18.10.2008

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 18. október 2008

 

Nú er tími til að prjóna þétta peysu

Fyrir áhugafólk um stjórnmál má segja að skemmtilegir tímar fari í hönd. Kerfið er hrunið og framundan uppbygging og endurmótun, sem kallar óhjákvæmilega á miklar og pólitískar umræður – umræður sem verða heitari en mín „eftirkaldastríðskynslóð“ þekkir. Þegar Berlínarmúrinn féll hrundi heil hugmyndafræði innanfrá, þ.e. kommúnisminn. Við það sama hvarf tvípólunin sem hafði verið ráðandi í allri stjórnmálalegri umræðu og smám saman varð kapítalismi að einráðri hugmyndafræði.

Og nú er hann kominn í krappari dans við sjálfan sig en nokkru sinni fyrr. Hruninn, segja sumir, en aðrir kenna rangri útfærslu um. Frelsið hafi annaðhvort verið of mikið eða of lítið.

Hvað sem öðru líður þá stendur þjóðin eftir með gríðarlegan skuldahala sem meirihluti hennar átti lítinn eða engan þátt í að búa til. Gagnrýnisraddir, sem áður voru kæfðar í tali um efnahagslegar framfarir, útrás og undur, heyrast nú allt í einu. Það var nefnilega eitthvað mikið sem fór úrskeiðis.

Og þá breytist orðræðan. Sum rök hverfa og önnur verða sterkari. Nú er ekki lengur hægt að segja að vinstristjórnir kunni ekkert með peninga að fara og allt í einu verður áður hallærislegt tal Framsóknar um matvælaöryggi viðeigandi.

Orðaval eftir aðstæðum

Á sama tíma nýta stjórnmálamenn sér efnahagsástandið til að rökstyðja gamlar hugmyndir. Nú á að veiða meiri þorsk út af bankakreppunni og álver á Bakka á að bjarga efnahagslífinu.

Orðavalið verður öðruvísi en áður. Í umræðum um efnahagsmál á Alþingi sl. miðvikudag sagði Geir H. Haarde: „Undanfarna daga hafa margir keppst við að lýsa yfir andláti frjálsra viðskipta og markaðsbúskapar vegna áfalla á fjármálamörkuðum. Slíkar yfirlýsingar byggjast frekar á þórðargleði en raunsæi enda getur ekkert samfélag þrifist til lengdar án frjálsra viðskipta og markaðar.“

Þorgerður K. Gunnarsdóttir tók í sama streng og þar með er ljóst hver nýja línan er í Sjálfstæðisflokknum. Nú verður allt kapp lagt á að bjarga hugmyndafræðinni. Steingrímur J. Sigfússon sagðist hins vegar ekki kannast við raddir um að frjáls viðskipti heyrðu sögunni til en vonaðist sjálfur til þess að nýfrjálshyggjan væri dauð.

Orðanotkun stjórnmálamanna í þessum efnum er ólík. Sjálfstæðismenn reyna að láta líta út fyrir að fólk á vinstri vængnum vilji engin frjáls viðskipti og helst engin viðskipti almennt. Sem er ekki rétt. Og vinstra megin er látið eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé nýfrjálshyggjuflokkur sem hafi viljað frjálsan markað á öllum sviðum þjóðlífsins. Sem er heldur ekki rétt. Formaður flokksins myndi t.a.m. seint teljast nýfrjálshyggjumaður.

Umrótið gæti hins vegar styrkt stöðu forsætisráðherrans og hans fólks innan flokksins, enda getur Geir vel kallað eftir skýrara regluverki á fjármálamarkaðnum á meðan sum flokkssystkini hans, sem hafa hallað sér lengra til hægri, ættu erfiðara með það.

Sjómennska eða prjónaskapur

En stjórnmálamenn nota líka sérstaka orðræðu þegar kemur að því að bregðast við ástandi dagsins. Sjómennskumálið virðist körlunum tamast. Það gefur á bátinn, allir eiga að leggjast á árar til að komast í gegnum brimskaflinn, annar eins brotsjór hefur aldrei gengið yfir og nú er tími til að setja björgunarbátinn á flot. Myndmálið er líka sótt í dyntótt veðrið og talað um illviðri, storm og moldviðri og ástandinu iðulega líkt við hamfarir.

Þetta myndmál er hálfhjákátlegt enda er ekki hægt að líkja hruni fjármálakerfisins við vont veður eða brim. Mannfólkið hefur nefnilega enga stjórn á vondu veðri en kerfið sem hrundi var búið til af mönnum.

Þess vegna var óneitanlega frískandi að heyra Katrínu Jakobsdóttur grípa til öllu nærtækara myndmáls í umræðum á þingi þegar hún sagði fjármálakerfið hafa raknað upp „eins og lausprjónuð lopapeysa og liggur nú eins og lúinn garnflóki“.

Og þar liggur hundurinn grafinn. Á næstunni þarf, eins og Katrín segir, að fitja upp á nýtt. Það þarf ekki að rjúka út á úfið haf á áralausum bát. Bara prjóna peysu – svolítið þétta peysu.

 

11.10.2008

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 11. október 2008

 

Framfarir sem breyttust í hamfarir

 

Ég var í fríi sl. mánudag og satt að segja á leið í sund þegar mér barst til eyrna að mögulega yrði boðað til þingfundar seinni partinn. Erfitt reyndist að fá það staðfest en eftir að tilkynnt var um ávarp frá forsætisráðherra í beinni útsendingu dreif ég mig til vinnu. Þar hef ég verið meira eða minna síðan. Og þetta var löng vika.

Stemningin á Alþingi hefur verið mjög furðuleg. Á mánudag mættu 62 af 63 þingmönnum til að greiða atkvæði um neyðarlögin en sjaldan eru svo margir viðstaddir atkvæðagreiðslu. Engum var hlátur í hug en niðurdregnastir voru sjálfstæðismenn sem hefðu líklega aldrei trúað að þeir ættu eftir að hafa forgöngu um svo mikil ríkisinngrip.

Það sem eftir leið viku var Alþingi hálflamað. Engar almennar stjórnmálaumræður áttu sér stað en rætt var um þingmannamál, sem virkaði hálfundarlegt í öllum ólgusjónum. En auðvitað hefði líka verið skrítið að aflýsa fundum og þingmenn reyndu að halda sínu striki.

Glittir í gálgahúmor

Þinghúsið hefur verið nokkurs konar miðstöð. Þar koma þingflokkarnir saman og þingmenn hittast á óformlegum fundum til að ræða stöðu mála. Stemningin hefur vægast sagt verið þunglamaleg því allir taka þetta ástand nærri sér. Margir þingmenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, upplifa sig áhrifalitla enda takmarkaðir þátttakendur í öllum ósköpunum sem nú ganga yfir. Þeir geta fátt gert nema tala við fólk og fjölmiðla. Og þeir eru alltaf í símanum.

En stundum tekur gálgahúmorinn yfir. Ég hitti einn stjórnarþingmann um daginn og spurði: „Jæja, hvað segirðu?“ Hann brosti út að eyrum og svaraði: „Bara alveg svakalega gott.“ Svo hló hann dátt. Einn ráðherra heilsaði mér brosandi og sagði þetta vera fyrsta bros vikunnar. Svo reytti hann af sér brandara og reyndi að koma því inn hjá mér að stjórnarslit væru yfirvofandi. Bara grín.

Víkjandi víkingar

Fyrir hinn venjulega Íslending hefði fyrir aðeins nokkrum vikum verið óhugsandi að halda því fram að bankarnir myndu allir fara á hausinn. Útrásarvíkingunum var hampað. „Efnahagslegar framfarir“ voru orð sem ráðamenn tóku sér sem oftast í munn. En framfarir breyttust í hamfarir. Og allt í einu rifjast upp að víkingar voru jú þeir sem fóru fram með offorsi og skeyttu engu um aðra í kringum sig. Af þeim erum við komin, að þeim verðum við vonandi ekki aftur.

Nú endurtaka ráðamenn í sífellu að þjóðin verði að standa saman. Auðvitað þarf þjóðin að gera það. Fjölskyldur eiga líka að standa saman og við eigum að brosa til allra sem við hittum.

En þjóðin ber ekki öll ábyrgð á ástandinu eins og það er núna. Þó að við eigum að horfa fram á við er líka nauðsynlegt að líta til baka. Einhvers staðar fóru menn nefnilega að trúa því að önnur lögmál ættu við núna en nokkru sinni áður. Að aldrei aftur myndi þrengja að í heiminum.

Stærsta verkefni næstu ára er að taka ákvarðanir um hvernig eigi að byggja þjóðfélagið upp að nýju og það verður ekki sama Ísland og áður. Nú er tími á nýja hugsun. Að þessari uppbyggingu þurfa konur og karlar að koma jafnt.

Þrátt fyrir allt hef ég sjaldan upplifað eins mikið æðruleysi, jafnt inni á Alþingi sem úti í samfélaginu. Nú lifir öll þjóðin einn dag í einu. Það er ekkert annað að gera en brosa, standa upp og halda áfram.

 

04.10.2008

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 4. október 2008

 

Hvernig verður Áramótaskaupið?

Alþingi var sett að nýju í vikunni í skugga dramatískra efnahagsmála. Stemmningin hefur verið eftir því og mikill órói í loftinu. Eins og öllum fyndist þeir vera að missa af einhverju. Margvíslegar sögur fóru eins og eldur í sinu um fjölmiðlaheiminn á fimmtudag og föstudag. Sumar verða til eins og hverjar aðrar kjaftasögur en öðrum er hreinlega komið af stað af þeim sem hagsmuna eiga að gæta. Aldrei er mikilvægara fyrir fjölmiðla að hlaupa ekki á eftir sögum sem kannski enginn fótur er fyrir.

En það eru ekki eingöngu íslenskir fjölmiðlar sem fylgjast með því sem fram fer á Alþingi. Erlendir fjölmiðlamenn hafa verið á vappi um húsið og bæði Norska ríkisútvarpið og BBC fylgdust með umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á fimmtudag. Ísland er í heimspressunni.

Stefnuleysi og sökudólgsleit

Ræðunnar var beðið með mikilli eftirvæntingu. Smáskilaboðasendingar gengu milli fólks þar sem hvatt var til þess að fjölmenni yrði á þingpöllum og ráðaleysi forsætisráðherra mótmælt. Fáir mættu en sennilega hafa fleiri fylgst með heima í stofu en oft áður.

Venjan er að talsmenn þingflokka fái ræðu forsætisráðherra til yfirlestrar með ákveðnum fyrirvara þannig að þeir geti í sínum ræðum brugðist við því sem þar kemur fram. Stuttu áður en fundur var settur á fimmtudag spurðist út að ræðan yrði endurrituð og vakti það enn meiri væntingar um innihaldið. En lítið var um yfirlýsingar og stjórnarandstæðingar átöldu ráðamenn fyrir stefnuleysi.

Staða ríkisstjórnarinnar er ekki öfundsverð. Hvað er hægt að gera? Í það minnsta væri varla ráðlagt að gefa út innantómar yfirlýsingar um að allt verði í góðu lagi á morgun. Af því hafa ráðherrar ekki góða reynslu.

Stjórnarliðar skamma stjórnarandstöðuna fyrir að leita bara að sökudólginum en leggja ekki til neinar lausnir. Við þessar aðstæður væri mjög undarlegt að líta ekki til baka og reyna að skilja hvað fór úrskeiðis. Alþjóðleg fjármálakreppa hefur mikil áhrif en hún segir aðeins hálfa söguna og eins og stjórnarandstæðingar benda á þá verða ráðherrar að horfast í augu við það.

Ekki margir „Mozartar“

Stjórnarandstaðan kallar eftir samráði og Steingrímur J. Sigfússon stakk upp á því í umræðunum að verkalýðshreyfingin, stjórnmálaleiðtogar, forystumenn í fjármálalífi og atvinnurekendur yrðu lokuð inni þar til samkomulagi verður náð um hvernig vinna skuli út úr þessum vanda. Líklega væri það skynsamleg leið. Fjölmiðlar eru ekki góður vettvangur til að ræða mögulegar lausnir og það er erfitt fyrir landsmenn að hlýða á mishræðilegar lýsingar á því sem framundan er. Í litlu samfélagi eins og á Íslandi eru heldur ekki margir „Mozartar“. Nýta þarf alla fagþekkingu sem til er í leit að lausn á vandanum. Það er komið nóg af leynifundum.

Sögufölsunin um litlu þjóðina sem braust upp á sitt einsdæmi úr fátækt til bjargálna dugar skammt í að vinna á þessum erfiðleikum. Og er satt að segja vandræðaleg; hvort sem hún er sett fram af forseta eða forsætisráðherra.

Davíð aftur í kastljósið

Og nú er gamli landsfaðirinn kominn fram á sjónarsviðið. Davíð Oddsson sat við stýrið eftir kaupin á Glitni. Líklega kemur það fæstum af minni kynslóð á óvart – kynslóðinni sem las um óðaverðbólgu í kennslubókum og hélt kannski í barnslegri einfeldni sinni að svona yrði þetta aldrei aftur. Það reyndist ekki satt.

Þetta er kynslóðin sem ólst upp við nærveru Davíðs Oddssonar; sumum til gleði, öðrum til ama. Ég var eins árs gömul þegar hann varð borgarstjóri Reykjavíkur. Hann var alltaf í Áramótaskaupinu. Ætli hann verði ekki í Skaupinu í ár?