýjum sköttum á atvinnulíf og einstaklinga.
Enn sem komið er hafa sjálfstæðimenn þó ekki farið þá frumlegu leið að saka vinstrisinna um að kunna ekki að fara með peninga.

Í þessu ljósi er gott að halda því til haga að sjálfstæðismenn stóðu sjálfir fyrir skattahækkunum skömmu fyrir síðustu jól, enda sáu þeir enga aðra leið færa eftir að efnahagurinn hrundi undir þeirra stjórn. Því liggur beint við að kalla eftir tillögum sjálfstæðismanna um hvaða aðrar leiðir séu færar.

Sjálfstæðisflokkurinn skilaði sannarlega ekki góðu búi eftir hartnær tveggja áratuga valdatíð og seint væri hægt að halda því fram að velferðarkerfið hafi verið offjármagnað á þeim tíma. Svigrúmið til niðurskurðar er einfaldlega ekki mikið. Sé saxað enn frekar á grundvallarstoðir velferðarkerfisins gæti kreppan reynst Íslendingum mun dýrkeyptari til lengri tíma litið.

Við núverandi aðstæður er mjög erfitt að fá glögga mynd af ríkisfjármálum, enda eru óvissuþættirnir margir. Ákjósanlegast væri auðvitað að ekki þyrfti að hækka skatta og að hægt væri að reka öflugt velferðarkerfi án þess að til mikils fjárlagahalla þyrfti að koma. En ef það reynist ómögulegt, hvernig á þá að bregðast við?

01.04.2009

Grein um heilbrigðismál
Birtist í Fréttablaðinu 1. apríl 2009

Öflug heilbrigðisþjónusta skiptir sköpum

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, hélt fróðlegt erindi á morgunverðarfundi heilbrigðisráðuneytisins 19. mars sl. þar sem fram kom að starfsfólk heilbrigðisgeirans er líklegra til að glíma við streitu á vinnustað en aðrar starfsstéttir. Skýringarnar eru m.a. þær að umönnunarstörf geta tekið mjög á líkama og sál en einnig þær að álag er mikið og deildir oft undirmannaðar. Það er einkum þetta síðasta sem veldur áhyggjum nú þegar Íslendingar ganga í gegnum mikla samdráttartíma.

Góðærið virðist nefnilega ekki hafa náð til stofnana heilbrigðisþjónustunnar. Þvert á móti hafa þessar grunnstofnanir þurft að draga saman ár frá ári til langs tíma. Sparnaðarkröfur eru því ekki nýr veruleiki. Nú þarf að velta við hverjum steini og finna allar leiðir til að hagræða í rekstri. Á það við um heilbrigðisþjónustuna sem annað. Hins vegar verður að vara við því að niðurskurður leiði til stórfelldra uppsagna innan heilbrigðisþjónustunnar og velferðarkerfisins almennt. Ekki nóg með að þær myndu leiða til þess að öll þjónusta við fólk yrði lakari heldur getur það orðið mjög kostnaðarsamt fyrir þjóðfélagið til lengri tíma litið ef atvinnuleysi verður viðvarandi vandamál. Þess vegna skyti skökku við ef stjórnvöld myndu á einum stað skera niður þannig að til fjöldauppsagna kæmi en á öðrum stað leggjast í stór og viðamikil atvinnusköpunarverkefni.

Eitt stærsta atvinnumálið er því að standa vörð um störf á vegum hins opinbera. Konur eru í miklum meirihluta starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar og eins og Guðbjörg Linda benti á í áðurnefndum fyrirlestri er það eingöngu læknastéttin sem er að meirihluta skipuð körlum. Uppsagnir í heilbrigðisþjónustunni myndu því koma illa niður á stórum kvennastéttum. Sé litið til reynslu annarra landa má sjá að tilhneigingin er sú á krepputímum að senda konur heim af vinnumarkaðinum og á sama tíma búa til störf fyrir karla, t.d. í þungaiðnaði og mannaflsfrekum framkvæmdum. Ekki þarf að fjölyrða um að þau störf krefjast oft kostnaðarsamra tækja og tóla og um mengandi starfsemi getur verið að ræða. Stærsta vinnutólið innan velferðakerfisins er hins vegar oftast manneskjan sjálf. Þannig mætti t.d. skapa atvinnu með því að fjölga stöðugildum í heimaþjónustu og heimahjúkrun, sem aftur myndi minnka álag á velferðarkerfið á erfiðum tímum.

Staðan sem íslenskt þjóðfélag er í kallar á nýjar lausnir og ný viðhorf. Reynsla annarra landa sýnir að öflugt velferðakerfi skiptir sköpum á tímum sem þessum. Stöndum vörð um velferðarkerfið. Það borgar sig margfalt til lengri tíma litið.